Ánastaðahvalirnir 1882 og aðrar steypireyðar fundnar við Ísland

PDF Skjal

Í ÞESSARI GREIN er fjallað um þrjá efnisþætti sem tengjast steypireyðum (Balaenoptera musculus) (1. mynd) auk aðferða til að tegundagreina sjávarspendýr. Gögn um steypireyðar til umfjöllunar eru: (1) Greining á beinasýnum úr hvölum sem lokuðust í ís við Ánastaði á Vatnsnesi árið 1882. Í ljós kom að öll fimm sýnin sem voru tekin reyndust vera steypireyðar; (2) samantekt á steypireyðum sem rekið hefur á fjöru (svonefndir rekhvalir), hafa fest í ís (íshvalir) eða drepist af öðrum orsökum (nema ekki er fjallað um beinar veiðar). Efni er skipt eftir öldum nema öllum hvölum fyrir 1800 er steypt saman í einn hóp vegna fárra skráninga. Skráningar á steypireyðum voru 46 í allt, dregnar úr gagnagrunni sem í hefur verið safnað gögnum úr margvíslegum heimildum yfir 40 ára skeið; (3) samantekt á ritsmíðum fornleifafræðinga um uppgröft í öskuhaugum eða fornum býlum sem nefna hvalbein og hvort þau hafa verið greind til tegundar. Sýni úr Ánastaðahvölunum voru greind með sameindaaðferð sem er frekar ný af nálinni. Þar sem lítið hefur verið ritað um slíkar aðferðir á íslensku er hérna greint frá tveimur helstu aðferðunum. Reiknað er með að þessar aðferðir munu valda straumhvörfum í tegundagreiningum á beinum sjávarspendýra sem finnast við fornleifauppgröft á næstu árum. Aðferðir þessar munu einnig nýtast til að greina eldri efnivið sem hingað til hefur legið ógreindur. Efnisþættir um steypireyðar voru skoðaðir eftir því hvernig dauða bar að, m.t.t. fyrrum veiða og breytinga á stofni tegundarinnar við landið.

2. mynd. Bein úr hvölunum sem lokuðust inni í ís við Ánastaði á Vatnsnesi vorið 1882. Ragnar Helgi Ólafsson (t.h.) og Guðmundur Jónsson (t.v.) standa hjá beinunum í garðinum að Ytri-Ánastöðum. – Bones of the whales ice-locked at the beach at the farm Ánastaðir (N-Iceland) in spring 1882. Ragnar Helgi Ólafsson and Guðmundur Jónsson assisted with sampling. (Ljósm./ photo. Ævar Petersen, 21.05.2021.

2. mynd. Bein úr hvölunum sem lokuðust inni í ís við Ánastaði á Vatnsnesi vorið 1882. Ragnar Helgi Ólafsson (t.h.) og Guðmundur Jónsson (t.v.) standa hjá beinunum í garðinum að Ytri-Ánastöðum. – Bones of the whales ice-locked at the beach at the farm Ánastaðir (N-Iceland) in spring 1882. Ragnar Helgi Ólafsson and Guðmundur Jónsson assisted with sampling. (Ljósm./ photo. Ævar Petersen, 21.05.2021.

INNGANGUR

Í maílok 1882 festust 32 stórhveli í ís við Ánastaði á Vatnsnesi í Vestur-Húnavatnssýslu. Veðurfar var óvenju slæmt þetta ár og hélst ís landfastur við Norðurland allt sumarið. Hvalakoma þessi reyndist mikill happafengur fyrir landsmenn sem voru á barmi hungursneyðar. Mannfjölda dreif að hvalfjörunni frá stórum hluta landsins til að ná sér í matföng, spik til ljósa og annað sem mátti nýta af hvölunum. Stóð hvalskurður yfir mestallt sumarið.

Saga þessi var nýlega tekin saman og birt í Náttúrufræðingnum.1Ævar Petersen 2022. Hvalskurðurinn mikli á Ánastöðum 1882. Náttúrufræðingurinn 92(1-2): 40-59. Margar heimildir um þessa hvalakomu geta um stærð hvalanna og voru þeir nefndir stórfiskar, stórhveli eða reyðarhvalir. Nákvæmlega hvaða tegund eða tegundir áttu í hlut var hins vegar hvergi getið. Í fyrri hluta þessarar greinar er greint frá rannsókn hvaða tegundar Ánastaðahvalirnir voru. Miðað við stærð þeirra sem heimildarmenn gáfu upp komu helst tvær tegundir til greina, steypireyður (Balaenoptera musculus) og langreyður (B. physalus).

Lengi var ekki unnt að tegundagreina beinaleifar sjávarspendýra nema út frá ákveðnum beinum. Forn hvalbein eru oftast illgreinanleg eftir útliti, enda oft aðeins bútar, nema helst hausbein og tennur. Samanburðarbeinasöfn2Albína H. Pálsdóttir & Elísa Skúladóttir 2018. Samanburðarsafn í dýrabeinafornleifafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands (Ársskýrsla 2017). Landbúnaðarháskóli Íslands. Rit LbhÍ nr. 84. 16 bls. eru fá í heiminum, stundum óaðgengileg eða bein úr tegundum sem koma til greina ekki til í þeim. Möguleikar til tegundagreininga á beinum sjávarspendýra hafa gjörbreyst vegna tilkomu nýlegra aðferða í sameindafræði.

Tvær sameindaaðferðir hafa verið þróaðar síðustu áratugi til að greina tegundir út frá beinasýnum. Sú fyrri byggir á samanburði DNA-raða en sú seinni nýtir samsetningu eininga í kollageni sem er byggingarefni beina.3Chowdhury, M.P., K.D. Choudhury, G.P. Bouchard, J. Riel-Salvatore, F. Negrino, S. Benazzi, L. Slimak, B. Frasier, V. Szabo, R. Harrison, G. Hambrecht,, A.C. Kitchener, R.A. Wogelius & M. Buckley 2021. Machine learning ATR-FTIR spectroscopy data for the screening of collagen for ZooMS analysis and mtDNA in archaeological bone. Journal of Archaeological Science 126, February 2021, 105311. Þessi síðari aðferð var notuð í þessari rannsókn til að greina bein sem enn eru til úr Ánastaðahvölunum frá 1882. Þar sem þessar aðferðir við tegundagreiningar á beinasýnum eru fremur nýjar af nálinni þótti ástæða til að lýsa þeim nánar fyrir lesendum.

Í öðrum hluta greinarinnar er fyrst fjallað um skráða hvalreka þar sem steypireyðar áttu í hlut, dýr sem lokuðust í ís eða drápust af öðrum orsökum. Ekki er fjallað um beinar veiðar á steypireyðum en um dýr sem drápust óbeint vegna veiða. Að lokum er fjallað um hvalbein sem fundist hafa við skipulegan uppgröft í gömlum öskuhaugum eða við uppgröft fornra býla. Greiningar á slíku efni varpa ljósi á dýrategundir sem menn hafa nýtt á einhvern hátt og breytingar á nýtingu yfir aldirnar. Stundum hafa fundist hvalbein og má búast við að mörg þeirra, jafnvel flest, hafa verið úr strönduðum hvölum, ekki síst fyrr á öldum þegar veiðitæki voru fátækleg og hvalveiðar á stórhvelum eins og steypireyðum takmarkaðar.

LESA ALLA GREIN

HEIMILDIR
 • 1
  Ævar Petersen 2022. Hvalskurðurinn mikli á Ánastöðum 1882. Náttúrufræðingurinn 92(1-2): 40-59.
 • 2
  Albína H. Pálsdóttir & Elísa Skúladóttir 2018. Samanburðarsafn í dýrabeinafornleifafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands (Ársskýrsla 2017). Landbúnaðarháskóli Íslands. Rit LbhÍ nr. 84. 16 bls.
 • 3
  Chowdhury, M.P., K.D. Choudhury, G.P. Bouchard, J. Riel-Salvatore, F. Negrino, S. Benazzi, L. Slimak, B. Frasier, V. Szabo, R. Harrison, G. Hambrecht,, A.C. Kitchener, R.A. Wogelius & M. Buckley 2021. Machine learning ATR-FTIR spectroscopy data for the screening of collagen for ZooMS analysis and mtDNA in archaeological bone. Journal of Archaeological Science 126, February 2021, 105311.

Höfundar

 • Ævar Petersen

  Ævar Petersen (f. 1948) lauk BS-Honours-prófi í dýrafræði frá Aberdeen-háskóla í Skotlandi 1973 og doktorsprófi í fuglafræði frá Oxford-háskóla á Englandi 1981. Ævar er nú á eftirlaunum.

  [email protected] Petersen Ævar
 • Snæbjörn Pálsson

  Snæbjörn Pálsson (f. 1963) er prófessor í stofnlíffræði við Háskóla Íslands. Hann lauk BS-prófi í líffræði frá Háskóla Íslands 1988, meistaraprófi frá Vist-og þró- unarfræðideild New York-háskóla í Stony Brook 1992 og doktorsprófi í erfðafræði frá Uppsala-háskóla 1999. Árin 2000-2001 vann Snæbjörn hjá tölfræðideild Íslenskrar erfðagreiningar en frá 2002 hefur hann stundað rann- sóknir og kennt m.a. þróunarfræði við Háskóla Íslands. Rannsóknir Snæbjörns eru einkum á sviði stofnerfða- fræði og hafa m.a. beinst að aðgreiningu stofna, kyn- blöndun og áhrifum náttúrulegs vals á erfðabreytileika. Snæbjörn Pálsson Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands Öskju | Sturlugötu 7, IS-102 Reykjavík | [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24