Mikilvægi Náttúrufræðingsins

PDF Skjal

Sem nýjum formanni ritstjórnar Náttúrufræðingsins og varaformanni stjórnar Hins íslenska Náttúrufræðifélags var mér falið að skrifa leiðara í þetta tölublað Náttúrufræðingsins. Það er mér auðvitað mikill heiður en um leið sé ég hversu vel hefur verið haldið á því kefli sem mér er nú falið. Náttúrufræðingurinn er öflugt og faglegt tímarit sem þrátt fyrir háan aldur er bæði ferskt og nútímalegt. Mikilvægi Náttúrufræðingsins er óumdeilt; vettvangur fyrir niðurstöður nýjustu rannsókna og yfirlit um stöðu á ýmsum sviðum náttúrufræðanna á íslensku, skrifað fyrir bæði vísindamenn og almenning.

Á undanförnum árum hefur áhugi almennings á náttúrufræðum stóraukist og sjaldan hefur verið fjallað jafnmikið um náttúrufræði. Vegna Covid19 eru hugtök eins og hjarðónæmi, veirustofnar og stökkbreytingar höfð á hraðbergi. Vegna loftslagsbreytinga er rætt um kolefnishringrás, úrkomuákefð og súrnun sjávar með svipuðum hætti og hvernig best sé að sjóða hangikjöt. Að eldstöðvar á Reykjanessskaga séu byrjaðar að rumska eftir langan svefn er ekki næg vitneskja, heldur er áhugi á að vita hversu frumstæð kvikan er, hvernig fyrri gos á skaganum hafa hagað sér og hvaða eldstöðvakerfi vakna næst. Almennt virðist fólk hafa skoðun á náttúruvernd, hnignun líffræðilegs fjölbreytileika, nýtingu náttúruauðlinda, fiskeldi, skógrækt, stýringu ferðamanna, dýravelferð, framandi ágengum tegundum og svo má lengi halda áfram að telja.

Lón við Virkisjökul og Fjallsjökul. Ljósm./Photo: Gyða Henningsdóttir

Lón við Virkisjökul og Fjallsjökul. Ljósm./Photo: Gyða Henningsdóttir

Fjölmiðlar reyna að svala áhuga almennings og fjalla að einhverju leyti um náttúrufræðileg viðfangsefni, til dæmis með því að taka viðtöl við náttúrufræðinga. Þau skrif eru hins vegar oftast ekki á dýptina því sá tími sem blaðamenn hafa til að vinna efni er yfirleitt stuttur. Þekking fjölmiðlafólks á viðfangsefninu er einnig oft takmörkuð og það er nær óheyrt að blaðamenn á Íslandi vinni sjálfir frétt úr vísindagreinum. Þegar fréttir birtast um slíkar greinar er oft um að ræða þýðingar úr erlendum miðlum, eða þá að haft er samband við íslenskan sérfræðing og hann fenginn til að endursegja það sem í viðkomandi grein stendur.

Hugsanlega skortir að almenningur geti svalað fróðleiksfýsn sinni enn betur með því að lesa sjálfur vísindagreinar. Mikið af útgefnu efni er í opnum aðgangi (meðal annars Náttúrufræðingurinn) en vandinn felst í því að það þarf þjálfun til að lesa vísindagreinar sér til gagns. Við þá þjálfun skiptir sköpum að hafa vísindagreinar á því tungumáli sem manni er tamast. Þótt enskukunnátta Íslendinga sé almennt þokkaleg gerir flókið tæknimál og uppbygging ritrýnda vísindagreina það að verkum að of margir gefast upp á efni í alþjóðlegum fagtímaritum. Rit á borð við Náttúrufræðinginn skipta því miklu máli. Þar er mikið af góðu og vönduðu efni á aðgengilegu máli eftir helstu sérfræðinga landsins, og þar við bætist mikil breidd í umfjöllunarefnum.

Náttúrufræðingurinn er ekki bara vettvangur fyrir íslenskan almenning heldur líka mikilvægur vettvangur fyrir sérfræðinga til að miðla af þekkingu sinni, kynna niðurstöður rannsókna, virkja samtal við almenning og taka þátt í að búa til betra samfélag.

Í Vísinda- og tæknistefnu 2020–2022 sem forsætisráðuneytið gefur út er klausa sem á vel við í þessu samhengi:

Þegar um er að ræða flóknar samfélagslegar áskoranir getur verið krefjandi verkefni fyrir sérfræðinga að miðla niðurstöðum rannsókna til almennings og stjórnvalda á sama tíma og það er viðurkennt að þekkingin verður aldrei fullkomin eða óyggjandi. Það skiptir miklu að vísindamenn geti og vilji miðla af þekkingu sinni og eiga um hana samtal út fyrir raðir lokaðra hópa sérfræðinga. Aukin þátttaka almennings í slíku samtali getur orðið grundvöllur þess að efla lýðræðislega umræðu um ýmis álitaefni og hvernig móta skuli stefnu sem byggist á bestu fyrirliggjandi þekkingu en tekur óvissuna jafnframt inn í myndina.

Það er full ástæða til að hvetja íslenska náttúrufræðinga að birta reglulega greinar í Náttúrufræðingnum og taka þannig virkan þátt í að efla vísindalæsi samfélagsins, sem og að upplýsa fróðleiksþyrsta náttúrufræðinga framtíðarinnar.

Jafnframt eru kennarar, leiðbeinendur og foreldrar hvattir til nýta sér efni Náttúrufræðingsins, sem nú er aðgengilegt öllum sem áhuga hafa, á prenti og á neti.

Sveinn Kári Valdimarsson

Höfundur

  • Sveinn Kári Valdimarsson

    Sveinn Kári er líffræðingur frá Háskóla Íslands, Hólaskóla og University of Glasgow. Rannsóknir hans hafa að mestu snúist um atferli, vistfræði og þroskun laxfiska. Sveinn starfar í Matvælaráðuneytinu á skrifstofu sjálfbærni. Hann hefur áður starfað á Náttúrustofu Suðvesturlands, Landsvirkjun og Náttúrufræðistofnun Íslands. Sveinn Kári er formaður ritstjórnar Náttúrufræðingsins og varaformaður stjórnar Hins íslenska Náttúrufræðifélags.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24