Vatnið bjarta Þingvallavatn – Undraheimur í mótun

PDF Skjal

Þingvallavatn er eitt stærsta stöðuvatn Íslands og með þeim allra dýpstu, björtustu og fiskisælustu. En Þingvallavatn er sannarlega miklu meira en þessar lýsingar segja til um. Þingvallavatn er heill heimur, sannkallaður undraheimur, þar sem fléttast saman einstök jarðfræði og líffræði sem á hvergi sinn líka. Hér á flekaskilum Mið-Atlanthafshryggjarins, eina staðnum þar sem ganga má á honum þurrum fótum, skiljast vestrið og austrið að, og nýtt land verður til í krafti eldvirkni á gosbeltinu sem sker landið í tvennt. Hér á Þingvallavatn heima – í ungu, lítt mótuðu landi, landi tækifæra og nýsköpunar, á vettvangi nýmyndunar og þróunar lífs og jarðar.

En þessi undraheimur er ekki eyland. Þingvallavatn og vatnasvið þess er órofa hluti af stærri heild, Íslandi og jörðinni allri og fylgir margslungnu samspili efnis og orku, á sífelldu iði og hringrás. Frumefni Þingvallavatns, vetnis- og súrefnisatóm, og samband efnanna, vatnsmólikúlin, hafa frá árdögum jarðar ferðast um loft, láð og lög og munu gera áfram. Sum vetnisatómin sem nú má finna í Silfru gætu hafa átt sér samastað í líkama risaeðlu fyrir um 65 milljón árum. Eftir tíu ár er ekki útilokað súrefnisatóm í hreisturplötu murtu verði bundin í kjarnsýru kórónaveiru.

Og enn stækkar heimurinn sem Þingvallavatn tilheyrir, nú í menningarsögulegu tilliti. Á Þingvöllum var stofnað eitt elsta löggjafarþing á Vesturlöndum árið 930. Síðan hafa Þingvellir verið samofnir sögu þjóðarinnar – friðlýstur helgistaður og sameiginlegur menningar- og náttúruarfur alls mannkyns, eins og fært hefur verið til bókar í Heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, fyrst árið 2004 og síðar 2011. Þingvallavatn innan þjóðgarðsins fellur hér undir – blámi vatnsins og fegurð, brunnur vatns og lífs.  

Jónas Hallgrímsson skáld og náttúrufræðingur kallaði Þingvallavatn bjarta vatnið fiskisæla fyrir nær tveimur öldum. Það gerði hann í kvæðinu Til herra Páls Gaimard sem hann orti Fransmanninum til heiðurs og þakkaði fyrir framlag hans til rannsókna á náttúru Íslands. Með hinu bjarta vatni vísar Jónas vafalítið til tærleika Þingvallavatns, eins af megineinkennum vatnsins og lýsandi fyrir gerð þess og uppruna – hreint og tært lindavatn sprottið fram undan gropnum hraunum. Og lýsing Jónasar á gnægð fiskjar er einnig sannleikanum samkvæm. Mælingar með vísindalegum aðferðum nútímans hafa sýnt að vatnið getur gefið af sér um 45 kg af fiski af hverjum hektara á ári, alls um 380 tonn. Það er óvenju mikil framleiðni fyrir stöðuvatn á svo norðlægum slóðum. Jónas gerir náttúru Þingvallasvæðisins einnig snilldarleg skil í kvæðinu um Fjallið Skjaldbreið þar sem hann lýsir af næmleik vatnanáttúru og sköpun jarðmyndana á svæðinu. Jónas nam náttúrufræði við Hafnarháskóla og það er ekki fjarri að kalla hann fyrsta íslenska vistfræðinginn, svo heildstætt sem hann skynjar náttúruna. 

Annar vistfræðingur og nær okkur í tíma er Pétur M. Jónasson pófessor emeritus í vatnalíffræði við Hafnaháskóla. Pétur, sem verður 100 ára í ár, hefur á langri ævi helgað sig rannsóknum á sviði vatnavistfræða og fengist við athuganir á stöðu- og straumvötnum á Íslandi, Danmörku, Noregi og víðar. Þetta hefti Náttúrufræðingsins er helgað Þingvallavatni og gefið út Pétri til heiðurs fyrir hið stórmerka ævistarf hans og framlag á sviði vatnavistfræða og náttúruverndar, hér heima og erlendis. Sjónum er beint að Þingvallavatni og vatnasviði þess – vatninu sem Pétur kynntist ungur sem smali í Miðfelli og síðar meir sem forystumaður fyrir umfangsmiklum alþjóðlegum rannsóknum á vistfræði alls vatnasviðsins. 

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-15-at-09.35.54.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/THingvellir-THingvallavatn-MWL0023505-55-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/2_mynd_-ansi-litil-oxfoss-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/1-mynd_thingvellir.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/3_MYND-PIC00028.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-15-at-10.02.06.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-15-at-10.03.53.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/4_mynd-IMGP3046.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/5-mynd-11-cm-taeplega-5_PIC00021.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/6.-mynd-STODVARHUS.jpg

Höfundur

  • Stjórnandi

    Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24