Ný tegund sæsnigils í Atlantshafi

– svartserkur Melanochlamys diomedea (Berg, 1984)

Sumarið 2020 varð vart við óþekkta eggjasekki í fjöru í Fossvogi. Árið 2021 sáust sams konar eggjasekkir í fjöru í Sandgerði og árið 2022 í Breiðafirði. Í ágúst 2023 var leitað í fjöru í Breiðafirði, þar sem mikið var af eggjasekkjum, og fundust þá fullorðnir sniglar sem voru að mynda egg og eggjasekki sem þeir festu við undirlagið. Síðari athuganir mynda frá fyrsta fundi í Fossvogi árið 2020 leiddu í ljós að á þeim voru dýr að mynda eggjasekk. Formfræðileg greining, bæði á fullorðnum einstaklingum og eggjasekkjum, benti til að um væri að ræða sæsniglategundina Melanochlamys diomedea, sem hefur fengið nafnið svartserkur á íslensku. Þessi greining var svo endanlega staðfest erfðafræðilega með COI-, H3- og 16S rRNA- vísum, og jafnframt tilvist nýrrar tegundar í Norður-Atlantshafi. Þekkt náttúruleg útbreiðsla sjávarsnigilsins svartserks nær frá Alaska til Kaliforníu Kyrrahafsmegin í Norður-Ameríku og lifir hann að jafnaði í fínkornóttum setbotni í fjöru og neðan hennar. Ekki er vitað hvenær eða hvernig tegundin barst til Íslands. Líklegast þykir að hann hafi komið hingað nýlega og að tegundin hafi borist hingað með sjóflutningum, annaðhvort með kjölvatni eða sem áseta (e. biofouling) á skipum. Um það er ekki hægt að segja með neinni vissu. Sniglar Melanochlamys-ættkvíslarinnar hafa til þessa aðallega fundist á Indó-Kyrrahafssvæðinu og í Kyrrahafinu. Aðeins ein tegund er þekkt utan þess svæðis, og lifir við Madeiraeyjar, Kanaríeyjar og Grænhöfðaeyjar í Atlantshafi.

 

INNGANGUR

 

1. mynd. Myndin er tekin 25. júní 2020 í Fossvogi og sýnir, í fyrsta skipti hér á landi, sæsnigilinn svartserk mynda eggjasekki og festa við undirlagið í fjörunni. – Image taken June 25th 2020 in Fossvogur, SW-Iceland, showing Melanochlamys diomedea laying eggsacs on the littoral subtrate. June 25th 2020 is the first confirmed sighting of the species in Iceland.

1. mynd. Myndin er tekin 25. júní 2020 í Fossvogi og sýnir, í fyrsta skipti hér á landi, sæsnigilinn svartserk mynda eggjasekki og festa við undirlagið í fjörunni. – Image taken June 25th 2020 in Fossvogur, SW-Iceland, showing Melanochlamys diomedea laying eggsacs on the littoral subtrate. June 25th 2020 is the first confirmed sighting of the species in Iceland.
Mynd/Photo: Aron Alexander Þorvarðarson.

Á norðurslóðum sjást nú þegar miklar breytingar í vistkerfum sjávar vegna hlýnunar loftslags, svo sem almenn minnkun hafíss og þar af leiðandi bæði stærri íslaus svæði og svæði sem eru íslaus í lengri tíma.1Vihma, T. 2014. Effects of Arctic sea ice decline on weather and climate: A review. Surveys in Geophysics 35(5). 1175–1214. https://doi.org/10.1007/s10712-014-9284-0 Eitt af því sem  breyttar umhverfisaðstæður í sjó leiða af sér, hvort heldur orsökin eru loftslagsbreytingar eða annars konar röskun, er breytt tegundasamsetning.2Roy, H.E., Pauchard, A., Stoett, P., Renard Truong, T., Bacher, S., Galil, B.S., Hulme, P.E., Ikeda, T., Sankaran, K., McGeoch, M.A., Meyerson, L.A., Nuñez, M.A., Ordonez, A., Rahlao, S.J., Schwindt, E., Seebens, H., Sheppard, A.W., & Vandvik, V. 2023. The thematic assessment report on invasive alien species and their control: Summary for policymakers. Intergovernmental science-policy platform on biodiversity and ecosystem services (IPBES), Bonn. 31 bls. https://doi.org/10.5281/zenodo.10127924 Á síðustu áratugum hefur flutningur framandi tegunda um heiminn stóraukist. Í skýrslu IPBES frá 2023 eru framandi tegundir nú taldar vera ein helsta ógnin við líffræðilegan fjölbreytileika í heiminum.2Roy, H.E., Pauchard, A., Stoett, P., Renard Truong, T., Bacher, S., Galil, B.S., Hulme, P.E., Ikeda, T., Sankaran, K., McGeoch, M.A., Meyerson, L.A., Nuñez, M.A., Ordonez, A., Rahlao, S.J., Schwindt, E., Seebens, H., Sheppard, A.W., & Vandvik, V. 2023. The thematic assessment report on invasive alien species and their control: Summary for policymakers. Intergovernmental science-policy platform on biodiversity and ecosystem services (IPBES), Bonn. 31 bls. https://doi.org/10.5281/zenodo.10127924 Mikilvægt er að rannsaka og fylgjast með framvindu og afdrifum nýrra framandi tegunda, ekki síst til að vita hvort þær geti orðið ágengar. Fjöldi framandi tegunda í sjó hér við land hefur aukist jafnt og þétt á síðustu þremur áratugum og er heildarfjöldi þeirra nú 36.3AquaNIS 2025. Information system on Aquatic non-indigenous and cryptogenic species. Sem dæmi má nefna að grjótkrabbi (Cancer irroratus) fannst árið 2006 og sindraskel (Ensis terranovensis) árið 2020. Báðar þessar tegundir fundust fyrst í Hvalfirði og er talið að þær hafi borist til landsins með kjölvatni.4Óskar Sindri Gíslason, Snæbjörn Pálsson, McKeown, J.N, Halldór P. Halldórsson, Shaw, P.W. & Jörundur Svavarsson 2013. Genetic variation in a newly established population of the Atlantic rock crab Cancer irroratus in Iceland. Marine Ecology Progress Series 494. 219–230. https://doi.org/10.3354/meps10537,5Karl Gunnarsson, Sæmundur Sveinsson, Davíð Gíslason, Hilmar J. Malmquist, Joana Micael & Sindri Gíslason 2023. Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range. BioInvasions Records 12. 765–774.,6Hilmar J. Malmquist, Karl Gunnarsson, Davíð Gíslason, Sæmundur Sveinsson, Joana Micael & Sindri Gíslason 2024. Sindraskel (Ensis terranovensis) – nýr landnemi í sjó við Ísland. Náttúrufræðingurinn 94(1–2). 6–18. Þessar breytingar endurspegla alþjóðlega þróun og aðgerðaleysi stjórnvalda við stefnumótun, eftirlit og aðgerðir. Í skýrslu Sameinuðu þjóðanna um sjóflutninga frá 2024 kemur fram að sjóflutningar hafa aukist frá samdrætti í faraldrinum árin áður og er því spáð að þeir aukist enn frekar á komandi árum.7UN Trade and Development 2024. Review of maritime transport 2024. United Nations Publications, Genf. 166 bls. https://doi.org/10.18356/9789211065923 Það hefur því sjaldan verið mikilvægara en nú að vakta komu nýrra tegunda við Íslandsstrendur, þar sem búast má við áframhaldandi breytingum næstu áratugi.

2. mynd. Innri gerð svartserks. – Anatomy of Melanochlamys diomedea. Teikning/Drawing: Sindri Gíslason.

2. mynd. Innri gerð svartserks. – Anatomy of Melanochlamys diomedea. Teikning/Drawing: Sindri Gíslason.

Í júní 2020 bárust Náttúrustofu Suðvesturlands myndir af hvítum sekkjum í fjöru í Fossvogi (1. mynd). Sekkirnir voru í miklum þéttleika í fjörunni og taldir vera möttuldýr. Við greiningu myndanna kom í ljós að um eggjasekki var um að ræða. Árið 2021 fann starfsfólk Náttúrustofunnar sams konar eggjasekki í fjöru í Sandgerði. Voru þeir ljósmyndaðir og teknir til frekari rannsókna og varðveislu. Þá eru til myndir teknar í júní og desember árið 2022 í innanverðum Breiðafirði. Sjá mátti mikið magn sams konar sekkja um sumarið og stöku sekki í desember. Það var svo haustið 2023 að starfsmenn Hafrannsóknastofnunar uppgötvuðu dýr sem voru að mynda eggjasekki í innanverðum Breiðafirði.

Starfsfólk Náttúrustofu Suðvesturlands taldi út frá útlitseinkennum eggjasekkja að um væri að ræða tegundina Melanochlamys diomedea. Á sama tíma komst starfsfólk Hafrannsóknastofnunar að sömu niðurstöðu út frá sýnum frá Ósi á Skógarströnd, bæði útlitseinkennum dýra og útliti innri skeljar. Erfðarannsóknir á dýrum og eggjasekk leiddu til sömu niðurstöðu.

3. mynd. Skel svartserks er innan í dýrinu. Lögun hennar er einkennandi fyrir tegundina. – The shell of Melanochlamys diomedea is located inside the animal. Its shape is characteristic of the species. Ljósm./Photo: Svanhildur Egilsdóttir.

3. mynd. Skel svartserks er innan í dýrinu. Lögun hennar er einkennandi fyrir tegundina. – The shell of Melanochlamys diomedea is located inside the animal. Its shape is characteristic of the species. Ljósm./Photo: Svanhildur Egilsdóttir.

Tekin var ákvörðun um samvinnu milli Hafrannsóknastofnunar og Náttúrustofu Suðvesturlands, en þar starfa helstu sérfræðingar Íslands í framandi tegundum í sjó. Nú var búið að staðfesta tegundina og næsta skref var að kynna fundinn fyrir fræðasamfélaginu og almenningi, til að athuga hvort einhverjir „fjörulallar“ hefðu frekari vitneskju um tegundina hér. Tilvist tegundarinnar á Íslandi var kynnt á veggspjaldi á Líffræðiráðstefnu Líffræðifélags Íslands haustið 2023, sem og með viðtölum og umfjöllun í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Kynningin hafði tilætluð áhrif og fljótlega bárust upplýsingar frá valinkunnum fjörulöllum. Þar sem tegundin hafði ekki íslenskt nafn kom það í hlut hópsins að finna viðeigandi heiti. Fyrir valinu varð heitið svartserkur. Það þótti mjög lýsandi fyrir tegundina, en vert er að nefna að grísklatneska fræðiheitið Melanochlamys er samsett úr gríska lýsingarorðinu melanos = svartur, og nafnorðinu khlamus = skikkja eða serkur. Fyrstu dýrin fundust ekki langt frá Berserkjahrauni á Snæfellsnesi og þar kviknaði hugmyndin að nafninu serkur. Áður hafa aðeins fundist tvær tegundir af þessum ættbálki (Cephalaspidea) við Ísland, þ.e. Philine angulata (skráningar úr gagnagrunni Hafrannsóknastofnunar) og Philinissima denticulata.8Mannvik, H.-P. & Snorri Gunnarsson 2022. C-Survey at Haganes, 2022 (max biomass). (Unnið fyrir Arnarlax ehf.).Akvaplan-niva (Report: 2022 64106.03), Tromsø. 36 bls. Báðar þessar tegundir lifa í NorðurAtlantshafi, en svartserkur hefur áður aðeins fundist í Kyrrahafinu við strendur NorðurAmeríku.9Cooke, S., Hanson, D., Hirano, Y., Ornelas-Gatdula, E., Gosliner, T.M., Tsjernyshev, A.V. & Valdés, Á. 2014. Cryptic diversity of Melanochlamys sea slugs (Gastropoda, Aglajidae) in the North Pacific. Zoologica Scripta 43. 351–369. https://doi.org/10.1111/zsc.12063 Fundur svartserks við strendur Íslands þykir því mjög athyglisverður og þótti ástæða til að rannsaka erfðaefni sniglanna og bera saman við aðgengilegar genaraðir í genasafni til að fá greiningu staðfesta.

Markmiðið með þessum skrifum er að greina frá fyrsta fundi svartserks í Atlantshafi. Segja frá ferlinu frá því að hann sást fyrst í fjöru við Ísland þar til staðfest tegundagreining fékkst, greina frá þekktri útbreiðslu og fjalla um mikilvægi þess að fylgst sé vel með nýrri framandi tegund og framvindu hennar.

 

LESA ALLA GREIN

HEIMILDIR
  • 1
    Vihma, T. 2014. Effects of Arctic sea ice decline on weather and climate: A review. Surveys in Geophysics 35(5). 1175–1214. https://doi.org/10.1007/s10712-014-9284-0
  • 2
    Roy, H.E., Pauchard, A., Stoett, P., Renard Truong, T., Bacher, S., Galil, B.S., Hulme, P.E., Ikeda, T., Sankaran, K., McGeoch, M.A., Meyerson, L.A., Nuñez, M.A., Ordonez, A., Rahlao, S.J., Schwindt, E., Seebens, H., Sheppard, A.W., & Vandvik, V. 2023. The thematic assessment report on invasive alien species and their control: Summary for policymakers. Intergovernmental science-policy platform on biodiversity and ecosystem services (IPBES), Bonn. 31 bls. https://doi.org/10.5281/zenodo.10127924
  • 3
    AquaNIS 2025. Information system on Aquatic non-indigenous and cryptogenic species.
  • 4
    Óskar Sindri Gíslason, Snæbjörn Pálsson, McKeown, J.N, Halldór P. Halldórsson, Shaw, P.W. & Jörundur Svavarsson 2013. Genetic variation in a newly established population of the Atlantic rock crab Cancer irroratus in Iceland. Marine Ecology Progress Series 494. 219–230. https://doi.org/10.3354/meps10537
  • 5
    Karl Gunnarsson, Sæmundur Sveinsson, Davíð Gíslason, Hilmar J. Malmquist, Joana Micael & Sindri Gíslason 2023. Mollusc on the move; First record of the Newfoundland’s razor clam, Ensis terranovensis Vierna & Martínez-Lage, 2012 (Mollusca; Pharidae) outside its native range. BioInvasions Records 12. 765–774.
  • 6
    Hilmar J. Malmquist, Karl Gunnarsson, Davíð Gíslason, Sæmundur Sveinsson, Joana Micael & Sindri Gíslason 2024. Sindraskel (Ensis terranovensis) – nýr landnemi í sjó við Ísland. Náttúrufræðingurinn 94(1–2). 6–18.
  • 7
    UN Trade and Development 2024. Review of maritime transport 2024. United Nations Publications, Genf. 166 bls. https://doi.org/10.18356/9789211065923
  • 8
    Mannvik, H.-P. & Snorri Gunnarsson 2022. C-Survey at Haganes, 2022 (max biomass). (Unnið fyrir Arnarlax ehf.).Akvaplan-niva (Report: 2022 64106.03), Tromsø. 36 bls.
  • 9
    Cooke, S., Hanson, D., Hirano, Y., Ornelas-Gatdula, E., Gosliner, T.M., Tsjernyshev, A.V. & Valdés, Á. 2014. Cryptic diversity of Melanochlamys sea slugs (Gastropoda, Aglajidae) in the North Pacific. Zoologica Scripta 43. 351–369. https://doi.org/10.1111/zsc.12063

Höfundar

  • Svanhildur Egilsdóttir (f. 1966) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í líffræðiljósmyndun frá Nottingham háskóla ári 2015. Svanhildur starfar sem sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun. svanhildur.egilsdottir@hafogvatn.is

    Svanhildur Egilsdóttir (f. 1966) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands árið 1992 og meistaraprófi í líffræðiljósmyndun frá Nottingham háskóla ári 2015. Svanhildur starfar sem sérfræðingur á Hafrannsóknastofnun. Netfang: [email protected]

  • Áki Jarl Láruson (f. 1985) lauk BS-prófi í almennri líffræði með aukagrein í efnafræði við California State Polytechnic University, Humboldt, árið 2010, og doktorsprófi við Hawaí-háskóla í Mānoa 2018. Hann hefur unnið við að svara þróunar- og vistfræðilegum spurningum með erfðamengjagögnum, meðal annars við Northeastern-háskóla og Cornell-háskóla. Áki Jarl starfar sem stofnerfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun. aki.jarl.laruson@hafogvatn.is

    Áki Jarl Láruson (f. 1985) lauk BS-prófi í almennri líffræði með aukagrein í efnafræði við California State Polytechnic University, Humboldt, árið 2010, og doktorsprófi við Hawaí-háskóla í Mānoa 2018. Hann hefur unnið við að svara þróunar-og vistfræðilegum spurningum með erfðamengjagögnum, meðal annars við Northeastern-háskóla og Cornell-háskóla. Áki Jarl starfar sem stofnerfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun. Netfang: [email protected]

  • Laure de Montety

    Laure de Montety (f. 1977) lauk BS-prófi í líffræði frá Joseph Fourier-háskólanum í Grenoble 1998, og meistaraprófi í haffræði frá Québec- háskóla 2002. Laure er sérfræðingur í flokkunarfræði botndýra á Hafrannsóknastofnun. Netfang: [email protected]

  • Joana Micael

    Joana Micael (f. 1979) lauk BS-prófi í sjávarlíffræði við háskólann á Asoreyjum 2003, meistaraprófi við háskólanum í Porto 2006 og doktorsprófi við háskólann á Asoreyjum 2011. Hún hefur stundað rannsóknir á framandi tegundum í á annan áratug. Hún er stofnfélagi í Arctic Coastal Biodiversity Observation Network (ARC-BON). Joana starfar sem sérfræðingur á Náttúrustofu Suðvesturlands. Netfang: [email protected]

  • Sindri Gíslason

    Sindri Gíslason (f. 1984) lauk BS-prófi í líffræði við Háskóla Íslands 2007, meistaraprófi við sama skóla 2009 og doktorsprófi við sama skóla 2015. Sindri hefur í tvo áratugi stundað rannsóknir á framandi tegundum í sjó hér við land og haft forystu um eflingu rannsókna á því fræðasviði hérlendis. Hann er fyrsti og eini fulltrúi Íslands í vinnuhópi Alþjóða-hafrannsóknaráðsins um flutning framandi tegunda í sjó (ICES WGITMO). Sindri hefur frá 2015 starfað sem forstöðumaður Náttúrustofu Suðvesturlands. Netfang: [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Náttúruminjasafn Íslands 

Bygggarðar 12

170 Seltjarnarnes

www.nmsi.is

[email protected]

Ritstýra: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Bygggarðar 12

170 Seltjarnarnes