Mývatnsendur

PDF Skjal

MÝVATN OG UMHVERFI ÞESS er einstæðasta náttúruundur Íslands. Þar fara saman landslag, sjaldgæf eldvirkni og auðugt lífríki. Í þessari grein eru teknar saman helstu niðurstöður rannsókna á mývetnskum andarstofnum á þrjátíu ára tímabili, 1975–2005. Niðurstöðurnar hafa birst allvíða, en hér er þeim þjappað saman til þess að kynna þær fyrir breiðum hópi íslenskra áhuga- og fræðimanna. Greinin var rituð árið 2019 til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni, prófessor og brautryðjanda við rannsóknir á Mývatni.

Skúfönd – Tufted Duck. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann

Skúfönd – Tufted Duck. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann

INNGANGUR

Samfelldar rannsóknir á andarstofnum Mývatns hafa staðið yfir síðastliðna fjóra áratugi og verður væntanlega fram haldið um nokkurt skeið. Í fyrstu voru rannsóknirnar stundaðar sem hluti af almennum og víðfeðmum könnunum á vistkerfi Mývatns og Laxár, sem dr. Pétur M. Jónasson var í forsvari fyrir.1 Fljótlega færðist áherslan yfir á að þróa aðferðir sem gætu nýst til þess að bæta niðurstöðurnar þannig að auðveldara yrði að túlka tölur um afkomu andarstofnanna í samhengi við aðra þætti, bæði í vistkerfi Mývatns sjálfs og utan þess, til dæmis á vetrarstöðvum andanna. Eins og kunnugt er hafa Mývatn og vatnakerfi þess löngum verið eftirsótt til margvíslegra nota, svo sem búskapar, silungsveiða, raforkuframleiðslu, námavinnslu og ferðamennsku. Fram undir 1970 var þó lítill skilningur á því hérlendis að þessi not gætu haft neikvæðar afleiðingar ef ekki væri farið með gát. Trú nýfrjálsrar þjóðar á framfarir og tæknivæðingu var mikil.

Hér er valin sú leið að lýsa mjög almennt vistkerfi Mývatns og breytileika þess í tíma. Síðan er rætt um stofnfræði vatnafugla, einkum anda, og leitað svara við þremur rannsóknarspurningum: 1. Hvernig er árleg viðkoma ákvörðuð? 2. Hvernig er dreif (= útbreiðsla og þéttleiki) anda á varptíma ákvörðuð? 3. Hvernig er stofnstærð anda ákvörðuð á víðari grundvelli (út frá farleið, heildarstofni)?

Hávella – Long-tailed Duck. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann

Hávella – Long-tailed Duck. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann

Mývatn og umhverfi þess er fágætt og í rauninni einstakt fyrirbæri. Þeir sem unnið hafa þar að vistfræðilegum rannsóknum eru oft minntir á þetta af öðrum fræðingum, sem eiga það til að gefa í skyn að stofnferlar og takmarkaþættir á þessum stað kunni að vera öðruvísi en annars staðar. Að nokkru leyti skýrast undur Mývatns af sjaldgæfum eiginleikum Íslands. Landið er stór og afskekkt úthafseyja sem einkennist af jarðeldum, og lífríkið er að langmestu leyti til komið á síðustu 10 þúsund árum. Afleiðingarnar eru margvíslegar, meðal annars fátækleg landfána. Ýmsa dýrahópa vantar með öllu, svo sem moskítóflugur (Diptera, Culicidae), marga vatnafiska, svo sem karpa (Cyprinidae), og flest landspendýr, þeirra á meðal stúfur og læmingja (músategundir sem eru grasbítar – Muridae, Microtinae) sem eru mikilvægir liðir í vistkerfum nálægra meginlanda. Ísland er eitt af seinustu löndum sem maðurinn (Homo sapiens) nemur. Landfuglategundir eru fáar hér á landi en hins vegar eru hér margar tegundir sjófugla, vatnafugla og strandfugla, og einstaklingafjöldi sumra þessara tegunda er mikill.

Rauðhöfðaönd – Eurasian Wigeon. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann

Rauðhöfðaönd – Eurasian Wigeon. Ljósm./Photo: Daníel Bergmann

Vistfræðilegar rannsóknir á svæðinu hafa beinst í margar áttir og þjónað margvíslegum tilgangi. Í fyrsta lagi er vatnið og svæðið allt einstakur staður þar sem vísindamenn hljóta að hrífast af ögrandi spurningum. Í öðru lagi er svæðið auðugt að náttúruauðlindum sem eru bæði breytilegar og í sífelldri hættu vegna ásóknar manna. Í þriðja lagi er það svo að eftir því sem tíminn líður og upplýsingar safnast fyrir verður auðveldara að skilja ferla sem eru háðir tímanum, sem einmitt á við um marga villta stofna.

LESA ALLA GREIN

Höfundur

  • Arnþór Garðarsson

    Arnþór Garðarsson (1938–2022) var dýrafræðingur. Hann tók BS-próf (Hons.) við háskólann í Bristol á Englandi 1962, Ph.D.-próf við Kalíforníuháskóla í Berkely í Bandaríkjunum 1971. Hann starfaði sem sérfræðingur við Náttúrufræðistofnun Íslands 1962–1973 og var pró- fessor í dýrafræði við Háskóla Íslands 1974–2008.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24