Bjarni E. Guðleifsson – Möðruvöllum

Minning

PDF Skjal

Möðruvellir í Hörgárdal standa á víðum völlum undir bröttum og tignarlegum fjöllum. Glæsilegra bæjarstæði getur naumast á Íslandi. Þar var höfuðból frá upphafi, klaustur forðum daga, síðar amtmannssetur og skólastaður. Möðruvallaskóli, stofnaður 1880, skipaði sérstakan sess í hugum Norðlendinga og Austfirðinga. Þaðan komu fræðimenn og frumkvöðlar í félagsmálum. Nokkrir landskunnir náttúrufræðingar voru þar lærifeður. Þar samdi Stefán Stefánsson bókina Flóru Íslands, sem út kom 1901, og varð mörgum kærkominn leiðarvísir til að þekkja plöntur. 

Möðruvellir í Hörgárdal. Yfirlitsmynd. Að baki eru frá vinstri Staðarhnjúkur og Staðarskarð, Þrastarhólshnjúkur og Þrastarhólsskarð. Ljósm. Mats Wibe Lund.

Möðruvellir í Hörgárdal. Yfirlitsmynd. Að baki eru frá vinstri Staðarhnjúkur og
Staðarskarð, Þrastarhólshnjúkur og Þrastarhólsskarð. Ljósm. Mats Wibe Lund.

Árið 1902 eyddist skólahúsið í bruna. Skólinn var þá fluttur til Akureyrar og nefndur Gagnfræðaskólinn á Akureyri. Hann fékk inni í nýju og glæsilegu húsi 1904, sem enn stendur. Það hýsir nú hluta af starfsemi Menntaskólans á Akureyri, sem tók við af hinum 1930. Lengi eimdi eftir af fræðastarfi í skólanum. Hann var ígildi háskóla og vísir Háskólans á Akureyri sem hóf göngu sína 1987. Árið 1903 var stofnað á Akureyri Ræktunarfélag Norðurlands sem var í nánu sambandi við skólann og átti eftir að vinna mikið og gott starf. 

Inn í þetta samfélag kom Bjarni E. Guðleifsson um 1970, nýbakaður doktor í búvísindum. Árið 1978 settist hann að á Möðruvöllum, átti þar heima í 35 ár og fékkst við rannsóknir og ritstörf. Hann var því oft kenndur við þann stað. 

UPPRUNI, NÁM OG STÖRF 

Bjarni Eyjólfur Guðleifsson var fæddur í Reykjavík 21. júní 1942 og andaðist á Akureyri 7. september 2019, aðeins 77 ára gamall. Foreldrar hans voru hjónin Guðleifur Kristinn Bjarnason símvirki (1906–1984) og Sigurborg Eyjólfsdóttir húsmóðir (1906–1997). Sigurborg var af breiðfirskum ættum, fædd og uppalin á Skógarströnd, en Guðleifur var ættaður af Suðurnesjum, fæddur í Hafnarfirði, en móðurafi hans var danskur. Þau áttu auk hans fjórar dætur. Bjarni ólst upp í Vesturbænum, gekk í Melaskóla og Gagnfræðaskólann við Hringbraut, þá í Menntaskólann í Reykjavík og varð stúdent þaðan 1962. 

Foreldrarnir, Sigurborg Eyjólfsdóttirog Guðleifur Kr. Bjarnason, 1944, með Bjarna á þriðja ári. Ljósm. óþ

Foreldrarnir, Sigurborg Eyjólfsdóttir
og Guðleifur Kr. Bjarnason,
1944, með Bjarna á þriðja ári.
Ljósm. óþ

Móðir Bjarna hafði orðið fyrir trúarvakningu á yngri árum og innrætti börnum sínum þá trú sem hún taldi rétta. Hún var tengd KFUM-hreyfingunni, sem Friðrik Friðriksson stofnaði og rak. Þar gekk Bjarni í sunnudagaskóla og varð fyrir áhrifum sem styrktust af kynnum við Felix Ólafsson mág hans, trúboða í Eþíópíu. Á kristilegu skólamóti í Vatnaskógi ákvað hann að gerast „fylgisveinn“ Guðs. „Ég varð ekki samur maður eftir þessi umskipti, og þessi ákvörðun hefur litað æviferil minn æ síðan“ (Fyrirmyndir, bls. 37).a 

Árið 1951, þegar Bjarni var níu ára, var hann sendur í sveit á bænum Bessatungu í Saurbæ, Dalasýslu, og þar var hann í samtals níu sumur. Þessi sveitardvöl hafði gagnger áhrif á ævi hans, ekki síst kynni hans af Þórði Guðmundssyni bónda. Áður hafði Stefán skáld búið á bænum, sá sem kenndi sig við Hvítadal, næsta bæ, og Steinn Steinar var þar eitt ár á barnsaldri. „Sveitardvölin er eitt eftirminnilegasta tímabil ævi minnar. Þarna í Saurbænum tók ég út mikinn þroska … Ég lifði mig inn í sveitarstörfin og varð mikill bóndi í hugsun … Mér finnst eins og ég hafi fyrst byrjað að hugsa, þegar ég kom í sveitina. Lífið í borginni virtist hafa liðið hugsunarlaust, en lífið í sveitinni var fullt af uppgötvunum sem kröfðust hugsunar. Enda fór það svo að mér fór að ganga miklu betur í skólanum þegar fram liðu stundir. Þórður átti mikinn þátt í þessu. Hann, spaugvitringurinn, kenndi mér að spauga og fræddi mig um lífið og náttúruna,“ segir Bjarni í æviágripi sínu, Fyrirmyndum, bls. 35. 

Eftir þessa reynslu kom ekki annað til greina fyrir Bjarna en fara í búfræðinám. Hann hafði samband við Árna Eylands sem útvegaði honum skólavist við Bændaskóla á Öxnavaði (Øxnavad), nálægt Stafangri í Noregi 1963. Næsta ár gat hann innritast í jarðræktardeild Landbúnaðarháskólans í Ási (Ås), Noregi. Hann tók kandídatspróf þaðan 1966 og doktorspróf 1971. Þar voru nokkrir Íslendingar samtíða honum í skóla, meðal annarra Bjarni Guðmundsson, Jón Viðar Jónmundsson, Jón Bjarnason, Magnús B. Jónsson og Sveinn Hallgrímsson, sem allir urðu þekktir af störfum fyrir íslenskan landbúnað. Þar kynntist hann einnig Birni Stefánssyni hagfræðingi, er síðan var aldavinur hans. Bjarni ákvað að læra nýnorsku (landsmål), sem líkist íslensku, og talaði og ritaði hana reiprennandi, auk ríkismálsins. 

Á námsárunum 1963–1967 var Bjarni lausráðinn við Atvinnudeild Háskólans, sem 1965 fékk heitið Rannsókna-stofnun landbúnaðarins (RALA), en þá féllu allar tilraunastöðvar landsins undir þá stofnun. Þar vann hann í skólafríum, meðal annars við tilraunir í jarðyrkju sem Sturla Friðriksson hafði umsjón með, og urðu þeir síðan mestu mátar. Vitnaði hann oft til spakmæla Sturlu. Hann var því öllum hnútum kunnugur 1971 er hann var ráðinn forstöðumaður við Tilraunastöðina á Akureyri, sem þá hafði aðsetur í gömlu Gróðrarstöðinni. 

Bjarni við rannsóknir í kalstofunni á Möðruvöllum, 2016. Ljósm. Brynhildur Bjarnadóttir.

Bjarni við rannsóknir í kalstofunni á Möðruvöllum,
2016. Ljósm. Brynhildur Bjarnadóttir.

Á Akureyri sótti Bjarni samkomur KFUM og þar hitti hann Pálínu Sigríði Jóhannesdóttur sjúkraliða, frá Egg í Hegranesi, Skagafirði. Hún var alin upp í kristilegum anda, hafði áhuga á búskap, og hafði verið í Húsmæðraskóla á Löngumýri. Þau voru gefin saman í Rípurkirkju á jóladag 1972. Þau áttu farsælt heimilislíf, og þótt ólík væru að ýmsu leyti bættu þau hvort annað upp. „Ég komst fljótlega að því að þetta var stúlkan sem Guð hafði ætlað mér … Ég get alls ekki náð yfir öll þau miklu áhrif, sem hún hefur haft á mig,“ segir Bjarni í Fyrirmyndum. Eflaust átti Pálína mikinn þátt í árangri hans og velgengni. Því gat hann endað ævisögu sína á orðinu „hamingjumaður“. Þeim hjónum varð fjögurra barna auðið. Þau eru: Brynhildur, f. 1974, Brynjólfur f. 1975, Sigurborg f. 1980 og Sigríður f. 1982. Öll eiga þau maka og börn. Bjarni var mikill fjölskyldumaður, eins og sjá má í minningargreinum afkomenda hans. 

Árið 1974 var Tilraunastöðin flutt frá Akureyri að Möðruvöllum í Hörgárdal. Þangað fluttust þau Bjarni og Pálína 1978 og byggðu þar hús sem fékk heitið Möðruvellir III. Árin 1979–80 dvöldust þau í Ottawa í Kanada, hann í rannsóknarstarfi við Efna- og líffræðistofnun, Agriculture Canada. Árin 1981–1990 var Bjarni í hlutastarfi við Tilraunastöðina og öðru hlutastarfi sem ráðunautur, og síðar framkvæmdastjóri Ræktunarfélags Norðurlands, og ritstjóri tímarits þess. 

Þessum störfum höfðu þeir Jóhannes Sigvaldason og Þórarinn Lárusson áður sinnt, og átti Bjarni mikið og gott samstarf við þá, einkum Jóhannes, sem tók við stöðu tilraunastjóra 1983. Segir hann að Bjarni hafi aldrei verið gefinn fyrir stjórnunarstörf. 

Árið 1983 var Bjarni um skeið í námsdvöl við Stofnun fyrir plöntunæringu og jarðvegsfræði við Háskólann í Kiel, Þýskalandi, 1989–1990 við tilraunastöð í landbúnaði í Vågønes, Noregi, og 1999–2000 við McGill-háskóla í Montreal, Kanada. 

Árin 1991–2004 starfaði Bjarni sem náttúrufræðingur hjá Rannsóknastofnun landbúnaðarins (RALA) við Tilraunastöðina á Möðruvöllum, og 2005–2012 sem prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands, þar til hann varð sjötugur. Haustið 2013 fluttust þau hjónin til Akureyrar og keyptu þar hús við götuna Hamratún. 

Bjarni stundaði kennslu meira eða minna alla sína starfsævi. Árin 1973–1983 var hann stundakennari við Menntaskólann og Verkmenntaskólann á Akureyri, 1985–2000 við Hólaskóla, frá 2005 við Háskólana á Akureyri og Hvanneyri. Yndi hans var að fræða, eins og bækur hans bera vitni, og þarf því ekki að efast um árangur hans við kennslu. 

FÉLAGSSTÖRF 

Bjarni tók ávallt mikinn þátt í félagsmálum, sem hann kynntist fyrst í kristilegum félögum ungra manna, bæði hér heima og í Noregi. Eftir að hann settist að í Eyjafirði var hann í mörgum öðrum félögum, nefndum og ráðum, og lenti þá oftar en ekki í stjórnarstöðum, oft sem formaður. 

Bjarni á Hraundranga 31. júlí 2012. Íbaksýn er Vatnsdalur, með Hraunsvatn í botni, handan þess Þverbrekkuhnjúkur. Ljósm. Jón Gauti Jónsson.

Bjarni á Hraundranga 31. júlí 2012. Í
baksýn er Vatnsdalur, með Hraunsvatn í
botni, handan þess Þverbrekkuhnjúkur.
Ljósm. Jón Gauti Jónsson.

Bjarni var einn af frumkvöðlum Vísindafélags Norðlendinga, sem stofnað var á Akureyri um 1970, oft í stjórn þess, og félagi í Vísindafélagi Íslendinga frá 1997. Hann var virkur félagi í Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN) 1976–1984, formaður frá 1980, sat í Náttúruverndarnefnd Eyjafjarðar 1987–2001 og í Náttúruverndarráði 1978–1984. Hann var í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga 2001–2009, Sögufélags Eyfirðinga 1996–2002, Gideonfélagsins 1999– 2002 og Minjasafnsins á Akureyri 1998–2006. 

Eftir að Bjarni settist að á Möðruvöllum fór hann að taka til hendinni í félagsmálum í Hörgárdal og Öxnadal. Árið 1982 stofnaði hann ferðafélag í sveitinni, sem fékk nafnið Hörgur, og var formaður þess til 2012. Það stóð fyrir gönguferðum og tók að sér að endurreisa torfbæ á Baugaseli í Barkárdal. Varð þar síðan eins konar heimili félagsins, sem heldur þar árlegar samkomur um Jónsmessu. 

Árið 1983 stofnaði Bjarni með þrem öðrum tímaritið Heimaslóð Árbók hreppanna í Möðruvallaklaustursprestakalli, er síðan hefur komið út nokkuð reglulega, og ritstýrði því til 2014, en þá fékk það auknefnið Árbók Hörgársveitar. Árið áður tók nýstofnað Sögufélag Hörgársveitar við útgáfu ritsins. Bjarni skrifaði fjölda greina í Heimaslóð, meðal annars um Jónas skáld og um fyrirrennara sína á staðnum. 

Á staðnum voru tvö hús frá tíma Möðruvallaskóla, auk kirkjunnar. Annað var byggt 1881, stundum kallað Leikhús. Gekkst Bjarni fyrir myndun félags og síðar stofnunar er nefnist Amtmannssetrið á Möðruvöllum, og ætlað er það hlutverk að halda við og endurbyggja gömul hús á staðnum. Lauk endurbyggingu Leikhússins 2007. Þar er aðstaða fyrir litlar samkomur, fundi og veitingar, á tveim hæðum. Þar setti Bjarni á fót dagskrá með fyrirlestrum og kaffikvöldum á tveggja vikna fresti allt árið, og tókst að halda þeim við lýði í fimm ár, eða til 2012. Naut ritari þeirrar ánægju að flytja þar erindi síðasta vorið (sjá Heimaslóð 9, 2009, og 11, 2014). Hitt húsið er Stefánsfjós, sem Stefán kennari lét byggja um aldamótin. Næsta verkefni verður að koma því í betra horf. 

Skógræktarfélag Eyfirðinga var stofnað 1930, sem Skógræktarfélag Íslands, en sama ár var annað félag með því nafni stofnað á Þingvöllum, og varð það síðan að landsfélagi. Félagið minntist 70 ára afmælisins með útgáfu bókar: Ásýnd Eyjafjarðar. Skógar að fornu og nýju. Var Bjarni fenginn til að ritstýra henni og rita kafla í hana. Gaf félagið hana út aldamótaárið. 

Fjölskyldumynd 2018: Frá vinstri:Brynhildur, Sigríður, Pálína, Bjarni, Sigurborg og Brynjólfur. Ljósm. Eiríkur Ingi Helgason.

Fjölskyldumynd 2018: Frá vinstri:
Brynhildur, Sigríður, Pálína, Bjarni,
Sigurborg og Brynjólfur. Ljósm.
Eiríkur Ingi Helgason.

Bjarni var mikill aðdáandi Jónasar Hallgrímssonar skálds og náttúrufræðings. Bárust böndin þá að bænum Hrauni, fæðingarstað Jónasar. Fékk Bjarni ágætan stuðning Tryggva Gíslasonar, sem þá var skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Árið 2003 stofnuðu þeir Menningarfélagið Hraun ehf. í þeim tilgangi að koma þar upp fræðasetri tileinkuðu Jónasi. Félagið keypti jörðina, og Minningarstofa um Jónas var opnuð á Hrauni við hátíðlega athöfn á 200 ára afmæli hans, 16. nóvember 2007. Sama ár var jörðin friðlýst, íbúðarhúsið endurbætt og sett þar upp sýning um Jónas og verk hans, en auk þess er þar íbúð fyrir fræðimenn. Á Hrauni var síðan haldin Fífilbrekkuhátíð í byrjun júní með viðburðum og gönguferðum um nágrennið. Hátíðin var haldin árlega til að byrja með og var Bjarni leiðsögumaður gönguhópa meðan hans naut við (Heimaslóð 9, 2009). 

Frá aldamótum eða lengur hafði Bjarni skrifstofu í húsi Búnaðarsambands Eyjafjarðar, Búgarði við Glerárós á Akureyri. Þar sat hann oftlega við skriftir og kynntist öðru starfsfólki sem hafði dálæti á honum, enda var hann hrókur alls fagnaðar á kaffistofunni. Bjarni hafði lítinn áhuga á flokkapólitík, og kvaðst vera á móti stjórnmálaflokkum. 

Bjarni var vel lesinn í íslenskum bókmenntum, og þá ekki síst kveðskap, sem bækur hans bera ljóst merki. Hann var sjálfur vel hagmæltur, nokkrar vísur á hann í bókum sínum, og kvæðið Haust birtist með minningargrein um hann í Heimaslóð (17, 2020). 

SKOÐA GREIN Á PDF-SNIÐI

Höfundur

  • Helgi Hallgrímsson

    Helgi Hallgrímsson (f. 1935) er líffræðingur að mennt. Helgi var forstöðumaður Náttúrugripasafnsins á Akureyri í aldarfjórðung og ritstjóri Týlis – tímarits um náttúrufræði og náttúruvernd – í 15 ár. Hann hefur mest fengist við rannsóknir á íslenskum sveppum og vatnalífi og ritað bækur um þau efni; Veröldina í vatninu (1979, 1980), Sveppabókina (2000) og Vallarstjörnur, einkennisplöntur Austurlands (2017) auk tveggja bóka um heimahaga sína: Lagarfljót (2005) og Fljótsdal (2016). Helgi er búsettur á Egilsstöðum og fæst við ritstörf og grúsk.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24