Búsvæði og vernd íslenskra vaðfugla

Ísland er einstakt vaðfuglaland og hér verpur stór hluti heimsstofna nokkurra tegunda. Vaðfuglastofnar eiga undir högg að sækja um allan heim vegna hnignunar búsvæða. Til að taka ákvörðun um vernd stofna þarf að þekkja búsvæðaval þeirra vel. Á síðustu tveimur áratugum hafa farið fram nokkrar rannsóknir á búsvæðavali íslenskra vaðfugla. Hér er gerð atlaga að því að taka þessar rannsóknir saman. Íslenskum vaðfuglum má gróflega skipta í þrjá hópa hvað varðar hnattræna útbreiðslu, þá sem hafa einkum háarktíska útbreiðslu, þá sem hafa lágarktíska útbreiðslu og þá sem hafa stærsta stofna í tempraða beltinu. Þessi breytileiki sýnir sterk tengsl við búsvæðaval tegundanna á Íslandi. Tegundirnar sem hafa norðlægasta útbreiðslu sækja í minnst grónu svæðin á Íslandi og þær eru einnig algengari á hálendi Íslands þar sem skilyrði til varps eru erfiðari en annars staðar. Tegundir sem hafa suðlægari útbreiðslu sækja almennt í gróskumeiri búsvæði og verpa einkum á láglendinu. Allir vaðfuglarnir nema hrossagaukur eru bundnir við opið land. Búsvæði flestra vaðfugla myndast og varðveitast við röskun sem stuðlar að lágvöxnum gróðri. Slík röskun er annaðhvort af náttúrunnar völdum, svo sem við myndun jökla og í flóðum, eða af manna völdum, svo sem við beit og sér-
staka landnotkun. Horfur eru á að skilyrði fyrir vaðfuglavarp versni víða á láglendi á þessari öld, bæði vegna hlýnunar og breytinga á landnotkun. Sú þróun getur orðið hröð, og verndarstaða vaðfuglanna er ótrygg þó að flestir stofnanna séu sterkir. Einkenni vaðfugla, svo sem mikil átthagatryggð, hæg viðkoma og tregða við dreifingu, hamla landnámi á nýjum stöðum. Að auki er mikil óvissa um framboð búsvæða í framtíðinni. Hér eru settar fram tillögur um aðgerðir til að veita íslenskum vaðfuglum vernd. Rétt er að hafa í huga að þorri þeirra verpur utan friðaðra svæða. Til að vernda íslenska vaðfugla þarf sem stærst samfelld svæði með lágvöxnum gróðri og sem fæstum mannvirkjum sem víðast á láglendi. Koma þarf böndum á eyðileggingu votlendis og styrkja þarf náttúruvernd í skipulagi landnotkunar

Inngangur

Vaðfuglar eru allfjölskrúðugur hópur fugla og finnast víða um heim. Tegundir vaðfugla í heiminum eru taldar vera um 215.1 Flestar verpa þær á ýmiss konar opnu landi (landi sem er að mestu laust við hávaxinn gróður, mannvirki og önnur háreist fyrirbæri sem byrgja útsýni), svo sem í votlendi, mólendi, á steppum, freðmýrum, í graslendi, á landbúnaðarlandi og jafnvel í eyðimörkum.2 Vaðfuglar dveljast flestir við sjóinn á veturna og afla sér þar fæðu á leirum og á sand- og klettaströndum. Þeir eru miklir farfuglar og margir koma við í fleiri en einu landi og jafnvel heimsálfum yfir árið. Vernd vaðfugla krefst af þeim sökum samstarfs ríkja. Þrátt fyrir ýmsa alþjóðlega samninga sem Íslendingar og aðrar þjóðir eru aðilar að gengur illa að vernda vaðfugla á heimsvísu. Ýmsar hættur steðja að búsvæðum þeirra á varpstöðvum, vetrarstöðvum og viðkomustöðum á farflugi en eyðing búsvæða er ein meginástæðan fyrir hnattrænni fækkun vaðfugla.3–5 Búsvæði vaðfugla við sjóinn, sem þeir nota einkum á veturna og á fartíma, verða fyrir barðinu á aukinni ásókn mannsins í land og auðlindir. Leirur hverfa undir landfyllingar og byggð hefur víða aukist við sjóinn og veldur fjölbreyttu álagi. Á sumrin tapa vaðfuglar búsvæðum þegar opnum svæðum fækkar sem henta til varps. Það stafar einkum af ræktun, innviðauppbyggingu og hlýnun.2,6,7 Á arktískum svæðum, þar sem margir vaðfuglar verpa, er gróska víða að aukast en vaðfuglastofnar láta undan síga þegar gróður hækkar of mikið.8 Spár um áhrif hlýnunar á vaðfuglabúsvæði fram eftir þessari öld benda til að búsvæði sem henta fyrir vaðfugla á arktískum slóðum gætu minnkað um 60–80% á
næstu 70 árum.

https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/1.-mynd-kindur.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-24-at-19.10.31.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-24-at-19.29.38.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-25-at-14.12.17.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-25-at-14.36.58.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/4.-mynd-spo.jpg|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/Screenshot-2021-06-25-at-15.00.54.png|https://natturufraedingurinn.is/wp-content/uploads/2021/06/5-mynd-A-goldie.jpg

Höfundur

  • Margrét Rósa Jochumsdóttir er ritstjóri prent- og vefútgáfu Náttúrufræðingsins.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24