Orðið kyn er lykilhugtak bæði í daglegu tali víða um heim og í ýmsum fræðum. Lengst af hafa líffræðileg kyn talist tvö (karlar og konur), en nú er það ekki lengur óumdeilt.1Eiríkur Rögnvaldsson 2019. Kynusli. Á vefsvæði höfundar hjá HÍ, slóð (skoðað 25.6. 2025): https://uni.hi.is/eirikur/2019/10/18/kynusli/,2Hinsegin frá Ö til A, slóð (skoðað 25.6.2025): https//otila.is Deilum um kynjahugtakið, ekki síst fjölda kynja, fylgir talsverður hávaði, enda varðar þetta mörg svið samfélagsins, m.a. löggjöf, uppeldi og mannréttindi. Stundum er talað um kynusla, bæði í líffræðilegum og málfræðilegum skilningi. Í þessari grein er fjallað um kynjaumræðu samtímans. Hvað hefur fræðigreinin um manninn, sem ég hef lengst af lagt stund á, fram að færa í þessum efnum? Þá er meðal annars greint frá nýrri bók eftir kunnan bandarískan sérfræðing á sviði líffræðilegrar mannfræði, Agustín Fuentes, sem ber heitið Sex is a Spectrum.
Íslenska hagstofan, sem fylgist náið með þegnum landsins – rétt eins og Ágústus keisari (27 f.Kr. – 14 e.Kr) innan marka Rómarveldis forðum þegar hann lét „boð út ganga“ – gerir nú ráð fyrir nýjum flokki fólks, „kynsegin/ annað“. Opinber kyn íbúa á Íslandi eru þá orðin fjögur, jafnvel fleiri. Samkvæmt mannfjöldaskýrslu Hagstofunnar voru 199.622 karlar, 189.623 konur og 199 kynsegin/ annað búsett á landinu í upphafi árs 2025.3Hagstofa Íslands 2025, 12. mars. Íbúar landsins voru 389.444 í byrjun ársins. Frétt á vefsetri Hagstofu Íslands, slóð (skoðað 25.6. 2025): https://hagstofa.is/ utgafur/frettasafn/mannfjoldi/mannfjoldinn-1- janúar-2025/ Athyglisvert er að þótt körlum og konum hafi ekki fjölgað svo nokkru nemi frá fyrra ári (körlum um 1,6%, konum um 1,4%) hefur kynsegin/annað fjölgað um 25,2%. Árið 2022 voru aðeins 70 skráðir kynsegin/annað, í janúar 2025 hafði fjöldi þeirra næstum þrefaldast. Þetta minnir á vaxandi þjóðfélagsumræðu um kynferði, merkimiða kynjanna, þýðingu þeirra og inntak, og rétt fólks til að kalla sig eins og það kýs. Bandaríski kynjafræðingurinn Anne Fausto-Sterling bendir á að oft sé erfitt að ákvarða hlutfall intersex-fólks (með ódæmigerð kyneinkenni): „Þetta eru ekki endilega upplýsingar sem fólk kemur á framfæri í starfsviðtölum.“4Fausto-Sterling, A. 1993, 12. mars. How Many Sexes Are There? The New York Times. A, 29., slóð: https://nyti.ms/29dOkrx Hver vill vera „tvíkynjungur“ eða „viðrini“? Samt eru þetta mikilvægar upplýsingar um breytileika fólks, rétt eins og kynþáttur, sem reyndar veldur ekki minni usla en kyn.5Marks, J. 2024. Understanding Human Diversity. Cambridge: Cambridge University Press. Rafbók, aðgangur um slóðina: https://doi.org/10.1017/9781009534314 (Sjá 7. kafla). En telji fólk sig „trans“ (með kynvitund sem samræmist ekki því kyni sem því var úthlutað við fæðingu), er þá ekki sjálfsagt að virða það?1Eiríkur Rögnvaldsson 2019. Kynusli. Á vefsvæði höfundar hjá HÍ, slóð (skoðað 25.6. 2025): https://uni.hi.is/eirikur/2019/10/18/kynusli/
Töluvert hefur að undanförnu verið deilt um fjölgun kynja, bæði á Íslandi og erlendis, ástæður hennar, réttmæti og þýðingu fyrir lagasetningu, samfélag og mannréttindi. Þau líffræðilegu kyn sem hafa bæst við í málinu, umfram „karla og konur“, hafa vafalaust verið til staðar allt frá landnámi þótt merkimiðarnir hafi varla verið til nema undir rós, svo sem þegar ýjað var að skömm „kvenlegra“ samkynhneigðra karla. Lesbíur voru sjaldan á dagskrá. Þetta var hinn kynlægi heimur sem birtist fljótlega eftir landnám í kjölfar kristnitöku í karlmiðaðri frásögn Íslendingasagna. En þótt raddir kvenna séu oft faldar í Íslendingasögum má víða greina þær að baki sagnanna, eins og Helga Kress hefur rakið í verkum sínum.6Helga Kress 1996. Fyrir dyrum fóstru: Greinar um konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum. Háskóli Íslands, Rannsóknarstofa í kvennafræðum, Reykjavík. 244 bls.
Helga hefur rækilega staðfest kynusla (ef það er rétta orðið) í fornbókmentunum, þar sem ummyndanir hins kvenlæga og karllæga ber oft á góma, meðal annars í aðdróttunum um kvenleika karla og ókvenleika kvenna. Í Brennu-Njáls sögu (kafla 123) segir Flosi um Njál hinn skegglausa, á þingi: “því að margir vita eigi er hann sjá hvort hann er karlmaður eða kona”. Hann er með öðrum orðum hvorugt. Háð af þessu tagi kann að benda til þess að kynjatvíhyggjan hafi ekki verið til staðar á landnámsöld. En ef til vill má líta svo á að tvíhyggjan hafi einmitt verið sá rammi sem uslinn hverfðist um, án hennar hefðu ummyndanir kynja verið ósannfærandi eða óhugsandi. Kynferði birtist ekki sem sveigjanlegt litróf heldur sem harðsvírað flokkunarkerfi7Helga Kress 1993. Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga. Háskólaútgáfan, Reykjavík. 231 bls.
HAGSTOFUR ANNARRA LANDA
Mannfræðirannsóknir víða um heim hafa leitt í ljós fjölbreytta kynjaða heima.8Ortner, S.B. 1996. Making Gender: The Politics and Erotics of Culture. Beacon, New York. 261 bls. Stundum gegnir „þriðja kynið“ mikilvægu félagslegu eða trúarlegu hlutverki, til að mynda meðal frumbyggja Norður-Ameríku, í Suðaustur- Asíu og í Indónesíu. Flóran getur orðið allflókin; í menningu Búgis-fólks á Súlavesí-eyju í Indónesíu er til að mynda gert ráð fyrir nokkrum kynjum auk karls og konu, meðal annars calabi (líffræðilegum karli sem ögrar karllægum hefðum) og calalai (líffræðilegri konu sem ögrar kvenlegum hefðum).9Davies, S.D. 2007. Challenging Gender Norms: Five Genders among Bugis in Indonesia. Thomson, Belmond. Líffræðin og kynfærin segja ekki alla söguna; þetta fólk er gjarna nánast í guðatölu. Hagstofum er vandi á höndum.
Á allra síðustu árum hefur baráttan gegn einstrengingslegri tvíkynjaflokkun og þeim fordómum og misrétti sem henni fylgja sótt í sig veðrið. Ein af tilskipunum Joes Bidens, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, kvað á um að mismunun fólks á grundvelli kynhneigðar eða kyngervis (félagslegrar vitundar) skyldi útrýmt. Nú ber hinsvegar svo við að arftaki Bidens, Donald Trump, hefur snúið þessari stefnu við. Í kosningabaráttu sinni sóttist hann eftir fylgi öfgasinnaðra kjósenda sem sáu ofsjónum yfir auknu frelsi kynsegin fólks, og skömmu eftir að hann sór embættiseiðinn í annað sinn gaf hann út nýja tilskipun þar sem bann var lagt við „óvinsælum og róttækum aðgerðum í þessum efnum hvarvetna á vegum alríkisins“. Kynin væru bara tvö, og því yrði ekki breytt: „Frá og með deginum í dag er það opinber stefna Bandaríkjanna að kynin séu aðeins tvö, karlar og konur.“10Pengelly, M. 2025, 21. janúar. Trump rolls back trans and gender-identity rights and takes aim at DEI. The Guardian.

Ljósmynd: Unsplash
Líklega var þessi tilskipun samin í hasti í andrúmslofti ákafra deilna um sanngirni í samkeppnisíþróttum. Meðal gagnrýnenda var því haldið fram að transkonur hefðu laumast inn í kveníþróttir undir fölsku flaggi. Þetta minnti á gamlar þrætur um sanngirni í stangveiðum þar sem fólk birtist skyndilega með afkastamikinn veiðibúnað sem ekki hafði áður þekkst (togveiðar voru ekki komnar til sögunnar en hefðu sannarlega fyllt mælinn). En tilskipunin var ekkert grín; grundvallarmannréttindum var fórnað fyrir samkeppnisstöðu innan íþrótta. Bakslagið sem yfirlýsing Trumps um þetta efni var hluti af, var ekki bundið við Bandaríkin eða pólitískan vettvang þeirra. Nýlega kvað Hæstiréttur Bretlands upp þann úrskurð að transkonur féllu ekki undir sömu ákvæði jafnréttislaga og aðrar konur.11Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir 2025, 21. apríl. Þegar líf fólks er smættað í lagalega skilgreiningu. Heimildin. Vissulega er eðlismunur á forsetatilskipun og hæstaréttardómi, en í báðum tilvikum er verið að festa í sessi þá hugmynd að kvennarými séu ekki fyrir transkonur.
VITNISBURÐUR FRÆÐANNA
Mannfræðingar hafa bent á að skilningur fólks á lífheiminum og náttúrunni mótist óhjákvæmilega af menningu og samfélagi. Þetta á ekki aðeins við svokallaðan almenning, heldur einnig vísindalegar rannsóknir og fræði. Kunn er rannsókn Emily Martin á störfum og verkum líffræðinga sem stunduðu rannsóknir á eggjum og sæði. Á síðustu öld var yfirleitt litið svo á að eggið „hvíldi hálfsofandi“ í eggjastokkum konunnar og biði þess að frjóvgast þegar „fjörlegt sæði“ karlsins færi á kreik. Eggið væri þolandinn í rómantík lífsins en karlinn gerandi, „skapari sögunnar“. Löngu eftir að bent hafði verið á að slík túlkun væri vafasöm, jafnvel beinlínis röng, kepptust kennslubækur á sviðinu við að endurtaka klisjuna.12Martin, E. 1991. The egg and the sperm: How science has constructed a romance based on stereotypical malefemale roles. Signs 16(3). 485−501. Martin hélt því fram að þessi tregða ætti rætur að rekja til rótgróinna staðalmynda hins karllæga og hins kvenlega í menningu samtímans.
Þótt ímyndað valdakerfi eggs og sæðis nái langt út fyrir kvenlíkamann, er vægi þess fráleitt jafn djúpstætt og hinn raunverulegi kynjaði heimur sem oftast mætir nýfæddu barni. Það er kannski ekki að furða að klisjan um „náttúrulegu“ kynin tvö sé jafn lífseig og raun ber vitni. Erfiðara er að afbyggja hana en ævintýrið um eggið og sæðið þar sem hún á djúpar rætur í sögu og menningu Vesturlanda og miklir hagsmunir eru óhjákvæmilega í húfi: völd, erfðir, réttindi og skyldur. Löggjafanum er vandi á höndum þegar kemur að kynferði, enda getur ákvörðun um kyn haft úrslitaáhrif á rétt til náinna kynna og stofnunar fjölskyldu. Víða á Vesturlöndum hefur þessi réttur verið rýmkaður á síðustu áratugum, en sums staðar hefur hann jafnharðan verið þrengdur.

Anne Fausto-Sterling
Ljósmynd: Wikimedia Commons
Oft hefur verið litið svo á að tilvist kynseginfólks sé til marks um óeðli eða fráhvarf frá mennsku. Mikilvægt sé að leiðrétta skaðlega sjálfsmynd, hegðun og líkamsbyggingu. Það sé öllum fyrir bestu. Þegar skurðaðgerðir komu til sögunnar var hafist handa við að laga „afbrigðilegt fólk“ að normi samfélagsins, leiðrétta kynvitund þess og líkamsbyggingu. Anne Fausto-Sterling benti í tímamótagrein í The New York Times árið 1993 á að fyrir vikið væri fátítt að intersexfólk varðveitti upprunalegt kyn sitt. Börn með óvenjuleg æxlunarfæri væru gripin fljótlega eftir fæðingu og látin gangast undir hormónameðferð og skurðagerð „svo þau gætu í kyrrð og ró komið sér fyrir í samfélaginu meðal gagnkynhneigðra samborgara.“4Fausto-Sterling, A. 1993, 12. mars. How Many Sexes Are There? The New York Times. A, 29., slóð: https://nyti.ms/29dOkrx Að sumu leyti voru þetta vissulega framfaraspor, aðgerðir auðvelduðu mörgum lífið, og í vaxandi mæli fóru þær fram í samráði við nánustu fjölskyldu. En mannúðarstarfið gekk of langt, segir Fausto-Sterling; gengið var út frá því að aðeins gagnkynhneigð væri eðlileg.
Fausto-Sterling komst að þeirri niðurstöðu að ef ríkisvaldinu og löggjafanum væri annt um að viðhalda tveggja-flokka kynjakerfi þá væru þau að bjóða náttúrunni byrginn – því líffræðilega séð væru mörg þrep á milli hins kvenlega og hins karllega. Á því litrófi væru að minnsta kosti fimm kyn, kannski enn fleiri. Hún (ef það er kórrétt persónufornafn) hafði sett sér það markmið með stuttri grein sinni að ýta við fólki – og viðbrögðin létu ekki á sér standa. Áður en langt um leið birtu Kaþólsku samtökin fyrir trúarlegum og borgaralegum réttindum auglýsingu í The New York Times, þar sem sagði: „Það ærir óstöðugan að heyra fólk tala um ‘fimm kyn’ þar sem öllum heilbrigðum manneskjum er ljóst að kynin eru aðeins tvö, og að bæði eiga rætur í náttúrunni.“13Fausto-Sterling, A. 2020. Sexing the Body: Gender Politics and the Construction of Sexuality. Basic Books, New York. 608 bls. (Tilv. bls. ix).
Fausto-Sterling þekkir flækjur kynjamálsins vel af eigin raun. Í formála bókar sinnar Sexing the Body: Gender Politics and the Construction of Sexuality, sem fyrst kom út árið 2000, segist hún vel til þess fallin að fjalla um efnið, sjálf hafi hún í gegnum tíðina „óhikað ýmist kallað sig gagnkynhneigða, lesbíu eða eitthvað þar á milli“.13Fausto-Sterling, A. 2020. Sexing the Body: Gender Politics and the Construction of Sexuality. Basic Books, New York. 608 bls. (Tilv. bls. ix). Í vissum skilningi flokkast bók hennar undir það sem hefur verið kallað „mannfræði á heimaslóðum“ (e. anthropology at home). Vettvangur Fausto-Sterling er að hluta til hún sjálf og hennar eigið líf. Hún fer ýtarlega yfir kynjamálið í ljósi eigin reynslu og rannsókna í líffræði, náttúruvísindum og hugvísindum. Yfirleitt forðast hún eðlishyggju og sækir til hugsuða á borð við Donnu Haraway, sem líta á líffræði sem stjórnmálastarfsemi og á kyngervi (e. gender) og kynjun sem líkömnuð (e. embodied) ferli í hringrás lífsins þar sem náttúra og uppeldi renna saman í eina sæng (nature/ nurture).14Ingold, T. og Gísli Pálsson (ritst.) 2013. Biosocial Becomings: Intergrating Social and Biological Anthropology. Cambridge University Press, Cambrigde.
LÍFFRÆÐILEGIR ANNMARKAR TVÍHYGGJUNNAR
Um það leyti sem Donald Trump gaf út tilskipunina um tvö lögmæt kyn á sinni hagstofu, aldarfjórðungi eftir að Fausto-Sterling gaf út áðurnefnda bók, sendi bandaríski líffræðilegi mannfræðingurinn Agustín Fuentes frá sér bókina Sex is a Spectrum.15Bateman’s Sexual Selection: Another Darwinian Pillar Falls 2012, 18. júní. Evolution News, 2012. Slóð (skoðað 26.6. 2025): https://evolutionnews.org/2012/06/ batemans_sexual/ Líffræðileg mannfræði Fuentes fjallar um eðli og uppruna Homo sapiens, fjölbreytni tegundarinnar og samanburð við skyldar tegundir. Í nútíma kynjaumræðu er eðlilegt að líta svo á að líffræðileg mannfræði sé nátengd öðrum fræðum, ekki síst félagslegri mannfræði sem meðal annars fjallar um kyngervi og kynjaheima í ólíkum menningum og tímum. Grein Emily Martin um egg og sæði, sem áður var greint frá, minnir einmitt á þennan mikilvæga snertiflöt. Hver er þá kjarninn í líffræðilegri mannfræði Fuentes í þessu víðfeðma samhengi?

Ljósmynd: Unsplash
Rannsóknum á líffræði æxlunar, sem Fuentes kallar líffræði kyns (e. sex biology), hefur fleygt fram á síðustu árum. Markmið Fuentes er að draga saman það sem nú er vitað um efnið, hvað megi af því læra og hvernig tiltæk þekking geti orðið að liði í skólastarfi, við setningu laga og í daglegu lífi. Rannsóknir á heimi annarra dýra, forsögu mannkyns og lífi fólks nú til dags sýni að líffræði kyns snúist ekki um tvenndir, hið karllæga og kvenlæga. Líffræði æxlunar sé vissulega áhrifavaldur í lífi fólks, en ráðandi tvíhyggja sé skaðleg spennitreyja sem grafi undan mannréttindum. Auk þess segi framleiðsla eggja og sæðis mun minna um líffræði okkar en oft sé haldið fram.
Fuentes bendir á að hugmyndin um líffræðilega aðskilin kyn eigi sér tiltölulega skamma sögu. Fræði Rómverja og Grikkja til forna (þeirra á meðal Aristótelesar og Hippókratesar) gerðu ekki ráð fyrir því að karlar og konur væru tveir aðskildir flokkar lífvera. Það var fyrst á 20. öld sem líffræðingar tóku að beina sjónum sínum að kynfrumum, og töldu að munurinn á sáðfrumum og eggfrumum skýrði líffræðilegan mun á körlum og konum. Kynin tvö hefðu lagast að mismunandi aðstæðum, framleiðslu sæðis og eggja sem lytu ólíkum lögmálum í samkeppni lífsins, í samræmi við „úrval náttúrunnar“ sem kenning Charles Darwins og Alfreds Russels Wallaces gerði ráð fyrir. Enski erfðafræðingurinn Angus John Bateman (1919–1996) leiddi rök að því, með tilvísun í tilraunir sem hann gerði á bananaflugum árið 1948, að náttúruval kynja helgaðist af því að sæði karlsins væri mun ódýrara líffræðilega séð í framleiðslu en egg konunnar, sem væru föst stærð og, fyrir vikið verðmætari. Áratugum saman var litið á „reglu Batemans“ sem heilög sannindi og miklir kenningarlegir loftkastalar byggðir á henni, en endurteknar tilraunir árið 2012 leiddu í ljós vilhalla skekkju og hröktu niðurstöður hans.16Fuentes, A. 2025. Sex is a Spectrum: The Biological Limits of the Binary. Princeton University Press, Princeton. 216 bls. (Tilv. bls. 42, 43, 48 og 50).
Þótt kynfrumur séu tvenns konar, segir Fuentes, séu kerfin og líkamarnir sem framleiða þær það ekki. Þegar mannfólk er annars vegar sé málið sérlega flókið. Mannslíkaminn mótist og starfi í félagslegu og menningarlegu umhverfi sem óhjákvæmilega elur hann. Þess vegna sé nauðsynlegt að gera ráð fyrir kyngervi, því hvernig fólk hugsi og tali um kyn, sem ekki verði rakið til líffræðinnar einnar. Kyngervi (kvenleiki og karlmennska) mótist af félagslegum aðstæðum. Í mannheimi sé kyn því óhjákvæmilega líffélagslegt („biocultural“ með tungutaki Fuentes). Eins og Simone de Beauvoir benti einnig á, og frægt er orðið: „Við fæðumst ekki sem konur, við verðum konur“. Við fæðumst ekki heldur karlar eða eitthvað annað, eins og Rúnar Helgi Vignisson ítrekar í bók sinni Þú ringlaði karlmaður, heldur verðum karlar.17Rúnar Helgi Vignisson 2024. Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Græna húsið. Garðabær. 243 bls.

Ljósmynd: Unsplash
Fólk fæðist vissulega með ólík æxlunarfæri – ekki aðeins „karlleg“ eða „kvenleg“ – en kyngervið er ekki meðfætt, það „verður“. Leitt hefur verið í ljós með heilaskönnun að misrétti kynja (félagslegur aðbúnaður) endurspeglast í líffræðilegum og taugafræðilegum viðbögðum.18Gísli Pálsson 2013. Örkin hans Nóa: Nim Chimpsky og við hin. Bls. 129 –148 í: Chomsky: Mál, sál og samfélag (ritstj. Höskuldur Þráinsson og Matthew Whelpton). Háskólaútgáfan, Reykjavík. Þannig hefur kyngervi bókstaflega áhrif á heilastarfsemi, líffræðina „sjálfa“. Sagan sýnir að öldum saman var kyngervi transfólks viðurkennt og því fylgdi gjarna mikilvægt menningarlegt hlutverk, allt eftir aðstæðum. Þessar hefðir voru þaggaðar niður eða bannaðar samfara útbreiðslu kristni í kjölfar nýlendustefnu en hafa nú víða fengið aukið rými á ný í kynjapólitík aldarinnar, með kyngervum samtímans.
KYNGERVI PRÍMATA?
Til að skilja líffræði kyns í mannheimi þarf að hverfa aftur til upphafs og þróunar lífs á jörðinni. Skyldi vera réttmætt að tala um kyngervi í lífi annarra prímata? Verða þeir kynverur eftir fæðingu, með sama hætti og við? Fuentes svarar því ekki beint þótt hann telji að margt megi læra af rannsóknum á skyldmennum okkar. Hann bendir á að „líkamarnir sem við göngum í og samfélögin sem við búum við hafi mótast af prímataarfi okkar … og þróunarsögu annarra lífvera mannættar,“ og ljóst megi vera af rannsóknum „að félagshegðun prímata og tengsl hafi mótandi áhrif á hvernig þeir túlka líffræði kynja.“ Þegar haft sé í huga hversu djúpt rætur líffræðilegra kynja liggi í sögu mannvera segir Fuentes það ekki vera að furða að líkamar og hegðun, bæði innan og milli tegunda, endurspegli mikinn breytileika. Samanburðinn við þróun mannsins eftir að leiðir skildu með honum og öðrum prímötum veiti skarpa sýn á reynslu og líffræði kynja hjá mönnum nú á tímum. Síðustu fimm til átta þúsund ár festust nútíma kynjahlutverk í sessi hjá tegundinni. Fyrstu merki um þetta sjást í frumstæðu haugfé sem fornleifafræðingar drógu fram í dagsljósið, misjafnt eftir kven- eða karlkyni þess sem grafinn hafði verið.
Kyngervi verður varla til án einhvers konar orðræðu og máls og margir málfræðingar, með Noam Chomsky í broddi fylkingar, telja að Homo sapiens ein tegunda eigi tungumál. Kunnar eru rannsóknir á máltöku simpansans Nim Chimpsky, sem var alinn upp á rannsóknarstofu í Bandaríkjunum og nefndur nokkurn veginn í höfuðið á Chomsky.18Gísli Pálsson 2013. Örkin hans Nóa: Nim Chimpsky og við hin. Bls. 129 –148 í: Chomsky: Mál, sál og samfélag (ritstj. Höskuldur Þráinsson og Matthew Whelpton). Háskólaútgáfan, Reykjavík. Reynt var að skera úr um það hvort Chimpsky væri fær um að „tala“ við rannsakendur með aðstoð tákna. Chimpsky lærði fjölda tákna, hermdi eftir en bryddaði ekki upp á samræðum. Svarið við því hvort Chimpsky og önnur tilraunadýr búi yfir „tungumáli“ og „orðræðu“ fer eftir því hvernig við skilgreinum þessi hugtök. Ef kyngervi snýst um hefðir sem tengjast aðskilnaði og samskiptum kynja, má jafnframt gera ráð fyrir kyngervi hjá öðrum prímötum – jafnvel víðar í dýraríkinu.19Haraway, D 2008. When Species Meet. University of Minnesota Press, Minneapolis. 360 bls.Hugtök á borð við „mál“ og „orðræðu“ eru mannmiðuð, en mikilvægt er að viðurkenna að margar tegundir dýra hafa flókna vitsmunalega færni, eins og rannsóknir síðustu aldar sýna.20von Uexküll, J. 2010/1934. A Foray into the Worlds of Animals and Humans with a Theory of Meaning. Þýð. J.D. O’Neil. University of Minnesota Press, Minneapolis. 248 bls. (þ. Streifzüge durch die Umwelten von Tieren und Menschen: Ein Bilderbuch unsichtbarer Welten).

Ljósmynd: Unsplash
Á 19. öld varð vísindamönnum sem fengust við líkamsbyggingu Homo sapiens ljóst að ytri kynfæri voru margs konar og erfitt var að draga fólk í tvo aðskilda dilka á þeim grunni. Kannski var það einmitt af þessum ástæðum að rannsóknir beindust að kynfrumum, eggjum og sæði. Bateman byggði tvíhyggju sína á traustum, einföldum forsendum, sem virtust skýra margt í mannkynssögunni og festust fljótt í sessi. Síðar var bent á að lífverur af kvísl mannættar þróuðu með sér uppeldishætti sem einkenndust af því að móðirin var aldrei ein. Áhyggjur af afkomu afkvæma hvíldu ekki á herðum mæðranna einna. Náin og flókin samvinna föður og móður í uppeldinu hafði mikla þróunarfræðilega þýðingu, pörun varð mikilvæg og kynlífið snerist ekki aðeins um getnað. Þessar staðreyndir og endurteknar tilraunir að hætti Batemans settu spurningar við kynjakenningar sem einblíndu á „náttúruval“ kynfrumna karla og kvenna. Líffræðin hefur enga skoðun á því hvað sé usli, en tveggja-flokka kerfið stangast á við allt sem við vitum um þróun og lifnaðarhætti Homo sapiens auk þess sem það samræmist ekki nútíma kröfum um mannréttindi.
ÞAKKIR
Ég þakka Margréti Rósu Jochumsdóttur, ritstýru, Helgu Kress, Helga Bernódussyni og Merði Árnasyni fyrir afar gagnlegar ábendingar.
HEIMILDIR
- 1Eiríkur Rögnvaldsson 2019. Kynusli. Á vefsvæði höfundar hjá HÍ, slóð (skoðað 25.6. 2025): https://uni.hi.is/eirikur/2019/10/18/kynusli/
- 2Hinsegin frá Ö til A, slóð (skoðað 25.6.2025): https//otila.is
- 3Hagstofa Íslands 2025, 12. mars. Íbúar landsins voru 389.444 í byrjun ársins. Frétt á vefsetri Hagstofu Íslands, slóð (skoðað 25.6. 2025): https://hagstofa.is/ utgafur/frettasafn/mannfjoldi/mannfjoldinn-1- janúar-2025/
- 4Fausto-Sterling, A. 1993, 12. mars. How Many Sexes Are There? The New York Times. A, 29., slóð: https://nyti.ms/29dOkrx
- 5Marks, J. 2024. Understanding Human Diversity. Cambridge: Cambridge University Press. Rafbók, aðgangur um slóðina: https://doi.org/10.1017/9781009534314 (Sjá 7. kafla).
- 6Helga Kress 1996. Fyrir dyrum fóstru: Greinar um konur og kynferði í íslenskum fornbókmenntum. Háskóli Íslands, Rannsóknarstofa í kvennafræðum, Reykjavík. 244 bls.
- 7Helga Kress 1993. Máttugar meyjar: Íslensk fornbókmenntasaga. Háskólaútgáfan, Reykjavík. 231 bls.
- 8Ortner, S.B. 1996. Making Gender: The Politics and Erotics of Culture. Beacon, New York. 261 bls.
- 9Davies, S.D. 2007. Challenging Gender Norms: Five Genders among Bugis in Indonesia. Thomson, Belmond.
- 10Pengelly, M. 2025, 21. janúar. Trump rolls back trans and gender-identity rights and takes aim at DEI. The Guardian.
- 11Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir 2025, 21. apríl. Þegar líf fólks er smættað í lagalega skilgreiningu. Heimildin.
- 12Martin, E. 1991. The egg and the sperm: How science has constructed a romance based on stereotypical malefemale roles. Signs 16(3). 485−501.
- 13Fausto-Sterling, A. 2020. Sexing the Body: Gender Politics and the Construction of Sexuality. Basic Books, New York. 608 bls. (Tilv. bls. ix).
- 14Ingold, T. og Gísli Pálsson (ritst.) 2013. Biosocial Becomings: Intergrating Social and Biological Anthropology. Cambridge University Press, Cambrigde.
- 15Bateman’s Sexual Selection: Another Darwinian Pillar Falls 2012, 18. júní. Evolution News, 2012. Slóð (skoðað 26.6. 2025): https://evolutionnews.org/2012/06/ batemans_sexual/
- 16Fuentes, A. 2025. Sex is a Spectrum: The Biological Limits of the Binary. Princeton University Press, Princeton. 216 bls. (Tilv. bls. 42, 43, 48 og 50).
- 17Rúnar Helgi Vignisson 2024. Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu. Græna húsið. Garðabær. 243 bls.
- 18Gísli Pálsson 2013. Örkin hans Nóa: Nim Chimpsky og við hin. Bls. 129 –148 í: Chomsky: Mál, sál og samfélag (ritstj. Höskuldur Þráinsson og Matthew Whelpton). Háskólaútgáfan, Reykjavík.
- 19Haraway, D 2008. When Species Meet. University of Minnesota Press, Minneapolis. 360 bls.
- 20von Uexküll, J. 2010/1934. A Foray into the Worlds of Animals and Humans with a Theory of Meaning. Þýð. J.D. O’Neil. University of Minnesota Press, Minneapolis. 248 bls. (þ. Streifzüge durch die Umwelten von Tieren und Menschen: Ein Bilderbuch unsichtbarer Welten).