ZIRKONSTEINDIR í fjallinu Hvítserk á norðanverðum Austfjörðum hafa verið aldursákvarðaðar. Þrjátíu og tvær mælingar á úraníum- og blýsamsætum gefa aldurinn 12,5 ± 0,1 milljónir ára (Ma). Miðlífsaldargamlir zirkonar sem taldir voru frá Hvítserk finnast ekki í berginu. Leiddar eru líkur að því að þeir séu frá árósum fljótsins Saxelfar (þ. Elbe) í Norður-Þýskalandi. Aldur zirkona frá Hvítserk styður því ekki vangaveltur um að undir Austfjörðum liggi sú flís af meginlandsskorpu frá miðlífsöld sem myndaðist við opnun Norður-Atlantshafsins og liggur suður frá Jan Mayen.

2. mynd. Bakskautsljómunarmyndir af þremur gömlum sirkonkristöllum, flóknum að uppbyggingu og núnum (ávalar útlínur), og einum (#5), mun yngri, sem kemur úr flikrubergi Hvítserks. Kjarni gömlu zirkonanna myndaðist á tríastímabilinu en jaðrarnir á krítartímabilinu. Hvítserkszirkoninn er aftur á móti aðeins 13 milljón ára gamall með reglulega kristalfleti og engin ummerki um núning við setflutning, eins og sjá má á þeim gömlu. – Cathodoluminescence images of three unrelated zircons and a 13 Ma old crystal from Mt. Hvítserkur. Compared to the Hvítserkur zircon, the old crystals show complex zonation and eroded surface after mechanical erosion during transport.
INNGANGUR
Jarðfræði er vísindagrein sem byggist að miklu leyti á þekktum atburðum; hverjir þeir voru og hvenær þeir áttu sér stað. Festa þarf aldur þessara atburða til að skilja jarðsöguna og þau undirliggjandi eðlis- og efnafræðilegu ferli sem hafa skapað jörðina og mótað. Ágætt dæmi er að ákvarða má hraða þeirra ferla sem byggðu upp jarðskorpu Íslands, og þar með landið, með aldursgreiningu lykiljarðlaga sem marka tímamót í myndun hennar. Með gjóskulagafræðum er hægt að ákvarða aldur jarðlaga síðustu tugi þúsunda ára, en leita verður til erlendra rannsóknarstofnana til að aldursgreina eldri jarðmyndanir. Eitt slíkt samstarfsverkefni sneri að aldursákvörðunum á megineldstöðvum Austurlands og hefur verið rakið að hluta til í Náttúrufræðingsgrein.1,2 Í tengslum við það verkefni fundust eldgamlar zirkonsteindir sem taldar voru frá fjallinu Hvítserk (1. mynd) og vöktu þær niðurstöður allnokkra athygli jafnt á innlendum sem erlendum vettvangi. Frekari rannsóknir og niðurstöður þeirra staðfesta, eins og hér verður rakið, að gömlu steindirnar hafa ekkert með Hvítserk að gera.