Sveppabókin – Íslenskir sveppir og sveppafræði

eftir Helga Hallgrímsson

PDF Skjal

Komin er önnur útgáfa Sveppabókarinnar, sem fyrst var gefin út árið 2010, eftir Helga Hallgrímsson (f. 1935) á Egilsstöðum, sem fyrir löngu er orðinn þjóðkunnur fyrir fræðistörf sín og grúsk.

Sveppabókin, kápa bókar

Helgi Hallgrímsson 2021. Sveppabókin: Íslenskir sveppir og sveppafræði. 2. útg. (frumútg. 2010). Skrudda, Reykjavík. 640 bls.

Bókin, sem er 640 blaðsíður, er fyrsta ýtarlega ritið um sveppafræði sem kemur út á íslensku og skiptist í tvo meginhluta. Fyrst fjallar Helgi almennt um sveppi og sveppafræði og síðan lýsir hann um 700 tegundum sveppa í máli og myndum. Í bókinni eru fjölmargar ljósmyndir og teikningar og eykur það gildi hennar sem almennrar fræðibókar. Bókin hlaut strax verðskuldaða opin- bera viðurkenningu sem fræðirit þegar hún kom fyrst út, og fékk meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki fræðirita árið 2010. Sveppabókin kom út hjá Skruddu bæði 2010 og 2021.

 

Mikael Sigurðsson og jötungíma

Jötungíma (Calvatia gigantea). Leirhöfn á Sléttu, 2009. Ljósm. Sigurður Ægisson.

Sveppir eru tegundaríkasti flokkur lífvera á Íslandi. Alls eru þekktar sveppa- tegundir Íslands um 2.100 talsins, auk fléttna og skófna sem eru samlífi svepps og þörungs, en af þeim eru um 700 tegundir hérlendis. Fjallagrösin okkar eru að stærstum hluta sveppir og ættu því með réttu að teljast til matsveppa. Íslendingar hafa því stundað sveppa- nytjar um aldir. Flestar íslenskar sveppa- tegundir, eða ríflega 1.500, teljast til smásveppa sem eru á mörkum þess að sjást með berum augum. Stórsveppir eru tegundir sem mynda vel sýnileg aldin á yfirborði. Algengastir þeirra eru hinir svokölluðu hattsveppir, en mynd af einu slíku aldini, kúalubba, prýðir einmitt kápu Sveppabókarinnar. Kúalubbi vex hér hvarvetna með birki og fjalldrapa.

 

Í bókinni er meðal annars fjallað um eðli og gerð sveppa, vistfræði þeirra, sveppasjúkdóma á mönnum, dýrum, trjám og öðrum plöntum, mat- og eit- ursveppi, ræktun matsveppa og sögu svepparannsókna hérlendis og erlendis. Í nýju útgáfunni er viðauki eftir Guðríði Gyðu Eyjólfsdóttur um helstu myglu- sveppi sem finnast hér innanhúss. Á síðasta áratug hafa skaðleg áhrif slíkra myglusveppa á húsakost og heilsu fólks vakið æ meiri athygli.

Lýsingar Helga á einstökum sveppa- tegundum afmarkast að mestu við sjúkdómsvaldandi smásveppi og síðan allflesta þekkta stórsveppi landsins. Allir íslenskir matsveppir teljast til stórsveppa, og fá flestir þeirra ýtarlega umfjöllun, svo og nokkrir vel þekktir erlendir matsveppir og eitursveppir sem ekki hafa enn fundist á Íslandi.

Ullblekill (Coprinus comatus). Seltjarnarnesi, 2010. Ljósm. Hálfdan Ómar Hálfdanarson.

Ullblekill (Coprinus comatus). Seltjarnarnesi, 2010.
Ljósm. Hálfdan Ómar Hálfdanarson.

Helgi gaf út fyrstu almennu íslensku handbókina um sveppi árið 1979 og bar hún nafnið Sveppakverið. Þetta framtak Helga markaði ákveðið upphaf við nýtingu ætisveppa á Íslandi. Í kjölfarið má segja að sveppanytjar hafi breyst úr því að vera sárasjaldgæft fyrirbæri hér á landi yfir í að verða áhugamál fjölda karla og kvenna. Áhugi á nýtingu sveppa til matar hefur stóraukist á seinni árum og auk bóka Helga hafa komið út þrjár sértækari handbækur um matsveppi á íslensku. Árið 1989 gáfu Ása Margrét Ásgrímsdóttir og Guðrún Magnúsdóttir út hina ágætu bók sína Villtir matsveppir á Íslandi, sem nú er löngu ófáanleg. Þær tvær nýjustu eru Matsveppir í náttúru Íslands (2009) eftir Ásu Margréti Ásgrímsdóttur, þar sem lýst er um 30 sveppategundum, og Sveppahandbókin – 100 tegundir íslenskra villisveppa (2015) eftir Bjarna Diðrik Sigurðsson. Þar sem einungis um 15% af tegundum stórsveppa eru nýtanlegir til átu, og afgangurinn er annaðhvort óætir eða eitraðir sveppir, þá gefur Sveppabók Helga áhugamönnum um sveppanytjar tækifæri til að hafa gott yfirlit yfir nær alla þekkta stórsveppi Íslands. Þetta dregur mikið úr hættu á að alvarleg mistök verði við tegundagreiningu og nýtingu íslenskra matsveppa.

Fjóluvöndur, Clavulina amethystina. Eyjafirði 1988. Ljósm. Hörður Kristinsson.

Fjóluvöndur, Clavulina amethystina. Eyjafirði 1988. Ljósm. Hörður Kristinsson.

Önnur útgáfa Sveppabókarinnar er að mestu endurprentun fyrstu útgáfu, en inniheldur einnig nokkrar minniháttar leiðréttingar/uppfærslur í texta um þær tegundir sem um er fjallað. Einnig er þar nýr viðauki um myglusveppi innanhúss, eins og áður sagði, sem og nýr eftirmáli. Á hverju ári finnast einhverjar nýjar sveppategundir á Íslandi. Í eftirmála Sveppabókarinnar kemur fram að ekki var reynt að bæta við öllum slíkum nýfundnum tegundum í annarri útgáfu, ef þeirra var ekki þegar getið í fyrstu útgáfu sem tegunda sem líklega gætu borist til landsins. Dæmi um slíka tegund er eitursveppurinn steinkrympill (Gyromitra esculenta) sem fannst hér fyrst árið 2017 (bls. 498 í 2. útgáfu). 

Íslenskar og latneskar nafnaskrár, íðorðaskrá og ýtarlegur heimildalisti um sveppafræði og sveppi á Íslandi í bókarlok auka enn á gildi bókarinnar sem uppflettirits og fræðibókar. Hún er því ekki ritverk sem maður les aðeins einu sinni, heldur bók sem áhugamenn – að minnsta kosti undirritaður – taka fram aftur og aftur og fletta upp í. Þessi bók á erindi við alla náttúruunnendur Íslands og er raunar skyldueign því að hún opnar heilt ríki fyrir okkur, svepparíkið. Bókin er og verður stórvirki meðal bóka um náttúru Íslands og mjög er ólíklegt að yfirgripsmeiri bók á íslensku um svepparíkið líti í bráð dagsins ljós. 

Teygjuhelma, Mycena epipterygia. Héraði, 1993. Ljósm. Hörður Kristinsson.

Teygjuhelma, Mycena epipterygia. Héraði, 1993. Ljósm. Hörður Kristinsson.

Það er við hæfi að enda þessa ritfregn með beinni tilvitnun í höfund Sveppabókarinnar (bls. 12): „Fræðimenn miðalda kölluðu sveppina ludus naturae, þ.e. náttúruleik. Kannski var Skaparinn að leika sér þegar hann skóp þá. Við megum vera honum þakklát fyrir það.“ 

PDF-ÚTGÁFA AF GREININNI

Höfundur

  • Bjarni Diðrik Sigurðsson

    Bjarni Diðrik Sigurðsson (f. 1966) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1993 og doktorsprófi (Ph.D.) í skógvistfræði/vistkerfisfræði við sænska landbúnaðarháskólann (SLU) í Uppsölum árið 2001. Bjarni starfaði á Rannsóknastofnun landbúnaðarins 1993–1997 og síðar sem sérfræðingur við Rannsóknastöð skógræktar á Mógilsá 2001–2005. Frá árinu 2005 hefur Bjarni gegnt stöðu prófessors í skógfræði við Landbúnaðarháskóla Íslands. PÓST- OG NETFANG HÖFUNDAR / AUTHOR'S ADDRESS Bjarni Diðrik Sigurðsson prófessor Landbúnaðarháskóla Íslands Hvanneyri, 311 Borgarnes Netfang: [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24