ALMENNT ER TALIÐ HUGSANLEGT að smáfuglar verði ölvaðir af berjaáti á haustin og geti þess vegna farið sér að voða. Til að kanna það fyrrnefnda voru tekin sýni af berjum þriggja reynitegunda og yllis í september og október 2014 og mælt í þeim alkóhól. Trén voru í vesturbæ Reykjavíkur eða í Kópavogi. Berin voru fyrst tínd 18. september og mæld sama dag. Jafnframt voru ber sett í frysti. Hinn 2. október voru frosnu berin mæld og jafnframt tínd ný ber sem voru mæld sama dag. Magn etanóls og metanóls var ákvarðað með gasgreiningu. Í flestum tilvikum voru mæld 6 sýni af hverju tré. Í flestum sýnum mældist bæði etanól og metanól, en í ylliberjum mældist lítið eða ekkert etanól. Etanól mældist í styrk allt að 5,75‰ (g/kg) og metanól allt að 2,03‰ (g/kg) en þetta magn dugir sennilega til að valda ölvunarástandi hjá smáfuglum.
INNGANGUR
Flest ber og ávextir innihalda talsvert magn af kolvetnum, sem eru mikilvægur þáttur í næringu smáfugla. Í náttúrunni eru margar tegundir sveppa og baktería sem geta breytt kolvetnum í alkóhól.1 Í flestum tilvikum myndast mest af et- anóli en einnig getur myndast metanól (tréspíritus).2 Í líffærum hryggdýra er mismikið af alkóhóldehýdrógenasa (ADH), sem er það ensím sem umbrýtur bæði etanól og metanól. ADH breytir etanóli í asetaldehýð, sem er meinlaust efni, en þetta sama ensím breytir metanóli í formaldehýð, sem er eitrað. Formaldehýð umbrotnar síðan í maurasýru, og eitrunareinkenni bæði formaldehýðs og maurasýru eru meðal annars ölvunarástand, blinda, nýrnabilun og dauði. Formaldehýð er þó eitraðra.
Við fundum í gagnasöfnum (PubMed, Web of Science, Google Scholar, Library of Congress) nokkur dæmi um almenna umfjöllun um þetta mál en einungis fáeinar greinar í ritrýndum tímaritum þar sem beitt er vísindalegri aðferðafræði og gerðar mælingar á alkóhóli í berjum eða líffærum fugla. Ekki var gerð ýtarleg heimildaleit enda ekki ætlunin að gefa tæmandi yfirlit yfir efnið. Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvort etanól og metanól væri að finna í berjum algengra trjátegunda í þéttbýli á Íslandi og hvort magn þessara efna er nægjanlegt til að valda ölvunarástandi hjá smáfuglum.3,4 Einnig var kannað hvort frostnætur eru forsenda fyrir myndun umræddra efna.
Birtar hafa verið niðurstöður mælinga á etanóli í berjum1, 2, 4, 5 og í dauðum fuglum.3 Einnig hefur fundist metanól í ýmsum berjum og ávöxtum.2 Þessar rannsóknir sýna svipaðan styrk etanóls og metanóls og fannst í okkar efniviði.