Viðkvæm vistkerfi í djúpsjó við Ísland: Kóral- og svampasvæði

DOI: 10.33112/nfr.94.3.4

INNGANGUR

Á hafsbotninum í kringum Ísland er að finna ólík vistkerfi, vistgerðir og búsvæði. Rannsóknir benda til að þau séu mjög fjölbreytt en langt er í land með að lýsa þeim og kortleggja. Kortlagning kóralsvæða með neðansjávarmyndavélum hófst árið 2004 á vegum Hafrannsóknastofnunar en stofnunin hefur einnig unnið að kerfisbundinni kortlagningu botnlægra búsvæða, óháð því hvort um viðkvæm svæði er að ræða.

Vistkerfi sem eru viðkvæm fyrir áhrifum mannsins hafa hlotið sérstaka athygli undanfarna áratugi. Samningurinn um verndun Norðaustur-Atlantshafsins (OSPAR) er mikilvægur, og fjallar fimmti viðauki hans um verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins. Listi yfir búsvæði og tegundir sem er ógnað eða hefur hnignað í Norður-Atlantshafi hefur verið gefinn út1 og Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ (FAO) hefur lagt fram leiðbeiningar um hvernig meta skuli vistkerfi í hafi með tilliti til neikvæðra áhrifa af völdum fiskveiða.2 Sérfræðihópar hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu3–5 og Norð-austur-Atlantshafsfiskveiðiráðinu6 hafa listað upp viðkvæm vistkerfi og einkennistegundir þeirra, og byggt þar á viðmiðum FAO. Stuðst hefur verið við þessar skilgreiningar við greiningu viðkvæmra viskerfa við Ísland.

Kaldsjávarkóralrif, kóralagarðar, sæ-fjaðragarðar, þyrpingar svampa á djúpsævi og heitir neðansjávarhverir eru dæmi um viðkvæm vistkerfi í djúpsjó við Ísland.

Kaldsjávarkóralrif hafa án efa hlotið mesta athygli. Þau er að finna víða í Norður-Atlantshafi. Kóralrif eiga víða undir högg að sækja vegna veiða. Í lok tíunda áratugarins komu fram á-bendingar um að rannsókna væri þörf á kóralsvæðum við Ísland, því sannarlega væru slík svæði einnig við Ísland og hefðu að öllum líkindum orðið fyrir áhrifum frá veiðum. Í kjölfar rannsókna á kóral í Norður-Atlantshafi eru nú nokkur kóralsvæði vernduð til að koma í veg fyrir frekari hnignun, meðal annars við Noreg, Svíþjóð, Færeyjar og Ísland.

Í alþjóðasamningum sem Íslendingar eiga aðild að er kveðið á um að komið skuli í veg fyrir hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og komið verði á verndarkerfi (Samningur SÞ um líffræðilega fjölbreytni 1992 og Montréal-Kumnings-samningurinn 2022) og vernduð viðkvæm búsvæði og tegundir (OSPAR-samningurinn). Forsenda þess að hægt sé að framfylgja þeim samningum, sem og að nýta auðlindir hafsins á ábyrgan hátt, er að kortleggja útbreiðslu vistkerfa, meta ástand þeirra og koma á sérstakri verndun þar sem þess er þörf. Með þessari grein er ætlunin að gefa yfirlit um kortlagningu viðkvæmra búsvæða og vistkerfa í djúpsjó. Jafnframt eru listuð upp þau svæði sem hafa hlotið vernd í kjölfar þessara rannsókna.

LESA ALLA GREIN

Höfundur

  • Steinunn H. Ólafsdóttir

    Steinunn Hilma Ólafsdóttir (f. 1974) lauk BSc-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 1998. Árið 2002 lauk hún Cand.Agro. námi við Konunglega dýralækna- og landbúnaðarháskólann í Fredriksberg, Danmörku, undir leiðsögn Kurt Buckmann prófessors í snýkjudýrafræðum. Viðfangsefnið var samspil milli ytri sníkjudýra (Gyrodactylus derjavini) og laxa. Frá 2006 hefur Steinunn unnið hjá Hafrannsóknastofnun við rannsóknir á botndýrum og kortlagninu búsvæða sem fer fram með neðansjávarmyndavélum. Áhersla hefur verið lögð á að kortleggja og meta verndargildi viðkvæmra vistkerfa. [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24