Innarlega í Geirþjófsfirði, sem er einn af Suðurfjörðum Arnarfjarðar, eru stórar holur í botnsetinu, og er stærsta holan 280 metrar í þvermál og 20 metrar á dýpt. Botninn umhverfis holurnar er á rúmlega 70 metra dýpi. Holurnar voru fyrst kortlagðar í leiðangri rs. Árna Friðrikssonar 2002 og voru kannaðar nánar af Köfunarþjónustunni ehf. í október og nóvember 2022.
Hér verður holunum lýst nánar á grundvelli framangreindra mælinga. Birt eru gögn, sem gefa færi til ágiskana um uppruna þeirra. Gögnin gefa einnig upplýsingar um virkni í holunum á undanförnum árum.
Giskað er á, að holurnar hafi myndast við uppstreymi vökva. Ljóst er, að frekari rannsókna er þörf til staðfestingar á þeirri tilgátu, t.d. könnunar á eðli vökvans.
INNGANGUR − HOLUR KORTLAGÐAR
Árin 2001 og 2002 fór fram árleg kvörðun dýptarmæla í rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni í Arnarfirði. Í hléum var fjölgeislamælir skipsins gangsettur og mælt með honum í firðinum. Unnið var úr þessum gögnum og útbúið kort af firðinum (1. mynd). Þetta kort gaf ýmsar upplýsingar um botn fjarðarins. Þar á meðal komu í ljós smáatriði í lögun þverhryggja (jökulgarða) á botninum.
Samkvæmt ábendingu Guðmundar Bjarnasonar skipstjóra var ákveðið síðara árið að mæla langt inn eftir Geirþjófsfirði. Rækjusjómenn höfðu sagt honum frá misdýpi á þeim slóðum. Í ljós kom að um miðbik fjarðarins var að finna holur í botnsetinu. Sumar þeirra reyndust vera bæði stórar og djúpar (2. mynd).
Niðurstöður mælinganna hafa verið aðgengilegar á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar og verið kynntar á fundum en ekki birtar á prenti. Þó er margt athyglisvert í þeim, og mörgum hafa fundist holurnar í Geirþjófsfirði sérlega áhugaverðar. Þær gáfu tilefni til frekari könnunar, sem hér verður greint frá.