Náttúrufræðingurinn – opinn vettvangur fyrir fræðimenn og almenning

PDF Skjal

 Ég hef eins og svo margir aðrir starfsfélagar skrifað fræðigreinar í okkar gamla og virðulega tímarit. Það er ómetanlegt að svona vandað félagsrit, þar sem íslenskan er í heiðri höfð og kostur er á faglegri ritrýni, lifir enn góðu lífi. Nú á dögum hefur aukist að fólk af samþættum fræðasviðum eða í mismunandi fræðigreinum skrifi saman greinar og er ásýnd blaðsins að breytast hvað þetta varðar. Þetta birtist helst í formi greina á sviði ferðamálafræði, landafræði, mismunandi greina líffræðinnar og ýmiss konar umhverfisfræði. Ég skora á náttúrufræðinga, umhverfisfræðinga, heimspekinga og kennara að nota þennan vettvang sem mest.

Óhætt er að segja að tengslin við Náttúrufræðinginn hafi verið sterk. Stuttu eftir að ég kom heim frá námi var ég komin í ritnefnd tímaritsins (1985) og þegar upp er staðið eru árin orðin 28 sem ég hef starfað í ritnefnd/ritstjórn eða fagráði (6 ár). Þetta starf var mjög ánægjulegt. Náttúrufræðingar komu saman og unnu með ritstjóra að sama markmiðinu – að gefa út vandað fræðirit á íslensku, ætlað bæði íslenskum vísindamönnum og almenningi. Ritstjórarnir á þessu tímabili voru alls sjö; þrír jarðfræðingar, þrír líffræðingar og nú síðast ritstjórnarmenntaður þróunar- og sagnfræðingur. Þeir eru: Helgi Torfason, Árni Einarsson, Páll Imsland, Sigmundur Einarsson, Álfheiður Ingadóttir, Hrefna B. Ingólfsdóttir og Margrét Rósa Jochumsdóttir. Ég nota þetta tækifæri hér með til að þakka öllu þessu góða fólki samstarfið.

Síðustu fimm árin sat ég í stjórn HÍN sem varaformaður og setti stjórnin sér fljótlega það markmið að koma útgáfu tímaritsins á netið í opnum aðgangi, en einnig að halda áfram að gefa út prentað eintak fyrir alla sem þess óskuðu. Jafnframt var ritstjórnarstefnan endurskoðuð í ljósi breyttra tíma. Vonandi verður netútgáfan í vaxandi mæli vettvangur ýmiss konar fræðslu fyrir unga sem aldna og umræðu um málefni sem snerta náttúruna. Það eru mikil gleðitíðindi að draumurinn um opna netútgáfu Náttúrufræðingsins er nú orðinn að veruleika – til hamingju HÍN, Náttúruminjasafn Íslands og Margrét Rósa ritstjóri, sem á mestan heiðurinn af uppsetningunni!

Ég hef haft mikla ánægju af því að birta efni, ýmist ein eða með öðrum, um rannsóknir mínar og fleira í tímaritinu. Flestar greinanna fjalla um vistfræði og hegðun dýra. Sú fyrsta er frá 1974 og er um vorkomu smádýra,1 síðan ein um mykjufluguna,2 þá þrjár greinar um hesta3–5, ein um stara og hesta6 og að lokum ein um skötuorma.7 Þá skal telja ýtarlegan ritdóm frá 2016 um hið yfirgripsmikla og vandaða rit Snorra Baldurssonar, Um Lífríki Íslands: Vistkerfi lands og sjávar,8 leiðara um Reykjanesfólkvanginn9 og greinina Fjaran, vettvangur náms til sjálfbærni10 frá 2014 sem er á sviði kennslufræði líffræði- og umhverfisfræða.

Ég var fastráðinn kennari í líffræði 1982, fyrst við Kennaraháskóla Íslands, síðar Menntavísindasvið HÍ, og kenndi verðandi kennurum líffræði og umhverfismennt. Auk þess kenndi ég dýraatferlisfræði við líffræðiskor HÍ nánast samfellt frá 1981 til 2019. Áhugi minn hefur mest snúist um dýr, einkum hegðun þeirra og vistfræði, með áherslu á að skilja hvernig náttúrulegt umhverfi þeirra hefur mótað tegundirnar. Ég hef því alltaf lagt áherslu á að gefa nemendum mínum tækifæri til útináms11 og með því leitast við að þeir öðluðust skilning á starfsemi vistkerfa og því að hver lífvera hefur sinn sess í vistkerfinu og er jafn rétthá og aðrar lífverur. Þannig öðlast fólk virðingu og væntumþykju fyrir lífverum og umhverfi þeirra. Segja má að aldrei áður hafi svona nálgun verið mikilvægari í ljósi þess hve mikið meginhluti mannkyns hefur fjarlægst náttúruna, bæði vegna skorts á tækifærum til að upplifa hana á eigin skinni og takmarkaðs skilnings á mikilvægi líffræðinnar í allri menntun. Á Íslandi njótum við þeirra forréttinda að hafa mikla möguleika til að njóta náttúrunnar. Að mínu mati eru þau tækifæri ekki nýtt nægilega vel. Nú þegar við horfumst í augu við loftslagsvána og hrun vistkerfa, sem þýðir að aragrúi tegunda gæti dáið út, verður að stórefla áherslu á menntun í náttúrufræðum og umhverfismennt, þar með talinni náttúrusiðfræði þar sem meðal annars er varað við þeirri sýn að maðurinn sé herra jarðar. Að mínu mati er það besta leiðin til að bjarga vistkerfum jarðar frá þeim hremmingum sem blasa við.

Hrefna Sigurjónsdóttir

Hrefna er prófessor emeritus í líffræði við HÍ. Hún starfar í stjórn Dýraverndarsambands Íslands og í stýrihópi um umhverfismál í U3a.

 

GREINAR HREFNU Í NÁTTÚRUFRÆÐINGNUM:

  1. Hrefna Sigurjónsdóttir 1974. Hvenær fara skordýr og áttfætlur á kreik á vorin? Náttúrufræðingurinn 44(1). 80–94.
  2. Hrefna Sigurjónsdóttir 1997. Mykjuflugan. Náttúrufræðingurinn 67(1). 3–19.
  3. Anna Guðrún Þórhallsdóttir & Hrefna Sigurjónsdóttir 2005. Hestar og skyldar tegundir: Uppruni, þróun og atferli. Náttúrufræðingurinn 73(3–4). 105–136.
  4. Hrefna Sigurjónsdóttir & Anna Guðrún Þórhallsdóttir 2006. Félagshegðun hrossa: Rannsóknir á Skáney, Reykholtsdal. Náttúrufræðingurinn 74(1–2). 27–38.
  5. Hrefna Sigurjónsdóttir & Sandra M. Granquist 2019. Hátterni hesta í haga – Rannsóknir á félagshegðun. Náttúrufræðingurinn 89(3–4). 78–97.
  6. Hrefna Sigurjónsdóttir 2020. Starar og hestar. Náttúrufræðingurinn 90(4–5). 259–267.
  7. Þorleifur Eiríksson, Þorgerður Þorleifsdóttir, Hrefna Sigurjónsdóttir & Hilmar J. Malmquist 2021. Huldudýr á heiðum uppi – útbreiðsla skötuorms á Íslandi. Náttúrufræðingurinn 91(3–4). 146–165.
  8. Hrefna Sigurjónsdóttir. 2016. Landið er fagurt og frítt … Um Lífríki Íslands. Vistkerfi lands og sjávar. Ritrýni. Náttúrufræðingurinn 86(3–4). 149–156.
  9. Hrefna Sigurjónsdóttir 2006. Reykjanesfólkvangur: Auðlind við bæjarmörkin. Náttúrufræðingurinn 74(1–2). 58.
  10. Hrefna Sigurjónsdóttir 2014. Fjaran, vettvangur náms til sjálfbærni. Náttúrufræðingurinn 84(3–4). 141–149.

OG Í SKÓLAÞRÁÐUM:

  1. Hrefna Sigurjónsdóttir 2020, 6.12. Útinám dýpkar skilning og eykur virðingu fyrir lífi. Skólaþræðir. Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Veftímarit. Slóð: https://skolathraedir.is/tag/hrefna-sigurjonsdottir

LESA LEIÐARA Á PDF-SNIÐI

Höfundur

  • Hrefna Sigurjónsdóttir

    Hrefna er prófessor emeritus í líffræði við HÍ. Hún starfar í stjórn Dýraverndarsambands Íslands og í stýrihópi um umhverfismál í U3a.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24