Horft til framtíðar

PDF Skjal

Það er með mikilli ánægju og heiðri að ég tek við starfi ritstjóra Náttúrufræðingsins. Að ritstýra einu elsta tímariti landsins og jafnframt eina tímaritinu sem birtir ritrýndar vísindagreinar um almenn náttúruvísindi á íslensku er spennandi verkefni. 

Allt frá árinu 1931 hefur Náttúrufræðingurinn komið út ár hvert en árið 1941 keypti Hið íslenska náttúrufræðifélag (HÍN) útgáfuna af stofnendum tímaritsins þeim Árna Friðrikssyni fiskifræðingi og Guðmundi G. Bárðarsyni jarðfræðingi og gerði að félagsriti sínu. Síðan þá hefur félagið lengst af verið eini útgefandinn eða allt fram til ársins 2014 þegar gerður var samningur við Náttúruminjasafn Íslands (NMSÍ) um sameiginlega útgáfu tímaritsins. 

Frá upphafi hefur tímaritið verið gefið út undir einkunnarorðunum „alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði“. Greinarnar hafa spannað vítt svið náttúruvísindanna og má þar helst nefna dýrafræði, jarðfræði, grasafræði, vist-fræði, landafræði, veðurfræði, stjörnu-fræði og læknisfræði. Á allra síðustu árum hafa greinar eftir ferðamálafræðinga og náttúrulandafræðinga bæst við og fjalla greinar þeirra um náttúruvernd, umhverfismál og þjóðgarða í samspili við ferðaþjónustu. Málefni sem hafa síðustu árin verið ofarlega á blaði hjá stjórnvöldum og almenningi í umræðunni um mikilvægi þess að tryggja skuli að stór samfelld víðerni verði áfram að finna á Íslandi. Í þessu hefti er að finna greinina „Sambúð þjóðgarða og ferðaþjónustu“ sem fjallar um hvernig tvíþætt hlutverk þjóðgarða skapar jarðveg fyrir hagsmunaárekstra. Von er á seinni hluta umfjöllunarinnar í næsta hefti og ber sú grein heitið „Viðhorf ferðaþjónustunnar til þjóðgarðs á miðhálendi Íslands“. 

Í leiðara 1.-2. heftis, 90. árgangs Náttúrufræðingsins árið 2020 benti Álfheiður Ingadóttir, þáverandi ritstjóri blaðsins, á það að auka þyrfti vægi stærstu mála samtímans í tímaritinu, þ.e. umhverfismála, loftslagsbreytinga og líffræðilegrar fjölbreytni. Undirrituð tekur heilshugar undir þessi orð og hvetur fræðimenn og áhugamenn um umhverfismál til að nýta tímaritið sem vettvang til þess að taka þátt í umræðunni og senda greinar í blaðið um efnið. Sérstaklega eru ungir náttúrufræðingar hvattir til þess að láta til sín taka í umræðunni. Þó konum sem skrifa greinar í Náttúrufræðinginn hafi fjölgað með árunum verður ekki orða bundist að minnast á hve fáar konur hafa skrifað í blaðið í gegnum tíðina. Undirrituð, sem einungis er þriðji kvenkyns ritstjórinn á meðan 21 karlmenn hafa gengt starfinu frá upphafi, hvetur konur því sérstaklega til þess að skrifa í blaðið.

Náttúrufræðingurinn birtir efni á öllum sviðum náttúrufræðanna. Um-hverfis- og loftslagsmál eru þverfagleg málefni sem snerta bæði mannlegt samfélag og náttúruna í sínum víðasta skilningi. Mikilvægt er að sem flestir taki þátt í umræðunni enda hefur staða loftslags- og umhverfismála aldrei verið alvarlegri en í dag. Það er ekki einfalt að finna réttu leiðirnar til þess að snúa skipinu við eins og Droplaug Ólafsdóttir, þáverandi formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins, fjallar um í leiðara 3.–4. heftis, 91. árgangs árið 2021. Í fyrsta lagi þarf öfluga umræðu um málefnin en einnig er mikilvægt að staldra við og skoða hvort þær aðgerðir sem settar hafa verið í framkvæmd hafi skilað tilætluðum árangri. 

Líffræðileg fjölbreytni er hugtak sem nokkur vitundarvakning hefur orðið um á allra síðustu árum í takt við umræðuna um loftslagsbreytingar. Líffræðileg fjölbreytni hefur mikið gildi fyrir lífsheild jarðar og spilar stóran þátt í að viðhalda virkni vistkerfa og draga úr þrýstingi á umhverfið. Innan vísindasamfélagsins er talað um að líffræðileg fjölbreytni hafi minnkað mun hraðar og greinilegar á síðustu 100 árum en nokkurn tímann áður. Í dag eru yfir 30 þúsund af 120 þúsund tegundum á rauðum lista Alþjóða-náttúruverndarsamtakanna (e. International Union for Conservation of Nature, IUCN) skilgreindar sem tegundir í útrýmingarhættu og hefur fjöldi þeirra þrefaldast á síðustu tuttugu árum. Eitt af því sem ógnar vistkerfi Íslands er ásókn framandi tegunda. Í þessu hefti má finna greinina, „Evrópskir eldmaurar á Íslandi“ sem fjallar um framandi tegund. Í þeirri grein lýsa höfundar fundi evrópskra eldmaura hérlendis, sem lifðu utandyra í Reykjavík. Nái framandi tegundir að festa sig í sessi á nýjum slóðum geta þær í sumum tilfellum valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er og dregið úr líffræðilegri fjölbreytni.

Bent hefur verið á að gera megi tímaritið aðgengilegra m.a. með styttri greinum og fleiri ljósmyndum og er mikill vilji til þess að koma á móts við þær raddir. Náttúrufræðingurinn heldur þó áfram að vera ritrýnt tímarit á sviði náttúrufræða og ekki verður slegið af vísindalegum kröfum til þess að blaðið geti staðið undir því. Til hefur staðið um nokkurt skeið að stofna vefsetur fyrir Náttúrufræðinginn og virðist nú glitta í að það verði að raunveruleika. Unnið er að því að koma vefnum í loftið á þessu ári og eru vonir bundnar við að með tilkomu vefsins muni lesendahópurinn bæði stækka og víkka. Markmið vefsins er að kynna tímaritið og vekja áhuga á efni þess hjá nýjum lesendahópi með því að birta bæði nýtt efni og gamalt. Einnig er stefnt að því að bjóða höfundum að birta ítarefni eins og viðauka á vefnum í staðinn fyrir í prentuðu útgáfunni. Þá verður tekið við greinum sem þykja falla betur að stafrænni útgáfu en prentaðri og mun það auka efnisframboðið til muna. 

Það eru spennandi tímar framundan hjá Náttúrufræðingnum og er undirrituð full eftirvæntingar að leggja af stað í þessa vegferð með góðum hópi fólks sem situr í ritstjórn tímaritsins.

Margrét Rósa Jochumsdóttir

Ritstjóri Náttúrufræðingsins

Höfundur

  • Margrét Rósa Jochumsdóttir

    Margrét Rósa Jochumsdóttir (f. 1976) er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins, sem gefin er út af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Náttúruminjasafni Íslands. Hún lauk tveimur mastersgráðum frá Háskóla Íslands, annars vegar í þróunarfræðum og hins vegar í ritstjórn og útgáfu. Einnig lauk hún BA-gráðu í sagnfræði með landafræði sem aukafag frá sama skóla.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24