Herjólfshaugur og Mykitaksgrjót – Tvö berghlaup á Heimaey

PDF Skjal

Herjólfsdalur á Heimaey í Vestmannaeyjum varð til þegar gjóska og hraun fylltu lítinn vog á milli Dalfjalls og Háarinnar í eldsumbrotum í Sæfelli og Helgafelli fyrir um 6 þúsund árum. Hrun úr klettahlíðum dalsins myndaði smám saman brattar hlíðar neðan klettabeltanna. Tvær meiriháttar skriður eða berghlaup, sem hafa verið nefnd Mykitaksgrjót og Herjólfshaugur, urðu í dalnum eftir að hraunið rann og hafa skriðuurðir þeirra sett svip á landslagið. Mykitaksgrjót er efnismikil urð, eða um 500.000 m3. Gjóskulög benda til að Mykitakshlaupið hafi orðið nokkru fyrir landnám eða á árabilinu 700–750 e.Kr. Fátt er hins vegar hægt að fullyrða um Herjólfshaug þar sem hann hvarf fyrir áratugum vegna efnistöku og umsvifa í dalnum. Samkvæmt gömlum lýsingum gæti hann hafa verið um 60.000 m3. Sagnir eru um að haugurinn hafi myndast í skriðuhlaupi á sögulegum tíma. Um sannleiksgildi þeirra verður ekkert fullyrt en gamlar lýsingar á gróðri og jarðvegi í haugnum benda þó til þess að hann hafi verið yngri en Mykitakshlaupið.

Inngangur

Í grein þessari verður greint frá jarðfræði og skriðufallasögu Herjólfsdals í Vestmannaeyjum og byggist hún á athugunum sem gerðar voru fyrir Veðurstofu Íslands þegar unnið var að ofanflóðahættumati fyrir dalinn.1 Þarna er stórt tjaldstæði og gistiaðstaða í smáhýsum undir bröttum hlíðum og klettaveggjum. Auk þess er dalurinn vettvangur mikillar árlegrar útiskemmtunar. Af þessum sökum þótti nauðsynlegt að gert yrði umrætt hættumat. Í hættumatsskýrslunni er jarðmyndunum dalsins lýst og rýnt í skriðufallasögu hans. Grafnar voru könnunargryfjur og jarðvegssnið mæld, stöðugleiki berglaga í klettaveggnum yfir tjaldstæðinu var kannaður og metin hætta á skriðum og hruni. Hér verður greint frá jarðgerð og skriðufallasögu Herjólfsdals en um hættumatið vísast til skýrslu Veðurstofunnar. Jarðsögukaflinn um uppbyggingu og tilurð Heimaeyjar er byggður á rannsóknum annarra.

Berggrunnur

Nyrsti hluti Heimaeyjar státar af bröttum fellum og klettahöfðum sem kallast Norðurklettar og eru jafnframt elsti hluti eyjarinnar. Helstu fell og höfðar eru: Dalfjall (Blátindur 268 m y.s.), Háin (~220 m y.s.), Klif (228 m y.s.), Heimaklettur (279 m y.s.), Miðklettur (207 m y.s.) og Ystiklettur (207 m y.s.) (2. mynd).

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/2.-mynd_Blátindur-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/1.-mynd.-NÝTT-vestm_kort_2020-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/3.-mynd_Mykitakshlaup.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/4.-mynd.-tjaldstaedid.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/5.-stadsetn_snida.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/Jardlog-thversnid.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/05/Tafla1-Jardvegsgryfjur.png

Höfundur

  • Stjórnandi

    Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24