Í október 2020 var tveimur hraunhellum í Þeistareykjahrauni lokað í verndarskyni. Áður höfðu Umhverfisstofnun og umhverfisráðherra gert umferð um alla hella í hrauninu óheimila, að Togarahelli undanskildum. Félagsmenn Hellarannsóknafélags Íslands fundu hellana 2016 og eru þeir einstaklega ríkir af dropsteinum, hraunstráum og öðru viðkvæmu hellaskrauti. Síðan hellarnir fundust hefur miklum tíma verið varið til að kanna þá og kortleggja, en vinnan er engu að síður stutt á veg komin og miklu verki enn ólokið. Þá þarf að kanna Þeistareykjahraun ýtarlega í heild sinni, því margt þykir benda til þess að fjöldi hella sé enn ófundinn í hrauninu. Hellarnir tveir voru fyrstu hellarnir sem Umhverfisstofnun lokaði eftir að umhverfis- og auðlindaráðherra fól stofnuninni í upphafi árs að vinna að verndaraðgerðum við viðkvæmustu hella landsins. Áður hefur nokkrum fjölda hraunhella verið lokað í verndarskyni á sunnanverðu landinu, ýmist með friðlýsingu eða framtaki Hellarannsóknafélagsins, landeigenda og sveitarfélaga.
Almennt um hraunhella
Hraunhella má telja fremur fágætar jarðminjar á heimsvísu, en þeir eru þó algengir á ungum basaltsvæðum, til dæmis á Íslandi, Havaí og öðrum eldfjallaeyjum. Til hraunhella teljast t.d. gíghellar, hraunbólur og hraunrásarhellar. Töluverðar rannsóknir á myndun og þróun hraunrásarhella hafa farið fram á Havaí. Þar hafa langvarandi dyngjugos varað nær sleitulaust áratugum saman og því hefur verið hægt að fylgjast með hraunhellum í myndun.1 Hraunrásarhellar eru að mestu bundnir við helluhraun (e. pahoehoe lavas) þar sem vísir að helli í virku hraunrennsli getur myndast á nokkra mismunandi vegu. Í grunninn myndast þó allir hraunrásarhellar þannig að yfirborð hraunbráðar storknar, en undir nýmyndaðri hraunkápunni rennur bráðin áfram í einangraðri rás.1 Þeir geta gegnt mikilvægu hlutverki sem flutningsæðar í langvarandi dyngjugosum þar sem hraunbráðin rennur langa vegalengd neðanjarðar frá gosstöðvum að hraunjaðri. Þar brýst bráðið hraunið út undan storknaðri kápunni og jaðarinn færist hægt fram. Á sléttu helluhrauni má á yfirborði víða sjá ýmsar vísbendingar um net hraunhella, meðal annars rishóla (e. tumulus). Slíkir hólar eru jafnan hrygglaga og myndast við það að rennsli í hraunrásarhelli stíflast en innstreymi í rásina heldur áfram og þakið brotnar upp vegna staðbundinnar þrýstiaukningar.2 Önnur algeng yfirborðsummerki eru niðurföll og gjótur sem myndast þegar hellar hrynja. Þá kemur fyrir að brött hraundrýli standa stök á annars sléttu hrauni og bera vitni um útstreymi heitrar gosgufu frá hraunrás neðanjarðar.
Dropsteinar, hraunstrá og aðrar einstaklega viðkvæmar hraunmyndanir skreyta suma hraunhella. Yfirborð gólfs, veggja og lofts í ósnortnum og heillegum hellum er einnig oft þakið örþunnum, gljáandi glerungi (e. glaze) sem getur verið litríkur sökum oxunar magnetíts í hematít í glerungnum.3 Þetta hellaskraut myndast snemma á æviskeiði hellana á meðan hitinn er í kringum 1000°C. Þar er talið gegna lykilhlutverki að afgangsbráð skilst frá kólnandi berginu sem umlykur hellinn og er að mestu storknað. Fyrir tilstilli afgösunar bergsins þrýstist afgangsbráðin úr lofti og veggjum hellisins og drýpur niður. Á meðan á þessu stendur geta vaxið hangandi hraunstrá þar sem drýpur úr lofti, en á gólfi hlaðast upp dropsteinar.3Glerungurinn sem oft þekur hella er örþunnur, undir 50 míkron að þykkt, og undir honum er algengt að finna frauðkennt lag sem er ummerki um afgösun hraunsins við kólnun.3 Náttúrulegir ferlar koma oft í veg fyrir að þessi fyrirbæri varðveitist, þegar veggir og loft hrynja að hluta til niður við kólnun. Talað er um að hellar séu heillegir þegar þeir hafa sloppið við slíkt hrun.
https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/1.-mynd-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/2.-mynd.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/3.-mynd.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/4.-mynd-scaled.jpeg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/6.-mynd.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/7.-mynd-scaled.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/8.-mynd.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/9.-mynd-NY_TES13.tif|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/10.-mynd.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/11.-mynd-scaled.jpg