Eldgosin í Geldinga- og Meradölum

Eldgos hófst við Fagradalsfjall í Geldingadölum á Reykjanesskaga kl. 20.45 föstudaginn 19. mars 2021 í kjölfar þriggja vikna jarðhræringa sem skóku hús og skelfdu íbúa í nærliggjandi bæjum, sérstaklega í Grindavík. Í upphafi var gosið uppnefnt „óttalegur ræfill“ en endaði með því að verða hið lengsta á Íslandi á 21. öld, örfáum dögum lengra en gosið í Holuhrauni, og sannkallað túristagos. Hundruð þúsunda lögðu leið sína að gosstöðvunum, sem fljótt varð ein vinsælasta gönguleið landsins. Margir keyptu sér útsýnisflug í þyrlu og fjöldinn allur fylgdist með beinu streymi vefmyndavéla frá gosstöðvunum heilu og hálfu dagana.

Ljósm./Photo: Gunnhildur Helga Katrínardóttir

Ljósm./Photo: Gunnhildur Helga Katrínardóttir

Eldgosið flokkast út frá efnasamsetningu gosefna sem dyngjugos, sem eru fátíð gos, og myndaðist bæði hellu- hraun og apalhraun í gosinu. Gosið stóð með óverulegum hléum fram til 18. september, en þá hætti hraun að flæða úr gígnum. 18. desember 2021 var goslokum formlega lýst yfir en þá hafði hraunrennslis ekki orðið vart í þrjá mánuði.

Ljósm./Photo: Þórarinn Jónsson

Ljósm./Photo: Þórarinn Jónsson

Gosið við Fagradalsfjall var merkilegt fyrir margra hluta sakir. Þetta var fyrsta eldgos á Reykjanesskaga í um 800 ár og markar það því upphaf nýrrar goshrinu á skaganum þar sem síðast gaus á tímum Sturlunga í Reykjaneseldum 1210–1240. Efnasamsetning kvikunnar sem kom upp bendir til þess að hún hafi komið af miklu dýpi, mögulega beint neðan úr möttli án viðkomu í jarðskorpunni. Í því samhengi er talað um „frumstæða“ kviku sem er magnesíumrík og gjarnan tengd við stór og langdregin dyngjugos fyrr í jarðsögunni.
Gosið í Geldingadölum 2021

Ljósm./Photo: Margrét Rósa Jochumsdóttir

Hegðun gossins var óvenjuleg að ýmsu leyti. Gosið breytti nokkrum sinnum um ham, stundum stöðugt kraumandi en stundum í lotuvirkni þar sem gríðarháir og fallegir gosstrókar stóðu tugi eða hundruð metra í loft upp. Vegna þessarar óvenjulegu hegðunar var erfitt að spá nokkru áreiðanlegu um hve lengi gosið myndi standa og var jafnvel rætt um að það gæti staðið í ára- eða áratugaraðir. Gosið lognaðist þó að lokum út af og eftir standa ummerki eins sérstæðasta eldgoss síðustu áratuga – ekki hvað varðar stærð og umfang heldur upphaf og aðdraganda, hegðunar gossins, hraunflæðis og efnasamsetningu kvikunnar sem kom upp.

Ljósm./Photo: Helga Aradóttir

Ljósm./Photo: Helga Aradóttir

Hinn 3. ágúst árið 2022, 320 dögum eftir að hraun sást síðast renna í Geldingadölum, opnaðist um 300 metra löng sprunga í norðanverðum Meradölum, um sex kíló- metrum suðvestan við Keili. Jarðskjálftahrina hafði þá staðið yfir í nokkrar vikur og þremur dögum áður en gos hófst varð skjálfti upp á 5,5 nálægt Grindavík. Hin nýja sprunga opnaðist niðri í Meradölum í jaðri hraunflæmisins sem runnið hafði í fyrra gosinu.

Ljósm./Photo: Svanur Sigurbjörnsson

Ljósm./Photo: Svanur Sigurbjörnsson

Sprungan var í upphafi töluvert lengri og gosið öflugra en gosið í Geldingadölum, gróft metið jafnvel allt að tíu sinnum öflugra. Gosið var sprungugos í ætt við þau sem allajafna verða á Íslandi. Í upphafi gýs þá eftir endilangri upphafssprungunni en eftir því sem líður á gosið styttist sprungan og safnast virknin á færri gosop þar sem stærri gígar myndast. Kvikan sprautast upp úr gosrásinni í nokkurra tuga metra háum kvikustrókum, knúin af gasi sem losnar úr henni á uppleið. Gasið sem losnar er að miklu leyti vatnsgufa, en einnig koltvíoxíð, brennisteinsoxíð, vetni og fleiri gös sem eru mörg hver eitruð. Vegna þess verður að forðast lægðir við gosstöðvarnar og standa með vindinn í bakið þegar sjónarspilsins er notið. Í kvikustrókunum storknar kvikan að hluta til í loftinu og fellur þá sem gjall og klepraslettur kringum gígopið. Fínni gosefni, vikur og aska, geta borist lengri leiðir en öskufall var lítið í gosunum við Fagradalsfjall. Síðara gosinu lauk 21. ágúst 2022.

Eldgosið í Meradölum 2022

Ljósm./Photo: Kristján U. Kristjánsson

Fyrra gosið sker sig úr flestum öðrum íslenskum eldgosum að því leyti að það óx heldur með tímanum og var hraunrennsli mest um miðbik gossins. Það var einnig langvinnt, stóð í sex heila mánuði. Gosið í Meradölum stóð hins vegar aðeins í átján daga. Þróun hraunrennslisins var ólík fyrra gosinu að því leyti að eftir tiltölulega öfluga byrjun dró úr rennslinu og síðustu dagana var það mjög lítið. Í samanburði við gosið í Geldingadölum 2021 var gosið í Meradölum því frekar lítið og líkara þeim sem almennust eru hér á landi. Hraunið varð rétt tæp 8% af rúmmálinu sem kom upp við Fagradalsfjall og flatarmálið aðeins um fjórðungur. Í næstu heftum Náttúru- fræðingsins verður fjallað nánar um gosin tvö.
Eldgosin í Geldinga- og Meradölum

Ljósm./Photo: Þórarinn Jónsson

Eldgosin í Geldinga- og Mýradölum

Ljósm./Photo: Þórarinn Jónsson

Höfundur

  • Margrét Rósa Jochumsdóttir

    Margrét Rósa Jochumsdóttir (f. 1976) er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins, sem gefin er út af Hinu íslenska náttúrufræðifélagi og Náttúruminjasafni Íslands. Hún lauk tveimur mastersgráðum frá Háskóla Íslands, annars vegar í þróunarfræðum og hins vegar í ritstjórn og útgáfu. Einnig lauk hún BA-gráðu í sagnfræði með landafræði sem aukafag frá sama skóla.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24