Fjölbreytni og þróun bleikjunnar í Þingvallavatni

PDF Skjal

Allmargar rannsóknir hafa farið fram á tilurð og líffræðilegri stöðu fjögurra afbrigða bleikju í Þingvallavatni, og jukust mjög í viðamiklu rannsóknarverkefni sem hófst á áttunda áratug síðustu aldar undir stjórn Péturs M.
Jónassonar. Fjölmargir hafa komið að þessum rannsóknum, ekki síst nemendur í framhaldsnámi, og niðurstöður hafa vakið mikla athygli. Í ljós hefur komið að bleikjuafbrigðin hafa þróast innan vatnsins síðan það myndaðist í lok síðasta jökulskeiðs, og er aðgreining þeirra nátengd fjölbreytni búsvæða og fæðu. Vegna lítillar samkeppni við aðrar tegundir um þessar auðlindir – samhliða mikilli samkeppni innan bleikjustofnsins sem upphaflega kom í vatnið – má gera ráð fyrir að rjúfandi náttúrulegt val hafi samhliða auknum breytileika svipgerða leitt til upphaflegrar þróunar afbrigðanna, og þau síðan að miklu leyti myndað æxlunarlega einangraða stofna. Þróun afbrigðanna hefur leitt til þess að bleikjan nýtir nú allar meginvistir vatnsins og hefur þannig haft mikil áhrif á vistkerfi þess. Rannsóknirnar hafa gefið okkur mikilvæga innsýn í þroskaferlana sem búa að baki breytileikum tiltekinna svipfarsþátta, og hvernig samspili þessa breytileika og náttúrulegs vals er háttað. Þannig virðast áhrif umhverfisþátta á þroska svipgerða hafa verið mikil í upprunalega stofninum en slíkur mótanleiki síðan minnkað eftir því sem afbrigðin greindust að og aðlöguðust mismunandi vistum. Auðlindafjölbrigðni bleikjanna í Þingvallavatni á sér hliðstæðu í ýmsum öðrum tegundum ferskvatnsfiska, sérstaklega á norðurslóðum, en á síðustu áratugum hafa rannsóknir á þessu sviði stóraukið skilning á þróun líffræðilegrar fjölbreytni og myndun nýrra tegunda. Í þessari grein veitum við yfirlit um rannsóknir á afbrigðum Þingvallableikjunnar, tengjum það við almenna þekkingu í vist-, þróunar- og þroskunarfræði, og þýðingu alls þessa fyrir framtíðaráætlanir um skynsamlega nýtingu og verndun Þingvallavatns og vistkerfisins sem þar hrærist.

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.43.21.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.46.43.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/08/Screenshot-2021-08-05-at-09.55.30.png

Höfundur

  • Stjórnandi

    Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24