Saga veggjalúsarinnar á Íslandi

Yfirlitsgrein

ÁGRIP

Veggjalús, Cimex lectularius, er blóðsjúgandi skordýr sem nærist á blóði úr fólki og leggst auk þess á blóðheit heimilisdýr svo sem hunda, ketti, nagdýr og hænsni. Norskir hvalfangarar sem reistu hús á Framnesi við Dýrafjörð 1893, fluttu veggjalús með sér hingað til lands. Engar heimildir hafa fundist um tilvist veggjalúsa hér á landi fyrir þann tíma. Fimm árum síðar (1898) var veggjalús komin á næsta bæ, Næfranes. Næstu ár og áratugi barst veggjalúsin jafnt og þétt inn á heimili í nágrenninu, einnig til höfuðborgarsvæðisins og víða út um land. Á 4. áratug 20. aldar hafði veggjalúsar orðið vart í öllum landshlutum. Algengast var að veggjalús bærist milli staða með farangri eða búslóðum, stundum barst hún beint erlendis frá með farangri skipverja. Veggjalús varð yfirleitt mjög algeng í híbýlum fólks og mönnum jafnan til mikils meins. Árangur í baráttunni gegn henni fór ekki að skila varanlegum árangri fyrr en rétt fyrir miðbik aldarinnar, þegar farið var að nota öfluga skordýraeitrið DDT. Áður hafði ýmsum aðferðum verið beitt með misjöfnum árangri. Síðast var vitað um veggjalýs af „gamla stofninum“ á hænsnabúi í Kópavogi á öndverðum 8. áratugnum en þá virðist hún hverfa af landinu. Á 9. áratugnum fór veggjalúsar aftur að verða vart. Bárust þær einkum með farangri innlendra og erlendra ferðalanga, sem gist höfðu í nábýli við veggjalýs erlendis. Árið 2004 er talið að vart hafi orðið við 10 veggjalúsartilvik í Reykjavík. Tveimur áratugum síðar (2023) hafði þessum tilvikum fjölgað verulega og þau talin skipta hundruðum árlega. Flestra tilfellanna verður vart á hótelum, gistiheimilum, í Airbnb húsnæði, heimahúsum og húsnæði þar sem innflytjendur eða farandverkafólk safnast saman.

INNGANGUR

Veggjalús (Cimex lectularius) er blóðsjúgandi skordýr sem eingöngu lifir á blóði. Hún er sólgin í mannablóð en sýgur einnig blóð úr til dæmis hundum, köttum, nagdýrum og hænsnum.1,2 Fyrr á tímum áttu veggjalýs gjarnan athvarf inni í rifum eða sprungum ofan við rúmbálka heimilisfólks. Nú á tímum eru veggir yfirleitt sléttir og glufulausir þannig að veggjalýsnar halda sig að mestu leyti í rúmunum sjálfum. Stundum leita þær líka athvarfs undir gólflistum, í umbúnaði mynda á veggjum eða jafnvel inni í rafmagnsdósum. Mörg tilfelli eru þekkt um veggjalýs sem hafa flutt sig milli hæða eftir rafmagnsrörum. Fyrir kunnuga tekur sjaldnast langan tíma að finna ummerki um veggjalýs. Þegar að er gáð má greina felustaðina á því að svæðið í kring er þakið litlum, dökkum blettum sem myndast þar sem dýrin hægja sér og blóðrauðinn nær að þorna.3,4 Margir kannast líka við sérstaka stingandi lykt sem veggjalýs gefa

frá sér. Dýrin hafa kirtla á kviðnum sem seyta daunillum vökva í varnarskyni þegar á þær er ráðist. Oft má greina blóðpunkta á rúmfötum eftir veisluhöld næturinnar. Kveiki menn ljós að nóttu til má stundum koma auga á veggjalýs sem hætta strax að sjúga og hraða sér í felur.1−3

Í þessari samantekt verða lifnaðarhættir og saga veggjalúsarinnar á Íslandi rakin í grófum dráttum. Sagt verður frá landnámi, stiklað á útbreiðslusögu og lýst aðferðum sem beitt hefur verið til að halda þessum óvinsæla rekkjunauti þjóðarinnar í skefjum.

LESA ALLA GREIN

Höfundur

  • Karl Skírnisson

    Karl Skírnisson (f. 1953) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1977, BS-Honours-prófi við sama skóla árið 1979 og doktorsprófi frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1986. Karl vann á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum á árunum 1979 til 1981. Frá 1987 hefur hann verið þar í fullu starfi við rannsóknir á sníkjudýrum og dýrasjúkdómum.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24