Umbrot í Öræfajökli eftir landnám

Mat sögulegra heimilda

ÁRIÐ 1362 varð í Öræfajökli stærsta sprengigos sem orðið hefur á Íslandi frá landnámi. Þá lagðist Litlahérað í eyði í nokkra áratugi en það fékk síðan heitið Öræfi. Gosinu fylgdi gífurlegt öskufall og stórkostleg flóð á svæðinu vestanverðu. Heimildir um þennan atburð eru fyrst og fremst máldagar kirkna og annálar, sem ýmist eru ritaðir skömmu eftir gosið 1362 eða yfir tvö hundruð árum seinna. Flestir fræðimenn hafa lagt meira upp úr yngri annálunum og telja sumir að gusthlaup hafi eytt öllu lífi á augabragði. Í merkustu samtímaheimildinni, sem er Annálsbrot frá Skálholti, er ekki minnst á manntjón. Hér er ályktað að Annálsbrotið feli í sér nákvæma lýsingu á ummerkjum gossins og að hluti íbúanna hafi komist undan með bústofn sinn og verðmæti. Vestan við Kvíárjökul var kirkjujörðin Hólar, en máldagar frá 12. og 14. öld sýna að hún fór snemma í eyði og var nýtt frá kirkjum í Litlahéraði og Suðursveit. Frá Kvíárjökli er skýr flóðfarvegur til vesturs inn á Hólasvæðið, sem bendir til þess að þar hafi orðið mikið hlaup eftir landnám. Hér er ályktað að þetta hlaup hafi lagt Hóla í eyði á 12. öld. Nýlegar rannsóknir sýna að þröskuldur úr öskju Öræfajökuls um skarðið efst við Kvíárjökul er nú 50 metrum lægri en í hliðstæðu skarði við Virkisjökul. Því má ljóst vera að komi til eldgoss eru meiri líkur á hlaupi úr öskjunni fram Kvíárjökul en á svæðinu vestanverðu. Umbrot í Öræfajökli árin 2017–2019, þ.e. myndun sigdældar í kolli fjallsins vegna jarðhita undir ís, aukin leiðni í Kvíá á svæðinu austanverðu og jarðskjálftar eru vísbending um að eldstöðin sé að rumska.

 

INNGANGUR

Greinarhöfundur hefur um árabil stundað jarðfræðirannsóknir í Öræfum og smám saman orðið ljóst að núverandi stöðu rannsókna, og þar með þekkingu á svæðinu, er ábótavant. Höfundur ákvað að eigin frumkvæði að skoða málið nánar. Verkefnið hefur þróast í nokkuð heilsteypta rannsókn og niðurstöðum eru hér gerð skil.

Megineldstöðin í Öræfajökli er á Suðausturlandi, utan við rekbeltið og þar hefur gosið tvisvar svo vitað sé frá landnámi. Fyrst gaus súru sprengigosi úr kolli fjallsins árið 1362, en árið 1727 varð ísúrt hraungos í hlíðinni fyrir ofan Sandfell.1 Óróinn undanfarin misseri gæti verið undanfari eldgoss og því er ekki úr vegi að skoða gang gossins í Öræfajökli árið 1362 (hér eftir: Ö1362) í ljósi sögulegra heimilda. Svo virðist að þær megi túlka á annan veg en flestir fræðimenn hafa til þessa gert. Vert er að hafa í huga að komi nú til eldgoss í Öræfajökli eru helstu áhættuþættir sem valdið geta manntjóni jökulhlaup, gjóskufall, gjóskuflóð og gusthlaup. Í gjóskufalli fellur vikur og aska til jarðar. Í gjóskuflóði berst heit blanda af vikri eða ösku niður fjallshlíðar. Í gusthlaupi er magn lofttegunda mun meira en í gjóskuflóði og í slíkum flóðum veitir landslag litla fyrirstöðu. Aðrir áhættuþættir eru eituráhrif vegna brennisteinsdíoxíðs, SO2, magn gosefna og lengd goss. Lykilatriði við alla þessa áhættuþætti er staður byggðar á svæðinu og raunhæft mat á aðstæðum í aðdraganda eldgoss. Til einföldunar verður svæðinu hér skipt í vestur- og austursvæði. Vestursvæðið er landið frá Svínafelli að Hofi en austursvæðið milli Hnappavalla og Kvíárjökuls.

2. mynd. Sýn af Hvannadalshnjúk yfir öskju Öræfajökuls. Sjá má sigdæld og hringlaga sprungukerfi. Mynd tekin 19. nóvember 2017 af Einar R. Sigurðssyni. – View from Hvannadalshnjúkur peak over the Öræfajökull caldera, showing subsidence and a circular fracture pattern. Photo taken Nov 19th 2017 of Einar R. Sigurðsson. Ljósm./Photo: Einar R. Sigurðsson.

2. mynd. Sýn af Hvannadalshnjúk yfir öskju Öræfajökuls. Sjá má sigdæld og hringlaga sprungukerfi. Mynd tekin 19. nóvember 2017 af Einar R. Sigurðssyni. – View from Hvannadalshnjúkur peak over the Öræfajökull caldera, showing subsidence and a circular fracture pattern. Photo taken Nov 19th 2017 of Einar R. Sigurðsson. Ljósm./Photo: Einar R. Sigurðsson.jökull caldera and a few ancient farmsteads, where x denotes known location and (x) assumed location. Mynd/Photo: Jóhann Helgason.

Þekktir farvegir frá öskjunni í Öræfajökli niður á láglendi eru við Virkisjökul og Falljökul og er talið að hólarnir miklu við Selhól hafi myndast í Ö1362.2 Rannsóknir með íssjá yfir öskju eldfjallsins sýna að út frá henni liggja skörð sem ís fer um og myndar skriðjöklana. Í ljós kemur að hæð þessara skarða að vestan- og austanverðu er talsvert ólík.3,4 Hæð skarðs er í 1575 m y.s. við Fall- og Virkisjökul en í aðeins 1525 m y.s. efst við skarð Kvíárjökuls. Þessi hæðarmunur bendir til þess að ef askjan fyllist af bræðsluvatni verði hlaup frekar um Kvíárjökul en að vestanverðu. Þessi ályktun styrkist af nýlegri jarðhitavirkni við Kvíárjökul samfara hringlaga sigi og brotum íshellunnar á öskjuyfirborðinu.

Markmið þessarar rannsóknar er annars vegar að leggja mat á manntjón í Ö1362 og hins vegar að kanna hvort jökulhlaup gæti hafa orðið eftir landnám við Kvíárjökul og lagt þar kirkjujörðina Hóla í eyði. Á grundvelli ritaðra heimilda setur höfundur fram þá tilgátu að manntjón í eldgosinu hafi verið ofmetið. Metnar voru fornar heimildir sem ná aftur á 12. öld um byggð og lýsingar á landi í Öræfum og kannað hvaða vísbendingar þær veita um landbreytingar, eldgos og hamfarir sem rekja megi til umbrota í Öræfajökli. Stuðst var við kirkjumáldaga, annála og eyðibýlaskrár, og vægi samtímaheimilda metið gagnvart yngri heimildum. Þessar athuganir voru bornar saman við rannsóknir eldsumbrota og gjóskulaga, breytingar á jöklum og niðurstöður nýlegra fornleifarannsókna í Bæ og í Gröf í Öræfum. Hafi jökulhlaup orðið við Kvíárjökul eftir landnám er ljóst að hætta á svæðinu austanverðu, komi til eldgoss í öskju Öræfajökuls, hefur verið vanmetin.

LESA ALLA GREIN

Höfundur

  • Jóhann Helgason

    Jóhann Helgason (f. 1951) lauk BS-prófi við Háskóla Íslands árið 1976 og PhD-prófi við Dalhousie-háskóla í Halifax, Kanada, árið 1983. Hann starfaði um árabil við kortlagningu berggrunns, m.a. með rannsóknarstyrkjum í Skaftafelli og við Kárahnjúka fyrir Landsvirkjun. Frá 2002 til 2022 starfaði hann sem sérfræðingur hjá Landmælingum Íslands. Jóhann Helgason Baughúsum 43 112 Reykjavík [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24