Surtseyjargosið hófst að morgni 14. nóvember 1963 og fagnar Surtsey 60 ára afmæli í ár. Gosið hófst sem neðansjávargos og telst það með lengstu eldgosum Íslandssögunnar en það stóð allt til miðs árs 1967 eða í rúm þrjú og hálft ár. Strax á öðrum degi gossins kom í ljós eyja upp úr sjónum og stækkaði hún hratt næstu vikur og mánuði.
Henni var gefið nafnið Surtsey eftir eldjötninum Surti úr Norrænni goðafræði. Gosið vakti mikla athygli innanlands sem utan en myndun slíkrar eldfjallaeyjar er mjög sjaldgæfur atburður. Jarðfræðingar gátu fylgst með þróun gossins og í fyrsta sinn urðu menn vitni að og gafst færi á að rannsaka og staðfesta kenningar um myndun móbergs. Einnig hafa líffræðingar fengið einstakt tækifæri til að fylgjast með landnámi plantna, fugla og annarra lífvera síðustu áratugina. Eyjan var friðlýst árið 1965 og árið 2008 var hún skráð á heimsminjaskrána.
Á næstu opnum eru birt ljóð um Surtsey eftir félaga Bragskinnu; áhugafélag fólks um brag fræði og íslenskt mál. Með ljóðunum fylgja myndir eftir ýmsa fræðimenn og málverkið hér að ofan er af gróðri í Surtsey, eftir Þórunni Báru Björnsdóttur myndlistarkonu.