Í YFIRGRIPSMIKILLI RANNSÓKN á heilsufari íslenskra refa sem fram fór á árunum 1985−1989 fundust merki um sjúkdóma sem gætu verið skaðlegir fyrir viðkomu þeirra. Á þessum tíma var íslenski refastofninn fáliðaður og dreifður og smittíðni því lág. Á hinn bóginn er rétt að benda á að þegar refir voru hafðir í haldi, til dæmis í rannsóknarskyni og vegna feldræktar, mögnuðust oft upp smit sem höfðu verið til staðar í villtum refum og mörg dýr urðu veik eða drápust. Síðar hafa komið upp nokkrar alvarlegar sýkingar, meðal annars fuglaflensa, sem refir hafa smitast af erlendis og mögulega einnig hérlendis. Vegna þess að lítið er um náið samneyti meðal refa, að undanskildum samskiptum foreldra og afkvæma á grenjatíma, er dreifing smitefna milli einstaklinga hæg. Íslenski melrakkinn hefur því ekki orðið fyrir alvarlegum skakkaföllum af völdum smitsjúkdóma sem komið hafa upp í gegnum tíðina. Öðru máli gegnir um ýmis mengunarefni sem magnast í styrk á leið sinni upp fæðukeðjuna og safnast fyrir í vefjum rándýra ofarlega í fæðupíramíðanum. Í ljós hefur komið að mikið af kvikasilfri er að finna í vefjum íslenskra melrakka sem lifa við sjávarsíðuna. Kvikasilfur finnst einnig í sjófuglum, sem eru aðalfæða refa á strandsvæðum, svo erfitt eða ógerlegt er fyrir strandarefi að forðast að fá í sig þessa mengun. Þótt áhrif kvikasilfurs á heilsufar íslenskra refa séu óþekkt má ætla að slík eiturefni hafi í miklu magni skaðleg áhrif á lífsgæði þeirra og tímgunargetu.
INNGANGUR
Í fyrstu grein höfundar um íslenska melrakkann (Vulpes lagopus)1Ester Rut Unnsteinsdóttir 2021. Íslenski melrakkinn. – Fyrsti hluti: Stofnbreytingar, veiðar og verndun. Náttúrufræðingurinn 91(3−4). 97−111. er fjallað um sögu refaveiða, sem spannar vel yfir þúsund ár og hefur ætíð verið skilgreind í íslenskum lögum. Sagt er frá því hvernig skipulegar rannsóknir á íslenska refastofninum hófust með merkilegu samstarfi veiðimanna við vísindamanninn Pál Hersteinsson í lok áttunda áratugar síðustu aldar. Í annarri greininni2Ester Rut Unnsteinsdóttir 2023. Íslenski melrakkinn. – Annar hluti: Takmarkandi og stýrandi áhrifaþættir íslenska refastofnsins, fæða og tímgun. Náttúrufræðingurinn 93(1−2). 47−58. kemur fram að íslenski refastofninn hefur risið og hnigið í takt við breytingar á fæðuskilyrðum sem virðast tengdar hlýnun. Jafnframt að munur er á landsvæðum hvað þetta varðar, og virðist sú fylgni einkum eiga við refi sem lifa inn til landsins en síður þá sem lifa við sjávarsíðuna. Í greininni er ennfremur bent á að víðast hvar erlendis, þar sem læmingjar eru gjarnan meðal helstu bráðartegunda, sveiflast refastofnar með reglubundnum hætti, bæði hvað varðar fjölda gota og gotstærð, en á Íslandi er einungis hægt að skýra breytileika í refastofninum með fjölda gota. Markvert má telja að gotstærð hjá íslenskum refum virðist hafa verið nánast sú sama alla síðustu öld, bæði hjá strandarefum og þeim sem lifa inn til landsins. Íslenski refastofninn hefur vegna einangrunar sinnar aðlagast þeim vistkerfum sem hann bjó nánast einn að um þúsundir ára. Fæðan hefur verið nægilega reglubundin milli ára til að viðhalda stöðugleika, og ekki hefur komið upp hvati til reglubundinnar aukningar í frjósemi til að mæta fyrirsjáanlegu tapi tækifæra til fjölgunar vegna reglulegs fæðuskorts. Þótt allar líkur séu á að fæða hafi stundum verið af skornum skammti á harðræðistímum, til dæmis vegna langvarandi ótíðar og lélegrar afkomu fuglastofna, má gera ráð fyrir að þegar vel áraði hafi refir einnig upplifað gósentíð með miklu fæðuframboði. Líklegt má telja að þessar sveiflur í skilyrðum hafi ekki verið reglubundnar og því hafi íslenskir melrakkar ekki þróað með sér reglubundnar sveiflur í frjósemi og tímgun.
Í síðari greininni um íslenska melrakkann var þess jafnframt getið að mælst hefur talsvert af kvikasilfri í íslenskum tófum og vísbendingar fundist um að íslenskar refalæður gætu verið útsettar fyrir sýkingum sem valdið geta fósturmissi eða ófrjósemi.
Yfirgripsmiklar rannsóknir á heilbrigði íslenskra refa árin 1985−1989 leiddu í ljós að hjá þeim má finna merki um sjúkdóma sem geta verið skaðlegir fyrir viðkomuna.3Eggert Gunnarsson, Páll Hersteinsson & Stefán Aðalsteinsson 1993. Rannsóknir á sjúkdómum í íslenska melrakkanum. Bls. 49−58 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. Viðlíka heilsufarsrannsókn hafði ekki áður verið gerð og var óvíst um uppruna þessara sýkinga, það er að segja hvort villti stofninn hafði verið útsettur fyrir sýkingum til lengri tíma eða sjúkdómsvaldar borist til landsins með innfluttum refum og þaðan í villt dýr. Innflutningur refa til feldræktar hófst á fjórða áratug 20. aldar og voru þúsundir refa þá hafðir í haldi í þessu skyni. Fyrst voru fluttir inn silfurrefir, sérræktuð afbrigði rauðrefs (V. vulpes) frá Noregi, en síðar bættust við ræktuð afbrigði melrakka, svokallaðir blárefir.4[Hólmjárn J. Hólmjárn] 1938. Loðdýraræktin 1937. Freyr 33(1). 9−13.,5Byggðastofnun 1987. Loðdýrarækt á Íslandi. Skýrsla unnin fyrir landbúnaðarráðuneytið. Byggðastofnun, Sauðárkróki. 74 bls. Einnig á vefsetri stofnunarinnar, slóð: https://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/Loddyraraekt_a_Islandi.pdf Nokkuð var um að búrarefir slyppu út og gátu sníkjudýr, bakteríur og veirur sem borist höfðu til landsins með búrarefunum því borist í íslenska melrakkastofninn. Sama gildir raunar um sjúkdómsvalda, einkum veirur, sem borist geta milli hunda og villtra melrakka og/eða búrarefa.3Eggert Gunnarsson, Páll Hersteinsson & Stefán Aðalsteinsson 1993. Rannsóknir á sjúkdómum í íslenska melrakkanum. Bls. 49−58 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. Önnur alda loðdýraræktar gekk yfir á níunda áratugnum og aftur var fjöldi ræktaðra refa, bæði blárefir og silfurrefir, fluttir til landsins frá Skotlandi og Noregi.5Byggðastofnun 1987. Loðdýrarækt á Íslandi. Skýrsla unnin fyrir landbúnaðarráðuneytið. Byggðastofnun, Sauðárkróki. 74 bls. Einnig á vefsetri stofnunarinnar, slóð: https://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/Loddyraraekt_a_Islandi.pdf Þetta var um svipað leyti og umrædd heilbrigðisrannsókn fór fram, og var því ekki talið mögulegt að þeir sjúkdómar sem þá fundust í villtum refum hefðu borist með hinum nýinnfluttu refum.3Eggert Gunnarsson, Páll Hersteinsson & Stefán Aðalsteinsson 1993. Rannsóknir á sjúkdómum í íslenska melrakkanum. Bls. 49−58 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, ReykjavíkHvort heldur villti íslenski refurinn var sýktur fyrir eða smitaðist af innfluttum refum eða hundum á 20. öldinni er augljóst að í stofninum eru og hafa verið sjúkdómar sem valdið geta skaða.
Í þessari grein, þeirri þriðju um íslenska melrakkann, verður fjallað nánar um þessi mál, einkum þá skaðvalda sem hafa fundist og geta haft áhrif á viðkomu og vanhöld villta refsins og þar með á framtíð tegundarinnar hér á landi.
Efni greinarinnar er byggt á gögnum og sýnum sem safnað hefur verið við vöktun íslenska refastofnsins. Í flestum tilfellum er um að ræða birt efni sem tengist vöktuninni með beinum eða óbeinum hætti. Undanfarinn áratug hefur talsvert af lífsýnum úr íslenskum refum verið sent til rannsóknarstofu í dýrasjúkdómum í Þýskalandi (Leibniz-Institut für Zoo- und Wildtierforschung) og hafa greinst í þeim ýmis eiturefni og mögulegir sjúkdómavaldar.
Umfjöllun um sjúkdóma er að meginuppistöðu byggð á tilraunum þeim og rannsóknum sem fóru fram á árunum 1985−1989 og voru hluti af ofangreindri könnun á heilsufari íslenska melrakkans. Lykilmenn í þessu verkefni voru þeir Eggert Gunnarsson dýralæknir, Páll Hersteinsson dýravistfræðingur (1961−2011) og Stefán Aðalsteinsson erfðafræðingur (1928−2009), og birtu þeir niðurstöður í sérstökum kafla í ritinu Villt íslensk spendýr sem Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd gáfu út árið 1993 í kjölfar ráðstefnu Líffræðifélagsins um villt spendýr á Íslandi.3Eggert Gunnarsson, Páll Hersteinsson & Stefán Aðalsteinsson 1993. Rannsóknir á sjúkdómum í íslenska melrakkanum. Bls. 49−58 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. Í ritinu er einnig að finna kafla um niðurstöður sníkjudýrarannsókna þeirra Karls Skírnissonar og Matthíasar Eydals (1952−2021)6Matthías Eydal & Karl Skírnisson 1993. Sníkjudýr í villtum refum á íslandi. Bls. 59−73 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík. , sem síðar voru birtar í alþjóðlegu vísindatímariti.7Karl Skírnisson, Matthías Eydal, Eggert Gunnarsson & Páll Hersteinsson 1993. Parasites of the arctic fox Alopex lagopus in Iceland. Journal of Wildlife Diseases 29(3). 440−446. Báðir störfuðu þeir Karl og Matthías um áratugaskeið við sníkjudýrarannsóknir á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði á Keldum.
HEIMILDIR
- 1Ester Rut Unnsteinsdóttir 2021. Íslenski melrakkinn. – Fyrsti hluti: Stofnbreytingar, veiðar og verndun. Náttúrufræðingurinn 91(3−4). 97−111.
- 2Ester Rut Unnsteinsdóttir 2023. Íslenski melrakkinn. – Annar hluti: Takmarkandi og stýrandi áhrifaþættir íslenska refastofnsins, fæða og tímgun. Náttúrufræðingurinn 93(1−2). 47−58.
- 3Eggert Gunnarsson, Páll Hersteinsson & Stefán Aðalsteinsson 1993. Rannsóknir á sjúkdómum í íslenska melrakkanum. Bls. 49−58 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík.
- 4[Hólmjárn J. Hólmjárn] 1938. Loðdýraræktin 1937. Freyr 33(1). 9−13.
- 5Byggðastofnun 1987. Loðdýrarækt á Íslandi. Skýrsla unnin fyrir landbúnaðarráðuneytið. Byggðastofnun, Sauðárkróki. 74 bls. Einnig á vefsetri stofnunarinnar, slóð: https://www.byggdastofnun.is/static/files/Skyrslur/Loddyraraekt_a_Islandi.pdf
- 6Matthías Eydal & Karl Skírnisson 1993. Sníkjudýr í villtum refum á íslandi. Bls. 59−73 í: Villt íslensk spendýr (ritstj. Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnason). Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd, Reykjavík.
- 7Karl Skírnisson, Matthías Eydal, Eggert Gunnarsson & Páll Hersteinsson 1993. Parasites of the arctic fox Alopex lagopus in Iceland. Journal of Wildlife Diseases 29(3). 440−446.