Náttúrufræðingurinn í níutíu ár

Náttúrufræðingurinn hefur nú komið
samfellt út í níu áratugi. Þessi tímamót hafa ekki farið hátt og því er rétt að minna á þau, rifja upp sögu Náttúrufræðingsins sem enn lifir góðu lífi, og líta til framtíðar og tækifæranna sem þar bíða. Níutíu ára afmælisárgangurinn verður óvenjustór í sniðum og fjölbreyttur. Fyrr á árinu var gefið út 140 bls. þemahefti um rannsóknir í Þingvallavatni, til heiðurs dr. Pétri M. Jónassyni vatnalíffræðingi á aldarafmæli hans. Pétur féll frá 1. október í haust. – Blessuð sé minning merks náttúrufræðings og vinar. Hér hafa lesendur fyrir framan sig 2.–3. hefti 90. árgangs og vonir standa til að fyrir árslok fái menn 4.–5. heftið í hendur.
Það var mikil gerjun í þjóðlífinu á árinu 1930. Alþingishátíð var haldin, fyrsti þjóðgarðurinn stofnaður á Þingvöllum, Ríkisútvarpið tók til starfa og Kvenfélagasamband Íslands var stofnað. Það var líka á árinu 1930 að tveir stórhuga náttúrufræðingar, dr. Guðmundur G. Bárðarson jarðfræðingur og dr. Árni Friðriksson fiskifræðingur, stofnuðu til útgáfu Náttúrufræðingsins, „alþýðlegs fræðslurits um náttúrufræði“. Þeir voru fyrstu ritstjórar tímaritsins og gáfu það út á eigin ábyrgð og kostnað. Fram að þeim tíma höfðu greinar um náttúrufræði birst í hinum ýmsu blöðum og tímaritum bæjarins, en þarna var kominn vettvangur fyrir ört vaxandi hóp fræðimanna sem lagði stund á rannsóknir á íslenskri náttúru. Tímaritinu var vel tekið. Fyrsti árgangurinn 1931 var gefinn út í 12 heftum, samtals 188 blaðsíður og var áskriftarverðið 6 krónur. Þar kenndi ýmissa grasa; greinar um dýrafræði, mannfræði og læknisfræði, grasafræði, jarðfræði og landafræði, veðurfræði, stjörnufræði og fleira. Undir árslok 1931 birti Náttúrufræðingurinn grein eftir Bjarna Sæmundsson fiskifræðing um tunglfiskseiði sem rekið hafði á Hraunfjörur í Grindavík, en í þessu hefti, 90 árum síðar, er einmitt að finna yfirlitsgrein um tunglfisk á Íslandsmiðum eftir fiskifræðingana Ólaf Ástþórsson og Jónbjörn Pálsson. Þeir vísa til þessarar gömlu greinar Bjarna, sem er mikilvæg heimild um fyrsta ungviði þessarar tegundar sem fannst hér við land. Þetta er ágætt dæmi um notagildi og mikilvægi Náttúrufræðingsins fyrr og nú.
Hið íslenska náttúrufræðifélag keypti
útgáfu Náttúrufræðingsins 1941 og gerði
að félagsriti sínu 1952. Félagið stóð eitt að útgáfunni til 1996, en í samvinnu við Náttúrufræðistofnun Íslands, 1996–2006, og við Náttúrufræðistofu Kópavogs, 2006–2010. Á aðalfundi HÍN 2014 var undirritaður samningur milli Náttúruminjasafns Íslands og HÍN um formlega aðkomu safnsins að útgáfu Náttúrufræðingsins. Þessi samningur renndi styrkum stoðum undir útgáfuna. Safnið greiðir helming af útgáfukostnaði og leggur að auki til aðstöðu fyrir tímaritið, sem nú er gefið út í nafni félagsins og safnsins.
Í upphafi var ákveðið að Náttúrufræðingurinn skyldi vera „alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði“ og standa þau einkunnarorð enn í blaðhaus ritsins. Fyrstu áratugina báru frumkvöðlarnir og forysta HÍN uppi skrifin en smám saman fjölgaði menntuðum náttúrufræðingum, höfundahópurinn varð fjölbreyttari og vísindagreinar sem byggðust á frumrannsóknum urðu fyrirferðarmeiri á síðum tímaritsins. Á sjötta áratugnum var tekin upp sú regla að birta enskt ágrip með ritrýndum greinum og eru þær nú metnar til framgangs í akademískum störfum við háskóla og rannsóknarstofnanir.

Álfheiður Ingadóttir,
ritstjóri Náttúrufræðingsins

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Image-1-scaled.jpg

Höfundur

  • Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24