Hallmundarhraun

Endurskoðuð kortlagning

PDF Skjal

SAGT ER FRÁ RANNSÓKN á Hallmundarhrauni í Borgarfirði sem fór fram í tengslum við útgáfu nýs jarðfræðikorts af Vesturgosbelti. Á jarðfræðikortum frá 20. öld og fram á þá 21. var útbreiðsla hraunsins sýnd í meginatriðum sú sama og sjáanlega ekki talin þörf á breytingum. Árið 2013 kom fyrst fram á prenti að hluti hraunbreiðunnar væri eldri en Hallmundarhraun. Er þar um að ræða hraunið sem þekur svonefndan Jökulkrók á milli Eiríksjökuls og Langjökuls. Aldur þess hefur hins vegar verið óljós. Helstu markmið rannsóknarinnar sem hér er til umfjöllunar voru í fyrsta lagi að komast að aldri hraunsins í Jökulkróki og í öðru lagi að fá úr því skorið hvort hraunið í svonefndum Laska norður af Strúti væri eldra en Hallmundarhraun, en um það höfðu menn lengi haft grun. Líkt og oft gerist vatt verkefnið nokkuð upp á sig. Vísbendingar komu fram um að fleiri staðir á þessum slóðum þörfnuðust skoðunar. Rannsóknin staðfesti tilvist hólma úr eldra hrauni í Laska og fleiri hólma norðar. Í Neðri-Fljótadrögum og suðaustan Reykjavatns fundust hrauntungur sem hverfa undir Hallmundarhraun. Grafið var í alla hraunflekki og tilraunir gerðar til að aldursgreina þá með gjóskutímatali. Segja má að viðhlítandi svör hafi fengist við þeim spurningum sem lagt var upp með, svo og fleiri spurningum sem vöknuðu við vinnslu verksins. Rannsóknin hefur leitt til talsverðra breytinga á fyrri mynd Hallmundarhrauns. Ber þar hæst að flatarmál þess hefur minnkað um fjórðung og telst nú vera um 185 km2 í stað 250 km2 áður. Hallmundarhraun er þó sem fyrr eitt af stærstu hraunum á Íslandi frá sögulegum tíma.

INNGANGUR 
Staðhættir og umhverfi 

Hallmundarhraun tilheyrir eldstöðva-kerfi sem kennt er við ríólítfjallið Prestahnúk við suðurenda Langjökuls skammt austan Kaldadalsvegar. Í kerfinu er 90 km langur og 15 km breiður sprungusveimur í NA-stefnu meðfram og undir vestanverðum Langjökli. Eldvirkni hefur ekki verið ýkja mikil í Prestahnúkskerfinu á nútíma en þekktar eru sex gosmyndanir, flestar frá upphafi nútíma. Hallmundarhraun er þeirra langyngst.1Kristján Sæmundsson 2019 (15.11). Prestahnúkur. Íslensk eldjallavefsjá (ritstj. Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson). Slóð (skoðað 15.5. 2022): http://icelandicvolcanoes.is/?volcano=PRE Hallmundarhraun á upptök í stökum gíg undir Jökulstöllum við norðvestanverðan Langjökul (1. mynd). Hraunið rann til vesturs meðfram rótum Eiríksjökuls og áfram að Strúti þar sem það skiptist í tvær kvíslar. Sú vestari og lengri rann niður með Tungu langleiðina að Bjarnastöðum á Hvítársíðu. Eystri kvíslin rann niður með Strút að sunnanverðu í átt að Kalmanstungu en fékk fyrirstöðu af Geitlandshrauni áður en þangað kom. Hvítá rennur við hraunjaðarinn. Mesta lengd hraunsins frá upptökum er um 47 km. Upptakagígur Hallmundarhrauns er í um 750 m hæð yfir sjó en vestasta totan aðeins í 60 m y.s., þannig að lækkunin er mikil. 

Hallmundarhraun er eitt af víðáttumestu og lengstu hraunum landsins frá sögulegum tíma. Þar til fyrir nokkrum árum var Hallmundarhraun talið hafa runnið að Flosavötnum í Jökulkrók, sem er kriki milli Eiríksjökuls og Langjökuls, en komið hefur í ljós að þar er um eldra hraun að ræða.2Sveinn P. Jakobsson 2013. Vesturgosbelti. Bls. 359–365 í: Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands & Háskólaútgáfan, Reykjavík. Ætlað flatarmál Hallmundarhrauns minnkaði þá um 45 km2, úr um 250 km2 í 205 km2. 

Gera má ráð fyrir að þorri landsmanna þekki eitthvað til Hallmundarhrauns. Margir hafa heyrt um eða heimsótt hellana sem í því eru. Hraunið er auðugt að hellum og eru þar jafnframt lengstu hraunhellar sem vitað er um í landinu.3Björn Hróarsson 2006. Hraunhellar á Íslandi I. Mál og menning, Reykjavík. 317 bls. Þeir sem skoða Hraunfossa komast ekki hjá því að horfa yfir hraunið. Undan því spretta lindirnar sem leggja til vatnið í fossana. Um hraunið lá um aldir fjölfarin þjóðleið milli Suðurlands og Norðurlands og má enn sjá skýrar hestagötur upp með Norðlingafljóti því til merkis.4Þorsteinn Þorsteinsson 1962. Arnarvatnsheiði og Tvídægra. Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík. 143 bls. Skammt frá þeim liggur akvegurinn á Arnarvatnsheiði. Vitað hefur verið um hella í Hallmundarhrauni allt frá því skömmu eftir landnám. Í hellunum Víðgelmi og Surtshelli hafa fundist merkar fornleifar frá 10. öld, svo sem grjóthleðslur, gripir, bein og brunaleifar.5Guðmundur Ólafsson 2000. Fylgsnið í hellinum Víðgelmi. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1998. 125–142.6Guðmundur Ólafsson, Smith, K.P. & Agnes Stefánsdóttir 2004. Rannsókn á minjum í Surtshelli. Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafnsins VIII. Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík. Nýlegar rannsóknir benda til að menn hafi verið tíðir gestir í Surtshelli á 10. öld og fram á þá 11., og má marka það af hrúgum húsdýrabeina sem þar hafa fundist.7Smith, K.P., Guðmundur Ólafsson & Albína Hulda Pálsdóttir 2021. Ritual HEIMILDIR responses to catastrophic volcanism in Viking Age Iceland: Reconstructing Surtshellir Cave through Bayesian analyses of AMS dates, tephrochronology, and texts. Journal of Archaeological Science 126. doi:10.1016/j.jas.2020.105316 Þá hafa minjar frá 12.–13. öld fundist í Hallmundarhelli við norðurmörk hraunsins.8Smith, K.P., Guðmundur Ólafsson, Albína Hulda Pálsdóttir & Magnús A. Sigurðsson 2019. Hallmundarhellir Cave: Report of investigations 2017. Research report of the Circumpolar Laboratory 5. Haffenheimer Museum of Anthropology, Brown University, Providence. doi:10.26300/x47t-wa50 

Í Landnámu er greint frá svonefndum Hellismönnum, flokki misindismanna sem líklegast hélt til í Surtshelli. Greint er frá drápi þeirra á Hellisfitjum, sem nú heita Neðri-Fugleyrar9Jakob Benediktsson (ritstj.) 1968. Íslendingabók. Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík. CLIV + 527 bls. auk korta. (Um Hellismenn bls. 75 og 83).. Löngu síðar urðu til reyfarakenndar þjóðsögur af átján mönnum sem bjuggu um sig í hellinum10Jón Árnason (ritstj.) 1961. Hellismanna saga. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II. Þjóðsaga, Reykjavík, bls. 290−293.. Lifðu þeir af sauðaþjófnaði og fóru með ófriði um sveitir. Örlög þeirra urðu grimm og voru þeir drepnir í Vopnalág, allir nema Eiríkur sem komst undan illa særður. Segja má að fáir eigi sér glæsilegri minnisvarða en Eiríkur hellismaður því að helstu kennileiti á þessum slóðum eru Eiríksjökull og Eiríksgnípa. 

LESA ALLA GREIN

HEIMILDIR
  • 1
    Kristján Sæmundsson 2019 (15.11). Prestahnúkur. Íslensk eldjallavefsjá (ritstj. Bergrún A. Óladóttir, Guðrún Larsen & Magnús T. Guðmundsson). Slóð (skoðað 15.5. 2022): http://icelandicvolcanoes.is/?volcano=PRE
  • 2
    Sveinn P. Jakobsson 2013. Vesturgosbelti. Bls. 359–365 í: Náttúruvá á Íslandi. Eldgos og jarðskjálftar (ritstj. Júlíus Sólnes, Freysteinn Sigmundsson & Bjarni Bessason). Viðlagatrygging Íslands & Háskólaútgáfan, Reykjavík.
  • 3
    Björn Hróarsson 2006. Hraunhellar á Íslandi I. Mál og menning, Reykjavík. 317 bls.
  • 4
    Þorsteinn Þorsteinsson 1962. Arnarvatnsheiði og Tvídægra. Árbók Ferðafélags Íslands, Reykjavík. 143 bls.
  • 5
    Guðmundur Ólafsson 2000. Fylgsnið í hellinum Víðgelmi. Árbók Hins íslenska fornleifafélags 1998. 125–142.
  • 6
    Guðmundur Ólafsson, Smith, K.P. & Agnes Stefánsdóttir 2004. Rannsókn á minjum í Surtshelli. Rannsóknarskýrslur Þjóðminjasafnsins VIII. Þjóðminjasafn Íslands, Reykjavík.
  • 7
    Smith, K.P., Guðmundur Ólafsson & Albína Hulda Pálsdóttir 2021. Ritual HEIMILDIR responses to catastrophic volcanism in Viking Age Iceland: Reconstructing Surtshellir Cave through Bayesian analyses of AMS dates, tephrochronology, and texts. Journal of Archaeological Science 126. doi:10.1016/j.jas.2020.105316
  • 8
    Smith, K.P., Guðmundur Ólafsson, Albína Hulda Pálsdóttir & Magnús A. Sigurðsson 2019. Hallmundarhellir Cave: Report of investigations 2017. Research report of the Circumpolar Laboratory 5. Haffenheimer Museum of Anthropology, Brown University, Providence. doi:10.26300/x47t-wa50
  • 9
    Jakob Benediktsson (ritstj.) 1968. Íslendingabók. Landnámabók. Íslenzk fornrit I. Hið íslenska bókmenntafélag, Reykjavík. CLIV + 527 bls. auk korta. (Um Hellismenn bls. 75 og 83).
  • 10
    Jón Árnason (ritstj.) 1961. Hellismanna saga. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri II. Þjóðsaga, Reykjavík, bls. 290−293.

Höfundur

  • Magnús Á. Sigurgeirsson

    Magnús Á. Sigurgeirsson (f. 1963) lauk B.Sc.-prófi í jarðfærði frá Háskóla Íslands 1989 og M.Sc.-prófi frá sama skóla 1992. Hann hefur starfað sem sérfræðingur hjá Íslenskum orkurannsóknum (ÍSOR) síðan 2007. Magnús hefur um langt árabil unnið við athuganir á gjóskulögum í tengslum við fornleifarannsóknir.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24