Norræna eldfjallastöðin 1974–2024

Eftirmæli

Norræna eldfjallastöðin eða NordVulk, seinna Norræna eldfjallasetrið á Íslandi, varð 50 ára árið 2024. Á þessum tímamótum hættir NordVulk því miður starfsemi í núverandi mynd og lýkur þá árangursríku skeiði norrænna eldfjallarannsókna á Íslandi. Hér verður stuttlega rakin saga stöðvarinnar og rifjaðar upp nokkrar frásagnir af lífinu á eldfjallastöðinni.

Upphaf Norrænu eldfjallastöðvarinnar má rekja til þess að fimm virtir norrænir jarðfræðiprófessorar, Gunnar Hoppe og Franz Eric Wickman í Svíþjóð, Tom Barth í Noregi, Arne Noe- Nygaard í Danmörku og Sigurður Þórarinsson á Íslandi, lögðu til að komið yrði á fót norrænni stofnun um eldfjallafræði.

2. mynd. Eldfjallastöðin fékk draumaverkefni þegar Kröflueldar hófust í desember 1975. Myndin sýnir gos í Kröflu 19. október 1980. Ljósm.: Halldór Ólafsson

2. mynd. Eldfjallastöðin fékk draumaverkefni þegar Kröflueldar hófust í desember 1975. Myndin sýnir gos í Kröflu 19. október 1980. Ljósm.: Halldór Ólafsson

Norræna eldfjallastöðin (d. Nordisk Vulkanologisk Insti-tut) var stofnuð árið 1974 með stuðningi Norrænu ráðherranefndarinnar. Guðmundur Sigvaldason, sem þá var í Níkaragva, var ráðinn forstöðumaður og hófst handa við að ráða annað starfsfólk. Fyrsta sumarið var Páll Imsland fenginn til starfa, meðal annars til þess að safna bergsýnum fyrir ýtarlega rannsókn á bergfræði íslensks gosbergs, sérstaklega basalts. Tilgangurinn var að bera það saman við sýni sem safnað var í bandaríska djúpsjávarborverkefninu sem þá stóð yfir (DSDP, 1968−1983). Á Íslandi var hægt að kanna jarðfræðilega umgjörð sýnanna og ætlunin var að beita þeirri þekkingu til að auðvelda túlkun gagna frá hafsbotninum.

Guðmundur Sigvaldason kom svo til landsins um haustið 1974 og í lok árs var Níels Óskarsson ráðinn til starfa. Fyrsta verk Guðmundar var að fjárfesta í löngum Land Rover (Series III 109, Station) fyrir vettvangsvinnu og síðan hóf hann uppbyggingu rannsóknarstofu. Halldór Ólafsson var ráðinn sem tæknimaður í byrjun árs 1975. Hann hafði verið aðstoðarmaður Sigurðar Þórarinssonar í rannsóknarferðum hans frá því á sjötta áratugnum. Sama ár var Karl Grönvold ráðinn frá Orkustofnun.

3. mynd. Guðmundur Sigvaldason skráir athuganir í dagbók í rannsóknarleiðangri til Öskju í júní 1975. Ljósm.: Halldór Ólafsson

3. mynd. Guðmundur Sigvaldason skráir athuganir í dagbók í rannsóknarleiðangri til Öskju í júní 1975. Ljósm.: Halldór Ólafsson

Guðmundur Sigvaldason hafði metnað til að byggja upp rannsóknarstofnun í eldfjallafræði í heimsklassa, og norræn fjármögnun gerði það mögulegt. Þegar umbrotahrina hófst við Kröflu í árslok 1975 gafst tækifæri til að fylgjast með gliðnunar-hrinu í rauntíma, sem var einstakur viðburður á heimsvísu. Árið 1976 var Eysteinn Tryggvason jarðeðlisfræðingur ráðinn til stöðvarinnar. Sérsvið hans voru jarðskorpuhreyfingar, og fékk hann draumaverkefni með Kröflueldum.

Eldfjallastöðin stundaði fyrsta flokks rannsóknir í eldfjallafræði í 50 ár. Rannsökuð var aflögun jarðskorpunnar á Íslandi, bergfræði, steindafræði og jarðefnafræði gosbergsins, gjóskulagafræði, samspil eldfjalla og jökla og fjölmargt annað. Á síðustu árum hefur NordVulk leikið lykilhlutverk við vöktun eldgosa og rannsóknir á þeim, í Eyjafjallajökli 2010, í Holuhrauni 2014−2015 og í Geldingadölum 2021 og 2022. Afrakstur þeirra rannsókna hefur meðal annars birst í tímaritinu Nature.

Eldfjallastöðin hefur einnig gegnt mikilvægu hlutverki í tengslum við almannavarnir, meðal annars vegna þess að dreifing gjósku í andrúmslofti hefur áhrif á flugsamgöngur og jökulhlaup geta ógnað fólki og innviðum.

DRAUMABYRJUN

Norræna eldfjallastöðin fékk sannarlega draumabyrjun með Kröflueldum, sem hófust í desember 1975 og lauk í september 1984. Í upphafi gistu þeir sem rannsökuðu eldana á hótelinu í Reykjahlíð, en Guðmundur Sigvaldason sá fljótt að eldarnir gætu orðið langvinnir og hótelreikningurinn gríðarhár. Innan skamms keypti stofnunin því lítið hús við Múlaveg í Reykjahlíð af Orkustofnun, eiginlega vinnuskúr. Þar var allt sem þurfti fyrir vettvangsvinnu, þótt plássið væri lítið. Þegar fram liðu stundir þótti húsið þó of lítið, en auk þess voru viðirnir orðnir fúnir. Árið 1995 voru því fest kaup á húsi á Helluhrauni 1. Þetta hús hefur síðan verið athvarf jarðvísindamanna frá Eldfjallastöðinni og Háskóla Íslands við rannsóknir á Norðausturlandi. Í upphafi Kröfluelda voru snjósleðar leigðir á Húsavík til vettvangsvinnu að vetri til. Það kom þó fljótt í ljós að betra og ódýrara væri að fjárfesta í eigin snjósleðum.

MERKAR RANNSÓKNIR

Kröflueldar sköpuðu eitt fyrsta tækifæri jarðvísindamanna til að fylgjast í rauntíma með gliðnunarhrinu sem stóð yfir í um áratug. Öllum hugsanlegum jarðfræði- og jarðeðlisfræðirannsóknum var beitt. Sérlega merkar þóttu rannsóknir á aflögun jarðskorpunnar (Eysteinn Tryggvason, Halldór Ólafsson og Sigurjón Sindrason) og rannsóknir á jarðfræði og jarðefnafræði (Guðmundur Sigvaldason, Karl Grönvold og Níels Óskarsson). Jarðskjálftarannsóknir voru í höndum Páls Einarssonar og Bryndísar Brandsdóttur við Raunvísindastofnun Háskólans.

Samstarfið var náið, bæði faglega og félagslega. Rannsóknir á jarðskorpuhreyfingum og jarðskjálftum leiddu til þess að hægt var að greina þegar kvika fór að streyma úr kvikuhólfinu til yfirborðs eða meira lárétt eftir sprungusveimnum. Í ljós kom að undir Kröflu var bæði grunnt kvikuhólf á fárra kílómetra dýpi og svo annað kvikuhólf mun dýpra. Það var einnig í Kröflueldum sem Ævar Jóhannesson (Raunvísindastofnun Háskólans) fann upp rafræna hallamæla, sem Sigurjón Sindrason (NordVulk) þróaði síðan frekar og Halldór Ólafsson (NordVulk) smíðaði. Jarðefnafræðilegar rannsóknir sýndu að hraununum mátti skipta í tvo flokka, annars vegar frekar þróuð hraun sem áttu uppruna sinn í grunna hólfinu og hins vegar frumstæðari hraun með dýpri uppruna. Í sumum gosanna kom eingöngu önnur gerðin upp en í öðrum báðar gerðir.

VETTVANGSSTÖÐIN Í DYNGJUFJÖLLUM

Guðmundur Sigvaldason hafði sterk tengsl við eldfjallið Öskju í Dyngjufjöllum. Hann varð vitni að fyrstu gufusprengingunni í aðdraganda síðasta goss í Öskju árið 1961. Hann var einnig með Sigurði Þórarinssyni í Öskju 1967 og aðstoðaði við þjálfun geimfara í jarðfræði fyrir ferðina til tunglsins. Eysteinn Tryggvason vann líka mikið í Öskju. Árið 1966 kom hann upp mælilínu fyrir nákvæmar hallamælingar til þess að fylgjast með jarðskorpuhreyfingum sem orsakast af kvikuhreyfingum. Þegar menn töldu að Kröflueldum væri lokið árið 1983 beindist áhuginn aftur að Öskju. Eysteinn endurtók mælingar sínar 1983 eftir 10 ára hlé. Þessi 1,2 km langa mælilína hefur síðan verið mæld á hverju ári til dagsins í dag.

Til þess bæta aðstöðu við störfin fékk Guðmundur vinnuskúr frá Vegagerðinni sem komið var fyrir á lítt áberandi stað nálægt Öskju. Húsið fékk nafnið Dyngja og stendur við gamla veginn inn í Öskju, sem eyðilagðist í gosinu 1961. Nýi vegurinn liggur norðar og er húsið því lítt áberandi, jafnvel svo að fólk sem veit af húsinu á erfitt með að finna það. Vísindamenn og styrkþegar Norrænu eldfjallastöðvarinnar, og ýmsir aðrir vísindamenn, hafa notið þessarar frábæru vettvangsstöðvar.

4. mynd. Fyrsta vettvangsstöð Eldfjallastöðvarinnar á Múlavegi 6 í útjaðri Reykjahlíðar. Myndin er tekin 1991. Ljósm.: Kenneth Fjäder

4. mynd. Fyrsta vettvangsstöð Eldfjallastöðvarinnar á Múlavegi 6 í útjaðri Reykjahlíðar. Myndin er tekin 1991. Ljósm.: Kenneth Fjäder

NORRÆNA ELDFJALLASTÖÐIN

Hugmyndin var að byggja upp á Íslandi rannsóknarstofnun sem gæfi norrænum jarðfræðingum möguleika á að vinna að rannsóknum á ungum og virkum eldfjöllum. Fyrir norræna jarðfræðinga frá meginlandi Evrópu er jarðfræði Íslands nýr heimur og gjörólíkur því sem þeir eiga að venjast. Auk þess að fá tækifæri til að vinna með ungt gosberg var mikilvægt að auðvelda jarðfræðingum að mynda tengslanet milli landa. Stuttnefnið NordVulk um stöðina varð til hjá Erik Sturkell og Risto Kumpulainen árið 1991 og hefur með tímanum fest sig í sessi.

LESA ALLA GREIN

Höfundar

  • Carl Erik Olof Sturkell

    Carl Erik Olof Sturkell (f. 1962) lauk M.Sc. prófi í jarðfræði árið 1991, Licentiat-prófi í jarðeðlisfræði árið 1994 og doktorsprófi í jarðfræði árið 1998 frá Háskólanum í Stokkhólmi, Svíþjóð. Hann var styrkþegi á Norrænu eldfjallastöðinni árin 1991–1993 og 1998–2000. Erik starfaði á jarðeðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands frá 2000 til 2004, var vísindamaður á Norrænu eldfjallastöðinni á árunum 2005–2008 og við Háskóla Íslands árið 2008. Þá var hann gestaprófessor við Tækniháskólann í Tallinn, Eistlandi, árin 2007–2008. Erik hefur verið prófessor í jarðeðlisfræði við Háskólann í Gautaborg, Svíþjóð, frá 2009. Erik Sturkell, Prófessor Göteborgs universitet | [email protected]

  • Kristján Jónasson

    Kristján Jónasson (f. 1964) lauk cand. scient. prófi í jarðfræði frá Kaupmannahafnarháskóla, Danmörku, 1990. Hann var styrkþegi á Norrænu eldfjallastöðinni á árunum 1991-1997, fyrstu þrjú árin sem norrænn styrkþegi og síðar með styrk úr Evrópuverkefni. Kristján hefur starfað við Náttúrufræðistofnun Íslands (nú Náttúrufræðistofnun) frá árinu 1997 við rannsóknir á berg- og steindafræði Íslands og umsjón með steinasafni stofnunarinnar. Auk þess kenndi hann steindafræði við Háskóla Íslands á árunum 1998-2007. [email protected]

  • Anders Schomacker

    Anders Schomacker (f. 1978) lauk B.Sc. og M.Sc. prófi í náttúrulandafræði frá Kaupmannahafnarháskóla, Danmörku, 2001 og 2003 og doktorsprófi í jökla- og ísaldarjarðfræði frá Háskólanum í Lundi, Svíþjóð, árið 2007. Hann starfaði á árunum 2007–2010 sem styrkþegi á Norrænu eldfjallastöðinni og nýdoktor við Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Anders er nú prófessor í ísaldarjarðfræði í Háskólanum í Tromsö, Noregi, og á Háskólasetrinu á Svalbarða (UNIS). [email protected]

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24