Aðgengi allra að náttúrufræðum

Mér var á síðasta ári sýndur sá mikli heiður að vera kosinn formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags. Þetta ár hefur verið mér lærdómsríkt, þótt reynsla mín sem líffræðingur við Þekkingarsetur Suðurnesja hafi komið sér vel í þessu nýja hlutverki. Þar er helsta markmið setursins að stunda líffræðirannsóknir á íslenskri náttúru og miðla þeim upplýsingum til almennings og til nemenda á öllum skólastigum. Þar er rannsóknarrými rekið á neðri hæð gamals frystihús í Sandgerði. Efri hæðin hýsir náttúruminjasafn þar sem fólk getur fræðst um líffræði Reykjanesskagans með aðstoð Fróðleiksfúsa en hann er gagnvirk fræðsluleikjarfígura sem leiðir mann um safnkost náttúrugripasafnsins. Þar læra krakkar á leikskóla- og grunnskólaaldri að nálgast vísindi og náttúrufræði á nýstárlegan máta.

Mikilvægi vísindalæsis og náttúrufræðslu þarf ekki að tíunda sérstaklega fyrir félagsfólki Hins íslenska náttúrufræðifélags. Helsti tilgangur félagsins er að efla íslensk náttúruvísindi, og glæða áhuga og auka þekkingu fólks á öllum greinum náttúrufræði. Allt frá dögum Benedikts Gröndals hefur það verið markmið HÍN. Með þekkingu og fræðslu er hægt að vekja áhuga og auka sýnileika náttúrunnar, sem eykur virði hennar. Aukið virði náttúrunnar verður til þess að vernd hennar, gagnvart okkur sjálfum, verður okkur mikilvægari. Því hvað er vernd annað en að takmarka áhrif mannsins?

Aðferðir og framkvæmd þeirrar vinnu sem þarf til að ná settu markmiði félagsins hafa þróast í tímans rás þótt markmiðið sjálft hafi ekki breyst. Benedikt Gröndal og félagar ætluðu að koma upp fullkomnu náttúrugripasafni eins og flest fyrirmyndarríki áttu á þeim tíma. Þetta átti að vera landssafn á höfuðborgarsvæðinu sem allir ættu að geta sótt heim. Safnið var opnað og rekið af HÍN í tæp 60 ár áður en safnið og safnkosturinn var afhentur ríkinu til eignar og rekstrar. Ég leyfi mér að stikla á stóru, en náttúrugripasafnið varð síðar Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúruminjasafn Íslands og því má segja að þær stofnanir séu afsprengi HÍN. Aðgengi að þeim munum sem prýddu náttúrugripasafnið og fleira úr íslenskri náttúru verða vonandi öllum til sýnis í nýju og glæsilegu rými Náttúruminjasafns Íslands skammt frá friðlandinu Gróttu á Seltjarnarnesi.

Þaraskógur á stórstreymisfjöru. Ljósm. Sölvi Rúnar Vignisson.

Þaraskógur á stórstreymisfjöru. Ljósm. Sölvi Rúnar Vignisson.

Fræðsla og miðlun náttúruvísinda er gífurlega mikilvæg á tímum nútímatækni og með breyttu lífsmynstri, með tilheyrandi fjarlægð frá náttúrunni. Þó hefur sýnt sig á síðustu árum að áhugi fólks á íslenskri náttúru er mikill. Söfn og upplifunarrekstur með náttúru Íslands í fararbroddi njóta góðrar aðsóknar og eru nú mikilvæg tekjulind fyrir þjóðarbúið. Náttúran hefur sjaldan verið jafn mikið í sviðsljósinu hérlendis og erlendis. Þar koma við sögu áhrif mannsins á umhverfið sem koma fram í loftslagsbreytingum, búsvæðiseyðingu, tapi á líffræðilegs fjölbreytileika, en síðast en ekki síst röð eldgosa á Reykjanesskaga í bakgarði höfuðborgarinnar. Þrátt fyrir þessar áberandi áskoranir og umfjöllun fer nemendafjöldi á náttúruvísindasviði Háskóla Íslands fækkandi og er það áhyggjuefni sem nauðsynlegt er bæta sem fyrst úr. HÍN telur mikilvægt að hafa óskert aðgengi að þekkingu og hefur því ákveðið í samstarfi við Náttúruminjasafn Íslands að hafa aðgang að Náttúrufræðingnum opinn. Náttúrufræðingurinn, með sín einkunnarorð: „alþýðlegt fræðslurit um náttúrufræði“; verður því aðgengilegur öllum á vefsetri sínu. Þetta auðveldar meðal annars kennurum aðgengi að greinum þess, sem hægt er að nýta til kennslu, og höfundum að dreifa greinum sínum til sem flestra, og þar með eykst sýnileiki tímaritsins. Eftir að vefur Náttúrufræðingsins var opnaður hefur lausasala tímaritsins margfaldast, eflaust vegna aukins sýnileika. Í framhaldinu var Facebooksvæði blaðsins stofnað, sem opnar möguleika á frekari deilingu og sýnileika þegar ný tölublöð koma út. Með ofangreindum skrefum hefur HÍN lagt á vogarskálarnar til að ná settu markmiði félagsins um að auka þekkingu, fræðslu og áhuga almennings á náttúrufræðum.

Náttúrufræðingnum er ekki einungis ætlað að birta vísindagreinar fræðimanna heldur er hann sömuleiðis frábær vettvangur fyrir áhugamenn og fræðimenn að skrifa um stór og smá og jafnvel umdeild mál á sviði umhverfismála. Að sama skapi eru smærri greinar, svo sem verkefni úr háskólum og léttar reynslusögur, nauðsynlegar fyrir fjölbreytileika blaðsins. Hér telur undirritaður að háskólasamfélagið gæti nýtt vettvanginn fyrir greinar unnar úr lokaverkefnum grunnnáms eða meistara náms, til að yngri vísindamenn læri að ganga í gegnum ritrýningu fræðirits.

Nú má lýsa Náttúrufræðingnum sem tímariti með vísindalegar kröfur og opið aðgengi, listilega fallegu, skrifuðu á íslensku. Félagsfólk HÍN getur því vonandi allt verið stolt af tímaritinu, en sömuleiðis Íslendingar allir. Því saga tímaritsins og félagsins er stór hluti af þeirri náttúruþekkingu sem við höfum á okkar tímum. Þegar horft er yfir þær greinar sem hér eru birtar í sambland við þær frábæru ljósmyndir sem þeim fylgja, þá sést þessi mikli fjölbreytileiki, sem tímaritið fagnar og óskar eftir að halda.

Eins og forveri minn, Ester Rut Unnsteinsdóttir, minntist á í leiðara 3.–4. heftis ársins 2019 er ekki annað hægt en að fyllast aðdáun á því fólki sem hefur haldið þessu tímariti og þessu starfi félagsins gangandi í svo langan tíma. Það sé sömuleiðis mikilvægt að setja markmið fyrir framtíðarkynslóðir og halda í við nútímann. Vefútgáfa blaðsins ásamt fleiri þáttum, svo sem hlaðvarpi HÍN, er mikilvægur liður í því að halda í við miðlun komandi tíma. Nýleg hugmynd sem kom upp á stjórnarfundi HÍN er að auka aðgengi yngri kynslóða að náttúrufræðum. „Ungi Náttúrufræðingurinn“ væri þá liður sem hægt væri að leika sér með á vefsetri blaðsins í samstarfi við félagsmenn og sérfræðinga í miðlun þekkingar til barna og unglinga. Þekking okkar og miðlun á náttúrufræðum og umhverfismálum er mikilvægasta tólið við að byggja upp heilbrigt samfélag sem áttar sig á vistkerfunum í kringum okkur og virðir þau.

Sölvi Rúnar Vignisson

Höfundur

Hið íslenska nátturufræðifélag

Stofnað 1889

www.hin.is

[email protected]

Ritstjóri: Margrét Rósa Jochumsdóttir

[email protected]

Aðsetur: Skrifstofa NMSÍ, 

Suðurlandsbraut 24