Þjóðargersemi á miðhálendi Íslands

PDF Skjal

Fyrsti þjóðgarður í heimi var stofnaður í Yellowstone í Bandaríkjunum árið 1872 með það að markmiði að vernda einstaka náttúru og víðerni. Í kjölfarið stofnuðu fleiri ríki þjóðgarða, oft á tíðum til að vernda náttúruna fyrir einhvers konar nýtingu, svo sem námugrefti eða orkuframleiðslu. Framan af heimsóttu fáir hrjóstruga og ógnvekjandi náttúru þjóðgarðanna en á undanförnum áratugum hafa vinsældir slíkra svæða aukist mjög og eykst gjarnan áhugi ferðamanna á að heimsækja svæði eftir að þau hafa verið gerð að þjóðgarði.1

Þjóðgarðar gegna tvenns konar hlutverki: Annars vegar að vernda náttúruna og menningarminjar sem þar er að finna og hins vegar að gefa fólki kost á að kynnast svæðinu og njóta þess að vera þar. Sums staðar hefur ferðamönnum fjölgað það mikið að árekstrar hafa orðið milli þessa tveggja þátta og hefur það verið ein megináskorunin við stjórn þjóðgarða undanfarna áratugi. Til þess að ná báðum þessum markmiðum, sem stundum geta verið mótsagnakennd, eru gerðar skipulags- og verndaráætlanir fyrir þjóðgarða þar sem leitast er við að ná jafnvægi í þessu tvíþætta hlutverki garðanna. Þá er gjarnan tekið frá lítið afmarkað svæði fyrir uppbyggingu innviða til að taka á móti gestum en jafnframt ákveðið að stór svæði gegni fyrst og fremst því hlutverki að vernda náttúruna fyrir komandi kynslóðir.

Miðhálendi Íslands er um margt einstakt og þar er að finna eitt víðfeðmasta óbyggða svæði í Evrópu. Eldur og ís hafa mótað sérstakt og fjölbreytt landslag, og hæð yfir sjávarmáli, úrkoma og norðlæg lega landsins marka þann gróður og dýralíf sem þar er að finna. Í hugum ferðalanga felst aðdráttarafl hálendisins í þessari einstöku náttúru, en ekki síður í því að þar má hvíla hugann frá amstri hversdagsins í umhverfi þar sem lítið fer fyrir mannvirkjum og fáir eru á ferð.

Rúmlega þriðjungur Íslands telst til víðerna,2 þ.e. svæða sem eru ósnortin af umsvifum mannsins. Í stefnumörkun stjórnvalda kemur fram að tryggja skuli að stór samfelld víðerni verði áfram að finna á Íslandi.3 Samkvæmt Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands stafar víðernum á Íslandi fyrst og fremst ógn af tvennu: Af orkuframleiðslu og af ferðamennsku og áhrifum hennar, svo sem utanvegaakstri og uppbyggingu innviða.

Ferðamönnum á hálendinu hefur fjölgað mikið á undanförnum árum og munar mest um gífurlega fjölgun erlendra ferðamanna sem koma til landsins. Samkvæmt könnun Ferðamálastofu fóru rúm 15% erlendra ferðamanna um Kjöl og tæp 13% heimsóttu Landmannalaugar árið 2019.4 Auk þess
hafa um 6–12% Íslendinga ferðast um
hálendið á undanförnum áratug.5 Búast má við miklum ferðavilja á helstu markaðssvæðum landsins þegar kórónuveirufaraldurinn er yfirstaðinn og laðar náttúra Íslands og fámenni eflaust marga að. Því má gera ráð fyrir að ásókn inn á hálendið aukist enn frekar á næstu árum. Hálendi Íslands er hins vegar einstaklega viðkvæmt. Nú þegar má greina ákveðin hættumerki um að þolmörkum ferðamennsku á sumum stöðum hálendisins sé náð. Náttúran er farin að láta á sjá6 og viðhorf ýmissa ferðamanna benda til að umfang ferðamennsku sé orðið of mikið.7 Menn hafa jafnframt ólíka sýn á það hvar reisa skuli innviði á hálendinu og hversu mikla, hvaða þjónusta skuli standa til boða og hvort og þá hvernig eigi að stýra aðgengi. Til að forðast náttúruspjöll og rýra ekki þá upplifun sem ferðamenn sækjast eftir er mikilvægt að setja skýrar leikreglur til framtíðar um verndun og nýtingu hálendisins. Sé það ekki gert er hætta á að eiginleikar hálendisins hverfi smám saman með vaxandi ásókn og að þetta einstaka svæði missi aðdráttarafl sitt og sérstöðu.

Nú liggur fyrir Alþingi stjórnarfrumvarp um þjóðgarð á miðhálendi Íslands sem nær yfir 30% landsins.8 Þar er vörðuð sú leið að náttúruvernd skuli höfð að leiðarljósi í stjórnskipulagi miðhálendisins. Einn af kostunum við stóran hálendisþjóðgarð er að þá er svæðið ein stór verndar- og skipulagsheild en þannig er hægt að samræma betur landnýtingu á svæðinu og haga uppbyggingu innviða markvissar en ella. Einnig er hægt að stýra umferð ferðamanna í því skyni að hlífa viðkvæmri náttúru og stuðla að jákvæðri upplifun sem flestra af svæðinu. Eins leiðinlegt og það er að þurfa að hlíta reglum, hvað þá inni á öræfunum, eða í „landi frelsisins,“ svo að gripið sé til tungutaks Guðmundar Páls Ólafssonar, (bls. 121) í bók hans Um víðerni Snæfells, þá eru gott skipulag og reglur engu að síður lykilatriði fyrir framtíð þessa ofur-
viðkvæma töfraheims.

Vissulega er hætta á – og jafnvel líklegt – að hálendisþjóðgarður auki enn á aðdráttarafl hálendisins fyrir ferðamenn, en með skýru og vel útfærðu skipulagi ætti að vera hægt að nýta kosti þess og forðast gallana. Hálendisþjóðgarður myndi búa yfir þeirri sérstöðu að þar eru bæði óaðgengileg svæði inni á reginöræfum og jafnframt svæði aðgengileg öllum á jöðrum hans. Fyrir marga erlenda ferðamenn eru ferðalög um fámennar sveitir landsins og framandi náttúru einstök upplifun og þurfa þeir ekki endilega að fara langt inn á öræfin til að öðlast hana. Sé rétt haldið á spilum gæti hálendisþjóðgarður skapað tækifæri í ferðaþjónustu, ekki síst fyrir byggðir í nágrenni þjóðgarðsins, án þess að gengið sé of nærri þeirri auðlind sem hálendið er. Ef þess er gætt að stýra hálendisþjóðgarði á þann hátt að náttúruvernd er ávallt látin ganga fyrir og notkun hans er hagað með sjálfbærni að leiðarljósi ætti að vera hægt að viðhalda töfrum öræfanna um ókomna tíð.

Anna Dóra Sæþórsdóttir, 

prófessor við Háskóla Íslands,

stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands,

varaformaður stjórnar

Vatnajökulsþjóðgarðs.

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-10.42.30.png

Höfundur

  • Stjórnandi

    Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24