TÍMABIL ELDVIRKNI er hafið á Reykjanesskaga. Þegar hafa tvö eldstöðvakerfi látið til sín taka, fyrst Fagradalsfjall sem ekki hafði látið á sér kræla í meira en 6.000 ár, og svo Svartsengi sem síðast gaus fyrir um 2.400 árum. Endurtekin gos hafa orðið á þessum kerfum síðan í mars 2021 og hafa þau bæði vakið aðdáun og skapað krefjandi aðstæður. Fyrirboðar gosanna eru nú taldir vel þekktir og bætt þekking hefur eflt viðbragðsgetu vísindamanna og annara viðbragðsaðila, enda hefur fyrirvari gosanna oft verið afar skammur, jafnvel innan við klukkustund í tilfelli Svartsengiskerfisins. Eldsumbrot í nálægð við byggð og mikilvæga innviði hafa vakið fólk til umhugsunar um uppbyggingu nærri eldvirkum svæðum og komið af stað vangaveltum um hvernig og hvort verja eigi mikilvæga innviði. Jarðhræringarnar hafa valdið umtalsverðum skemmdum á innviðum í Grindavík og er óljóst hvenær bærinn verður aftur byggður í þeirri mynd sem hann var. Gera þarf ráð fyrir að næstu aldir einkennist af tíðum gosum á Reykjanesskaga til skiptis við tímabil án gosvirkni. Þótt eldgos séu landsmönnum kunn hefur hingað til ekki verið lögð mikil áhersla á forvarnaraðgerðir til að auka áfallaþol samfélagsins gagnvart eldgosavá. Í kjölfar yfirstandandi eldsumbrota hefur ríkisstjórn landsins hins vegar stofnað vinnuhóp til að fjalla um varnir innviða og alþingi hefur sett lög til að tryggja að hægt sé að byggja varnargarða. Umbrotin á Reykjanesskaga hafa breytt sýn samfélagsins á eldgos og minna okkur á að búseta í nágrenni virkra eldstöðva krefst fyrirhyggju.
INNGANGUR
Umbrotatímabil stendur yfir á Reykjanesskaga. Síðustu fimm ár hafa einkennst af kvikuhreyfingum með tilheyrandi þenslu og aflögun ásamt jarðskjálftahrinum og ekki síst endurteknum eldgosum í tveimur eldstöðvakerfum. Því fer ekki á milli mála að nýtt tímabil eldvirkni er hafið á Reykjanesskaga eftir tæplega átta alda hlé.1Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379−401 í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson og Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan, Reykjavík. Mikilvæg þekking skapast á mörgum sviðum með hverjum atburði, s.s. á sviði jarðvísinda, almannavarna, verkfræði og jafnvel skipulagsfræða. Umbrotin á Reykjanesskaga kalla á endurskoðun samfélagsins um það hvernig sambúð við eldstöðvar er best háttað með öryggi fólks og lífsviðurværi í huga.
Þegar þetta er skrifað (desember 2024) hefur gosið þrisvar sinnum úr eldstöðvakerfi Fagradalsfjalls og sjöunda gosið á Sundhnúksgígaröðinni í eldstöðvakerfi Svartsengis stendur yfir. Í þessari grein verður talað um gosin sem hluta Fagradalsfjallselda og Sundhnúkselda þótt þau hafi formlega ekki fengið nafn ennþá. Hegðun eldstöðvanna Fagradalsfjalls og Svartsengis, sem nú láta til sín taka, hefur á þessum árum verið undir vökulu eftirliti vísindamanna. Fyrirboðar yfir-vofandi eldgosa úr kerfunum tveimur eru nú vel þekktir og að öllum líkindum má einnig yfirfæra þá á önnur kerfi Reykjanesskaga. Þessi þekking hefur mótað viðbrögð um allt samfélagið, enda er skammtímafyrirboði eldgoss (einkum áköf skjálftavirkni og hröð aflögun) gjarnan afar skammur, minnst tæpur hálftími og mest rúmar fjórar klukkustundir þegar horft er til þeirra eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni. Hliðstæðir fyrirboðar stóðu þó yfir mun lengur í Fagradalsfjallskerfinu.
Í öllum atganginum er auðvelt að missa yfirsýn um atburðina og upplýsingum hættir til að renna saman í eitt. Hér verður stiklað á helstu atriðum og kennistærðum hvers goss, ásamt því að fjalla lauslega um vörn innviða og áfallaþol samfélagsins. Um er að ræða samantekt rannsókna og eftirlitsgagna sem hefur verið aflað af samstilltum hópi vísindamanna á ýmsum stofnunum og fyrirtækjum, svo sem Jarðvísindastofnun Háskólans, Náttúrufræðistofnun (áður Landmælingum Íslands og Náttúrufræðistofnun Íslands), Veðurstofu Íslands, Almannavörnum og verkfræðistofunum Verkís og Eflu, o.fl., oft undir miklu álagi í aðdraganda goss og á fyrstu klukkustundum þess.
GOSSAGA REYKJANESSKAGA
Á suðvesturhluta Íslands hefst þorri þjóðarinnar við á mörkum tveggja stórra jarðfleka, Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Virkni á flekaskilum á þessu svæði einkennist af tímabilum þar sem eldvirkni og hraðrar aflögunar gætir í nokkrar aldir (á bilinu 4−5) en á milli koma lengri tímabil án gosvirkni, svo sem það sem nú er nýlokið og stóð í tæpar átta aldir (1. mynd, neðri). Á þeim öldum þegar eldgos verða, koma tímabil með tilheyrandi jarðhræringum og líflegri gosvirkni, eins og það sem nú hefur staðið í fimm ár.
Sambúð við eldstöðvakerfi hefur ýmsa kosti fyrir samfélag manna, einkum og sér í lagi aðgengi að heitu vatni sem nýtist bæði til húshitunar, rafafls og baðstaða af ýmsum toga. Á hinn bóginn skapa virk eldstöðvakerfi hættu og geta valdið tjóni þegar þau ókyrrast. Reykjanesskagi státar af fimm eldstöðvakerfum á landi. Þau eru, frá vestri til austurs, kennd við Reykjanes, Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík og Brennisteinsfjöll (1. mynd, efri).2Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. https://doi.org/10.1016S/j.jvolgeores Að auki er eldstöðvakerfið Eldey úti fyrir Reykjanestá. Næstu nágrannar Reykjanesskaga á Suðurlandi eru eldstöðvakerfin Hengill og Hrómundartindur, en Hengill er stundum sagður sjötta kerfi Reykjanesskagans þar sem suðurhluti þess telst innan svæðisins.
Hinn gríðarlangi Atlantshafshryggur liggur þvert í gegnum Ísland og er landið sá hluti hans sem stendur uppúr sjó. Tilvist eldstöðvakerfa hér er afleiðing samspils möttulstróks undir landinu og gliðnandi flekaskila Norður-Ameríkuflekans og Evrasíuflekans. Flekaskilin liggja í gegnum landið frá Reykjanesi, um miðhálendið, til norðausturs og í Öxarfjörð.3Páll Einarsson. 2008. Plate boundaries, rifts and transforms in Iceland. Jökull 58, bls. 35−58.(m.a.) Flekarnir færast í sundur um u.þ.b. 19 mm á ári og eldvirkni og sprungur bera vitni um þessi jarðrænu öfl.2Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. https://doi.org/10.1016S/j.jvolgeores,4Sigrún Hreinsdóttir, Páll Einarsson & Freysteinn Sigmundsson. 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW Iceland: GPS measurements from 1993−1998. Journal of Geophysical Research 106(B7). 13803−13816.
Stór hluti Reykjanesskaga er hulinn hraunum, dyngjuhraunum og sprunguhraunum, sem hafa myndast eftir að jökla leysti fyrir um 14.000 árum.5Kristján Sæmundsson. 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Bls. 165−72 í:Eyjar í Eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi (ritstj. Björn Hróarsson, Dagur Jónsson, Sigurður Sveinn Jónsson). Gott mál, Reykjavík.,6Hreggviður Norðdahl & Halldór G. Pétursson. 2005. Relative sea-level changes in Iceland: New aspect of the Weichselian deglaciation of Iceland. Bls. 25−78 í: Iceland – Modern processes and past environments (ritstj. Caseldine, C., Russel, A., Jórunn Harðardóttir, Óskar Knudsen). Elsevier, Amsterdam. https://doi.org/10.1016/S1571-0866(05)80005-3(m.a.) Öll eldstöðvakerfi Reykjanesskaga eru talin vera án þróaðrar megineldstöðvar og skilgreinast af sprungusveimum sem samanstanda af gossprungum, gjám, sigdældum og jarðhitasvæðum sem liggja skástígt á flekaskilin. Kvikan sem kemur upp er öll basísk og myndar að langmestu leyti hraun. Í sjó við Reykjanes hafa þó orðið sprengigos, tiltölulega lítil, þar sem kvikan kemst í snertingu við vatn og tvístrast. Þetta gerðist síðast í Reykjaneseldum á 13. öld. Stærsta gosið varð árið 1226 þegar miðaldalagið svokallaða myndaðist. Það lag er 5−10 cm að þykkt vestan Grindavíkur.7Magnús Á. Sigurgeirsson. 1992. Gjóskumyndanir á Reykjanesi. MS-ritgerð í jarðfræði við Háskóla Íslands. 114 bls.,8Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Miðaldalagið. Bls. 189−198 í: Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi (ritstj. Björn Hróarsson, Dagur Jónsson, Sigurður Sveinn Jónsson). Gott mál, Reykjavík. hf., bls. 189-198. Flest hraun á Reykjanesskaga eru innan við 0,2 km3 að rúmmáli (tafla 1).
Oftast gýs úr sprungum með stefnu í norðaustur-suðvestur. Virknimiðja kerfanna er þar sem sprungusveimar skera flekaskilin. Norðan til á Reykjanesskaga er minna um gossprungur og þar ber meira á misgengjum og gjám.1
Þegar gos hófst í Fagradalsfjalli árið 2021 hafði eldvirkni ekki gætt á Reykjanesskaga frá árinu 1240. Þekking á virkni Reykjanesskagans er allgóð síðustu 4.000 ár. Á tímabilinu 1210−1240 urðu nokkur gos, fyrst við Reykjanes og síðan á Eldvarpagosreininni. Þar áður urðu þrjú gos í Krýsuvíkurkerfinu á árunum 1151−1188, eftir um 150 ára goshlé á Reykjanesskaga. Gos urðu í Brennisteinsfjallakerfinu á árunum 950−1000 en fyrstu gosin á síðasta gostímabili urðu í kringum 800 sunnarlega í Brennisteinsfjallakerfinu auk lítils goss í Krýsuvíkurkerfinu.1Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379−401 í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson og Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan, Reykjavík(m.a.)
Í stórum dráttum virðist hegðun hliðstæð á gostímabilunum fyrir 1.900−2.500 árum og fyrir 3.000−3.500 árum1 eins og sjá má á 1. mynd (neðri). Gossagan bendir því til þess að aldirnar með eldgosavirkni einkennist af goshrinum, eða eldum, sem hver um sig einangrast við ákveðinn hluta skagans og stendur í nokkur ár eða áratugi, en á milli þeirra séu oft löng tímabil án umbrota. Staðsetning gossins í Fagradalsfjalli var nokkuð óvænt, enda hafði ekki gosið þar í um 6.000 ár og vegna þess að þarna er ekki eiginlegur sprungusveimur, hafði verið talið líklegra að nýtt gostímabil hæfist á öðrum kerfum skagans, þeim sem hafa verið virkari á nútíma.9Vigfús Eyjólfsson. 1998. Kortlagning sprungna og nútíma eldvarpa í Fagradalsfjalli á vestanverðum Reykjanesskaga. BS-ritgerð í jarðfræði við Háskóla Íslands. 70 bls.
HEIMILDIR
- 1Kristján Sæmundsson & Magnús Á. Sigurgeirsson. 2013. Reykjanesskagi. Bls. 379−401 í: Náttúruvá á Íslandi, eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson og Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands og Háskólaútgáfan, Reykjavík
- 2Kristján Sæmundsson, Magnús Á. Sigurgeirsson & Guðmundur Ómar Friðleifsson. 2020. Geology and structure of the Reykjanes volcanic system, Iceland. Journal of Volcanology and Geothermal Research 391. https://doi.org/10.1016S/j.jvolgeores
- 3Páll Einarsson. 2008. Plate boundaries, rifts and transforms in Iceland. Jökull 58, bls. 35−58.
- 4Sigrún Hreinsdóttir, Páll Einarsson & Freysteinn Sigmundsson. 2001. Crustal deformation at the oblique spreading Reykjanes Peninsula, SW Iceland: GPS measurements from 1993−1998. Journal of Geophysical Research 106(B7). 13803−13816.
- 5Kristján Sæmundsson. 1995. Um aldur stóru dyngnanna á utanverðum Reykjanesskaga. Bls. 165−72 í:Eyjar í Eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi (ritstj. Björn Hróarsson, Dagur Jónsson, Sigurður Sveinn Jónsson). Gott mál, Reykjavík.
- 6Hreggviður Norðdahl & Halldór G. Pétursson. 2005. Relative sea-level changes in Iceland: New aspect of the Weichselian deglaciation of Iceland. Bls. 25−78 í: Iceland – Modern processes and past environments (ritstj. Caseldine, C., Russel, A., Jórunn Harðardóttir, Óskar Knudsen). Elsevier, Amsterdam. https://doi.org/10.1016/S1571-0866(05)80005-3
- 7Magnús Á. Sigurgeirsson. 1992. Gjóskumyndanir á Reykjanesi. MS-ritgerð í jarðfræði við Háskóla Íslands. 114 bls.
- 8Magnús Á. Sigurgeirsson. 1995. Miðaldalagið. Bls. 189−198 í: Eyjar í eldhafi. Afmælisrit til heiðurs Jóni Jónssyni jarðfræðingi (ritstj. Björn Hróarsson, Dagur Jónsson, Sigurður Sveinn Jónsson). Gott mál, Reykjavík. hf., bls. 189-198.
- 9Vigfús Eyjólfsson. 1998. Kortlagning sprungna og nútíma eldvarpa í Fagradalsfjalli á vestanverðum Reykjanesskaga. BS-ritgerð í jarðfræði við Háskóla Íslands. 70 bls.