Þingvallavatn og baráttan um veginn

PDF Skjal

Inngangur

Vigdís Finnbogadóttir segir í aðfaraorðum bókar Péturs M. Jónassonar og Páls Hersteinssonar um Þingvallavatn1 að vatnið sé gersemi Íslands, geislandi af náttúrufegurð og vafið ljóma sögunnar. Þjóðargersemi og því sem næst helgur staður í hugum flestra landsmanna, mætti bæta við þessi orð Vigdísar. Við þetta vatn ólst Pétur M. Jónasson upp. Það hafði mótandi áhrif á líf hans og viðhorf til náttúruverndar. Þjóðhátíðarárið 1974 gerir Pétur, þá prófessor í vatnalíffræði við Kaupmannahafnarháskóla og vísindamaður sem nýtur alþjóðlegar viðurkenningar, samning við formann Þingvallanefndar, Framsóknarmanninn Eystein Jónsson, um rannsóknir á vatninu. Næstu þrjátíu ár helgar Pétur sig þessum rannsóknum. Rannsóknirnar leiða í ljós að Þingvallavatn á sér fáa líka í veröldinni. Vatnið er náttúruundur sem getur sagt okkur sögu um framvindu lífsins og þróun tegundanna. Það hefur alþjóðlegt vísindalegt gildi en þar birtist Mið-Atlantshafshryggurinn á þurru landi, sjálf skilin á milli tveggja heimsálfa. Á Þingvöllum er fyrsti þjóðgarður landsins, stofnaður á fyrrihluta síðustu aldar og færður á heimsminjaskrá UNESCO í upphafi þessarar aldar. Það liggur ljóst fyrir að stjórnvöld gera það sem í þeirra valdi stendur til að vernda Þingvelli og vatnið. Nema hvað? Hinn 27. mars 2008 gerir Pétur M. Jónasson kunnugt að hann þurfi að höfða mál á hendur vegamálastjóra til ógildingar úrskurði umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum Gjábakkavegar í Árnessýslu (1. mynd). Sama vor auglýsir Vegagerðin eftir tilboðum í vegaframkvæmdir.2  Hvað hefur brugðist?

Vegur 365

Í febrúar 1994 leggja þingmennirnir Guðni Ágústsson og Eggert Haukdal fram þingsályktunartillögu5 um að Vegagerð ríkisins geri „athugun á kostnaði og þýðingu þess fyrir uppsveitir Árnessýslu að gera brú yfir Hvítá við Bræðratungu og uppbyggðan veg með slitlagi frá Laugarvatni að Gjábakka, frá Felli að Múla og yfir Torfastaðaheiði [leturbr. höf].“ Tillagan varð ekki útrædd og sú athugun sem lýst var eftir fór ekki fram.

Tæplega 10 árum síðar birtist „365 Gjábakkavegur“ í samgönguáætlun frá Alþingi með 100 milljóna króna framlagi árin 2003 og 2004. Vegagerðin tilkynnir Skipulagsstofnun þessa ráðagerð 16. júlí 2004.6 Í samgönguáætlun fyrir árin 2005–20087 birtist vegurinn aftur, en nú sem „365 Lyngdalsheiðarvegur (af Laugarvatnsvegi hjá Laugarvatni, á Þingvallaveg við Gjábakka)“ og hefur fjárveitingin vaxið í 437 milljónir króna. Í vegaáætlun 2009–2012 segir að lengd vegarins sé 15 km og kostnaður liðlega einn milljarður króna. Hinn 15. október 2010 er vegurinn opnaður fyrir umferð.

Með og á móti

Í þeim gögnum sem höfundur hefur kynnt sér virðast helstu rök fyrir lagningu vegarins hafa verið:

• Stytta leið skólaaksturs barna úr Þingvallasveit að Laugarvatni og bæta forsendur fyrir vegasamgöngum að vetri til.

• Flýta fyrir umferð frá höfuðborgarsvæðinu austur í Laugardal og Biskupstungur. Þar er mikil frístundahúsabyggð. Væntanlegur sölu-
eða leiguhagnaður af frekari frístunda-
húsalóðum.

• Tenging höfuðborgarinnar við fullburða veg yfir Kjöl, upphleyptan og klæddan, sem eigi að glæða og greiða alla umferð milli höfuðborgarsvæðisins og Suðurlands annars vegar, og Norðurlands hins vegar.

• Auka verslun og viðskipti við ferðamenn og frístundahúsbúa að Laugarvatni.

Helstu atriði sem mæltu gegn vegi 365 voru þessi:

• Stóraukin umferð. Henni fylgir ýmiss konar mengun í útblæstri bíla, mögulegur olíuleki, slysahætta, hávaði og annað það ónæði sem umferð hefur yfirleitt í för með sér. Staðbundin aukning mengunar var talin hafa neikvæð áhrif á viðkvæmt lífríki Þingvallavatns. Gegnumstreymisumferð í þjóðgarðinum
eykst umtalsvert.

• Vegurinn liggur um grunnvatnssvæði austan Þingvallavatns. Þar gæti orðið framtíðarvatnsöflunarsvæði höfuðborgarsvæðisins þegar grunnvatn fer að þrjóta á núverandi svæðum. Með veginum er vatnsauðlindinni stefnt í hættu.

• Vegurinn er breiður og upphækkaður og sker Eldborgahraunið austan Þingvallavatns sem band og nær bein lína og spillir landslagi í Þingvallasveit og við jaðar þjóðgarðsins.

• Gjábakkavegur leggst af sem ferðamannavegur. Af honum er víða stórkostlegt útsýni yfir Þingvallasveit og er hann því afar hentugur sem hægfarinn ferðamannavegur.

• Vegurinn getur torveldað eða jafnvel komið í veg fyrir að skrá megi Þingvallavatn á heimsminjaskrá sem náttúruarf.

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-03-at-13.30.00.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-03-at-14.05.27.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-03-at-14.05.41.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-03-at-14.05.55.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.13.04.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.13.22.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.20.18.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.24.42.png

Höfundur

  • Stjórnandi

    Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24