Tunglfiskur (Mola mola) á Íslandsmiðum í ljósi veðurfarsbreytinga

PDF Skjal

Tunglfiskur, Mola mola, er útbreiddur bæði á hitabeltissvæðum og tempruðum svæðum heimshafanna. Vitneskja um útbreiðsluna er hins vegar afar gloppótt og stafar það aðallega af skorti á kerfisbundinni skráningu og birtingu upplýsinga í vísindaritum. Í þessum pistli er greint frá 32 tilfellum þar sem tunglfiskur hefur fundist rekinn á fjörur, sést í sjó eða veiðst á Íslandsmiðum á árunum 1845 til 2019 og hafa þessir staðir verið settir nákvæmlega á kort. Flestir fiskanna hafa veiðst eða hefur skolað á land á suður- og vesturströndinni, þ.e. á þeim slóðum þar sem aðflæði hlýs Atlantssjávar upp að landinu er hvað mest. Aukinn fjöldi skráðra tilfella um komur tunglfisks upp að landinu í upphafi 21. aldar og þá sérstaklega á árinu 2012 tengist líklega auknu flæði hlýsjávar upp að landinu og hækkuðum sjávarhita yfir landgrunninu frá því um síðustu aldamót. Í langtímasamhengi er góð samsvörum á milli skráninga um komur tunglfisks á Íslandsmið og jákvæðra fasa í svokölluðum AMO-vísi (e. Atlantic Multidecadal Oscillation) sem mælir náttúrulegan langtímabreytileika í yfirborðshita í Norður-Atlantshafi.

EFNIVIÐUR OG AÐFERÐIR

Í upphafi voru allar frumheimildir sem vísað er til í samantekt Bjarna Sæmundssonar2 yfirfarnar með tilliti til upplýsinga sem taldar voru skipta máli fyrir ýtarlega samantekt og nákvæma skráningu fundarstaða tunglfisks í langtímasamhengi.27–33 Í flestum tilfellum gáfu frumheimildir nákvæma lýsingu á fundarstað rekinna tunglfiska. Allar nýrri heimildir, þ.e. eftir 1939, sem talið var líklegt að geymdu upplýsingar um reka eða komu tunglfisks upp að landinu voru ennfremur yfirfarnar. Við þá vinnu var meðal annars notast við vefsetrið Tímarit.is, farið yfir alla skráningu sjaldséðra fiska í gagnagrunni sem vistar upplýsingar úr rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar, og kannaður afladagbókagrunnur fiskiskipa hjá Fiskistofu. Á grundvelli þessarar úrvinnslu voru staðir allra rekinna tunglfiska, fiska sem sést höfðu úti á sjó og fiska sem höfðu komið í veiðarfæri settir út í kort og lengdar- og breiddarhnit þeirra síðan ákvörðuð. Þegar staðarlýsing var ekki talin nægilega nákvæm var miðpunktur á hinum tilgreinda fundarstað ákvarðaður og hann talinn fundarstaður í viðkomandi tilfelli. Nákvæmar upplýsingar um þá staði þar sem tunglfiskar hafa verið skráðir eftir 1990 voru fengnar úr afladagbókum viðkomandi fiskiskipa eða með beinu samtali við þann sem fyrstur sá fiskinn í sjónum eða greindi frá reknum fiski.

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/1_mynd_Tunglfiskur_orginal-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-07-01-at-13.11.44.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-07-01-at-13.15.26.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-07-01-at-13.17.08.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-07-01-at-13.17.19.png

Höfundur

  • Stjórnandi

    Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24