Ævintýri á gönguför Sigurður Þórarinss

Bókin Sigurður Þórarinsson – mynd af manni bætir mannlega þættinum við myndina af virtum, hnyttnum og afkastamiklum vísindamanni.

Sigurður Þórarinsson var sannarlega svo minnisstæður einstaklingur og merkur vísindamaður að ástæða var til að skrá ævisögu hans. Samt var það ekki fyrr en 30 árum eftir andlát hans − eftir blysför kringum Grænavatn á 100 ára afmælisdegi hans 2012 − að Sigrún Helgadóttir viðraði hugmyndina um slíkt rit við bókaútgefanda sem hún þekkti, Sigurð Svavarsson hjá bókaútgáfunni Opnu. Bent var á að ritaskrá1 hans geymi að vísu annál rannsókna hans, auk þess sem aðrir hafa um þær fjallað, en um Sigurð sjálfan væri minna vitað og þeim fari fækkandi sem þekktu hann persónulega. Enda mátti það ekki seinna vera því í september 2023 var borinn til grafar Halldór Ólafsson sem frá ungum aldri hafði verið fylgdar- og aðstoðarmaður Sigurðar í ferðum hans, skrásetjari vísna hans og minnisstæðra atvika, og nú síðast dyggasti stuðningsmaður Sigrúnar við ritun bókarinnar.2 Að lokum æxluðust mál þó þannig að Sigrún sjálf tók að sér að skrifa bókina, Sigurður Svavarsson féll frá og Náttúruminjasafn Íslands gaf bókina út 2021, níu árum eftir blysförina við Grænavatn. Sigrúnu tókst verkið svo vel að tveggja binda og 800 blaðsíðna bók hennar um ævi og afrek Sigurðar Þórarinssonar jarðfræðings hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021 í flokki fræðibóka og rita almenns eðlis.

1. mynd. Sigurður Þórarinsson og Sigrún Helgadóttirí Suðurlandsferð jarðfræðinema vorið 1976. Ljósmynd: Örn Óskarsson

í Suðurlandsferð jarðfræðinema vorið 1976. Ljósmynd: Örn Óskarsson

Eins og verðlaunariti sæmir fer fagurt útlit saman við fróðlegt, skemmtilegt og vel ritað innihald. Bókarkápu fyrra bindis prýðir mynd af glóandi hrauni, kápu síðara bindis gjóskulög, báðar myndir teknar af Sigurði sjálfum. Bindin tvö eru saman í öskju, sem framan á er mynd af honum með rauða húfu og í gúmmístígvélum (hvort tveggja að vanda), tekin í Öskju 1967 þegar tilvonandi tunglfarar voru þar að æfa sig undir stjórn Sigurðar, á bakhliðinni listræn mynd af honum skrifandi í einhverjum fjallakofa. Í bókinni sjálfri er auk megintextans nánast á hverri einustu opnu ein ljósmynd eða fleiri og/eða rammagrein með fróðleik eða ítarefni sem ekki myndi fara vel í meginmálinu. Sigurður byrjaði innan við tvítugt að taka myndir og lét eftir sig gríðarlegt ljósmyndasafn. Efni ljósmyndanna í bókinni – Sigurður er höfundur meirihluta þeirra − er að sjálfsögðu margvíslegt: fólk, ferðaslark á hestum, bílum, snjóbílum eða á fæti, bæir, landslag, náttúrufyrirbæri, en til samans sýna myndirnar meðal annars vel þá þjóðfélagslegu byltingu sem á Íslandi varð á 20. öld, ekki síst í húsakynnum, samgöngum og ferðaháttum: timbur- og steinhús í stað torfbæja, sæmilegir vegir í stað hálf-ófærra vegarspotta og óbrúaðra vatnsfalla, bílar og flugvélar í stað hesta og strandferðaskipa. Og ekki má gleyma í bókinni afar ítarlegu efnisyfirliti auk lista yfir heimildir og ítarefni, mynda- og nafnaskrá.

2. mynd. Halldór Ólafsson var lengi fylgdar- og aðstoðarmaður Sigurðar og dyggur stuðningsmaður Sigrúnar við skrif ævisögunnar. Hér voru þeir félagar á ferð árið 1976. Ljósmynd: Jón Sigurgeirsson.

2. mynd. Halldór Ólafsson var lengi fylgdar- og aðstoðarmaður Sigurðar og dyggur stuðningsmaður Sigrúnar við skrif ævisögunnar. Hér voru þeir félagar á ferð árið 1976. Ljósmynd: Jón Sigurgeirsson.

Við samningu bókarinnar leitaði Sigrún víða fanga, frá kirkjubókum til viðtala við skynuga menn og skemmtilega. Í því upplýsingaflóði öllu voru þó dagbækur Sigurðar sjálfs sönn gullnáma, en þær hélt hann nánast til dauðadags allt frá því hann sigldi fyrst til náms í Danmörku árið 1931. Sigurður var sískrifandi, og dæmin sanna hið fornkveðna: þeir lifa sem skrifa – ævisögur, ferðasögur, skáldsögur, ljóð, sendibréf eða ritgerðir. Sigurði féll sjaldan verk úr hendi, og lægi ekki annað fyrir, skrifaði hann. Eitt sinn varð honum það á að velta bíl sem hann ók og lenti á hvolfi niðri í lækjarfarvegi. Ómeiddur komst hann út úr bílnum og með því að útséð var að sinni um framhald ferðarinnar settist hann á þúfu við lækinn og tók að skrifa í dagbókina.

3. mynd. Jeppi Náttúrugripasafnsins við Gljúfrastein. Safnið eignaðist hann haustið 1950. Þann vetur starfaði Sigurður í Svíþjóð ogheim kominn þurfti hann að æfa sig í akstri. Í dagbók 24. júlí 1951 skráði hann: „...er að æfa mig á jeppanum. Fór í dag til Kiljans og þáði af honum kaffi og Ólaf Kárason á sænsku. Hann kom bílskrjóða mínum niður af hólnum og síðan keyrði ég einn að bæ ..." Ljósmynd: Sigurður Þórarinsson.

3. mynd. Jeppi Náttúrugripasafnsins við Gljúfrastein. Safnið eignaðist hann haustið 1950. Þann vetur starfaði Sigurður í Svíþjóð og
heim kominn þurfti hann að æfa sig í akstri. Í dagbók 24. júlí 1951 skráði hann: „…er að æfa mig á jeppanum. Fór í dag til Kiljans og þáði
af honum kaffi og Ólaf Kárason á sænsku. Hann kom bílskrjóða mínum niður af hólnum og síðan keyrði ég einn að bæ …” Ljósmynd:
Sigurður Þórarinsson.

Um dagbækurnar, sem Sigrún var marga mánuði að pæla í gegnum, segir hún að í elstu bókunum séu oft langar lýsingar á skemmtilegum atburðum en með tímanum breytist þær í vísindabækur með tölum og teikningum. Þar megi oft finna, innan um niðurstöður mælinga og athugana, sögur, lýsingar, vísur og söngtexta. Þannig reynast dagbækurnar Sigrúnu eins konar leiðarhnoða sem hún fylgir um ævislóð Sigurðar; á þeirri gönguför verða mörg ævintýri, oft er áð og svipast um, og iðulega gefst tilefni til að leita frekari frásagna og upplýsinga í sendibréfum, blaðagreinum, bókum, viðtölum o.fl. og Sigrún er nösk að finna það skemmtilega og áhugaverða í hverju efni.

5. mynd. Sigurður við Öskjuvatn sumarið 1962. Askja er merk eldstöð en fyrir Sigurð Þórarinsson var hún miklu meira en það. Hann var heillaður af kynngi staðarins og mikilfengleik og vissi að Öskjugosið 1875 hafði verið örlagavaldur í lífi föðurfjölskyldu hans. Ljósmynd: Halldór Ólafsson.57

5. mynd. Sigurður við Öskjuvatn sumarið 1962. Askja er merk eldstöð en fyrir Sigurð Þórarinsson var hún miklu meira en það. Hann var heillaður af kynngi staðarins og mikilfengleik og vissi að Öskjugosið 1875 hafði verið örlagavaldur í lífi föðurfjölskyldu hans. Ljósmynd: Halldór Ólafsson.
57

Skipulag bókarinnar gerir það að verkum ásamt ítarlegu efnisyfirliti að jafnauðvelt er að lesa hana „frá A til Ö“ og að slá upp í henni að vild. Bókin skiptist í 17 kafla, hvern með skýrandi fyrirsögn, sem aftur skiptast í nokkra titlaða undirkafla. Í stórum dráttum fylgir frásögn fyrra bindis (9 kaflar) ævi Sigurðar fram til um það bil 1950 (þótt fyrsti kaflinn segi raunar frá Öskjugosinu 1961, eins konar inngangur að því sem koma skal). Í síðara bindinu segir hins vegar frá einstökum viðfangsefnum.

LESA ALLA GREIN

Höfundur

  • Sigurður Steinþórsson

    Sigurður Steinþórsson (f. 1940) lauk BSc (Honours) prófi í jarðfræði frá háskólanum í St. Andrews, Skotlandi 1964 og doktorsprófi í sömu grein frá Princeton-háskóla, BNA 1974. Starfaði árin 1964–66 í Atvinnudeildarhúsi einkum við rannsóknir á Surtstseyjargosinu og 1970–2010 á Raunvísindastofnun og í Háskóla Íslands við kennslu og rannsóknir í berg- og jarðefnafræði.

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24