
Jón Hallsteinn Hallsson (f. 1976) lauk BS-prófi í sameindalíffræði frá Háskóla Íslands vorið 1999 og doktorsprófi í heilbrigðisvísindum frá sama skóla árið 2006. Leiðbeinendur hans voru þeir Dr. Eiríkur Steingrímsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og Dr. Heinz Arnheiter, vísindamaður við National Institutes of Health í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Rannsóknir Jóns í doktorsnáminu miðuðu að því að varpa ljósi á mikilvægi eftirbreytni umritunarþáttarins Mitf í þroskun litfrumna. Jón hefur frá árinu 2005 sinnt rannsóknum og kennslu í erfðafræði við Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem hann fékk framgang í stöðu prófessors árið 2019. Jafnframt gegnir Jón stöðu aðjúnkts við Læknadeild Háskóla Íslands þar sem hann kennir lífupplýsingafræði. Jón hefur birt ritrýndar greinar um augnþroskun í ávaxtaflugum, litaerfðir músa, stofnerfðafræði íslenskra búfjárstofna, sjúkdómsvaldandi sveppi og stjórn blómgunar í byggi.
View all posts