Vegabréf fuglanna

Fuglamerkingar Óskars J. Sigurðssonar

PDF Skjal

ÓSKAR J. SIGURÐSSON, sem áratugum saman annaðist veðurathuganir og merkingar fugla í Vestmannaeyjum, býr nú á Selfossi. Mestan part ævi sinnar hefur hann búið og starfað á Stórhöfða. Hann sendi fyrsta veðurskeyti sitt klukkan tvö eftir miðnætti þann 1. janúar 1952. Hann varð síðan vitavörður eftir föður sinn, þriðji ættliðurinn, frá 1965 til 2007. Vitavarðarstarfið var lagt niður árið 2007 og sjálfvirk veðurstöð leysti mannshöndina af hólmi árið 2013. Óskar hélt hins vegar áfram störfum enn um hríð fyrir Veðurstofu Íslands við mengunarmælingar sem hófust 1991.1Jóhanna M. Thorlacius 2014. Kveðjuorð til Óskars J. Sigurðssonar við starfslok. Á vefsetri Veðurstofu Íslands. Slóð: https://www.vedur.is/media/geislun/oskar- j-sigurdsson_kvedjuord.pdf Engum sem kynnist Óskari og störfum hans dylst að hann er afar minnugur, glöggur og nákvæmur og segir vel frá. Í vissum skilningi er hann enn á sínum Stórhöfða, innan um uppstoppaða fugla á fjórðu hæð í fjölbýlishúsi á Selfossi, þótt hann annist ekki lengur fuglamerkingar, veðurathuganir og umhverfismælingar.

Meðfram launuðum störfum tók Óskar þátt í rannsóknum á sviði fuglafræði. Framlag hans er umtalsvert. Stundum hefur hann verið meðhöfundur fræðigreina.2Kristján Lilliendahl, Erpur S. Hansen, Valur Bogason, Marinó Sigursteinsson, Margrét L. Magnúsdóttir, Páll Jónsson, Hálfdán H. Helgason, Gísli J. Óskarsson, Pálmi F. Óskarson & Óskar J. Sigurðsson 2013. Viðkomubrestur lunda og sandsílis við Vestmannaeyjar. Náttúrufræðingurinn 83(1–2). 65–79. Fjölmörg blaðaviðtöl hafa verið tekin við hann og bókarkafli hefur verið helgaður honum.3Jón R. Hjálmarsson 1981. Staldrað við í Stórhöfða. Bls. 175–184 í: Séð af Sjónarhóli. Sextán frásöguþættir úr ýmsum áttum. Suðurlandsútgáfan, Selfossi. Þá hefur verið gerð heimildamynd um störf hans, „Heimsmethafinn í vitanum“ (2009), höfundar Jón Karl Helgason og Kristín Jóhannsdóttir. Óskar er vel að þessu öllu kominn. Hægláti og hógværi vitavörðurinn hefur sannarlega látið til sín taka. Framlag hans minnir á mikilvægt hlutverk sjálfboðaliða víða um heim í náttúruvísindum, meðal annars fuglafræði. Nú er oft talað um borgaraleg vísindi (citizen science), fræðafólk á vettvangi (outdoor science) og samlegðaráhrif almennings (crowd sourcing).4Jørgensen, F.A. & D. 2020. Citizen science for environmental citizenship. Conservation Biology 4. 1344–1347. (Vísað til bls. 4).Fuglamerkingar almennings síðustu öld eða svo hafa átt drjúgan þátt í að varpa hulunni af langferðum farfugla.5Berthold, P. 2001. Bird migration: A general survey. 2. útg. Oxford University Press. 253 bls.

Óskari hefur hlotnast margs konar heiður fyrir unnin störf. Hann hlaut viðurkenningu Heimsmetabókar Guinnes árið 1997 fyrir fuglamerkingar, þá hafði hann merkt 65.200 fugla. Sama ár veitti forseti Íslands honum riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf í þágu fuglarannsókna. Árið 2012 var Óskar tilnefndur Eyjamaður ársins fyrir framlag sitt til umhverfismála og árið 2018 fékk hann heiðursverðlaun Náttúrufræðistofnunar Íslands fyrir langt og óeigingjarnt starf við fuglamerkingar og markvert framlag til fuglarannsókna. Þá hlaut hann árið 2007 viðurkenningu Haf- og veðurstofu Bandaríkjanna (NOAA) sem „Hetja umhverfisins“ fyrir mælingar gróðurhúsalofttegunda á Stórhöfða; eitt sögulegra línurita sem sýndu hækkandi styrk koltvísýrings í andrúmsloftinu var ættað frá Stórhöfða. Á tímum hamfarahlýnunar hlýtur þetta að teljast mikilsvert framlag. 

Óskar Jakob fæddist á Stórhöfða 19. nóvember 1937. Faðir hans var Sigurður Valdimar Jónatansson (f. 1897, d. 1966), ættaður frá Garðakoti í Mýrdal. Jónatan afi hans annaðist vitavörslu í Eyjum frá 1910 og veðurathuganir frá 1921, en Sigurður tók við hvorutveggju árið 1935. Móðir Óskars var Björg Sveinsdóttir (f. 1911, d. 1964) frá Hofi í Álftafirði. Örheimurinn á Stórhöfða var einangraður. Sjaldan var farið í bæjarferð, tæplega tíu kílómetra leið, þar sem ekki var völ á bifreið á æskuárum Óskars og heimilisfaðirinn átti ekki heimangengt vegna veðurmælinga á þriggja tíma fresti. Vörubíll eða leigubíll færði fjölskyldunni vistir. Óskar minnist þess hins vegar að á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar hreiðruðu bandarískir hermenn um sig í bröggum á Stórhöfða og hafði hann þá mikil samskipti við ungu hermennina sem léku sér við kornungan snáðann. Athygli vakti að Óskar lærði ensku á örskömmum tíma og talaði þá ensku betur en íslensku. Fljótlega eftir að hermennirnir hurfu úr Höfðanum árið 1943 vék enskukunnáttan fyrir móðurmálinu. 

Full ástæða er til að gera lífi Óskars og starfi góð skil, ekki síst fuglaheiminum sem hann hrærðist í. Það eru einmitt fuglarnir og furðuleg veröld þeirra sem tengja okkur Óskar saman. Alltaf hafði mig langað að forvitnast um samskipti hans og fugla meðan hann bjó í Eyjum þar til hann flutti á meginlandið fyrir átta árum. Óskar tekur mér vel, sýnir mér skjöl um fuglana sem hann merkti, uppstoppaða fugla sem honum hafa áskotnast og steingervinga sem hann hefur fundið í Stórhöfða. Hann býður upp á kaffi, hann hefur ekki hellt upp á í hálft ár eða svo, að einhverju leyti vegna Covid-fársins.

Óskar með rytu á Höfðanum. Ljósmynd: Kristján Egilsson

Óskar með rytu á Höfðanum. Ljósmynd: Kristján Egilsson

BROT ÚR SÖGU FULGAMERKINGA

Fuglamerkingar eiga sér langa og merkilega sögu. Elsta skjalfesta dæmið er frá tímum Rómverja, rúmlega tvö hundruð árum fyrir Krists burð; svölur gegndu því hlutverki að flytja skilaboð á milli hersveita. Bandaríkjamaðurinn John James Audubon, sem kunnur varð fyrir fuglamyndir sínar og -rannsóknir, er oft talinn upphafsmaður nútíma fuglamerkinga. Árið 1803 festi hann silfurþráð við fugla af svonefndri grípaætt (Sayornis phoebe). Fuglarnir skiluðu sér að ári og glöddu Audubon.6Weidensaul, S. 2021. A world on the wing: The global odyssey of migratory birds. Norton, New York. 416 bls. 

Kerfisbundnar fuglamerkingar komu fyrst til tals árið 1866. Stungið var upp á því að festa marglita þræði við algenga farfugla. Margir efuðust um gagnsemi þessa: Myndu fuglarnir (og merkin) nokkurn tímann skila sér? spurði fólk. Það var ekki fyrr en 1899 að þessum áformum var hrint í framkvæmd. Daninn Christian Mortensen, sem lagði stund á guðfræði og læknisfræði, vafði álmerkjum um fætur 156 stara í Viborg og nágrenni.7Preuss, N.O. 2001. Hans Christian Cornelius Mortensen: Aspects of his life and of the history of bird banding. Ardea 89(1). 1–6. Merkin voru númeruð og sýndu hvar fuglunum var sleppt. Flestir fuglanna náðust og sönnuðu gildi kerfisbundinna merkinga. Mortensen hlaut síðan styrk frá Carlsbergsjóðnum til að hefja stórtækar merkingar. Í lokin sendi hann sjóðnum greinargerð þar sem hann sagðist hafa varið mestum frítíma sínum í fimmtán ár til þess að varpa ljósi á ferðir farfugla. 

Eitt af því sem glæddi áhuga fólks á fuglamerkingum um og uppúr miðri nítjándu öld voru áhyggjur af fækkun tiltekinna tegunda. Geirfuglinn var talinn í útrýmingarhættu og tveir breskir fuglamenn, Alfred Newton og John Wolley, sigldu til Íslands sumarið 1858 að forvitnast um geirfuglaveiðar við Íslandsstrendur. Leiðangur þeirra og ritverk settu öðru fremur aldauða tegunda á dagskrá.8Gísli Pálsson 2023 (væntanleg). An awkward extinction: The great auk and the loss of species. Þýð. Anna Yates. Princeton University Press. Skömmu áður en þeir héldu til Íslands hafði Wolley leitt rök að því að mikilvægt væri að efna til kerfisbundinnar talningar á fuglum af þeim tegundum sem taldar voru á undanhaldi. Þetta var mjög í anda Viktoríutímans, sagði Newton félagi hans: „Einmitt nú, um það leyti sem verið er að ræða um manntal á vegum breska heimsveldisins, væri viðeigandi að hvetja náttúruunnendur til að taka upp svipað fyrirkomulag varðandi dýraríkið.“9Newton, A. 1861. On the possibility of taking an ornithological census. Ibis. apríl. 190–196. (Tilv. bls. 191). Áður höfðu bandarískir fuglafræðingar varpað fram svipuðum hugmyndum. Maður að nafni Alexander Wilson hafði talið fugla í Pennsylvaníu árið 1811.10Hickey, J.J. 1981. Introductory remarks: Estimating relative abundance (Part I). Studies in Avian Biology 6(11). 11.

Alla tuttugustu öldina varð ör þróun í fuglamerkingum í vísindalegum tilgangi, bæði í Evrópu og Norður-Ameríku. Heimturnar lofuðu góðu. Í yfirlitsgrein frá 1944 um fuglamerkingar í Bandaríkjunum segir Harold B. Wood: „Fuglamerkingum fleygði fram frá 1920 til 1944. Alls höfðu 4.690.873 fuglar verið merktir og 331.480 skilað sér, skotnir eða fundnir.“11Wood, H.B. 1945. The history of bird banding. Auk 2. 256–265. 

 

Tilkynning frá Finni Guðmundssyni um endurheimtur merktra fugla.

Tilkynning frá Finni Guðmundssyni um endurheimtur merktra fugla.

Fuglamerkingar hér á landi hófust árið 1921. Þær voru á vegum Peters Skovgaards, sem stofnaði samtökin Dansk Ornitologisk Forening og gaf út ritið Danske Fugle þar sem birtar voru niðurstöður merkinga.12Rahbek, C., Thorup, K. & Madsen, J.J. 2006. Ringmærkningen i Danmark: Fra Mortensen til nu. Doft 100. 1–6. Þá voru fjölmargir liðsmenn fengnir til að merkja fugla í ýmsum héruðum landsins, meðal annars Þingeyingurinn Konráð Vilhjálmsson sem greindi frá verkefninu í tímaritinu Degi árið 1930.13Konráð Vilhjálmsson 1930, 18. júlí. Merking fugla. Dagur. 149. Fyrsti fuglamerkingamaðurinn var Gunnar Juul lyfjafræðingur á Ísafirði. Allt voru þetta karlmenn, konur voru ekki kallaðar til verksins eða höfðu ekki áhuga. Sumum Íslendinganna þótti „þjóðlegra“ að merkja fyrir Náttúrugripasafnið þegar það hóf merkingar og hættu að merkja fyrir Skovgaard.14Tölvupóstur til höf. frá Ævari Petersen 22. maí 2022.

Svo var það Finnur Guðmundsson, fuglafræðingur hjá Náttúrugripasafni Íslands, sem gerðist helsti hvatamaður fuglamerkinga á Íslandi. Árið 1932 gaf hann út bæklinginn „Leiðbeiningar um fuglamerkingar“ þar sem hann fjallaði um farfugla, það sem vitað væri um ferðir þeirra og hvernig standa ætti að fuglamerkingum.15Finnur Guðmundsson 1932. Leiðbeiningar um fuglamerkingar frá Hinu íslenzka Náttúrufræðisfélagi í Reykjavík. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. 12 bls. Finnur stýrði fuglamerkingum frá 1941 til 1978 þegar Ævar Petersen tók við keflinu. Ævar færði leiðbeiningar í nútímalegra horf í bæklingi á vegum Náttúrufræðistofnunar.16Ævar Petersen 1988. Leiðbeiningar við fuglamerkingar. Náttúrufræðistofnun Íslands (Fjölrit 6), Reykjavík. 16 bls. Í grein í Náttúrufræðingnum árið 1953 segir Finnur: „Hver merktur fugl ber eins konar vegabréf, sem veitir upplýsingar um lífsferil hans, hvar sem hann kemur fram.“17Finnur Guðmundsson 1953. Fuglamerkingar Náttúrugripasafnsins 1947–1949. Náttúrufræðingurinn 23(1). 14–35. (Fyrri tilv. bls. 16, síðari bls. 17). Sjálfboðaliðar gáfu vegabréfunum merkingu, staðfestu þegnskap og langferðir farfugla þvert á landamæri, þar til þeir veiddust á ný.

Finnur var duglegur að laða að sér öfluga og samviskusama liðsmenn til að annast fuglamerkingar, sem ekki voru á allra færi: „þýðingarlaust [er] að taka slíkt starf að sér, nema menn séu reiðubúnir að fórna nokkrum tíma og fyrirhöfn til starfsins. Menn ættu yfirleitt ekki að taka að sér merkingar, nema þeir treysti sér til að merkja nokkra tugi fugla á ári.“18Whitney, K. 2022. Bird banding and the environmental humanities: Institutions, intersubjectivities, and the phenomenological method of Margaret Morse Nice. Environmental Humanities 13(1). 113–134 Merkin voru dýr, takmarkaður fjöldi var í boði og tryggja þurfti skilvirka notkun: „Framvegis verður … ekki hægt að leyfa mönnum að liggja árum saman með merkjabirgðir án þess að merkja nokkurn fugl.“ Ef Finnur hafði einhverjar efasemdir um dugnað og samviskusemi Óskars Sigurðssonar, sem gekk til liðs við hann sama ár og þessi orð voru rituð, hefur hann fljótt sannfærst um annað.

ÓSKAR TEKUR TIL STARFA, UNDIR „LÖGALDRI“

Einn góðan veðurdag árið 1952 hittust þeir Óskar og Friðrik Jesson, kennari, ljósmyndari og náttúrufræðari í Vestmannaeyjum, hjá Lyngfelli við Breiðabakka, skammt frá Stórhöfða. Friðrik var þar við myndatökur. Hann hafði kennt Óskari leikfimi og þeir tóku spjall saman, „náttúrlega mest um fugla,“ segir Óskar. „Ég fór að spyrja hann um fuglamerkingar, ég hafði rekið augun í grein um efnið. Eitthvað vakti áhuga hjá mér. Skömmu seinna fékk ég bréf frá Finni, hvernig sem á því stóð. Það kom mér þægilega á óvart og ég á það ennþá. Ég var ekki kominn á lögaldur, leiðbeiningar Finns gerðu ráð fyrir að þeir sem önnuðust merkingar væru orðnir sextán ára, en ég var aðeins fimmtán ára.“ Það varð úr að Finnur sendi Óskari merki, eitt hundrað stykki á kippu af hverjum stærðarflokki með hlaupandi númerum. „Maður fékk engin tól eða tæki, aðeins merkin og bækling um hvernig maður ætti að bera sig að. Annars varð ég að læra af reynslunni.“

Óskar minnist þess þegar hann merkti fyrsta fuglinn, 5. maí 1953; það var lundi sem hann veiddi í Höfðanum. „Hann var svo taugaveiklaður að hann titraði, hann hefur smitast af mér, fundið að ég titraði sjálfur.“ En fljótlega vandist þetta. Eftirvæntingin og spennan boðuðu farsælan og ánægjulegan feril. Óskar skráði merkin samviskusamlega í tvíriti í bók og skýrslu sem hann sendi Náttúrugripasafni Íslands, sem síðar fékk nafnið Náttúrufræðistofnun Íslands. Óskar átti samleið með öðrum kunnum sjálfmenntuðum náttúrufræðingi, Hálfdáni á Kvískerjum. Hann var líka fimmtán ára þegar hann tók að merkja fugla á sínum heimaslóðum. Þeir Hálfdán urðu kunningjar, kynntust á vertíð í Eyjum. Báðir funduðu þeir með Finni Guðmundssyni árið 1957. Það voru fyrstu kynni Óskars af Finni. Finnur var þá að búa sig undir ferð ásamt Hálfdáni út í Hellisey, en það gaf ekki. Þremenningarnir tóku tal saman á Hótel Bergi við Heimagötu. 

Alls merkti Óskar 91.695 fugla af um fjörutíu tegundum, mest lunda, fýl og snjótittling; helst vildi hann hafa náð 100.000 fuglum. Það hefðu verið skemmtileg vertíðarlok. Síðustu fuglarnir sem hann merkti voru tvær skrofur, í september 2014. Hvað rak hann til þessa annasama verkefnis vetur, sumur, vor og haust í rúmlega sex áratugi, lengi vel meðfram krefjandi verkefnum fyrir Veðurstofu Íslands? 

Óskar og fuglasafnið hans. Ljósmynd: höfundur.

Óskar og fuglasafnið hans. Ljósmynd: höfundur.

Laun Óskars voru ánægjan við veiðarnar, en ekki síður endurheimtur merkjanna og vitneskjan sem þær færðu. Árið 1955 hafði hann spurnir af silfurmáfi sem hann hafði merkt. Finnur ritaði Óskari bréf, dagsett 14. ágúst, þar sem segir: „Hér er ein endurheimt, sem mér hefur nýlega borist tilkynning um: Silfurmáfur (Larus argentatus). Merktur sem ungi 16.7.1954 í Stórhöfða í Vestmannaeyjum. – Skotinn 6.7.1955 á Vágsfirði í Suðurey í Færeyjum.“ Það voru skemmtileg tíðindi, „fyrsti sigurinn.“ „Það ýtti náttúrlega undir þegar maður fór að fá svoleiðis,“ segir Óskar, „að fá fregnir af merkjunum.“ Óskar frétti ekki af endurheimt silfurmáfsins fyrr en fimm vikum eftir að hann var skotinn, en það mátti teljast gott. Það tók sinn tíma að koma bréfum á milli landa og svo var hitt að „Finnur hafði í mörg horn að líta, vann mest einn, tók bréf úr bunkanum eftir hentisemi“. Annar sigur vannst þegar Óskar hafði spurnir af lundapysju sem hann hafði merkt; hún veiddist á Nýfundnalandi. Finnur bar honum fregnirnar, þá eins og endranær. 

Endurheimtir fuglar sem Óskar merkti voru um 10 þúsund. Það er ekki óeðlilegt, „sjófuglar skila sér sjaldnar en aðrir og fugla, sem enda ævina yfir óravíddum úthafsins, rekur sjaldan á fjörur.“ Heimturnar segja mikið um ferðir og aldur fuglanna. Lundapysjan fer til að mynda oft vestur til Nýfundnalands á fyrsta hausti. Ferðalagið virðist taka um sex vikur. Lundar sem Óskar merkti skiluðu sér víða, í Faxaflóa og á Breiðafirði, Lófóten í Norður-Noregi, Færeyjum og Frakklandi. Fýll sem Óskar merkti árið 1970 kom í fiskinet árið 2011, og hefur því orðið minnst fjörutíu og eins árs. 

LUNDAMERKINGAR

Lundamerkingar skipuðu sérstakan sess í starfi Óskars. Hann talar um fjóra flokka: gamla lunda í holu, pysjur í holu, fugla veidda í háf (bæði geldfugla og varpfugla) og flugpysjur sem lenda inni í bæ í Eyjum. Stundum náði Óskar pari í holu og jafnvel pysjum með. Stundum náði hann þremur kynslóðum; fullorðinn fugl og pysja voru saman í holu, og nokkrum árum síðar náði hann „pysjunni“ sem þá var með sína pysju. Fuglarnir virtust vera í sömu holunum ár eftir ár eða á svipuðum stað í fjölmennri byggð: „Ég byrjaði yfirleitt að merkja neðst í brattri byggðinni og fikraði mig upp. Það hefði verið erfiðara að ganga niður á við. Ár eftir ár var fuglinn á sömu slóðum, númerin kölluðust á. Þau hækkuðu jafnan eftir því sem ofar dró.“ Þúsundir fugla voru í byggðinni í Höfðanum.

Óskar stakk hendinni í holuna, teygði sig inn í hana og greip í nefið á lundanum, svo hann biti hann ekki, og dró hann út. Ekki var hægt að draga hann á fótunum, vængirnir rækjust þá í holuveggina og gætu skaddast og fuglinn skelfst. Lundinn gat sér enga björg veitt. „Ég stakk hausnum á fuglinum í poka, hafði fuglinn á hvolfi og merkti fótinn. Fuglinn var stilltur þegar hann var í pokanum, hann sá ekkert út. Svo sleppti ég fuglinum aftur inn í holuna. Það var reglan, að sleppa ekki út í loftið, þótti gott fyrir fuglinn að komast heim aftur. Áhrifin á fuglinn voru minni en ella. Í rigningartíð gekk þetta illa.“

Veggmyndir heima hjá Óskari á Selfossi. Óskar með rytuna á öxlinni. Ljósmynd: höfundur.

Veggmyndir heima hjá Óskari á Selfossi. Óskar með rytuna á öxlinni. Ljósmynd: höfundur.

Stundum fékk Óskar heilu kassana fulla af pysjum neðan úr bæ. Um skeið safnaði Pálmi Freyr sonur hans pysjunum saman eftir að krakkarnir í bænum, sem leituðu að pysjum til að sleppa í samræmi við gamla hefð, voru farnir að sofa; þá fékk Pálmi að vera í friði. Pysjurnar sem Óskar merkti á Stórhöfða komu gjarna aftur á sína staði, þrátt fyrir flutninginn á Stórhöfða, aðallega í Ystakletti, minnst tveimur árum eftir að þeim var sleppt. Ársgamall lundi veiðist ekki. Þetta þótti Óskari merkilegt.

Óskar skrifaði skýrslur sínar um merkingar jafnóðum og sendi þær til Reykjavíkur, fyrst til Finns Guðmundssonar, síðan til Ævars Petersens og að lokum til Guðmundar A. Guðmundssonar. Í upphafi var allt sent með venjulegum pósti, síðar með tölvupósti. Eitt af síðustu verkum Finns var að biðja Óskar að draga úr merkingum á fullorðnum lunda sem hann veiddi í háf. „Ég velti fyrir mér hvort ég ætti bara að hætta þessu, það var ekkert gaman lengur. Þá sneri ég mér meira að fýl, og pysjum, ég mátti merkja þær. Merkin kostuðu pening og þetta var endurtekning.“ Mest veiddi Óskar 350 lunda á einum degi, en þó þurfti að skjótast frá á þriggja tíma fresti til að taka veðrið. Fýllinn var erfiður viðureignar, því að þegar hann er áreittur ver hann sig með spýjum sem lykta afar illa. 

Mörgum samborgurum Óskars í Eyjum þóttu fuglaveiðar hans ekkert merkilegur veiðiskapur, að minnsta kosti til að byrja með. Sumum kann að virðast sem natni hans og afrakstur við fuglamerkingar áratugum saman jaðri við merkingarlausa áráttu, í ætt við frímerkjasöfnun. Það er ekki svo. Óskari var annt um að fylgjast með atferli og örlögum merktra lunda, ekki aðeins áfangastað þeirra. Kunningi hans, Ragnar Axel Helgason, lögreglufulltrúi í Eyjum, sem veiddi mikið af lunda, færði honum gjarna merkta fugla sem hann veiddi á Höfðanum, lagði þá fyrir framan íbúðarhúsið. Óskar skoðaði merkin, valdi úr þá fugla sem hann hafði merkt sem pysjur og sendi þá til frekari athugunar í Reykjavík, fyrst til Finns Guðmundssonar og síðar Ævars Petersens. Þetta samstarf varaði í mörg ár og varpaði ljósi á þroska og hátterni lunda. Finnur og Ævar ákvörðuðu aldur fuglanna og grannskoðuðu þá innan sem utan. Í ljós kom meðal annars að lundinn verpir fyrst fimm ára gamall. Óskar telur hins vegar líklegt að ári áður komi lundinn til Eyja að huga að framtíðarvarpstað. Vegabréf fuglanna reyndust opna nýja sýn á líf lunda. 

Svo var hitt að veiðarnar voru hin besta skemmtan. Margir fuglamenn, meðal annars Óskar, hafa lýst sprengikrafti adrenalíns í æðum sínum þegar þeir glíma við að handsama fugl og merkja. „Það var eiginlega það skemmtilegasta sem ég gerði,“ segir Óskar, „að veiða fuglinn með háf og merkja.“ Hann minnist líka ánægjulegrar glímu sinnar við snjótittlinga: „Ég vissi ekki hvernig hægt væri að veiða þá. Svo bjó ég til gildru úr neti sem svínvirkaði. Stundum veiddi ég svo mikið að ég hafði ekki við að merkja.“ Fyrstu merkingar Óskars leiddu í ljós að álhringir entust illa á lundum sem urðu talsvert gamlir. Þetta varð til þess rétt fyrir 1960 að Finnur Guðmundsson lét búa til merki úr ryðfríu stáli sem entust mun betur. 

FUGLAVINURINN 

Fuglamerkingarnar höfðu auðvitað æðri tilgang.19Whitney, K. 2022. Bird banding and the environmental humanities: Institutions, intersubjectivities, and the phenomenological method of Margaret Morse Nice. Environmental Humanities 13(1). 113–134. Laun Óskars voru ekki aðeins adrenalínflæðið á vettvangi og vitneskjan sem hann fékk um ferðir fuglanna sem hann sjálfur merkti, heldur einnig hitt að fuglarnir snertu hann, honum var annt um byggðir þeirra og velferð og sumir urðu vinir hans. Stundum fylgdist hann sorgmæddur með örlögum pysja sem verið var að sleppa. Bölvaður mávurinn tyllti sér á nálæga kletta og fygldist spenntur með, réðst svo á bjargarlausar pysjurnar þegar þær höfðu lent í sjónum og gerði sér mat úr þeim. 

Óskar hugar að kollunni sinni. Ljósmynd: Kristján Egilsson.

Óskar hugar að kollunni sinni. Ljósmynd: Kristján Egilsson.

Kristján Egilsson, ljósmyndari og forstöðumaður Náttúrugripasafnins í Eyjum, færði Óskari eitt sinn þrjá rytu-unga og fól honum að ala þá upp. Ungarnir höfðu dottið úr hreiðrum í svonefndum Fiskhellum skammt frá Herjólfsdal. Óskar hafði fuglana í garð-inum hjá sér, það veitti þeim aðhald og kom í veg fyrir að þeir færu. „Það var gaman að sjá þegar þeir fóru að fljúga,“ segir Óskar. „Eitt sinn þegar ég var að drekka teið mitt sá ég einhverju hvítu bregða fyrir, þá voru þeir komnir á flug. Það skrýtna var að ég hélt þeir myndu koma aftur að kvöldi eftir að þeir fóru að fljúga og sofa í sínu hreiðri. Það var alveg öfugt. Þeir fóru burt á nóttunni, komu svo að morgni að fá sér að éta. Svo flugu þeir yfir girðinguna. Þetta stóð í hálfan mánuð, frá því að þeir fóru að fljúga þangað til þeir hættu að koma. Þeir komu daglega, en hurfu svo á brott.“ 

Óskar hafði gaman af að ala upp unga. Eitt sinn gekk hann að rytuunga niðri í fjöru, alveg við það að deyja. Rytuungum gengur oft illa að bjarga sér á haustin, þeir verða að bjarga sér sjálfir. Óskar tók ungann að sér. Mynd af rytunni á öxl Óskars, tekin af Friðriki Jessyni, hangir yfir eldhúsborðinu á Selfossi. Rytan var svo illa haldin að hún þurfti að vera í fóstri í nokkra mánuði, frá október fram í maí. Hún hafði þann sið að setjast alltaf á þröskuldinn í eldhúsinu í Höfðanum, ábúendur þurftu að vara sig og klofa yfir. Einn daginn rak Björg, móðir Óskars, sig í ungann, en hann slapp með skrekkinn. Rytan gerði mannamun og kæmu gestir lét hún sig hverfa. Þegar hún loks kvaddi flaug hún í nokkra hringi kringum húsið og hvarf svo á brott, og síðan hefur ekkert til hennar spurst. 

Samskipti Óskars við æðarkollur eru sérstakur kapítuli, enda hefur fuglinn löngum verið hændur að mönnum og aðlagast þeim; náið sambýlið gagnast bæði fuglum og fólkinu sem annast þá.20Posnett, E. 2019, 19. júlí. The weird magic of eiderdown. The Guardian. https://www.theguardian.com/world/2019/jul/19/eiderdown-harvesting-iceland- eider-duck. Stundum verptu kollur við vitann, þær voru spakar eins og heimalningar. Ein kollan kom til hans í þrettán ár og verpti á góðum stað, undir steini í skjóli fyrir austanáttinni. Hún var einn af vinafuglum Óskars. Hann merkti hana, en hún náðist ekki annars staðar. Fuglinn var tilætlunarsamur og þegar hann var að gefa henni var hún ekkert að teygja sig eftir matnum: „Þegar ég kom með ætið opnaði hún gogginn og ég stakk ætinu upp í hana. Hún ætlaðist bara til að maður þjónaði sér. Var ekkert að hafa fyrir hlutunum.“ Kollan fór svo út á sjó þegar ungarnir voru komnir úr eggi. 

Þegar kollan var búin að unga út sótti Óskar jafnan körfu handa henni og sópaði ungunum saman, „hún var harðánægð með það“. Þegar hann fór með kolluna í fjöru hallaði hann körfunni til að auðvelda fjölskyldunni að stinga sér í hafið. „Það var eins og kollan myndi eftir þessu næsta ár, svo var eins og hún væri að telja ungana þegar hún sveiflaði höfðinu til og frá.“ Eitt skiptið vildi kollan ekkert fara. Henni fannst það ekki tímabært: „Ég fór þá með körfuna heim, með ungunum og kollunni. Fór svo aftur niður í fjöru dálítið seinna. Það var sama, hún vildi ekkert fara. Þá fannst mér nóg komið. Ég gerði hreiður í þaranum og setti ungana ofan í og kolluna á. Svo fór ég. Kollan sat keik, eins og hún væri uppstoppuð, hreyfði sig ekkert.“ 

Það hefur verið dekrað við þessa kollu. Eitt árið eftir að hún hvarf hélt Óskar að hún væri komin á ný, þá var kolla komin á hreiðrið. „Svo ég fer að taka til æti. Ekki til að tala um að éta það. Það var svo skrýtið. Þá leit ég á merkið á fuglinum og það reyndist vera allt annað númer. Fuglinn var komin í hreiður hinnar kollunnar, sem sennilega var dauð. Kollurnar könnuðust við mann.“ Vitavörðurinn frá Höfðanum fylgist ekki með fuglum lengur. Hann sér svo illa, segir hann. Reyndar hafi hann aldrei verið það sem kallast fuglaskoðari, hann hafi „asnast út í þetta“. Líklega er þetta orðum aukið, ef haft er í huga náið samband Óskars og fuglanna. „Ryturnar og kollan urðu nákomnar mér,“ segir hann, „sérstaklega kollan, við urðum góðir vinir.“ „En,“ bætir hann við, „ég er svo óskaplega ómannglöggur og ég held að það sama gildi um fuglana, ég á svo erfitt með að greina í sundur svipaða fugla. Ég fór ekkert út á það svið.“ Bandaríska fræðikonan Margaret Morse Nice (f. 1883, d. 1974) braut blað hvað þetta varðar um það leyti sem Óskar sleit barnsskónum. Hún komst upp á lagið með að merkja fugla í nágrenni sínu í Oklahoma, ekki til að forvitnast um langferðir þeirra heldur til að greina á milli þeirra, rekja ævisögu þeirra og skilja flókin samskipti þeirra.21Nice, M.M. 1941. The role of territory in bird life. American Midland Naturalist 26(3). 441–447. Nice lærði að þekkja fuglana sína og varpaði þannig ljósi á hvernig þeir gerðu sig gildandi í fuglahópnum, léku sér og helguðu sér svæði. 

LÍF FUGLA 

Sjónarmið og aðferðir Nice höfðu mikil áhrif og margt fræðafólk sem nú fylgist með fuglum, meðal annars fuglafræðingar, mannfræðingar og heimspekingar, gerir sér far um að skilja þá sem persónur sem lifa lífi sínu í leik og starfi.22Despret, V. 2021. Living as a bird. Þýð. Helen Morrison. Polity Press. 180 bls. (Frönsk frumútg., Habiter en oiseau, Actes Sud, Arles 2019). Líklega er slíkt verkefni erfitt og flókið þegar um er að ræða ferðaglaða sjófugla sem rétt staldra við á skerjum og eyjum Norður-Atlantshafs, oft fjarri mannabyggð. Þó örlar á áhuga hjá Óskari Sigurðssyni á ævisögu fugla á þessum nótum. Eitt sinn ól hann upp tvo fýlsunga, alveg frá því að þeir komu úr eggi og þar til þeir flögruðu út í heim. „Þeir hændust að manni, en það var svo merkilegt,“ segir Óskar, „að þetta voru gerólíkar persónur, gjörólík skapgerð, furðulega ólíkir.“ Annar fuglinn hafði engan áhuga á fóstursystkini sínu, allt snerist um að fá eitthvað ætilegt. Hann kom aðeins til að fá sér að éta. „Hinn vildi félagsskap, vildi bara vera hjá manni. Ég strauk honum um nefið. Hann var ánægður þótt hann fengi ekkert að borða. Fuglarnir tengdust mér, en svo flugu þeir burt eins og aðrir fuglar og komu ekki aftur.“

Lengi vel var það algeng skoðun lærðra sem leikra að fuglar væru skyni skroppnar verur sem aðeins svöruðu eðlisávísun, þótt margt í þjóðtrú Íslendinga og annarra þjóða bendi reyndar til hins gagnstæða. Í grein eftir Magnús Björnsson náttúrufræðing frá 1938 segir:

Það er áreiðanlegt að fuglarnir geta ekki hugsað neitt í líkingu við okkur og verður því að varast að eigna þeim eiginleika, sem okkur eru eðlilegir. … Alt bendir til þess að flest það sem fuglarnir hafast að sje þeim lítt sjálfrátt og að þeir hafi litla eða enga hugmynd um tilgang þess, sem þeir gera.23Magnús Björnsson 1938, 16. október. Farfuglar. Lesbók Morgunblaðsins. 321–323. (Tilv. bls. 322).

Þetta viðhorf hefur nú orðið að víkja. Með vaxandi þekkingu á lífi fugla hefur skilningur fólks á vitsmunalífi þeirra tekið stakkaskiptum. Ljóst þykir að atferli margra fuglategunda ber vott um greind og hugkvæmni; leidd hafa verið rök að því að krákur hafi hugarskilning („theory of mind“) ekki ósvipað mönnum, setji sig í spor annarra, taki ábyrgð á eigin lífi, geri sínar áætlanir, villi jafnvel um fyrir samborgurum sínum ef svo ber undir.23

NÝJUNGAR Í FUGLAMERKINGUM

Óskar Sigurðsson bryddaði upp á ýmsum nýjungum í starfi sínu við fuglamerkingar. Hann komst upp á lagið með að góma flögrandi pysjur með eins konar háf eða neti. Einnig hugkvæmdist honum að hólfa kassana sem pysjurnar voru settar í. Það fór betur um fuglinn og afföllin minnkuðu.

Fuglamerkin sem Óskar notaði hafa gegnt mikilvægu hlutverki í heila öld, varpað ljósi á líf farfugla, áfangastaði þeirra og viðgang stofna. Um leið hafa þau tengt áhugafólk og fræðimenn þvert á öll landamæri. Það sem áður var hulið móðu er nú býsna vel rannsakað og þekkt, með aðstoð fjölmenns hóps fuglamanna víða um heim. Óskar er góður fulltrúi þessa hóps, enda heimsmeistari í greininni um skeið. Nú er met hans fallið. Sverrir Thorstensen kennari á Akureyri hefur náð að merkja fleiri fugla, rúmlega 93 þúsund.  

Óskar á heimili sínu á Selfossi. Ljósmynd: höfundur

Óskar á heimili sínu á Selfossi. Ljósmynd: höfundur

Sums staðar í heiminum handsama menn fugla með stórum netum til að merkja þá. Stundum hafa þeir sem annast merkin „hlaupara“ á sínum snærum sem elta uppi fuglana og margfalda þannig afköstin. Árangur þessara stórtæku veiða er varla sambærilegur við heimsmet Óskars og Sverris sem beittu hefðbundnum aðferðum. 

Þrátt fyrir umfangsmiklar fuglamerkingar víða um heim eru eftir sem áður margar eyður í tiltækri þekkingu á ferðum fugla. Nú er ný tækni að leysa gömlu merkin af hólmi. Völ er á ódýrum og fyrirferðarlitlum rafeindatækjum, svonefndum ljósritum og GPS-tækjum, sem fest eru við farfugla og senda eða vista ýtarlegar upplýsingar um ferðir þeirra. Margt hefur komið á daginn, svo sem upplýsingar um leiðir þeirra (ekki aðeins áfangastað), hraða og aðferðir fugla til að ná áttum og rata á sömu staði ár eftir ár.6Weidensaul, S. 2021. A world on the wing: The global odyssey of migratory birds. Norton, New York. 416 bls. Þetta á ekki síður við um rannsóknir á sjófuglum en öðrum fuglum.24Ævar Petersen & Sverrir Thorstensen 2016. Nýlegar rannsóknir á fuglum í Breiðafjarðareyjum með aðstoð ljósrita og annarra tækja. Breiðfirðingur. 174–190. 

Nýlega hefur hópur fuglafræðinga sem fylgjast með ferðum sjófugla um Norður- Atlantshaf halað niður umfangsmiklum gögnum úr alþjóðlegum gagnagrunni margra rannsóknarhópa um ferðir rúmlega tuttugu fuglategunda, meðal annars lunda, frá fimmtíu og sex varpstöðvum, þar á meðal á Íslandi.25Davies, T.E. o.fl.. 2021. Multispecies tracking reveals a major seabird hotspot in the North Atlantic. Conservation Letters. https://doi.org/10.1111/conl.12824. Niðurstöðurnar eru afar athyglisverðar, og leiða í ljós að milljónir sjófugla safnast reglulega saman á ákveðnum stað („hotspot“) í miðju Norður-Atlantshafi, á svæði á stærð við Frakkland, þar sem fuglarnir hvílast og nærast. Fyrsta vísbending um þennan stað kom úr rannsókn um ferðir kríu. Í kjölfarið hafa fylgt niðurstöður úr merkingum margra annarra tegunda. Kannski megi líta á svæðið sem Herjólfsdal og árlega samveru sjófuglanna sem þjóðhátíð sjófugla, þótt sumar tegundir staldri lengur við á svæðinu en aðrar. Segja má að nú eigi sér stað vísindabylting í fuglafræði, sem ekki er síður merkileg en sú sem gömlu merkin boðuðu á sínum tíma.26Birkhead, T.R. 2022. Birds and us: A 12,000-year history, from cave art to conservation. Penguin, New York. Allt er þetta mikilvægt nú á tímum, þegar aldauði fjölmargra fuglategunda blasir við. 

VITAVÖRÐUR NÁTTÚRUNNAR 

Óskar Sigurðsson hefur yfirleitt verið titlaður vitavörður og veðurskeytin hafa minnt reglulega á starf hans á vegum Veðurstofu Íslands en hann er ekki síður þekktur fyrir merkilegt ólaunað starf sem hann gegndi áratugum saman í þágu náttúruvísinda, merkingu fugla. Þótt aðskiljanlegir þættir ævistarfs hans virðist í fljótu bragði eiga fátt sameiginlegt mynda þeir samfellda heild þegar upp er staðið. Allir bera þeir vott um áhuga hans á velferð lífs á plánetu sem á í vök að verjast. Athuganir hans á Stórhöfða – á langferðum fugla, dagsformi veðurs, mengun og breytingum á andrúmslofti og gróðurfari – eru snar þáttur náttúrufræða og náttúruverndar nú á tímum, eins konar vitavarsla fyrir annan og stærri Stórhöfða, Móður jörð. 

ÞAKKIR

Ég þakka Óskari J. Sigurðssyni ánægjuleg og lærdómsrík samtöl. Einnig þakka ég Ævari Petersen, Jóhönnu M. Thorlacius, Helga Bernódussyni, Tim Birkhead, Erpi Snæ Hansen og Sigurði Erni Guðbjörnssyni gagnlegar ábendingar.

 

HEIMILDIR
  • 1
    Jóhanna M. Thorlacius 2014. Kveðjuorð til Óskars J. Sigurðssonar við starfslok. Á vefsetri Veðurstofu Íslands. Slóð: https://www.vedur.is/media/geislun/oskar- j-sigurdsson_kvedjuord.pdf
  • 2
    Kristján Lilliendahl, Erpur S. Hansen, Valur Bogason, Marinó Sigursteinsson, Margrét L. Magnúsdóttir, Páll Jónsson, Hálfdán H. Helgason, Gísli J. Óskarsson, Pálmi F. Óskarson & Óskar J. Sigurðsson 2013. Viðkomubrestur lunda og sandsílis við Vestmannaeyjar. Náttúrufræðingurinn 83(1–2). 65–79.
  • 3
    Jón R. Hjálmarsson 1981. Staldrað við í Stórhöfða. Bls. 175–184 í: Séð af Sjónarhóli. Sextán frásöguþættir úr ýmsum áttum. Suðurlandsútgáfan, Selfossi.
  • 4
    Jørgensen, F.A. & D. 2020. Citizen science for environmental citizenship. Conservation Biology 4. 1344–1347. (Vísað til bls. 4).
  • 5
    Berthold, P. 2001. Bird migration: A general survey. 2. útg. Oxford University Press. 253 bls.
  • 6
    Weidensaul, S. 2021. A world on the wing: The global odyssey of migratory birds. Norton, New York. 416 bls.
  • 7
    Preuss, N.O. 2001. Hans Christian Cornelius Mortensen: Aspects of his life and of the history of bird banding. Ardea 89(1). 1–6.
  • 8
    Gísli Pálsson 2023 (væntanleg). An awkward extinction: The great auk and the loss of species. Þýð. Anna Yates. Princeton University Press.
  • 9
    Newton, A. 1861. On the possibility of taking an ornithological census. Ibis. apríl. 190–196. (Tilv. bls. 191).
  • 10
    Hickey, J.J. 1981. Introductory remarks: Estimating relative abundance (Part I). Studies in Avian Biology 6(11). 11.
  • 11
    Wood, H.B. 1945. The history of bird banding. Auk 2. 256–265.
  • 12
    Rahbek, C., Thorup, K. & Madsen, J.J. 2006. Ringmærkningen i Danmark: Fra Mortensen til nu. Doft 100. 1–6.
  • 13
    Konráð Vilhjálmsson 1930, 18. júlí. Merking fugla. Dagur. 149.
  • 14
    Tölvupóstur til höf. frá Ævari Petersen 22. maí 2022.
  • 15
    Finnur Guðmundsson 1932. Leiðbeiningar um fuglamerkingar frá Hinu íslenzka Náttúrufræðisfélagi í Reykjavík. Ísafoldarprentsmiðja, Reykjavík. 12 bls.
  • 16
    Ævar Petersen 1988. Leiðbeiningar við fuglamerkingar. Náttúrufræðistofnun Íslands (Fjölrit 6), Reykjavík. 16 bls.
  • 17
    Finnur Guðmundsson 1953. Fuglamerkingar Náttúrugripasafnsins 1947–1949. Náttúrufræðingurinn 23(1). 14–35. (Fyrri tilv. bls. 16, síðari bls. 17).
  • 18
    Whitney, K. 2022. Bird banding and the environmental humanities: Institutions, intersubjectivities, and the phenomenological method of Margaret Morse Nice. Environmental Humanities 13(1). 113–134
  • 19
    Whitney, K. 2022. Bird banding and the environmental humanities: Institutions, intersubjectivities, and the phenomenological method of Margaret Morse Nice. Environmental Humanities 13(1). 113–134.
  • 20
    Posnett, E. 2019, 19. júlí. The weird magic of eiderdown. The Guardian. https://www.theguardian.com/world/2019/jul/19/eiderdown-harvesting-iceland- eider-duck.
  • 21
    Nice, M.M. 1941. The role of territory in bird life. American Midland Naturalist 26(3). 441–447.
  • 22
    Despret, V. 2021. Living as a bird. Þýð. Helen Morrison. Polity Press. 180 bls. (Frönsk frumútg., Habiter en oiseau, Actes Sud, Arles 2019).
  • 23
    Magnús Björnsson 1938, 16. október. Farfuglar. Lesbók Morgunblaðsins. 321–323. (Tilv. bls. 322).
  • 24
    Ævar Petersen & Sverrir Thorstensen 2016. Nýlegar rannsóknir á fuglum í Breiðafjarðareyjum með aðstoð ljósrita og annarra tækja. Breiðfirðingur. 174–190.
  • 25
    Davies, T.E. o.fl.. 2021. Multispecies tracking reveals a major seabird hotspot in the North Atlantic. Conservation Letters. https://doi.org/10.1111/conl.12824.
  • 26
    Birkhead, T.R. 2022. Birds and us: A 12,000-year history, from cave art to conservation. Penguin, New York.

Höfundur

  • Gísli Pálsson

    Gísli Pálsson er prófessor emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá Manchester- háskóla árið 1982, hefur síðan fjallað um margs konar viðfangsefni, mörg hver tengd umhverfismálum. Meðal bóka hans eru An Awkward Extinction: The Great Auk and the Loss of Species (töluvert breytt útgáfa á Fuglinum sem gat ekki flogið), The Human Age: How We Created the Anthropocene Epoch and Caused the Climate Crisis (2020), Maðurinn sem stal sjálfum sér (2017) og Nature, Culture, and Society: Anthropological Perspectives on Life (2015).

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24