Grasafræði á sér langa hefð í Eyjafirði, allt frá tíma Möðruvallaskóla 1880-1902, þar sem Stefán Stefánsson kennari stundaði rannsóknir sínar á flóru og gróðri og samdi bókina Flóru Íslands (Khöfn 1901). Þessi litla bók opnaði mörgum innsýn í heillandi heim plantna, þar á meðal Herði Kristinssyni, er svo vildi til að varð aðalhöfundur bókar með sama nafni, sem út kom 2018, og var allmiklu meiri að vöxtum. Líf hans var tileinkað þessari fræðigrein, og mestan starfsaldur sinn vann hann á Akureyri, fyrst við Náttúrugripasafnið og Lystigarðinn, síðast við Akureyrarsetur Náttúrufræðistofnunar Íslands.
Hörður var fæddur á Akureyri 29. nóv. 1937, en ólst upp á nýbýlinu Arnarhóli við Kaupang í Öngulsstaðahreppi, Eyjafirði. Foreldrar hans voru Kristinn Sigmundsson bóndi, af eyfirskum ættum, og Ingveldur Hallmundsdóttir frá Stokkseyri. Friðdóra, móðir Kristins, var systir Sigtryggs skólastjóra á Núpi í Dýrafirði, sem stofnaði og ræktaði upp garðinn Skrúð.
Hörður varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1958, þar höfðum við verið samtíða einn vetur án þess að kynnast. Um haustið hélt hann til Þýskalands, og innritaðist í líffræði við Háskólann í Göttingen. Þar vorum við Bergþór Jóhannsson fyrir í líffræðinámi, og urðu þar fyrstu kynni okkar þremenninga, er síðar áttum eftir að starfa mikið saman. Allir höfðum við komist í kynni við grasafræði á unglingsaldri, svo var Flóru Stefáns fyrir að þakka. Við þekktum flestar tegundir íslenskra háplantna, en vissum að hinar “lægri plöntur” voru fáum kunnar, og langaði til að bæta úr því. Niðurstaðan varð sú, að við skiptum þeim með okkur. Bergþór tók að sér mosana, Hörður flétturnar og ég sveppina, sem reyndar teljast ekki lengur til plantna. Við byrjuðum að safna þessum plöntum og nafngreina þær áður en við lukum háskólanámi, og þar fylgdu háplöntur auðvitað með.
Ég gerðist kennari við Menntaskólann á Akureyri haustið 1959, og gegndi því starfi með hléum um áratugs skeið. Þar hafði Steindór Steindórsson grasafræðingur verið kennari frá stofnun skólans 1930 og ekki látið sitt eftir liggja að rækja arfleifð Stefáns skólameistara Gagnfræðaskólans, sem var undanfari M.A. Hörður var kennari skólans 1962-63 og aftur 1970-72. Þannig tengdumst við okkar gamla skóla og hinni ríkulegu fræðahefð hans.
Sumarið 1961 fórum við Hörður að ferðast saman um Eyjafjörð og nágrenni. Það varð upphaf að áratuga löngu samstarfi okkar við rannsóknir á flóru og gróðri Íslands og söfnun plantna. Sumarið 1963 gengum við á fjöll við Eyjafjörð, frá innstu dölum til ystu nesja, til að kanna hæðarmörk plantna, sem hafði lítið verið gert áður. Sama ár stofnuðum við tímaritið Flóru, með Steindóri, sem kom út í sex ár. Árið 1964 gerðist ég safnvörður við Náttúrugripasafnið á Akureyri í hlutastarfi. Það var þá aðeins sýningarsafn, en þróaðist smám saman upp í rannsóknastofnun, þar sem grasafræði skipaði háan sess. Um 1970 var þetta orðið fullt starf.
Hörður hóf framhaldsnám í Landbúnaðardeild Háskólans í Göttingen árið 1963 og lauk því með doktorsprófi í árslok 1966. Prófritgerðin fjallaði um lífsferil tveggja sníkjusveppa á refasmára og rifsi. Hún birtist í þýsku tímariti. Þá var eitt embætti í plöntusjúkdómum á Íslandi, sem Ingólfur Davíðsson gegndi og lá ekki á lausu, enda hafði áhugi Harðar þá beinst öllu meira að fléttum, sem raunar eru líka sveppir, þó ólíkar séu í fljótu bragði skoðað. Sérnám hans notaðist vel á því sviði.
Sumarið 1967 tók Hörður að safna fléttum skipulega um allt land og hélt þeirri söfnun áfram næstu árin. Um sama leyti var Terry Johnson frá Duke-háskóla í Durham, Norður-Karólínu, U.S.A., hér á landi að kanna vatnasveppi í tengslum við Surtseyjarrannsóknir. Þá var Hörður kallaður til sem fléttufræðingur, og þar náðu þeir að kynnast. Terry útvegaði Herði ríflegan styrk og aðstöðu til að vinna við rannsókn á fléttusafni sínu við háskólann í Durham 1967-1970. Þangað flutti Hörður með fjölskyldu sína, og þar lærði hann þá tækni sem farið var að nota við fléttugreiningar, og byggist m.a. á efnarannsókn.
Þá samdi Hörður nákvæmar lýsingar á íslenskum blað- og runnfléttum og afbrigðum þeirra og birti nokkrar greinar um það efni, m.a. um afbrigði fjallagrasa. Því miður komst aðalverkið ekki á prent og telst nú líklega úrelt. Einnig kom hann upp skrá yfir fléttutegundir sem þekktar eru á Íslandi, og hefur uppfært hana mörgum sinnum. Hún var fyrst fjölrituð, en hefur síðan um aldamót verið aðgengileg á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands á Internetinu.
Hörður lét þó ekki þar við sitja, því að með fléttusöfnun sinni var hann sífellt með háplöntur í huga og skráði fundarstaði þeirra hvar sem hann kom. Til að kanna útbreiðsluna betur fundu þeir Bergþór Jóhannsson upp á því að skipta landinu í ferhyrnda, 10 x 10 km reiti, sem auðvelt var að merkja inn á Íslandskort í mkv. 1: 100 þús. (Sjá Náttúrufr. 1970). Eftir það vann hann og margir fleiri að því að skrá tegundir háplantna í hverjum reit. Í því skyni var útbúið og prentað “flóruspjald” , annað með íslenskum nöfnum, hitt með skammstöfun fræðinafna allra íslenskra háplantna, þar sem fljótlegt var að merkja við tegundir sem fundust. Þannig urðu til staðgóð kort yfir útbreiðsluna, sem ýmsir hafa notað síðan. Þau voru fjölrituð í Náttúrufræðistofnun Íslands 2004, en síðan hafa þau verið aukin og endurbætt.
Árið 1970 var Hörður ráðinn í hlutastarf við Náttúrugripasafnið á Akureyri og Lystigarð Akureyrar. Auk þess vann hann ýmis sérverkefni, m.a. við rannsókn á landnámi plantna í Surtsey og gróðri í Þjórsárverum, þar sem Bergþór Jóhannsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir unnu með honum. Einnig var hann stundakennari við M. A. og Háskóla Íslands nokkra vetur. Með sér í Náttúrugripasafnið flutti hann fléttusafn sitt, 7-8 þúsund eintök, hefur það síðan verið geymt þar og margfaldast að stærð. Haustið 1973 var Hörður ráðinn forstöðumaður safnsins. Þá var tekinn upp sá háttur, er síðan hefur tíðkast, að safnið seldi út vinnu starfsmanna og aflaði þannig tekna. Því tók Hörður ennþá að sér aukastörf. Ég var áfram í hálfu starfi og sinnti aðallega náttúruvernd.
Haustið 1977 var Hörður ráðinn í nýstofnað embætti prófessors í grasafræði við Líffræðiskor Háskóla Íslands, og flutti þá til Reykjavíkur, en ég tók aftur við safnstjórn. Bergþór var meðal samstarfsmanna hans, og mótuðu þeir kennsluna í þessum fræðum. Hörður hélt áfram að ferðast um landið á sumrum, safna fléttum og bæta útbreiðslukortin. Á hverju vori fór hann með nemendur sína á vikulangt námskeið í plöntuskoðun og greiningu, sem oftast voru í Lýsuhólsskóla á Snæfellsnesi. Þau hafði hann með höndum nokkur ár eftir að hann hætti kennslu við H.Í. Margir nemendur minnast hans sem frábærs leiðbeinanda við það tækifæri.
Árið 1986 voru framundan ýmsar breytingar á stöðu Náttúrugripasafnsins á Akureyri, sem hófust með því að það var sameinað Lystigarði Akureyrar og hét eftir það Náttúrufræðistofnun Norðurlands. Við þau þáttaskil fannst mér rétt að víkja úr sæti forstöðumanns, og var það auglýst vorið 1987. Svo vildi til að Hörður var þá orðinn fullsaddur af prófessorsembættinu, og tók því fegins hendi að taka við starfinu og flytja aftur í heimahaga sína. Þar fékk hann brátt aðsetur á Arnarhóli, uppeldisstað sínum, og bjó þar til æviloka, en ég flutti austur í Egilsstaði.
Það kom í hlut Harðar að leiða Safnið í gegnum þessa breytingu og aðra síst minni, þegar rannsóknahluti Náttúrufræðistofnunar Norðurlands sameinaðist Náttúrufræðistofnun Íslands 1992, og kallast síðan Akureyrarsetur hennar. Það fór á framfæri ríkisins, en sýningarsafnið og Lystigarðurinn voru áfram á vegum Akureyrarbæjar. Flutningur safnsins haustið 1996, úr Hafnarstræti 81 í Krónuna í Hafnarstræti 97, hvíldi líka á herðum Harðar. Þá lagðist sýningarsafnið niður og hefur ekki verið endurreist. Varð mörgum eftirsjá í því. Árið 2004 var Akureyrarsetur N.Í. flutt í Borgir, glæsilega nýbyggingu Háskólans á Akureyri. Veit ég ekki annað en Hörður hafi komið safninu klakklaust í gegnum þessa byltingatíma, þó um það finnist litlar heimildir. Hörður var hlédrægur maður, spar á að segja frá eigin afrekum, vildi heldur láta verkin tala. Hann var lítið gefinn fyrir stjórnunarstörf, og sagði starfi forstöðumanns lausu um aldamótin, en við tók Kristinn Albertsson. Hann hélt þó áfram starfi grasafræðings við Akureyrarsetur N.Í. til sjötugsaldurs, 2007.
Sú stofnun sem byrjaði með 1/4 starfsmanni 1964 veitir nú 10 mönnum fulla vinnu, auk nokkurra lausamanna og gesta er starfa þar tímabundið. Hún hefur rúmgóð húsakynni og ágæta aðstöðu til geymslu og rannsókna. Þar er nú miðstöð grasafræðirannsókna á Íslandi, og eru þá fléttu- og sveppafræði meðtaldar. Þar fer m.a. fram greining á húsmyglu, sem gert hefur mikinn óskunda upp á síðkastið. Þar starfa einnig jarðfræðingur og líftæknifræðingur.
Við Hörður gáfum út Flóru – Tímarit um íslenska grasafræði 1963-1968. Árið 1972 var á grundvelli þess stofnað vísindarit, sem kallast Acta botanica Islandica og kemur út óreglulega, alls hafa komið út 15 hefti, og ritstýrði Hörður því til 1992. Þá birti hann árlega skrá yfir öll rit og greinar um íslenska grasafræði. Um nokkurra ára skeið ferðaðist hann um Þingeyjarsýslur, í því skyni að endurbæta héraðsflóru, sem Helgi Jónasson á Gvendarstöðum hafði byrjað að semja. Hún komst þó ekki á prent. Eftir Hörð liggja um 150 fræðilegar greinar í innlendum og erlendum tímaritum, auk nokkurra bóka og bæklinga.
Þegar Örlygur Hálfdánarson hóf útgáfu alþýðlegra fræðibóka um náttúru Íslands, var sjálfgefið að leita til Harðar, að semja slíka bók um íslenskar háplöntur. Árið 1986 birtist Plöntuhandbókin – Blómplöntur og byrkningar. (Íslensk náttúra II) hjá forlaginu Erni og Örlygi (304 bls.), þar sem 365 tegundum er lýst í máli og myndum. Lýsingar eru frumsamdar eftir íslenskum eintökum. Varð ég vitni að því er hann grandskoðaði plöntusafnið á Akureyri í því skyni. Ljósmyndir hafði höfundur nær allar tekið, en teikningar af plöntuhlutum gerði Sigurður Valur Sigurðsson. Öllum tegundum fylgja útbreiðslukort. Plöntum er ekki skipað í kerfisröð, heldur raðað eftir lit blóma, en grösum, störum og byrkningum sér í flokka.
Plöntuhandbók Harðar varð afar vinsæl og náði brátt mikilli útbreiðslu. Segja má að hún hafi leyst eldri flórubækur af hólmi. Hún kom einnig út á ensku og þýsku, í þýðingu Harðar, og hefur því komið erlendu ferðafólki að góðum notum. Önnur útgáfa, óbreytt, kom út 1998. Bókin var endurskoðuð og gefin út aftur af Forlaginu ehf (Máli og menningu) 2010 undir heitinu Íslenska plöntuhandbókin – Blómplöntur og byrkningar (364 bls.). Þá var lýst 465 tegundum í bókinni, hafði þeim því fjölgað um 100 frá fyrri gerð. Efnisröðun var sama en uppsetning talsvert önnur. Viðbætur eru aðallega plöntur sem nýlega hafa numið land.
Allt frá 1980 vann Hörður, ásamt fleiri íslenskum grasafræðingum, að skrá um íslenskar háplöntur, sem margoft var breytt. Um aldamótin tók Hörður hana til gagngerðrar endurskoðunar og birti hana á netsíðunni floraislands.is. Árið 2008 birtist skráin á prenti í Fjölritum Náttúrufræðistofnunar undir heitinu Íslenskt plöntutal, Blómplöntur og byrkningar (60 bls.). Það var uppfært 2010 á Internetinu. Hörður beitti sér fyrir því að skrásetja íslensk nöfn háplantna, sem birst höfðu á bókum og tímaritum, og velja eitt aðalnafn á hverja tegund. Það er gríðarlegur fjöldi nafna. Fyrir það fékk hann verðlaun Menntamálaráðuneytis á Degi ísl. tungu 2002.
Eins og fyrr segir höfðu fléttur (skófir) verið helsta viðfangsefni Harðar allt frá skólaárum, hann hafði síðan verið helsti, og lengi vel eini fléttufræðingur Íslendinga, og haldið þeirri þekkingu vel við. Það var því orðið tímabært að fléttuflóra birtist frá hans hendi. Bókin Íslenskar fléttur, kom út á prenti í Rvík 2016, 468 bls., í sama broti og Plöntuhandbókin, með ljósmyndum höfundar. Útgefendur voru bókaútgáfan Opna og Hið ísl. bókmenntafélag. Tegundum er raðað eftir ættum. Þetta er greiningarbók fyrir almenning, þar sem lýst er um 390 tegundum í máli og myndum. þ.e. um helmingi tegunda sem hér eru skráðar. Það eru yfirleitt algengar og nokkuð auðþekktar tegundir, en allmargra fleiri er getið. Í inngangi eru ýmsar upplýsingar um fléttur, og teikningar af gróum og greiningarlyklar í bókarlok. (Ritfregn í Náttúrufr. 87. árg. 2017).
Árið 2018 birtist svo bók sú sem kalla má biblíu íslenskra plöntubóka, og ber heitið Flóra Íslands, Blómplöntur og byrkningar. Höfundar texta eru Hörður Kristinsson og Þóra Ellen Þórhallsdóttir, nú prófessor í grasafræði við Háskóla Íslands. Í stað ljósmynda eru teikningar eða málverk í litum eftir Jón Baldur Hlíðberg. Hann hafði áður getið sér gott orð fyrir málverk sín af dýrum lands og sjávar, sem birst höfðu í álíka stórbókum. Þessi nýja Flóra Íslands er um 740 bls. í stóru broti. Þar eru ýtarlegar lýsingar 467 tegunda blómjurta og byrkninga, sem taldar eru landlægar á Íslandi og útbreiðslukort, auk inngangskafla á 50 bls. Málverk Jóns taka mörg heilar síður. Þau voru máluð eftir lifandi eintökum og eru mörg hver sannkölluð listaverk. Útgefandi er Vaka-Helgafell eða Forlagið ehf. Bókin var prentuð í Kína. Hún var unnin í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, líklega að frumkvæði Forlagsins. (Ritfregn í Náttúrufr. 80. árg. 2019).
Samhliða störfum sínum tók Hörður mikinn fjölda mynda af plöntum sem hann komst í færi við og ná þær til allra flokka. Hann á sjálfur nær allar myndir í bókum sínum um fléttur og háplöntur. Hann sýndi mikinn áhuga á Sveppabók minni (2010), og lagði til allt að helmingi mynda í hana, fórum við saman nokkrar ferðir um landið til að afla mynda í hana. Árið 2003 stofnaði Hörður vefsíðuna floraislands.is, með lýsingum og ljósmyndum af öllum íslenskum háplöntum, og úrvali af mosum, fléttum og sveppum, ásamt skrám um íslenskar plöntur. Vefsíðan er öllum opin án endurgjalds, og má víst segja að hún sé jafngildi flórubókar. Hún var afhent Náttúrufræðistofnun Íslands 2022, ásamt plöntumyndasafni hans.
Hörður var alla tíð vakinn og sofinn við að auka og útbreiða þekkingu almennings á hinni villtu flóru og gróðri landsins. Árið 1998 sendi hann dreifibréf til 125 áhugamanna um land allt, með fyrirspurn um viðhorf þeirra til samstarfs á þessu sviði. Niðurstaðan varð óformlegt félag að nafni Flóruvinir. Til að halda því saman hélt hann úti fjölrituðu fréttabréfi, er nefndist Ferlaufungur, af því komu út 12 árgangar, 1998-2012. Þar er að finna margvíslegan fróððleik. Í síðustu tölublöðum er lagt til að mynda staðbundin félög flóruvina. Það mun ekki hafa komist í framkvæmd, en í þess stað varð til netsíðan Flóruvinir á Facebook, þar sem hundruð manna leggja orð í belg og senda inn myndir. Að dansk-norskri fyrimynd tók Hörður upp “Dag hinna villtu blóma” sem haldinn er fyrri part júní um land allt, og skipulagði viðburði á honum 2004-2018. Hörður var sæmdur Íslensku fálkaorðunni á Nýjársdag 2016.
Hörður lærði ungur að spila á píanó, og hefði eflaust náð langt í þeirri list ef hann hefði lagt stund á hana, því ekki vantaði einbeitinguna. Hann spilaði oft í M. A. og á samkomum Íslendinga í Göttingen. Á seinni árum heillaðist hann af harmoniku og náði slíkri leikni í meðferð hennar, að hann gat spilað ýmis klassísk verk tónmenntanna. Hann lék með Félagi harmonikuunnenda við Eyjafjörð um árabil, og tók þátt í landsmótum harmonikufélaga. Hörður kunni vel að meta gömlu dansana, og stundaði þá með Sigrúnu konu sinni fyrst í Reykjavík og síðar á Akureyri.
Vorið 1963 kvæntist Hörður Önnu Maríu Jóhannsdóttur, Konráðssonar gæslumanns og söngvara á Akureyri. Þau eignuðust tvær dætur, Fanneyju (f. 1961), sem var kjördóttir Harðar, og Ingu Björk (f. 1964). Þau skildu 1978. Árið 1988 kvæntist Hörður Sigrúnu Björgu Sigurðardóttur, frá Hafursstöðum í Vindhælishreppi, A.-Hún. Sigrún er áhugasöm um plöntur og lærði að þekkja þær margar á vegferð sinni með Herði.
Hörður gerði aldrei miklar kröfur til fjár eða frama, en komst þó ekki hjá því að gegna ýmsum ábyrgðarstöðum, eins og hér hefur komið fram. Hann var glaðlyndur og gamansamur og ljúfur í umgengni. Aldrei féll skuggi á samstarf okkar, sem varði í áratugi. Hann var fæddur fræðimaður og grasafræðin var honum hugleikin til endadægurs. Hann lifði og hrærðist í henni, hvort sem var á vinnustað eða heimili, þó tónlistin ætti þar líka hauk í horni. Eftir að ég flutti austur skiptumst við reglulega á bréfum og símtölum og heimsóttum hvor annan.
Hörður var heilsuhraustur lengst af ævi sinnar, og lipurð hans og þolgæði í erfiðum gönguferðum var við brugðið. Fyrir nokkrum árum fór hann að kenna sjaldgæfs lungnasjúkdóms, er smám saman tók fyrir alla áreynslu, og síðast varð hann að bera súrefnisgrímu á nótt sem degi. Í þessum erfiðu veikindum var Sigrún honum ómetanleg hjálparhella og gerði honum kleyft að dvelja að mestu leyti heima. Þar lagði Fanney dóttir hans líka hönd að verki, en hún býr í nágrenni Arnarhóls.
Ég hitti Hörð síðast heima á Arnarhóli í ágúst 2022, var hann þá glaður og reifur eins og jafnan áður og virtist ekkert hafa förlast andlega. Vonandi hélt hann sínu góða skapi til endaloka. Þrátt fyrir ýmsar tilraunir til lækninga, m.a. í Danmörku, dró lungnaveikin hann til dauða. Hann andaðist á Sjúkrahúsi Akureyrar 22. júní 2023, 85 ára gamall.
Helgi Hallgrímsson