HUNANGSDÖGG er úrgangur sem kemur frá blaðlúsum. Í þurrum sumrum hefur gróður stundum orðið þakinn af hunangsdögg, einkum í mýrum. Þar eð rannsóknir á fuglum í Flatey á Breiðafirði hafa m.a. byggst á hreiðurleit í gróðri hafa hendur orðið klístraðar og stamar. Nokkrum sinnum þessi sömu sumur höfum við fundið fugla, bæði lifandi og dauða, sem hafa verið alþaktir klístri af hunangsdögg. Sumarið 2010 náðist hrossagaukur Gallinago gallinago á hreiðri og voru bæði fuglinn og hreiðrið útatað klístri. Var talið nokkuð víst að fuglinn myndi drepast en okkur til mikillar undrunar fannst hann árið eftir á hreiðri og jafnframt sumarið 2012. Ljóst var að fuglinn gat losað sig við klístrið og lifað af.
INNGANGUR
Blaðlýs eru skordýr af ættbálknum Hemiptera og tilheyra ættinni Aphididae. Lýsnar lifa á plöntusafa sem inniheldur hátt hlutfall sykra. Til að fá nægan skammt af prótíni (eggjahvítuefni) þurfa lýsnar að taka til sín yfirskammt af sykrum sem þær losa frá sér. Úrgangur blaðlúsa er því afar sætur og kallast hunangsdögg eða hunangsfall.1Björn J. Blöndal 1953. Vinafundir (Rabb um fugla og fleiri dýr). Hlaðbúð, Reykjavík. (Um hunangsdögg bls. 173). Helgi Hallgrímsson tók saman yfirlitsgrein um hunangsdögg í íslenskum ritum og nær sú saga allt aftur til 13. aldar þó þar hafi ekki verið minnst á fugla.2Helgi Hallgrímsson 2009. Hunangsdögg. Náttúrufr. 78(3-4): 147-150. Sumar tegundir blaðlúsa eru mjög sérhæfðar og nærast aðeins á einni tegund plantna. Önnur skordýr, s.s. maurar, sækja einnig orku í hunangsdögg.3Dixon, A.F.G. 1973. Biology of Aphids. Studies in Biology no 44. The Camelot Press Ltd. London and Southhampton. 58 bls.
Við rannsóknir á fuglalífi í Flatey á Breiðafirði urðum við varir við að hunangsdögg klístraðist í fjaðrabúning fugla. Ekki vitum við til þess að slíku hafi áður verið lýst hér á landi.
NOKKUR ORÐ UM BLAÐLÝS OG LÍFSFERIL ÞEIRRA
Í yfirlitsritinu Íslenskt skordýratal er getið 40 tegunda af ættinni Aphididae hér á landi.4Erling Ólafsson 1991. Íslenskt skordýratal. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 17. 69 bls. Síðan hafa bæst við fleiri tegundir þannig að árið 2016 var búið að skrá 50 tegundir í landinu en reiknað er með að þær geti verið mun fleiri.5Erling Ólafsson 2016. Blaðlúsaætt (Aphididae). Náttúrufræðistofnun Íslands. Pödduvefur. 18. nóvember 2016.
Blaðlýs eru smávaxin skordýr, nokkrir millimetrar á lengd eða minni. Algengustu litir þeirra eru grænn, rauður og brúnn. Lífsferill blaðlúsa er nokkuð breytilegur eftir tegundum. Einfalt fyrirkomulag er þannig að vængjalaus kvendýr klekjast úr eggjum (vetrareggjum) að vori. Þau eiga síðan afkvæmi án frjóvgunar yfir sumarið með svokallaðri meyfæðingu. Síðan verpa kvendýrin eggjum sem liggja í dvala næsta vetur fram á vor. Á sumrin vaxa stofnar blaðlúsa og við hagstæðar aðstæður getur fjölgun dýra orðið gríðarmikil þegar líður á sumarið. Blaðlýs geta dreifst yfir stór svæði með vindi. Í þurrum sumrum getur hunangsdögg safnast í þykka klísturkennda dropa á plöntum.3Dixon, A.F.G. 1973. Biology of Aphids. Studies in Biology no 44. The Camelot Press Ltd. London and Southhampton. 58 bls.
FUGLAATHUGANIR
Í tæp 50 ár höfum við heimsótt Flatey á Breiðafirði til að rannsaka fuglalíf, sjá m.a. eftirtaldar heimildir.6Ævar Petersen 1979. Varpfuglar Flateyjar á Breiðafirði og nokkurra nærliggjandi eyja. Náttúrufr. 49(2–3): 229–256.7Ævar Petersen & Sverrir Thorstensen 2016. Nýlegar rannsóknir á fuglum í Breiðafjarðareyjum með notkun ljósrita og annarra tækja. Breiðfirðingur 64: 174–190. Miklum tíma hefur verið varið við athuganir á fuglum í mýrum eyjarinnar en þar er gulstör Carex lyngbyei algengasta starartegundin.8Ingólfur Davíðsson 1971. Gróður í Vestureyjum á Breiðafirði. Náttúrufr. 41(2): 113–121.
Nokkrum sinnum höfum við tekið eftir óvenjulega miklu klístri á mýrargróðri. Þar sem leitað er að hreiðrum hafa föt og hendur orðið stamar af klístrinu. Tvívegis hefur kveðið svo ramt að þessu að ungar vaðfugla, t.d. óðinshana Phalaropus lobatus og hrossagauks Gallinago gallinago, hafa drepist. Ungarnir urðu verulega klístraðir og gátu ekki haldið á sér hita. Óðinshanaungar sem aldurs síns vegna áttu að vera orðnir fleygir gátu ekki flogið. Nokkrar dagbókarfærslur skulu nefndar þessu til staðfestingar.
Þann 16. júlí 2007 fundum við tvo dauða óðinshanaunga og einn hrossagauksunga sem voru gegnblautir af klístri. Við merkingar á kríuungum Sterna paradisaea sást einnig að margir þeirra voru dökkir og klístraðir.
Í júlí 2010 var mikil hunangsdögg á gulstör eftir langvarandi þurrkatíð. Á tímabilinu 17. – 25. júlí fundum við tvo stálpaða óðinshanaunga, þrjá hrossagauksunga og tvo stokkandarunga Anas platyrhynchos sem voru verulega klístraðir. Margir hrossagauksungar sem flugu upp við fætur okkar voru á-berandi dökkir og fluglag þeirra þung-lamalegt.
Hunangsdögg klístraðist líka á fullorðna fugla sem lágu á eggjum. Þann 19. júlí 2010 fundum við hrossagaukshreiður með þremur eggjum og náðum kvenfuglinum til merkingar. Þá kom í ljós að fjaðrabúningur fuglsins var gegnblautur af hunangsdögg (1. & 2. mynd). Eggin í hreiðrinu voru einnig klístruð.
Fuglinn var merktur með málmmerki (með númerinu 757282). Þegar fuglinum var sleppt sást að hann átti erfitt með flug. Hann sást liggja á eggjunum næstu þrjá daga en yfirgaf hreiðrið eftir það. Við gerðum allt eins ráð fyrir því að fuglinn hefði drepist eftir að hann yfirgaf hreiðrið.
Því kom verulega á óvart að í júlí sumarið eftir (2011) var merkti fuglinn 757282 tekinn á hreiðri skammt frá fyrri hreiðurstað og var fjaðrabúningurinn eðlilegur. Samkvæmt þessu hefur honum tekist að losa sig við hunangsdöggina eftir að hann yfirgaf hreiðrið. Í júní 2012 náðist fuglinn síðan í þriðja sinn á hreiðri á svipuðum slóðum.
UMRÆÐA
Hunangsdögg virðist mest áberandi eftir langvarandi þurrkatíð. Þannig var gott veður, logn, sólskin og mjög hlýtt í Flatey dagana 17. – 25. júlí 2010. Ekkert hafði rignt um tíma, jörð var mjög þurr og gróður skrælnaður. Mikil sykurleðja var á grösum, sérstaklega í mýrum. Fuglar voru mjög klístraðir og sumir ófleygir af þeim sökum. Sú spurning vaknar hvort fuglar, einkum smáfuglar sem halda til í mýrum, geti drepist í miklum mæli af völdum hunangsdaggar.
Klístur á fuglum af völdum hunangsdaggar virðist hafa verið óþekkt á Íslandi. Við leit að erlendum heimildum fannst aðeins ein lítil grein. Í Þýskalandi urðu spörfuglar klístraðir á baki og vængjum af hunangsdögg.9Jakober, H. & W. Stauber 1979. Entwirkungen von Honigtau auf das Gefieder von Kleinfögeln. Die Vogelwelt 100(3): 113. Miðað við hve lítið hefur verið skrifað um klístur á fuglum af völdum hunangsdaggar virðist það sárasjaldgæft, hvað þá að þeir drepist.
Á Nýja-Sjálandi er hunangsdögg talin vera mikilvæg fæða fyrir ýmsa smáfugla.10Gaze, P.D. & M.N. Clout 1983. Honeydew and its importance to birds in beech forests of South Island, New Zealand. New Zealand Journal of Ecology 6: 33–37. Sama kann að vera hér á landi. Við höfum til dæmis margoft séð óðinshana kroppa í grasstrá þó þeir geti vissulega verið að næla sér í smádýr.
SUMMARY
Can honeydew kill birds?
During bird studies on the island of Flatey in Breiðafjörður (W-Iceland), we have several times noticed birds that were totally or partially covered in sticky honeydew, which is secreted by aphids. Species found both live or dead were Common Snipe Gallinago gallinago, Red-necked Phalarope Phalaropus lobatus, Arctic Tern Sterna paradisaea, and Mallard Anas platyrhynchos, mainly chicks. In same summers the vegetation were also found to be covered, especially in meadows, so much so that our hands and clothes became sticky.
One bird found in summer 2010 was a Common Snipe incubating a clutch of three eggs, and which we ringed (Figs 1 & 2). Three days later the nest was deserted, and we thought the adult bird had died, considering the totally sticky plumage. To our great surprise the same bird was caught on a nest a year later, having completely got rid of the honeydew. In summer 2012 the bird was captured for the third time, also on a nest.
The presence of honeydew making the plumage of wild birds sticky does not seem to have been described earlier from Iceland. Searching for foreign literature we only came across one small paper. It appears that coverage of birds, let alone mortality, with aphid honeydew is pretty rare.
HEIMILDIR
- 1Björn J. Blöndal 1953. Vinafundir (Rabb um fugla og fleiri dýr). Hlaðbúð, Reykjavík. (Um hunangsdögg bls. 173).
- 2Helgi Hallgrímsson 2009. Hunangsdögg. Náttúrufr. 78(3-4): 147-150.
- 3Dixon, A.F.G. 1973. Biology of Aphids. Studies in Biology no 44. The Camelot Press Ltd. London and Southhampton. 58 bls.
- 4Erling Ólafsson 1991. Íslenskt skordýratal. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 17. 69 bls.
- 5Erling Ólafsson 2016. Blaðlúsaætt (Aphididae). Náttúrufræðistofnun Íslands. Pödduvefur. 18. nóvember 2016.
- 6Ævar Petersen 1979. Varpfuglar Flateyjar á Breiðafirði og nokkurra nærliggjandi eyja. Náttúrufr. 49(2–3): 229–256.
- 7Ævar Petersen & Sverrir Thorstensen 2016. Nýlegar rannsóknir á fuglum í Breiðafjarðareyjum með notkun ljósrita og annarra tækja. Breiðfirðingur 64: 174–190.
- 8Ingólfur Davíðsson 1971. Gróður í Vestureyjum á Breiðafirði. Náttúrufr. 41(2): 113–121.
- 9Jakober, H. & W. Stauber 1979. Entwirkungen von Honigtau auf das Gefieder von Kleinfögeln. Die Vogelwelt 100(3): 113.
- 10Gaze, P.D. & M.N. Clout 1983. Honeydew and its importance to birds in beech forests of South Island, New Zealand. New Zealand Journal of Ecology 6: 33–37.