Rannsókn á efnabúskap Þingvallavatns hefur staðið yfir frá árinu 2007. Heildarstyrkur leystra efna bendir til þess að megnið af innflæði vatnsins hafi svipaða efnaeiginleika og Silfra. Styrkur næringarefnanna kísils, köfnunarefnis og fosfórs var lægri í útfallinu en í lindunum sökum upptöku ljóstillífandi lífvera. Köfnunarefni er það næringarefni sem getur verið takmarkandi fyrir ljóstillífun í Þingvallavatni þar sem leystur fosfór er í ríkum mæli í lindarvatninu. Samanburður við gögn frá 1975 bendir til þess að styrkur nítrats hafi aukist í innstreymi Þingvallavatns, en ekki er hægt að merkja þá aukningu í útfalli vatnsins þar sem ljóstillífandi lífverur taka upp allt nítrat á dvalartíma vatnsins í Þingvallavatni. Hins vegar minnkaði styrkur kísils og fosfórs í útfallinu á rannsóknartímabilinu sem hér er greint frá, 2007–2014, sem bendir til aukinnar frumframleiðni í Þingvallavatni. Á sama tíma varð vart aukinnar sólblettavirkni, og er hugsanlegt að beint samband sé á milli vaxtar kísilþörunga og sólblettavirkni. Minni styrkur kísils og fosfórs í Þingvallavatni bendir sterklega til þess að frumframleiðni í vatninu hafi aukist á rannsóknartímabilinu, vegna ljóstillífunar í dýpri lögum vatnsins þar sem styrkur köfnunarefnis er hærri en í yfirborði þess, vegna aukinnar ákomu köfnunarefnis á vatnasviðinu og/eða vegna aukinnar virkni köfnunarefnisbindandi blágrænna baktería í vatninu. Aukin ákoma köfnunarefnis í Þingvallavatn veldur aukinni frumframleiðni í vatninu, þar sem nægilegt framboð er af fosfór. Það getur minnkað gegnsæi vatnsins og haft neikvæð áhrif á botngróður sem hefur mikla þýðingu fyrir dýralíf í vatninu. Það er því ljóst að takmarka þarf ákomu köfnunarefnis á vatnasviðið, hvort sem hún er staðbundin eða lengra að komin.
https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-21.54.27.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-21.57.06.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-21.59.40.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.01.19.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.04.19.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.06.31.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.09.35.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.28.09.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.33.06.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-22.33.46.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-23.13.36.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/07/Screenshot-2021-07-27-at-23.14.13.png