Frerafjöll og hörfandi sífreri á Íslandi

Á ÍSLANDI er sífreri víða í jarðlögum ofan 600-800 m hæðar yfir sjó. Við sérstök skilyrði finnst sífreri á láglendi, einkum í kuldagildrum þar sem kalt loft varðveitist og endurnýjast svo sem í hellum og holurðum. Mælingar á hitastigi í yfirborðsjarðlögum á hálendinu og í sífrera til fjalla voru gerðar í fáein ár um síðustu aldamót í aðdraganda Kárahnjúkavirkjunar og í tvo síðustu áratugi hefur hópur norskra vísindamanna er tengist Oslóarháskóla mælt hitastig í jörðu á hálendinu og í fjöllum norðanlands og austan. Hafa þeir bæði stuðst við aðgreinda síritandi hitanema og við strengi með þéttri röð hitanema í fjórum borholum. Tilvist sífrera á Íslandi þykir því staðfest.

2. mynd. Í háfjöllum Tröllaskagans eru aðstæður víða hliðstæðar þessum, frostsprengdar og frostlyftar urðir uppi á fjallabrúnum (þelaurðir) en í skálum undir brúnum liggja víða lagskiptar urðartungur urðarjökla. – Blockfields on the top of the mountains of Tröllaskagi and stratified active and inactive rockglaciers nested in cirques. Ljósm./Photo: Ágúst Guðmundsson 1998.

2. mynd. Í háfjöllum Tröllaskagans eru aðstæður víða hliðstæðar þessum, frostsprengdar og frostlyftar urðir uppi á fjallabrúnum (þelaurðir) en í skálum undir brúnum liggja víða lagskiptar urðartungur urðarjökla. – Blockfields on the top of the mountains of Tröllaskagi and stratified active and inactive rockglaciers nested in cirques. Ljósm./Photo: Ágúst Guðmundsson 1998.

Ummerki um fornan sífrera er víða að finna á hálendi landsins og í fjöllum á útjöðrum þess. Sérstaklega er þetta áberandi á utanverðum Vestfjörðum, í fjöllum norðanlands (Frá Húnavatnssýslum austur í Suður-Þingeyjarsýslu) og í Austfjarðafjallgarði. (Að auki finnst virkur sífreri í stökum háum fjöllum á sunnanverðu landinu). Skýr dæmi má sjá í landmótun, djúpri frostveðrun fjalla og mikilli útbreiðslu urðarjöklasets (e. relict rockglacier deposits). Þetta eru talin skýrustu einkenni um tilvist sífrera að fornu og nýju í fjallahlíðum. Greining á rúmfræðilegri stöðu fornra urðarjökla á Tröllaskaga bendir til að á myndunartíma sumra þeirra hafi loftslag verið meira en 3-5 °C kaldara en hér ríkir nú. Rannsakendur sem unnið hafa á Tröllaskaga síðustu tvo áratugi telja að margir virku urðarjöklanna þar séu yngri en 5-6 þúsund ára. Á hálendinu sést hörfun sífrera í freðmýrum með frerarústum (e. palsas) og að frerakúpur (e. lithalsas) hærra í landinu eru að falla saman. Talið er að megnið af slíkum sýnilegum sífrera hafi tekið sér bólfestu á litlu ísöldinni eða tímabilinu 1350-1900. Hörfandi sífreri í fjallahlíðum er talinn leiða til aukinnar tíðni og stækkandi skriðufalla sem eiga upptakasvæði í þiðnandi lausum jarðlögum.

INNGANGUR

Íslendingar hafa um langan aldur þekkt að frost getur verið í jörðu árið um kring og kallast slíkt sífreri. Menn þekkja þetta sérstaklega í hellum þar sem ís hefur legið í botni þeirra árið um kring og jafnvel lokað þeim langtímum saman svo sem var í Víðgelmi í Hallmundarhrauni. Líklega liggur sífreri lægst yfir sjávarmáli hérlendis í kuldagildrum eins og hellum og holurðum (opnum stórgrýttum urðum þar sem djúpt er á fínefni) því kalt loft er tiltölulega eðlisþungt og sígur því niður og helst kalt með nýju köldu lofti á næsta vetri. Smalar sem fóru um gróðursælar mýrar á hálendinu sunnan Hofsjökuls sáu að gróðurlitlar kúpur í mýrunum höfðu ískjarna undir tiltölulega þunnri jarðvegsþekju (samtal við fjallmenn Gnúpverja 1980). Aðrir smalar sem leituðu fjár í fjöllum, til dæmis á utanverðum Tröllaskaga sáu glitta í ís í grófum urðum hátt til fjalla (samtal við Jóhann Ísak Pétursson jarðfr. frá Sléttuhlíð í Skagafirði 2000). Síðar fóru vísinda- menn að veita athygli ummerkjum um sífrera og rita um þau fræðigreinar.

3. mynd. Útbreiðsla urðarbingja og urðartungna á Tröllaskaga. Byggt á korti (teikning 6.1) í ritgerðinni Frerafjöll27. – Distribution of rockglaciers and related debris bodies in the Tröllaskagi peninsula (valley and cirque glaciers light blue)27. Ágúst Guðmundsson 2000.

3. mynd. Útbreiðsla urðarbingja og urðartungna á Tröllaskaga. Byggt á korti (teikning 6.1) í ritgerðinni Frerafjöll27. – Distribution of rockglaciers and related debris bodies in the Tröllaskagi peninsula (valley and cirque glaciers light blue)27. Ágúst Guðmundsson 2000.

Fyrir liðlega hálfri öld (1968) ritaði Þorleifur Einarsson bókina Jarðfræði. Saga bergs og lands1 og í henni er stutt samantekt um sífrera hérlendis. Þar nefnir hann að á miðhálendi Íslands sé sífreri í jörðu enda sé þar úrkomulítið og meðalárshiti undir frostmarki. Sífrerasvæðin séu gjarnan í lægðum og jafnan rök og með gróðurþekju. Eftir lýsingu á sífrerarústum rekur Þorleifur að þær sé helst að finna í Þjórsárverum,

á Arnarvatnsheiði, í Orravatnsrústum norðan Hofsjökuls, við Möðrudal, á Jökuldalsheiði, Vesturöræfum og í Kringilsárrana1. Með aukinni jarðfræðikortlagningu á hálendinu og betra aðgengi að góðum loftmyndum sést að sífreralandslag freðmýra er víðar að finna.

Í fyrstu útgáfu bókarinnar minnist Þorleifur á önnur ummerki um sífrera sem hann nefnir þelaurðir og ritar svo: „Á háfjöllum, þar sem meðalárshiti er undir 0 °C og frostveðrun mikil, verða til þelabundnar skriður og urðir. Á hverju ári bætist grjót í urðina og sígur hún þá undan brekkunni sökum þungans. Þessar þelabundnu urðir mætti nefna þelaurðir. Á ensku nefnast þær rock glaciers. Þær eru nokkuð algengar í Eyjafjarðarfjallgarðinum“ (bls 136).1

Eftirtektarvert er að í seinni útgáfum jarðfræðibókarinnar (sem eru fimm talsins á árunum 1973-1991 ásamt endurprentunum til 1999) hefur umfjöllun um sífrera verið stytt mjög og umfjöllun um það sem Þorleifur nefndi „þelaurðir“ (e. rock glaciers) með öllu sleppt.

Eftir að höfundur kom á sínum tíma (að loknu BSc námi í jarðfræði frá HÍ) inn í heim jarðfræðikortlagningar með ýmsar kenningar á sviði landmótunar í farteskinu, lenti hann í breytilegum vinnuhópum erlendra jarðvísindamanna sem sáu ýmsa landmótunarþætti Íslands frá öðru sjónarhorni en höfundi hafði verið kennt á fyrri skólagöngu. Í byrjun árs 1992 vakti höfundur máls á að urðartungur á basaltsvæðum hérlendis ættu líklega uppruna sinn að rekja til frostniðurbrots við myndum urðarjökla.2 Síðan eru liðnir liðlega fjórir áratugir og hefur höfundi sýnst að sá þáttur jarðfræðinnar er snýr að sífrerajarðfræði hafi vakið sáralitla athygli hérlendis. Því þykir höfundi ástæða til að draga saman það helsta sem honum er kunnugt um að unnið hafi verið við sífrerajarðfræði á Íslandi síðustu áratugi. Hvað greinaskrif á því sviði varðar, koma erlendir vísindamenn aðallega við sögu (og hafa Norðmenn og síðar Spánverjar og Frakkar verið þar fyrirferðarmestir).

LESA ALLA GREIN

Höfundur

  • Ágúst Guðmundsson

    Ágúst Guðmundsson (f. 1949) lauk BS-prófi í jarðfræði frá Háskóla Íslands árið 1976, fjórða árs prófi 1978 og MSc-prófi frá sama skóla árið 2000. Hann starfaði hjá Orkustofnun 1975-1990 að jarðfræðikortlagningu og mannvirkjajarðfræði við fyrirhugaðar vatnsaflsvirkjan- ir. Ágúst hóf rekstur Jarðfræðistofu 1990 og hefur síðan þá starfað sjálfstætt, aðallega sem verktaki fyrir Lands- virkjun og Vegagerðina við undirbúning stórmannvirkja, virkjana og vegganga. Ágúst hefur stundað athuganir og skráningu á sífrera í fjöllum Íslands síðan um 1980 og hin síðari ár í samstarfi við vísindafólk í Noregi og Frakklandi. Ágúst Guðmundsson Jarðfræðistofan ehf | Hólshrauni 7, Is-220 Hafnarfjörður | [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24