Við erum öll áhuga- náttúrufræðingar!

Leiðari

Náttúrufræðingurinn á sér rótgróinn sess í íslenskum vísindum og er mikilvægur vettvangur fyrir birtingu rannsókna og upplýsinga, hvort heldur er til gagns eða gamans, og oft hvors tveggja. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá sæti í ritstjórn Náttúrufræðingsins fyrir rúmu ári og hef síðan notið þess að skeggræða við það góða fólk sem með mér skipar ritstjórn blaðsins, glugga í innsendar greinar og fræðast meira um fjölbreytt viðfangsefni vísindafólks á Íslandi. Þetta ár í ritstjórn hefur því verið mér lærdómsríkt og ánægjulegt í senn. Ég hef notið þess að víkka sýn mína út fyrir mitt sérsvið, þótt sérsvið séu reyndar ekkert annað en flokkun mannsins á umhverfi sínu, sem þrátt fyrir allt er nauðsynlegt að horfa á í samhengi til að skilja heildarmyndina.

Búseta á Íslandi hefur alltaf kallað á varkárni gagnvart náttúruöflum úr lofti, láði og legi. Stórfenglegir kraftar vatnsafls, veðurofsa og eldgosa hafa skiljanlega mikið aðdráttarafl, en þessi náttúruöfl ber að nálgast af virðingu og þekkingu á þeim hættum sem þau geta skapað. Umbrotin á Reykjanesskaga, sem nú hafa staðið yfir í fimm ár, hafa gjörbreytt lífi íbúanna í Grindavík og vakið aðra landsmenn til umhugsunar um þær fjölmörgu (á)hættur sem fylgja sambúð við virkt eldstöðvakerfi.

Þegar gos hófst í Fagradalsfjalli í mars 2021 vakti það mikinn áhuga bæði innanlands og erlendis og flykktist fólk að í þúsundatali til að berja náttúruundrin augum, enda var gosið í bakgarði höfuðborgarsvæðisins ef svo má segja. Aðdráttarafl eldgossins kallaði reyndar á mikinn viðbúnað viðbragðsaðila því aðsóknin var slík að leggja þurfti göngustíga, kortleggja bæði örugg og óörugg svæði fyrir almenning og viðbragðsaðila og fylgjast með umferð gangandi, hjólandi, akandi og fljúgandi. Eldgosaferðir urðu kærkomin afþreying mitt í Covid-19 heimsfaraldri þar sem útivist varð vinsælt áhugamál margra. Þeir náttúruunnendur sem ekki áttu heimangengt gátu notið dýrðarinnar í einhverri þeirra fjölmörgu vefmyndavéla sem streymdu beint frá svæðinu og var beinu streymi meðal annars varpað á stórt sýningartjald í Laugardalshöll þar sem hópar mættu í bólusetningu. Eldgosin í Fagradalsfjalli voru jafnframt nytsamleg til rannsókna á sviði jarðvísinda og verkfræði og hefur þekkingu á eðli eldstöðvakerfisins fleytt fram, sem og kunnáttu um það hvernig hægt er að verja innviði fyrir hraunflæði, sem kom sér vel þegar umbrot hófust í Svartsengi.

Eldvirkni á kerfi Svartsengis hefur yfir sér öllu alvarlegri brag en Fagradalsfjallseldar. Umbrotin hafa umturnað lífi fólks sem bjó eða starfaði í Grindavík og vakið okkur öll til umhugsunar um hvernig við búum okkur undir slíkar hamfarir. Mikill lærdómur hefur fengist í tengslum við umbrotin og þau hafa velt upp áleitnum spurningum, svo sem um það hvernig samfélagið er í stakk búið þegar eldgosavá ber að höndum, hvar við skipuleggjum byggð, hvernig verja má mikilvæga innviði fyrir hraunflæði, hvernig hægt er að búa í haginn með tilliti til hugsanlegra viðgerða á rafkerfi og stofnæðum vatnsveitu og vegakerfis, og ekki síst hvaða hættur geta skapast þegar eldgos verður við mannabyggð.

Þekking á náttúru landsins er samfélagslegt verðmæti. Hún eflir tengsl við umhverfi okkar og er undirstaða þess að við getum notið náttúrunnar með virðingu og aðgát að leiðarljósi. Þessa þekkingu er mikilvægt að byggja upp strax frá unga aldri og það er nauðsynlegt að til sé efni á íslensku sem höfðar til almennings og er við hæfi allra aldurshópa. Nýverið kom í ljós að læsi íslenskra ungmenna á náttúruvísindi er mun lakara en í nágrannalöndunum. Sú staða verður grafalvarleg eftir því sem á líður, því samfélagið þarf á menntuðu fólki að halda á öllum sviðum náttúruvísinda. Við þessari þróun þarf að bregðast af krafti, með því að auka áherslu á útgefið efni á íslensku sem hentar jafnt ungum sem öldnum.

Náttúrufræðingurinn gegnir mikilvægu hlutverki við miðlun traustra upplýsinga um lífríki og náttúrufar landsins. Með tilkomu rafrænnar útgáfu blaðsins er efnið orðið aðgengilegt stærri lesendahópi en áður og var það mjög til bóta, enda eru Íslendingar, og eflaust einnig sá stóri hópur þjóðarinnar sem er af erlendu bergi brotinn, upp til hópa miklir áhugamenn um náttúruvísindi. Það má segja að okkur sé í blóð borið að vera áhuga-náttúrufræðingar. Höldum áfram að skrifa greinar sem kveikja áhuga almennings en ekki aðeins annarra fræðimanna í faginu, styðjum við íslensku í vísindum og eflum sam-félagið okkar.

Höfundur

  • Ríkey Júlíusdóttir

    Ríkey Júlíusdóttir (f. 1984) lauk meistaragráðu í jarðfræði frá Háskóla Íslands með áherslu á jöklajarðfræði. Hún starfar á Veðurstofu Íslands þar sem hún fer m.a. með verkefnastjórn, s.s. evrópuverkefnisins EUROVOLC (2018-2021) og umfangsmiklu, innlendu innviðaverkefni um eldfjallagögn sem enn stendur yfir (EPOS Ísland). Þá leiðir hún tæknilegt gagnasamstarf um eldfjallagögn innan evrópsku innviðasamtakanna EPOS ERIC.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24