Skýrsla stjórnar Hins íslenska náttúrufræðifélags

fyrir starfsárið 2022

PDF Skjal

Aðalfundur fyrir starfsárið 2021 var haldinn 28. febrúar 2022 í húsakynnum Náttúrufræðistofnunar Íslands á Urriðaholtsstræti 6−8 í Garðabæ og í streymi á Teams, að loknu erindi Sigrúnar Helgadóttur sem fjallaði um bók hennar: Sigurður Þórarinsson. Mynd af manni. Fundargerð aðalfundarins er að finna á vefsetri félagsins.

SKIPUN STJÓRNAR

Á aðalfundinum rann út kjörtímabil formanns og þriggja stjórnarmanna, þeirra Önnu Heiðu Ólafsdóttur, Helenu W. Óladóttur og Snæbjarnar Guðmundssonar. Auk þess kom upp sú staða að tveir þeirra stjórnarmanna sem kjörnir voru á síðasta ári til tveggja ára, þau Gróa Valgerður Ingimundardóttir og Guðmundur Björnsson, óskuðu eftir að ganga úr stjórn. Aðalfundur veitti samþykki fyrir því að gengið yrði til kosninga um tvo stjórnarmenn til eins árs í þeirra stað.

Því næst var kosin stjórn, og var Ester Rut Unnsteinsdóttir endurkjörin formaður, Anna Heiða Ólafsdóttir og Helena W. Óladóttir endurkjörnar stjórnarmenn, og auk þeirra var kjörin Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, land- og jarðfræðingur. Til eins árs voru kjörnar þær Hlín Halldórsdóttir og Hrefna Berglind Ingólfsdóttir, sem báðar eru líffræðingar.

Fráfarandi og sitjandi stjórnarmönnum var þakkað kærlega fyrir þeirra framlag til félagsins og fyrir að gefa sér tíma til áframhaldandi trúnaðarstarfa.

Stjórn var þannig skipuð að loknum aðalfundi, og skipti svo með sér verkum:

Ester Rut Unnsteinsdóttir, formaður

Hrefna Sigurjónsdóttir, varaformaður

Hrefna Berglind Ingólfsdóttir, ritari

Bryndís Guðrún Róbertsdóttir, gjaldkeri

Anna Heiða Ólafsdóttir, félagsvörður

Helena W. Óladóttir, fræðslustjóri

Hlín Halldórsdóttir, vefstjóri

Þetta er í fyrsta sinn í hinni löngu sögu félagsins sem stjórnin er einungis skipuð konum. Skoðunarmenn reikninga, þeir Sveinbjörn Egill Björnsson og Steinþór Níelsson, voru endurkjörnir í fyrra til tveggja ára svo ekki þurfti að kjósa skoðunarmenn.

Á árinu voru haldnir 11 reglulegir stjórnarfundir. Að auki voru haldnir nokkrir óformlegir fundir stjórnar, eða hluta stjórnar, vegna sérstakra mála eftir því sem þörf var á. Ritstjóri sat nokkra fundi og að venju var fundur með stjórn, ritstjóra og formanni ritstjórnar í desember.

FÉLAGSMENN

Tveir heiðursfélagar voru tilnefndir á aðalfundi 2022: Ágúst H. Bjarnason, fyrrverandi formaður HÍN, og Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi ritstjóri Náttúrufræðingsins. Umfjöllun um ákvörðun stjórnar er að finna á vef HÍN.

Í félaginu voru 1053 í árslok 2022, þar af 954 einstaklingar. Karlar voru 615 eða 64,5% og konur 339 eða 35,5%. Til viðbótar komu 82 opinberar stofnanir og sveitarfélög, 4 félagasamtök, 5 fyrirtæki og 8 erlendar stofnanir. Í félagið gengu 23 á árinu 2022, 19 sögðu sig úr félaginu og 14 félagsmenn létust.

TÍMARITIÐ NÁTTÚRUFRÆÐINGURINN

Útgáfa tímaritsins er samstarfsverkefni Hins íslenska náttúrufræðifélags og Náttúruminjasafns Íslands samkvæmt samningi frá árinu 2014 sem var endurnýjaður árið 2021. Greiðir hvor aðili helming af útgáfukostnaði og laun ritstjóra. Nýr ritstjóri, Margrét Rósa Jochumsdóttir, hóf störf í ársbyrjun 2022. Tímaritið, sem hefur verið gefið út frá árinu 1931, er mikilvægasta verkefni félagsins og dýrmætasta eign þess.

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi ritstjóri, var Margréti Rósu innan handar í fyrstu. Starfsaðstaða ritstjóra er í húsnæði Náttúruminjasafns Íslands á Suðurlandsbraut 24. Þar er jafnframt lögheimili félagsins.

Margrét vann að hefðbundinni útgáfu tímaritsins jafnframt því að undirbúa vefútgáfu þess. Sem ritstjóri kallar hún saman ritstjórn til funda og sér um verkstjórn með starfi hennar. Ritstjóri er ábyrgur fyrir því að tímaritið komi út á réttum tíma og að í því sé efni sem uppfyllir kröfur í samræmi við ritstjórnarstefnu.

Á árinu 2022 komu út tvö blöð (fjögur hefti) af 92. árgangi tímaritsins. Fyrra blaðið kom út í júlí og var 76 bls., en síðara blaðið kom út í desember og var 88 bls. Er það fagnaðarefni að bæði blöðin hafi komið út á árinu, en hið síðara hefur oft komið út í janúar á nýju ári. Nýjum ritstjóra, höfundum, ritstjórn og ritrýnum greina er þakkað fyrir þeirra framlag.

RITSTJÓRN NÁTTÚRUFRÆÐINGSINS

Á síðasta ári urðu þær breytingar á ritstjórn að Droplaug Ólafsdóttir lét af störfum sem formaður ritstjórnar og Esther Ruth Guðmundsdóttir tók við formennskunni. Droplaugu eru hér með færðar bestu þakkir fyrir gott og farsælt samstarf um árabil. Droplaug og Álfheiður ritstjóri voru kvaddar formlega, og störf þeirra í útgáfu Náttúrufræðingsins þökkuð, með fulltrúum stjórnar HÍN, ritstjórnar og forstöðumanni NMSÍ í Kaffi Flóru í júní.

Í ritstjórn Náttúrufræðingsins starfa eftirtaldir:

 • Esther Ruth Guðmundsdóttir, jarðfræðingur & formaður ritstjórnar
 • Gróa Valgerður Ingimundardóttir, grasafræðingur Hlynur Óskarsson, vistfræðingur
 • Hrefna Sigurjónsdóttir, líffræðingur – fulltrúi stjórnar HÍN (lýkur störfum í lok febrúar)
 • Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur – fulltrúi NMSÍ
 • Sindri Gíslason, sjávarlíffræðingur
  Tómas Grétar Gunnarsson, dýravistfræðingur
 • Þóroddur F. Þóroddsson, jarðfræðingur

Starf ritstjórnar er ómetanlegt og forsenda þess að efni tímaritsins er eins vandað og vel valið og raun ber vitni. Stjórn færir þessu dugmikla fagfólki bestu þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag og óeigingjarna starf.

Stjórn HÍN hefur skipað ritstjórn en nú á NMSÍ einnig einn fulltrúa í ritstjórn samkvæmt samstarfssamningnum, og er það Ragnhildur Guðmundsdóttir, líffræðingur. Ritstjórnarstefna fyrir tímaritið hafði verið í endurskoðun um nokkra hríð af hálfu tveggja fulltrúa stjórnar HÍN. Hún var samþykkt af stjórn félagsins, forstöðumanni NMSÍ og ritstjórn, og birt á vef Náttúrufræðingsins. Ritstjóri boðaði ritstjórn þrisvar á fund um efni blaðsins síðastliðið starfsár. Eins og áður lásu einstakir fulltrúar með ritstjóra innsendar greinar til að meta hvort þær stæðust kröfur og ritstjórnarfulltrúar gerðu tillögur að ritrýnum. Auk þess funduðu ritstjórnin, ritstjóri og Mörður Árnason, yfirlesari tímaritsins, og ræddu endurskoðun leiðbeininga til höfunda. Þær eru komnar inn á vef HÍN og NMSÍ ásamt nýju ritstjórnarstefnunni. Ekki er lokið við endurskoðun reglna um meðferð heimilda en þegar henni er lokið verða þær settar inn á nýja vefinn.

Unnið er að verklagsreglum sem snúa að samskiptum ritstjóra við ritstjórn. Jafnframt þarf að samræma upplýsingar um útgáfuna á vefsíðum beggja aðila útgáfunnar. Það verður best gert með því að setja hlekk á vefritið sem verður opnað nú á aðalfundi, 27. febrúar 2023.

VEFÚTGÁFA NÁTTÚRUFRÆÐINGSINS

Eins og á undanförnum árum var unnið að því að koma útgáfu tímaritsins á vefinn. Í þetta skiptið með vana manneskju við stjórn verksins. Margrét Rósa ritstjóri er með mikla þekkingu og reynslu af vefritstjórn og hellti sér í verkefnið af fullum þunga. Hún gerði þarfagreiningu með úttekt á stöðu vefmálsins og kom með tillögur sem bornar voru undir stjórn og forstöðumann NMSÍ. Valin var leið sem talin er bæði farsæl og hagkvæm. Vefhópur var ritstjóra til halds og trausts og störfuðu í honum tveir fulltrúar ritstjórnar, þau Droplaug Ólafsdóttir og Sindri Gíslason, og tveir fulltrúar úr stjórn HÍN, þær Gróa Valgerður Ingimundardóttir og Helena W. Óladóttir, auk Snæbjörns Guðmundssonar, fulltrúa NMSÍ. Ritstjóri vann sjálf mestu vinnuna og var aðkeypt sérfræðiþjónusta í lágmarki, aðallega til uppsetningar formsins sem varð fyrir valinu.

Margrét hefur unnið þrekvirki og það er með mikilli gleði sem við tilkynnum að nú, á þessum aðalfundi, verður vefritið opnað formlega og verður allt efni þess opið héðan í frá.

FRÆÐSLUERINDI

Áður en aðalundarstörf hófust 28. febrúar 2022 hélt Sigrún Helgadóttir líffræðingur erindi um bók sína, Sigurður Þórarinsson. Mynd af manni, en fyrir bókina fékk Sigrún bókmenntaverðlaunin í flokki fræðibóka. Sigurður Þórarinsson jarðfræðingur var um skeið formaður HÍN og þótt formannstíð hans hafi verið stutt hafði hann mikil áhrif á starf félagsins, og verk hans voru í samræmi við markmið þess enda var hann ötull í að miðla fróðleik um náttúru landsins.

MÁLÞING

Málþing um skógrækt, loftslagsmál og lífríki Íslands var haldið í samstarfi við Félag íslenskra náttúrufræðinga (FÍN) hinn 30. nóvember 2022. Flutt voru áhugaverð erindi, málin rædd á kaffiborðum og í lokin var umræða á tvískiptu pallborði. Í undirbúningshóp tóku þátt þau Ólafur Karl Nielsen, Jón Gunnar Ottósson og Kristín Svavarsdóttir auk Esterar Rutar Unnsteinsdóttur, Helenu W. Óladóttur og Hrefnu Sigurjónsdóttur fyrir hönd stjórnar HÍN og Orra Þrastarsyni fyrir hönd FÍN. Undirbúningur og framkvæmd var í höndum Sólrúnar Harðardóttur. Katrín Oddsdóttir lögfræðingur stýrði dagskrá og umræðum á tvískiptu pallborði. Málþingið var vel heppnað og aðsókn mjög góð, og hægt var að fylgjast með í streymi. Upplýsingar um málþingið og glærusýningar framsögumanna má nálgast á vef HÍN.

FRÆÐSLUFERÐIR

Fræðsluferð umhverfis Esjuna var áætluð í ágúst og auglýst en frestað af óviðráðanlegum ástæðum. Skipulag og leiðsögn lá fyrir og vonandi verður hægt að fara þessa spennandi ferð á þessu starfsári.

Á aðventunni, hinn 13. desember 2022, bauð Náttúruminjasafn Íslands félögum og gestum þeirra að heimsækja nýtt sýningarhúsnæði Náttúruminjasafnsins á Seltjarnarnesi. Hilmar J. Malmquist, forstöðumaður NMSÍ, tók á móti gestum og sagði frá samkeppni um hönnun og framtíðaráform safnsins. Afar kalt var í húsinu enda hörkufrost úti en húsið rétt fokhelt og ekki kynt. Stjórn HÍN bauð upp á heitt aðventuglögg og smákökur til að hlýja þeim sem komu á viðburðinn.

STUÐNINGUR VIÐ ÝMIS MÁLEFNI

Félagið veitti 50 þúsund króna styrk til að styðja við sýningu um ævi og starf Helga Pjeturss, jarðfræðings og rithöfundar, sem opnuð var í Landsbókasafni 31. mars 2022 í tilefni þess að 150 ár voru liðin frá fæðingu hans.

Formaður Flóruhóps, Gróa Valgerður Ingimundardóttir, sótti ársfund norrænu grasafræðifélaganna sem haldinn var í Uppsölum í Svíþjóð dagana 29.−30. október 2022. Félagið greiddi útlagðan kostnað Gróu vegna fundarins að upphæð kr. 63.945, en hún er búsett í Svíþjóð.

LESA ALLA GREIN

Höfundur

 • Ester Rut Unnsteinsdóttir

  Ester Rut Unnsteinsdóttir (f. 1968) lauk BSc-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 1999 og kennsluréttindum í náttúrufræðum frá Kennaraháskóla Íslands árið 2005. Árið 2014 lauk hún doktorsnámi í líffræði við Háskóla Íslands undir leiðsögn Páls Hersteinssonar prófessors og var viðfangsefnið stofnvistfræði hagamúsa. Ester sinnti kennslu í náttúrufræðum á grunnskólastigi árin 1999–2002 og var stundakennari við Líf- og umhverfisvísindasvið HÍ á tímabilinu 2002–2013. Árið 2007 stofnaði hún Melrakkasetur Íslands í Súðavík, sem opnað var almenningi árið 2010, og starfaði hún þar til ársins 2013 þegar hún hóf störf á Náttúrufræðistofnun Íslands. Ester hefur fylgst með refum á Hornströndum frá árinu 1998 og borið ábyrgð á vöktun íslenska refastofnsins frá árinu 2012.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24