Er einhver Neanderdalsmaður hér inni?

PDF Skjal

Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og við höfum tekið Neanderdalsfólkið í sátt – skipað þeim í okkar hóp, nánast umyrðalaust – höldum við mörg hver ennþá fast í hugmyndir sem mismuna mannfólki (Homo sapiens) eftir uppruna og hörundslit.

Neanderdalsfólk varðar okkur öll meira en ætla mætti, og meira en nokkru sinni fyrr; erfðavísindin (m.a. rannsóknir á Ís- lendingum) hafa leitt í ljós að saga okkar er saga Neanderdalsfólks. Það vekur spurningar um okkur sem tegund og um skilin sem við setjum milli okkar og hinna, sem alltaf virðast vera á dagskrá (oft með formerkjum hörundslitar), hvernig þau verða til, hversu djúpt þau rista, og hvað þau merkja.

Einhver kynni að spyrja af hverju ég finn mig knúinn að styðja fingrum á lyklaborð og taka saman pistil um þetta fólk. Saga Neanderdalsfólksins er sannarlega mannfræðilegt viðfangsefni, en lengst af hef ég sýslað við þá fræðigrein. Einu sinni var ég reyndar sagður líkjast þessu fólki, og kannski hefur það sitt að segja. Það var einhvern tímann á menntaskólaárunum á Laugarvatni sem við stóðum nokkur, tilvonandi stúdentar, fyrir framan andlitsmyndir á göngum skólans og virtum fyrir okkur nemendahópinn. Einn kennarinn staldraði við og segir svo við mig: „Þú ert eins og Neanderdalsmaður!“ Okkur þótti þetta fyndið. Þetta var góðlátleg stríðni.

2. mynd. Hauskúpur frá Íslandi sem Vilhjálmur Stefánsson gróf upp í kirkjugarði á Mýrum sumarið 1905. Ljósm.: Gísli Pálsson.

2. mynd. Hauskúpur frá Íslandi sem Vilhjálmur Stefánsson gróf upp í kirkjugarði á Mýrum sumarið 1905. Ljósm.: Gísli Pálsson.

FYRSTU BEININ, FYRSTI KOSSINN

Neanderdalsfólkið varð útdautt fyrir að minnsta kosti 30 þúsund árum. Við þekkjum það aðeins af beinaleifum þess, áhöldum og vistarverum. Það var árið 1856 sem kennarinn Johann Carl Fuhlrott rak augun í sérkennilegar beinaleifar úr Feldoferhelli í Neanderdal í Þýskalandi. Beinin líktust mannabeinum og vöktu furðu. Sumir töldu í upphafi að um vanskapaða manneskju væri að ræða en írski prófessorinn William King fullyrti að þetta væri áður óþekkt dýrategund sem væri skyldari simpönsum en nútímamönnum. Árið 1863 var tegundin nefnd Homo neanderthalensis, að tillögu Kings.1Papagianni, D. & Morse, M.A. 2022. The Neanderthals rediscovered: How modern science is rewriting their story. Thames and Hudson, London. 208 bls. (Sjá bls. 18 og 189; frumútg. 2013). Síðar komu fleiri beinaleifar fram í dagsljósið og sýnt þótti að King hefði rangt fyrir sér varðandi skyldleikann við simpansa, Neanderdalsmenn væru náskyldir nútímamönnum. Erfðarannsóknir síðustu tuttugu og sjö ár hafa staðfest þessa niðurstöðu. Þetta voru fyrstu Evrópu- mennin, en ættkvíslin Homo varð til í Afríku, hóf útrás til annarra heimsálfna fyrir um 1,9 milljónum ára og ráfaði fyrst um Evrópu fyrir 40 þúsund árum.

Neanderdalsmenn eru eina manntegundin sem varð til utan Afríku. Þeir fóru víða, allt frá Portúgal til Úralfjalla. Hugmyndir nútímamanna um þá hafa líka tekið stakkaskiptum. Sú hugmynd læddist að fræðimönnum Viktoríutímans á Englandi að nútímamenn hefðu verið í nánum samskiptum við Neanderdalsmenn, jafnvel eignast með þeim börn. En teprulegir fræðimenn sem uppi voru um miðja nítjándu öld höfðu ekki hátt um þessa ögrandi hugmynd, heldur hvísluðu sín á milli um fyrsta kossinn þegar kynblöndun bar á góma.2Sykes, R.W. 2020. Kindred: Neanderthal life, love, death and art. Bloomsbury, New York. 400 bls. (Sjá bls. 331).

VÍGIN FALLA

Strax eftir að tegundinni hafði verið gefið nafn var orðið „Neandertal“ (dalur heitir tal á þýsku, áður stafsett thal) gjarna notað sem niðrandi samheiti fyrir allt sem talið var frumstætt og forneskjulegt. Líklegt þykir þó að Neanderdalsfólk hafi greftrað samborgara sína, forfeður og -mæður, og teiknað á hellisveggi, en hvorttveggja hefur oft verið talið sérkenni nútímamanna. Myllumerki hafa fundist á hellisveggjum á Gíbraltar og talið er líklegt að Neanderdalsmenn hafi rist þau.

Þessar minjar eru taldar vera um það bil 39 þúsund ára gamlar. Nýlegar rannsóknir í La Roche-Cotard-hellinum í Frakklandi benda til mun eldri verka, 57 þúsund ára, jafnvel 75 þúsund ára. Þessi verk fundust árið 1846 þegar unnið var að gerð lestarteina. Skyndilega blasti við hellir og á veggjum hans leyndust teikningar sem augljóslega voru gerðar markvisst og af natni.3Handwerk, B. 2023. Oldest known Neanderthal engravings were sealed in a cave for 57,000 years. Smithsonian Magazine, 21. júní. https://www.smithson- ianmag.com/science-nature/oldest-known-neanderthal-engravings-discover- ed-in-french-cave-180982408/ Lengi var talið að þetta væru verk nútímamanna, en nú þykir víst að höfundarnir hafi verið Neanderdalsmenn þar sem nútímamenn numu ekki land í þessum hluta Evrópu fyrr en löngu síðar. Þetta eru sannar- lega byltingarkenndar niðurstöður. Neanderdalsmenn eru á hraðferð inn í nýjan heim. Ein helsta heimildin um rannsóknir á Neanderdalsmönnum, The Neanderthals Rediscovered eftir Dimitru Papagianni og Michael A. Morse, hefur ítrekað verið endurútgefin, endurbætt í ljósi nýrrar vitneskju. Nú virðist hún verðskulda enn eina yfirferðina.

Skyldu Neanderdalsmenn hafa talað? Málfræðingar og mannfræðingar eru ekki á einu máli. Hinn kunni mál- fræðingur Noam Chomsky (áður hjá MIT- háskólanum) er viss í sinni sök: „Þess vegna bara við“.4Berwick, R.C. & Chomsky, N, 2017. Why only us: Recent questions and answers. Journal of Neurolinguistics 43 (Part B). 166–177. https://doi.org/10.1016/j. jneuroling.2016.12.002 Rök hans eru einkum þau að hæfileikinn til að tala hafi orðið til seint og snögglega, án umtalsverðra breytinga á erfðum, og börn okkar nái tökum á flóknu tungumáli á ótrúlega skömmum tíma; annaðhvort hafi tegund þá „málstöð“ sem til þarf eða ekki. Nútímafólk hafi skapandi mál, en aðrar tegundir í besta falli einföld táknkerfi.

Aðrir, svo sem mannfræðingurinn Stephen C. Levinson (áður hjá Max Planck-stofnuninni í Nijmegen), telja, með tilvísun til nýrra viðhorfa í erfðafræði og beinarannsóknum, að málnotkun hafi ekki einskorðast við Homo sapiens sapiens – það séu „ekki bara við“ sem höfum skapað mál.5Dediu, D. & Levinson, S.C. 2018. Neanderthal language revisited: Not only us. Current Opinion in Behavioral Sciences 21. 49−55. https://doi.org/10.1016/j. cobeha.2018.01.001 Hæfileikinn til að tileinka sér „mannamál“ hafi líklega áunnist hægt og sígandi, í skjóli náttúruvals. Neanderdalsmenn hafi deilt FOXP2-geninu, sem kom við sögu í þróun talaðs máls, með nútímamönnum og talfæri þeirra hafi verið svipuð okkar. Ekki sé sjálfgefið að þeir hafi talað, og það verði líklega seint fullreynt, en telja megi yfirgnæfandi líkur á að svo hafi verið.1 Vitneskjan um endurtekna erfðafræðilega blöndun Neanderdalsmanna og nútímamanna styður þá kenningu. Chomsky er laus við tepruskap og kreddur Viktoríutímans, en hann virðist hins vegar eiga erfitt með að ímynda sér bæði náið samlífi tegundanna og það sameiginlega vitsmunalíf sem því hefur væntanlega fylgt. Hann stendur fastur á sínu: Það eru „bara við“ − eins og önnur menni hljóti að vera afdalamenn.

AF ÖÐRUM DALAMÖNNUM

Árið 1961 birti dagblaðið Tíminn viðtal við dr. Jens Ó. P. Pálsson (1926–2002) mannfræðing um rannsóknir hans á Íslendingum. Blaðamaðurinn spyr: „Þú hefur verið að gera mælingar á Dalamönnum? … Til hvers ertu að mæla þá?“ Jens svarar:

Þær eru gerðar … til þess að varpa ljósi á uppruna þjóðarinnar. … Í Dalasýslu eru dökkhærðir og ljóshærðir langhöfðar tiltölulega algengir, en það eru höfuðeinkenni „írsku týpunnar“, samkvæmt þeim rannsóknum, sem bandarískur mannfræðingur, Hooton að nafni, lét gera á Írlandi á sínum tíma.6Birgir 1961. Mannabein í kjallaranum: Rabbað við Jens Pálsson mannfræðing. Tíminn, 7. desember. 8−9.

3. mynd. „Steinaldar Clooney.“ Vaxmynd á Neanderdalssafninu í Mettmann, skammt frá Düsseldorf.

3. mynd. „Steinaldar Clooney.“ Vaxmynd á Neanderdalssafninu í Mettmann, skammt frá Düsseldorf.

Þegar hér var komið sögu starfaði Jens við Mannfræðistofnunina í Mainz í Þýskalandi, sem átti sér vafasama fortíð. Earnest Hooton (1887–1954), sá sem Jens vísaði til, prófessor við Harvardháskóla, skipti mannkyni í nokkra kynþætti í bók sinni Upp af apanum (1931).7Hooton, E.A. 1931. Up from the ape. Macmillan, New York. 787 bls. Hauskúpur frá miðöldum, sem Vilhjálmur Stefánsson hafði safnað á vegum Peabodysafns Harvardháskóla í kirkjugarði á Haf- fjarðarey á Mýrum sumarið 1905, vöktu töluvert umtal og blandaði Hooton sér í umræðuna.8Gísli Pálsson 2003. Frægð og firnindi: Ævi Vilhjálms Stefánssonar. Mál og menning, Reykjavík. 415 bls. Að mati Hootons stóðu norrænir menn ofarlega í stigskiptingu mannkyns. Sumir kynþættir, sagði hann, væru nær öpunum en aðrir. Til marks um það væru meðal annars mælingar höfuðbeina. Nú vitum við hins vegar að flokkun eftir kynþáttum á sér fyrst og fremst félagslegar rætur og er ekki reist á vísindalegum forsendum – og að Neanderdalsmenn eru í okkur öllum. Á undanförnum árum hafa höfuðbeinin í Íslendinganýlendunni við Harvard aftur komist á dagskrá; nú er deilt um eignarhald beinanna og hvort Harvardháskóla beri að skila þeim til Íslands; senda þau heim.9Elliott, C. 2023. Why Iceland wants its medieval skulls back. National Geographic, 1888, 3. ágúst https://www.nationalgeographic.com/premium/ article/iceland-skulls-peabody-harvard-hastings-stefansson-haffjararey

Rannsóknir á mannabeinum voru víða misnotaðar í þjóðhverfum, rasískum og pólitískum tilgangi á síðustu öld.10Gísli Pálsson & Sigurður Örn Guðbjörnsson 2012. Homo islandicus – inn að beini. Tímarit Máls og menningar 73(4). 4−24. Samt skyldu þær ekki vanmetnar. Þær hafa haldið velli undir nýjum formerkjum og segja merka sögu, meðal annars um Neanderdalsmenn, og kynblöndun þeirra og Homo sapiens. Erfðafræðilegar rannsóknir á mannabeinum hafa grafið undan þeirri kynþáttahyggju sem kenningar um svokallaða langhöfða (germanskar þjóðir t.d.) og stutthöfða (Sama o.fl.) festu í sessi um miðja síðustu öld. Erfðaefnið leiddi í ljós mun flóknara landslag og trúverðugri sögu.

EINN AF OKKUR

Svante Pääbo (f. 1955), sænskur sérfræðingur á sviði líffræðilegrar mannfræði sem nýlega hlaut Nóbelsverðlaunin í læknisfræði, leiddi í ljós árið 2010 að Neanderdalsmenn og nútímamenn höfðu eignast sameiginlega afkomendur og að erfðamörk þeirra fyrrnefndu leyndust í öllu núlifandi fólki. Pääbo tókst að einangra erfðaefni úr forsögulegum beinum Neanderdalsmanna og endurgera erfðamengi þeirra. Neanderdalsmaðurinn reyndist vera einn af okkur, hluti af okkur.11Pääbo, S. 2014. Neanderthal man: In search of lost genomes. Cornell University Press, New York. 288 bls.

Með rannsóknum á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og samstarfsfólks í Árósum og Leipzig var lögð hönd á plóg með nýstárlegri greiningaraðferð sem ekki var bundin við þau örfáu lífsýni úr Neanderdalsfólki sem áður hafði verið stuðst við. Þessar rannsóknir sýndu meðal annars fram á að Íslendingar bera ekki allir sömu erfðabútana frá Neanderdalsmönnum.12Skove, L., Moisès, C.M., Garðar Sveinbjörnsson, Mafessoni, F., Lucotte, E.A., Margrét S. Einarsdóttir, Hákon Jónsson, Bjarni Halldórsson, Daníel F. Guðbjartsson, Agnar Helgason, Schierup, M.H. & Kári Stefánsson. 2020. The nature of Neanderthal introgression revealed by 27,566 Icelandic genomes. Nature 582. 78 –83. https://doi.org/10.1038/s41586-020-2225-9 Erfðabútar í núlifandi Íslendingum vörpuðu ljósi á um helming erfðamengis Neanderdalsmanna.

HVERNIG VORU ÞAU Á LITINN?

Kynþáttahyggja staðnæmist gjarna við litaraft. Hvernig voru Neanderdalsmenn annars á litinn? Það er ekki auðvelt að svara því. Listamenn sem hafa gert styttur og myndir af Neanderdalsfólki hafa ímyndað sér fjölbreyttan hóp – dökkhærða, ljóshærða, rauðhærða og freknótta. Hugmyndir erfðafræðinga eru líklega jafn fjölbreytilegar. Einn þeirra sem hafa kannað málið, John Hawks við Madisonháskóla, segir það flókið.13Hawks, J. 2023. What color were Neandertals? Á vefsetri Johns Hawks. Slóð (skoðað 21.10. 2023): https://johnhawks.net/weblog/what-color-were- -neandertals/#:~:text=They%20found%20that%20the%20known,%2D- haired%2C%20and%20brown%20eyed

4. mynd. Gíbraltar. Corhams-hellir, þar sem Neanderdalsmenn höfðust við, er í höfðanum lengst til hægri. Ljósm.: Gísli Pálsson.

4. mynd. Gíbraltar. Corhams-hellir, þar sem Neanderdalsmenn höfðust við, er í höfðanum lengst til hægri. Ljósm.: Gísli Pálsson.

Vandinn er meðal annars sá að bæði listafólk og fræðimenn hafa haft tilhneigingu til að líta á Neanderdalsfólk með nútímalegum evrópskum gleraugum. Hawks segir sérkennilegt að margir mannfræðingar hafi verið uppteknir af því hvort vegfarendur í stórborgum samtímans myndu taka eftir Neanderdalsfólki klæddu nútímafatnaði ef það birtist allt í einu í strætisvögnum og neðanjarðarlestum. Á Neanderdalssafninu í Mettmann, skammt frá hinum fræga Neanderdal (og borginni Düsseldorf sem margir lesendur kannast sennilega betur við), er haganlega gerð vaxmynd, „Steinaldar Clooney,“ sem sýnir myndarlegan og snyrtilegan Neanderdalsmann.14Chung, J. 2016. TECHEBLOG 9. september. What a Neanderthal might look like today in modern clothes and 18 more cool pictures. Slóð (skoðað 26.10.2023): https://www.techeblog.com/what-a-neanderthal-might-look-like- -today-in-modern-clothes-and-18-more-cool-pictures/ Hann horfir forvitinn yfir sviðið, en er ekki með snjallsíma í höndunum heldur steináhald, skurðhníf að hætti steinaldarmanna. Gott ef hann er ekki í kórónajakkafötum sem fræg urðu á Íslandi, fyrst með sjónvarpsauglýsingum á sjöunda áratugnum og síðar með ljóðabók Einars Más Guðmundsonar, Er nokkur í Kórónafötum hér inni?15Einar Már Guðmundsson 1980. Er nokkur í kórónafötum hér inni? Mál og menning, Reykjavík. 143 bls.

Undanfarin ár hafa landamærin milli okkar og Neanderdalsfólksins máðst út ein af öðrum. Um leið hefur mynd þeirra breyst. Það er kaldhæðnislegt að á sama tíma og við höfum tekið Neanderdalsfólkið í sátt – skipað þeim í okkar hóp, nánast umyrðalaust – höldum við mörg hver ennþá fast í hugmyndir sem mismuna mannfólki (Homo sapiens) eftir uppruna og hörundslit.

ÞAKKIR

Ég þakka Agnari Helgasyni, Helga Bernódussyni og Rósu Signýju Gísladóttur fyrir afar gagnlegar samræður og ábendingar.

 

HEIMILDIR
 • 1
  Papagianni, D. & Morse, M.A. 2022. The Neanderthals rediscovered: How modern science is rewriting their story. Thames and Hudson, London. 208 bls. (Sjá bls. 18 og 189; frumútg. 2013).
 • 2
  Sykes, R.W. 2020. Kindred: Neanderthal life, love, death and art. Bloomsbury, New York. 400 bls. (Sjá bls. 331).
 • 3
  Handwerk, B. 2023. Oldest known Neanderthal engravings were sealed in a cave for 57,000 years. Smithsonian Magazine, 21. júní. https://www.smithson- ianmag.com/science-nature/oldest-known-neanderthal-engravings-discover- ed-in-french-cave-180982408/
 • 4
  Berwick, R.C. & Chomsky, N, 2017. Why only us: Recent questions and answers. Journal of Neurolinguistics 43 (Part B). 166–177. https://doi.org/10.1016/j. jneuroling.2016.12.002
 • 5
  Dediu, D. & Levinson, S.C. 2018. Neanderthal language revisited: Not only us. Current Opinion in Behavioral Sciences 21. 49−55. https://doi.org/10.1016/j. cobeha.2018.01.001
 • 6
  Birgir 1961. Mannabein í kjallaranum: Rabbað við Jens Pálsson mannfræðing. Tíminn, 7. desember. 8−9.
 • 7
  Hooton, E.A. 1931. Up from the ape. Macmillan, New York. 787 bls.
 • 8
  Gísli Pálsson 2003. Frægð og firnindi: Ævi Vilhjálms Stefánssonar. Mál og menning, Reykjavík. 415 bls.
 • 9
  Elliott, C. 2023. Why Iceland wants its medieval skulls back. National Geographic, 1888, 3. ágúst https://www.nationalgeographic.com/premium/ article/iceland-skulls-peabody-harvard-hastings-stefansson-haffjararey
 • 10
  Gísli Pálsson & Sigurður Örn Guðbjörnsson 2012. Homo islandicus – inn að beini. Tímarit Máls og menningar 73(4). 4−24.
 • 11
  Pääbo, S. 2014. Neanderthal man: In search of lost genomes. Cornell University Press, New York. 288 bls.
 • 12
  Skove, L., Moisès, C.M., Garðar Sveinbjörnsson, Mafessoni, F., Lucotte, E.A., Margrét S. Einarsdóttir, Hákon Jónsson, Bjarni Halldórsson, Daníel F. Guðbjartsson, Agnar Helgason, Schierup, M.H. & Kári Stefánsson. 2020. The nature of Neanderthal introgression revealed by 27,566 Icelandic genomes. Nature 582. 78 –83. https://doi.org/10.1038/s41586-020-2225-9
 • 13
  Hawks, J. 2023. What color were Neandertals? Á vefsetri Johns Hawks. Slóð (skoðað 21.10. 2023): https://johnhawks.net/weblog/what-color-were- -neandertals/#:~:text=They%20found%20that%20the%20known,%2D- haired%2C%20and%20brown%20eyed
 • 14
  Chung, J. 2016. TECHEBLOG 9. september. What a Neanderthal might look like today in modern clothes and 18 more cool pictures. Slóð (skoðað 26.10.2023): https://www.techeblog.com/what-a-neanderthal-might-look-like- -today-in-modern-clothes-and-18-more-cool-pictures/
 • 15
  Einar Már Guðmundsson 1980. Er nokkur í kórónafötum hér inni? Mál og menning, Reykjavík. 143 bls.

Höfundur

 • Gísli Pálsson

  Gísli Pálsson er prófessor emeritus í mannfræði við Háskóla Íslands. Hann lauk doktorsprófi frá Manchester- háskóla árið 1982, hefur síðan fjallað um margs konar viðfangsefni, mörg hver tengd umhverfismálum. Meðal bóka hans eru An Awkward Extinction: The Great Auk and the Loss of Species (töluvert breytt útgáfa á Fuglinum sem gat ekki flogið), The Human Age: How We Created the Anthropocene Epoch and Caused the Climate Crisis (2020), Maðurinn sem stal sjálfum sér (2017) og Nature, Culture, and Society: Anthropological Perspectives on Life (2015).

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24