Fiðrildi næturinnar fönguð

PDF Skjal

Haustið 2019 gerði ég tilraun til að laða að náttfiðrildi með rauðvínsböndum (e. wine robing). Þetta er þekkt aðferð og mikið stunduð erlendis en virðist nær óþekkt hér á landi. Í þessum pistli geri ég grein fyrir þeim aðferðum sem ég hef beitt (1. mynd) og hvaða árangri þær skiluðu. Megináhersla var lögð á að greina og skrá yglufiðrildi. Af þeirri ætt fiðrilda hafa fundist um 43 tegundir hér á landi en aðeins 15 þeirra munu vera hér landlægar.1

Ljósmyndir tók ég á vettvangi við Kiðafell III í Kjós í ágúst fram í október 2019.

Aðferðir

Böndin. Notuð eru hampbönd eða hampsnæri eins og margir kannast við frá fyrri tíð. Ekki er ráðlegt að nota nælonbönd. Snæri þessi eru um 5 mm sver. Hæfilegt er að klippa snærið niður í um eins og hálfs metra langa búta og binda hnút á báða enda til að koma í veg fyrir að þræðirnir rakni upp. Það er oft stæk lykt af hampsnærum og hef ég brugðið á það ráð að setja þau í pott, láta sjóða upp á þeim og skola síðan vel og þurrka fyrir notkun. 

Lögurinn. Notast er við rauðvín (tegund og verð skipta litlu), og er 1 lítri hæfilegur skammtur. Vínið er sett í pott ásamt 700–800 g af sykri og hitað að suðumarki meðan hrært er í. Látið ekki sjóða. Oftast hef ég bætt í þetta ögn af púðursykri, þyrnililju (agave) eða hlynsýrópi til að breikka lyktarsviðið. Síðan er lögurinn látinn kólna og hellt í stóra krukku eða annað ílát sem þægilegt er að koma böndunum ofan í. Nauðsynlegt er að hafa gott lok á ílátinu því vökvinn dugir til lengri tíma. Notast má við ýmsar aðrar aðferðir og auðvelt er að afla sér upplýsinga um þetta á alnetinu með ensku leitarorðunum „sugaring moths“.

Fyrir fyrstu notkun hef ég látið böndin liggja í leginum yfir nótt eða í sólarhring. Böndin eru síðan tekin upp úr og hengd yfir trjágreinar um það bil klukkustund fyrir rökkur. Best er að koma þeim fyrir á skuggsælum og skjólgóðum stöðum. Aðgengi að böndunum þarf að vera gott og þau þurfa að hanga þannig að hægt sé að skoða þau í krók og kring. Böndin voru látin hanga uppi allan sólarhringinn en þeim difið daglega í löginn um klukkustund fyrir rökkur. Með tímanum verða böndin gegnsósa og klístrug. Þá er gott að bregða þeim í pott með vatni og láta sjóða upp á þeim. 

Fiðrildin. Það var rennt nokkuð blint í sjóinn með skipulag athugana en fljótlega kom í ljós ákveðið mynstur í hátterni fiðrildanna. Skömmu eftir að rökkva tekur fara fiðrildin að tínast á böndin. Fjöldi þeirra nær hámarki eftir að myrkur er skollið á og helst nokkuð stöðugur í um tvær klukkustundir en þá fer venjulega að fækka á böndunum. Þetta þýðir að ef maður vill ná hámarki hvers kvölds þarf að færa talningartíma fram, eftir því sem líður á haustið.

Fiðrildin virðast ekki verða manns vör þótt vasaljósi sé beint að böndunum og er því hægt að skoða þau að vild. Stundum er eins og styggð komi að stöku fiðrildi og láta þau sig þá falla lóðbeint niður og setjast í gróðurinn undir trénu. Ef nauðsyn ber til að fanga fiðrildi, svo sem af sjaldgæfri tegund, er yfirleitt auðvelt að bera krukku að því og slá það með flötum lófa ofan í hana. Yglufiðrildi (Noctuidae) má geyma í krukku fram á næsta dag og þá er auðvelt að mynda þau eða skoða til frekari  greiningar.

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8830-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-28-at-14.54.22.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-28-at-14.58.52.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8623.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8196.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8981-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A9035-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8883-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A9132-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8636-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8999-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8652-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A9297-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/311A8487-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Gullglyrna-Kidafelli-IMG_9397.jpg

Höfundur

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24