LÍFFRÆÐILEG FJÖLBREYTNI Á ÍSLANDI

Líffræðileg fjölbreytni er forsenda heilbrigðra vistkerfa, sem eru undirstaða lífkerfa jarðar, og því er hnignun hennar á heimsvísu eitt af helstu vandamálum samtímans. Viðhald líffræðilegrar fjölbreytni er nátengt brýnum viðfangsefnum á borð við loftslagsmál, sjálfbæra þróun, auðlindanýtingu, efnahag, mengun, lýðheilsu og málefni náttúruverndar.

Ef mannkynið ætlar sér að búa áfram á jörðinni þarf það að semja frið við náttúruna og hafa sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Við erum jú hluti af náttúrunni. Mikilvægt er að allir þekki hugtakið líffræðileg fjölbreytni, skilji hvað felst í því og hvað er í húfi. Markmið laga um náttúruvernd1Lög um náttúruvernd nr. 60/2013. eru skýr og kveða á um að vernda skuli til framtíðar fjölbreytni íslenskrar náttúru, þar á meðal líffræðilega og jarðfræðilega fjölbreytni og fjölbreytni landslags. Lögunum er ætlað að tryggja eftir föngum þróun íslenskrar náttúru á eigin forsendum og verndun þess sem þar er sérstætt eða sögulegt, en ennfremur að stuðla að endurheimt raskaðra vistkerfa og auknu þoli íslenskra vistkerfa gegn náttúruhamförum og hnattrænum umhverfisbreytingum.

Búsvæðaeyðing, loftslagsbreytingar, ágengar framandi tegundir, ofnýting og mengun eru fimm helstu ógnir við líffræðilega fjölbreytni í heiminum.2Brondizio, E., Diaz, S., Settele, J. & Ngo, H.T. 2019. Global assessment report on biodiversity and ecosystem services of the Intergovernmental science- solicy platform on biodiversity and ecosystem services. Version 1. https://doi.org/10.5281/zenodo.6417333 Ísland er þar engin undantekning þótt hérlendis sé enn að finna ýmis lítt snortin vistkerfi.

Orðræðan um fjölbreytni lífs á Íslandi hefur hins vegar verið dapurleg á köflum, og er oft á þá leið að flóra, fána og funga séu hér ómerkileg vegna tegundafábreytni. Verðmæti líffræðilegrar fjölbreytni hérlendis felast hins vegar í öðrum þáttum. Hér eru vissulega ekki margar tegundir á alþjóðlegan mælikvarða, sem skýrist af legu landsins sem úthafseyju lengst norður í höfum og þeim stutta tíma sem liðinn er frá síðasta jökulskeiði þegar landið var hulið jöklum. Í þessu felst þó einnig mikilvæg sérstaða íslenskrar náttúru, því þessar forsendur hafa mótað einstakar aðstæður fyrir lífverur að nema land og þróast. Hérlendis er jarðfræðileg fjölbreytni, eða jarðbreytileiki, mikill 3Pasquaré Mariotto, F., Bonali, F.L. & Venturini, C. 2020. Iceland, an open-air museum for geoheritage and Earth science communication purposes. Resources 9(2), 14.,4Magnús Tumi Guðmundsson 2004. Jarðfræðileg einkenni og sérstaða Vatnajökuls og gosbeltisins norðan hans: Ódáðahraun og vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.Viðauki E, bls. 125-135 í: Þjóðgarður norðan Vatnajökuls. Skýrsla nefndar um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls. Umhverfisráðuneytið, Reykjavík. og það hefur skilað sér í því að þær fáu tegundir sem hafa numið hér land hafa haft einstakar aðstæður til að aðlagast ólíkum búsvæðum án mikillar samkeppni og í einangrun frá meginlöndunum. Þetta lýsir sér oft í mikilli fjölbreytni innan tegunda. Því má segja að talning tegunda ein og sér sé ekki nothæfur mælikvarði á verðmæti líffræðilegar fjölbreytni á Íslandi. Okkar verkefni, og forgangsmál, er að meta og varðveita þá líffræðilegu fjölbreytni sem hefur mótast hér fyrir tilstilli einstakra aðstæðna, og varðveita þær aðstæður sem liggja til grundvallar.

 

LESA ALLA GREIN

 

HEIMILDIR
  • 1
    Lög um náttúruvernd nr. 60/2013.
  • 2
    Brondizio, E., Diaz, S., Settele, J. & Ngo, H.T. 2019. Global assessment report on biodiversity and ecosystem services of the Intergovernmental science- solicy platform on biodiversity and ecosystem services. Version 1. https://doi.org/10.5281/zenodo.6417333
  • 3
    Pasquaré Mariotto, F., Bonali, F.L. & Venturini, C. 2020. Iceland, an open-air museum for geoheritage and Earth science communication purposes. Resources 9(2), 14.
  • 4
    Magnús Tumi Guðmundsson 2004. Jarðfræðileg einkenni og sérstaða Vatnajökuls og gosbeltisins norðan hans: Ódáðahraun og vatnasvið Jökulsár á Fjöllum.Viðauki E, bls. 125-135 í: Þjóðgarður norðan Vatnajökuls. Skýrsla nefndar um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls. Umhverfisráðuneytið, Reykjavík.

Höfundar

  • Ragnhildur Guðmundsdóttir

    Ragnhildur Guðmundsdóttir (f. 1982) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 2005 og MS-prófi í sjávarvistfræði við Háskólann í Tromsø og Háskólasetrið á Svalbarða 2008. Hún lauk diplómaprófi í kennslufræðum við Háskóla Íslands 2012 og doktorsprófi í líffræði 2020 við sama skóla. Doktorsritgerð hennar fjallaði um örverur í grunnvatni og uppsprettum, sem og búsvæði grunnvatnsmarflónna Crangonyx islandicus. Ragnhildur hefur starfað við Náttúruminjasafn Íslands síðan 2021 og vinnur þar meðal annars að málefnum líffræðilegrar fjölbreytni í samstarfi við BIODICE.

    Náttúruminjasafni Íslands
    Suðurlandsbraut 24
    108 Reykjavík
    [email protected]

  • Skúli Skúlason (f. 1958) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 1981, fjórðaársnámi í líffræði við sama skóla 1983, meistaraprófi 1986 og doktorsprófi í dýrafræði 1991 við Háskólann í Guelph, Kanada. Hann var nýdoktor við Háskólann í Kaliforníu, Berkeley, Bandaríkjunum, 1991. Skúli hefur síðan starfað sem kennari og síðar skólameistari Hólaskóla og rektor Háskólans á Hólum. Hann er nú prófessor við Fiskeldis- og fiskalíffræðideild skólans, og frá 2019 einnig sérfræðingur við Náttúruminjasafn Íslands. Skúli hefur helgað sig rannsóknum í þróunarfræði með áherslu á norðlæga vatnafiska. Hann tók þátt í stofnun BIODICE 2020 og er formaður stjórnar samstarfsvettvangsins.

  • Rannveig Magnúsdóttir

    Rannveig Magnúsdóttir (f. 1977) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 2001 og MS-prófi í spendýravistfræði við sama skóla árið 2005 í samstarfi við Deakin-háskóla í Geelong, Ástralíu. Hún lauk doktorsprófi 2013 í spendýravistfræði við Háskóla Íslands í samstarfi við háskólann í Oxford og snerist verkefni hennar um fæðuvistfræði minks og mögulegar breytingar á fæðuvali í kjölfar umhverfisbreytinga. Rannveig hefur starfað hjá Landvernd frá árinu 2013 og í byrjun árs 2024 hóf hún einnig störf fyrir BIODICE.

  • Ole Martin Sandberg

    Ole Martin Sandberg (f. 1978) lauk doktorsprófi í heimspeki árið 2021 við Háskóla Íslands þar sem hann kennir nú umhverfissiðfræði. Síðan hefur hann starfað hjá Náttúruminjasafni Íslands, þar sem hann fæst við rannsóknir og miðlun á sviði líffræðilegrar fjölbreytni, einkum varðandi heimspekilega og siðfræðilega afstöðu manna til náttúrunnar. Árið 2024 hóf hann nýdoktorsverkefni við Háskóla Íslands þar sem greint er samspil hamfarahlýnunar, líffræðilegrar fjölbreytni og samfélags.

  • Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir

    Sæunn Júlía Sigurjónsdóttir (f. 1998) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 2021 og MS-prófi í verndunarlíffræði við Háskólann í Queensland, Ástralíu, árið 2023. Meistaraverkefni hennar snerist um greiningu á hagaðilum í tengslum við verndarsvæði í hafi. Sæunn var náttúruverndarfulltrúi Ungra umhverfissinna 2021−22 og 2023−24. Hún hóf störf hjá BIODICE í apríl 2024.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24