Útgefendur

eftir

Í febrúar 2014 gerðu Náttúruminjasafn Íslands og  Hið íslenska náttúrufræðifélag með sér samning um ritstjórn og útgáfu á Náttúrufræðingnum. Frá og með 1. hefti í 84. árgangi hefur Náttúrufræðingurinn verið gefinn út í nafni félagsins og safnsins í samræmi við samninginn. Ritstjórinn er starfsmaður Náttúruminjasafnsins og félagsins en hefur skrifstofuaðstöðu hjá Náttúruminjasafninu. Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri Náttúrufræðingsins en hún tók við starfi ritstjóra 1. febrúar 2022.

SAGA NÁTTÚRUFRÆÐINGSINS

Útgáfa Náttúrufræðingsins hófst árið 1931 og hefur verið samfelld í rúmlega níu áratugi. Upphaflegt markmið með útgáfunni var að gefa út alþýðlegt rit um náttúrufræði sem þrátt fyrir margar útlitsbreytingar í gegnum tíðina, hefur haldist allar götur síðan.

Upphafsmenn ritsins og eigendur voru dr. Árni Friðriksson fiskifræðingur og dr. Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur og sáu þeir um útgáfuna í sameiningu þar til Guðmundur andaðist árið 1933. Eftir það bar Árni hitann og þungann af útgáfunni með aðstoð ýmissa velunnara. Í fyrstu var hugmynd þeirra félaga með ritinu helst sú að taka saman á einn stað og halda til haga efni sem þeir sjálfir og aðrir birtu í dagblöðum um náttúrufræði á þeim tíma. Fljótlega jókst þó umfang frumsamins efnis í blaðinu og útgáfan varð stofnendunum mun erfiðari og dýrari en þeir sáu fyrir í upphafi. Fyrstu árin var útgáfa ritsins því oft á tíðum stopul. Örðugt reyndist að innheimta áskriftargjöld hjá fátækum almenningi og eftir að heimsstyrjöldin braust út var oft á tíðum vandkvæðum bundið að útvega nothæfan pappír í ritið. Að endingu árið 1940 ákvað Árni að selja hugarfóstur sitt Guðjóni Guðjónssyni yfirprentara í von um að það mætti blása lífi í útgáfuna. Þær vonir gengu ekki eftir og ári síðar skipti Náttúrufræðingurinn enn á ný um eigendur þegar Hið íslenska náttúrufræðifélag keypti ritið.

7. mynd. Fjöldi eggja (urpt) er oftast þrjú í stormmáfshreiðrum. Hér er stormmáfsungi í hreiðri, nýkominn úr eggi, og tvö egg með götum. Í óshólmum Eyjafjarðarár (Tvíhólma). – A Common Gull chick in nest at Eyjafjörður (N-Iceland), still wet after hatching, together with two eggs about to hatch. Ljósm/Photo: Eyþór Ingi Jónsson, 2.6. 2020.

Á fyrstu árum útgáfunnar sáu ritstjórarnir að miklu leyti um skrif í ritið.  Mikið af efninu samanstóð af almennum fróðleik um náttúrufræði sem þýtt var og endursagt úr erlendum heimildum enda lítið um bækur eða annað útgefið efni um náttúrufræði tiltækt á íslensku á þeim tíma. Eftir því sem íslenskum náttúrufræðingum fjölgaði jókst fjöldi þeirra sem skrifuðu greinar í ritið og að sama skapi vó efni um rannsóknir á íslenskri náttúru þyngra.

Á árunum 1996-2006 hafði Náttúrufræðistofnun Íslands umsjón með ritstjórn og útgáfu Náttúrufræðingsins samkvæmt þar að lútandi verktökusamningi við félagið. Á tímabilinu 2006-2010 hafði Náttúrufræðistofa Kópavogs umsjón með ritstjórn og útgáfu tímaritsins.

Nýr samningur um útgáfu Náttúrufræðingsins var svo gerður í febrúar 2014 við Náttúruminjasafn Íslands en með breyttu sniði frá fyrri samningum að því leyti að í fyrsta skipti var kostnaður við útgáfuna borinn af báðum útgefendum.

 

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24