Á GAMLÁRSDAG 2020 fundust óvænt nokkrar tómar hnífskeljar (fylking lindýra, Mollusca, flokkur samloka, Bivalvia) í fjöru innst í Hvalfirði. Skeljarnar draga nafn af útlitinu og eru langar, allt að 24 cm, mjóar, þunnar og beittar, og líkjast helst gamaldags rakhnífum. Fyrir fundinn var ekki vitað til þess að áður hefðu fundist hnífskeljar við Ísland, ef frá er talinn fundur tveggja dauðra fáfnisskelja (Ensis magnus) árið 1957 í fjöru í Lónsvík skammt frá bænum Hvalnesi. Eftir fundinn 2020 fannst í febrúar 2021 lifandi samloka í fjörunni við ósa Hafnarár í mynni Borgarfjarðar. Í kjölfar vettvangsferða höfunda og kynningu fyrstu rannsóknarniðurstaðna á Líffræðiráðstefnu haustið 2021, sem leiddu til umfjöllunar í fjölmiðlum um fundina, bárust fleiri tilkynningar um fundi bæði lifandi og dauðra hnífskelja. Þar á meðal í Kollafirði í maí 2019 og Leiruvogi í febrúar 2020. Fundust skeljar allt að 20 cm langar. Þegar þetta er ritað hefur skelin aðeins fundist við suðaustanverðan Faxaflóa. Í norðanverðu Atlantshafi eru þekktar átta tegundir hnífskelja. Þær eru líkar í útliti og getur verið erfitt að greina þær að. Niðurstöður erfðagreiningar lifandi eintaka í rannsókninni sem hér um getur staðfesta að um er að ræða tegundina Ensis terranovensis, sem við nefnum „sindraskel“. Tegundin hefur til þessa einungis fundist við Nýfundnaland á austurströnd Norður-Ameríku, og var þar fyrst greind árið 2012. Ísland er því fyrsta landið þar sem sindraskel finnst utan náttúrulegra heimkynna. Hún hefur sennilega borist hingað sem lirfa í kjölvatni flutningaskipa, jafnvel fyrir rúmum tíu árum ef mið er tekið af stærstu eintökunum sem hér hafa fundist og áætluðum vexti skeljanna. Flutningur sjávarlífvera af mannavöldum út fyrir náttúruleg heimkynni fer vaxandi. Þar sem framandi tegundir ná fótfestu geta þær breytt og/eða valdið skaða á lífríkinu sem fyrir er. Þess vegna er m.a. mikilvægt að fylgjast með útbreiðslu og lifnaðarháttum sindraskeljarinnar hér við land.
INNGANGUR
Á gamlársdag árið 2020 var Finnur J. Malmquist ásamt fleira fólki að tína krækling í fjöru við ósa Bláskeggsár í Helguvík, Hvalfirði, þegar hann rak augun í nokkrar skeljar neðarlega í fjörunni sem komu honum spánskt fyrir sjónir (1. mynd). Skeljarnar voru mjóar, aflangar, tómar og brotnar, allar nema ein sem hann hirti. Sú var fremur fersk að sjá og hýðið enn utan á skelinni. Finnur tilkynnti fundinn nokkrum dögum síðar til Náttúruminjasafns Íslands. Strax var ljóst að um óvenjulegan fund var að ræða, líklegast hnífskel, samloku af ættkvíslinni Ensis sem aðeins hafði fundist einu sinni áður við Ísland svo kunnugt væri. Það var síðla sumars 1957, í Lónsvík skammt sunnan við bæinn Hvalnes við Eystra Horn. Þar fundust tvær tómar skeljar örskammt frá flóðamörkum. Ytra hýðið var á skeljunum og þær voru lítið skaddaðar, sem bendir til þess að þær hafi ekki legið dauðar lengi á fundarstaðnum.1 Ingimar Óskarsson (1892−1981), náttúrufræðingur og um langt skeið helsti sérfræðingur landsins í lindýrum, rannsakaði skeljarnar og hallaðist að því að um væri að ræða tegundina Ensis arcuatus (Jeffreys, 1865; núverandi heiti E. magnus Schumacher, 1817), sem hann nefndi fáfnisskel.1Ingimar Óskarsson 1969. Hefur nýr borgari bætzt í hóp íslenskra lindýra? Náttúrufræðingurinn 38(3–4). 199–201. (English summary). Fáfnisskel hefur ekki fundist fyrr né síðar hér við land svo vitað sé með vissu.

2. mynd. Fundarstaðir lifandi og dauðra sindraskelja á Íslandi
á tímabilinu maí 2019 til júlí 2022, alls sjö. Bláu punktarnir þrír
sýna fundarstaðina þar sem lífsýni voru tekin úr lifandi samlokum
til tegundarákvörðunar með erfðagreiningu. – Finds of living
and dead Ensis terranovensis in Faxaflói bay, Iceland, over the
period May 2019 to June 2023, in total 7 locations. Blue dots
show locations of living clams used in DNA-analysis for species
identification.
Í kjölfar fundarins í Hvalfirði var haft samband við sérfræðinga á Hafrannsóknastofnun sem sýsla meðsjávarlífverur, meðal annars Karl Gunnarsson, og lagt á ráðin um frekari rannsóknir. Fljótlega bættust í hópinn Davíð Gíslason og Sæmundur Sveinsson, sérfræðingar hjá Matís, auk Sindra Gíslasonar forstöðumanns Náttúrustofu Suðvesturlands og Joana Micael sérfræðings á náttúrustofunni. Á Náttúrustofu Suðvesturlands er framandi sjávarlífverum í strandsjónum við Ísland sérstaklega sinnt. Skipulagðar voru vettvangsferðir í Hvalfjörð og víðar í fleim tilgangi að kanna nánar útbreiðslu skeljanna og fló einkum til að ná í lifandi eintök, bæði til a staðfesta tilveru lindýrsins á staðnum og útvega lífsýni fyrir erfðagreiningu svo ákvarða mætti með öruggum hætti hvaða tegund samlokan tilheyrði.

3. mynd. Margar tómar sindraskeljar fundust
reknar í fjöru við Blikastaðanes í Leiruvogi í febrúar 2022. Á þessum slóðum
fundust einnig tómar sindraskeljar í febrúar
2020. – Empty but whole Ensis terranovensis
found at Blikastaðanes, bay of
Leiruvogur estuary, SW-Iceland, in February
2022. Ljósmynd/Photo: Jónas Pétur Aðalsteinsson.
Hér verður greint frá fyrstu fundum þessarar framandi samlokutegundar á Íslandi, fjallað stuttlega um lífshætti hennar og skyldra tegunda og spáð í mögulega útbreiðslu og hugsanleg áhrif á sjávarlífríkið. Umfjöllunin er byggð á nýútkominni grein höfunda í fagtímaritinu BioInvasions Records2Karl Gunnarsson, Sæmundur Sveinsson, Davíð Gíslason, Hilmar J. Malmquist, Joana Michael & Sindri Gíslason 2023. Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range. BioInvasions Records 12(3). 765–774. þar sem fundinum er lýst og birtar niðurstöður erfðagreiningar lífsýna úr fótbitum þriggja lifandi skelja. Samkvæmt DNA-raðgreiningum á erfðavísum úr hvatberum skeljanna (COI og 16S rRNA) er um að ræða tegundina Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012.
Tegundin E. terranovensis hefur til þessa einungis fundist við Nýfundnaland þar sem hún var nýlega greind (Philip Sargent DFO, Nfl., Kanada, persónulegar uppl.)3Vierna, J., Jensen, K.T., González-Tizón, A.M. & Martínez-Lage, A. 2012. Population genetic analysis of Ensis directus unveils high genetic variation in the introduced range and reveals a new species from the NW Atlantic. Marine Biology 159(10). 2209–2227. https://doi.org/10.1007/s00227-012-2006-6,4Vierna, J., Cuperus, J., Martínez-Lage, A., Jansen, J.M., Perina, A., Van Pelt, H. & González-Tizón, A.M. 2014. Species delimitation and DNA barcoding of Atlantic Ensis (Bivalvia, Pharidae). Zoologica Scripta 43(2). 161–171. https://doi.org/10.1111/zsc.12038 og er Ísland því fyrsta landið þar sem hún finnst utan náttúrulegra heimkynna. Höfundar hafa gefið tegundinni E. terranovensis íslenska heitið sindraskel. Það er gert með tilvísun í norrænan menningararf og til að fylgja frumkvæði Ingimars Óskarssonar sem gaf hnífskeljunum tveimur sem fundust 1957 í Lónsvík nafnið fáfnisskel eftir dvergnum Fáfni. Hér er vísað til Sindra, annars dvergs í fornum frásögnum, sem í Völuspá er kynntur sem hagur mannvirkjasmiður.5Eddukvæði. 2014. Útg. Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason, Hið ísl. fornritafélag, Reykjavík. – Í fyrriparti 36. vísu Völuspár (Konungsbókar) segir: Stóð fyr norðan / á Niðavöllum / salur úr gulli / Sindra ættar … (I, 300).

4. mynd a og b. Fyrsta lifandi eintakið af sindraskel fannst nýrekið nálægt ós Hafnarár í Borgarfirði í febrúar 2021. Skelin lá innan um krækling í sandfjöru. Á efri myndinni hefur dýrið teygt fótvöðvann út úr opinni samlokunni. – First living Ensis terranovensis found at Hafnará estuary, Borgarfjörður, W-Iceland, February 28th 2021. Ljósmynd/Photo: Guðni M. Eiríksson (mynd a) og/and Karl Gunnarsson (mynd b).
HEIMILDIR
- 1Ingimar Óskarsson 1969. Hefur nýr borgari bætzt í hóp íslenskra lindýra? Náttúrufræðingurinn 38(3–4). 199–201. (English summary).
- 2Karl Gunnarsson, Sæmundur Sveinsson, Davíð Gíslason, Hilmar J. Malmquist, Joana Michael & Sindri Gíslason 2023. Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range. BioInvasions Records 12(3). 765–774.
- 3Vierna, J., Jensen, K.T., González-Tizón, A.M. & Martínez-Lage, A. 2012. Population genetic analysis of Ensis directus unveils high genetic variation in the introduced range and reveals a new species from the NW Atlantic. Marine Biology 159(10). 2209–2227. https://doi.org/10.1007/s00227-012-2006-6
- 4Vierna, J., Cuperus, J., Martínez-Lage, A., Jansen, J.M., Perina, A., Van Pelt, H. & González-Tizón, A.M. 2014. Species delimitation and DNA barcoding of Atlantic Ensis (Bivalvia, Pharidae). Zoologica Scripta 43(2). 161–171. https://doi.org/10.1111/zsc.12038
- 5Eddukvæði. 2014. Útg. Jónas Kristjánsson og Vésteinn Ólason, Hið ísl. fornritafélag, Reykjavík. – Í fyrriparti 36. vísu Völuspár (Konungsbókar) segir: Stóð fyr norðan / á Niðavöllum / salur úr gulli / Sindra ættar … (I, 300).